Ferill 687. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1066  —  687. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir afsagnargerðir, stefnubirtingar og aðrar slíkar gerðir er lögbókandi framkvæmir skal greiða 1.200 kr. Sama gjald skal greiða fyrir staðfestingar er starfsmenn utanríkisþjónustunnar framkvæma.

2. gr.

    Á eftir 15. tölul. 10. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi:
    16. Leyfi til tannsmiða.

3. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
    50. Útflutningsleyfi     1.200 kr.

4. gr.

    Við 12. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
    17. Leyfi til skoteldasýningar     5.000 kr.
    18. Brennuleyfi     5.000 kr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Við 1. tölul. bætist nýr stafliður, svohljóðandi:
         d. Útgáfa vegabréfa til öryrkja fer skv. 2. tölul.
     b.      Á eftir 2. tölul. koma þrettán nýir töluliðir, svohljóðandi:
         3.     Fyrir útgáfu diplómatískra vegabréfa og þjónustuvegabréfa:
                   a. Fyrir 18–66 ára          4.600 kr.
                   b. Skyndiútgáfa fyrir 18–66 ára          9.200 kr.
                   c. Fyrir aðra          1.700 kr.
                   d. Skyndiútgáfa fyrir aðra          3.400 kr.
         4.     Aðgangsskírteini að Keflavíkurflugvelli:
                   a. Fyrir fastráðna starfsmenn          2.000 kr.
                   b. Fyrir tímabundið skírteini          1.000 kr.
         5.     Vegabréfsáritun til gegnumferðar um flughöfn A          800 kr.
         6.     Vegabréfsáritun til gegnumferðar um ríki B
                   (ein, tvær eða fleiri komur)          800 kr.
         7.     Vegabréfsáritun til skamms tíma C1 (hámark til 30 daga)          1.800 kr.
         8.     Almenn vegabréfsáritun C2 (hámark til 90 daga)          2.400 kr.
                   og að auki fyrir hverja komu frá og með annarri komu          400 kr.
         9.     Vegabréfsáritun fyrir fleiri en eina komu sem gildir í eitt ár C3         4.000 kr.
    10.     Vegabréfsáritun fyrir fleiri en eina komu sem gildir að hámarki í
                   fimm ár C4          4.000 kr.
                   og að auki fyrir hvert viðbótarár          2.400 kr.
    11.     Vegabréfsáritun til langs tíma D          2.400 kr.
    12.     Vegabréfsáritun með takmarkað gildissvið          2.400 kr.
    13.     Vegabréfsáritanir fyrir hópa í flokkum A og B (5–50 einstaklingar)          800 kr.
                        og að auki fyrir hvern einstakling          80 kr.
    14.     Vegabréfsáritanir fyrir hópa í flokki C1 (30 dagar) ein eða tvær
                   komur (5–50 einstaklingar)          2.400 kr.
                   og að auki fyrir hvern einstakling           80 kr.
    15.     Vegabréfsáritanir fyrir hópa í flokki C1 (30 dagar) meira en tvær
                   komur (5–50) einstaklingar          2.400 kr.
                   og að auki fyrir hvern einstakling          240 kr.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Verði vegabréfsáritun gefin út við landamæri skal innheimta tvöfalda fjárhæð þess flokks vegabréfsáritunar sem um er að ræða.

6. gr.

    Á eftir VIII. kafla laganna kemur nýr kafli, IX. kafli, Gjöld vegna sérstakrar þjónustu starfsmanna utanríkisþjónustunnar, með einni grein, svohljóðandi og breytist töluröð kafla og greina sem því nemur:
    Greiða skal gjöld fyrir sérstaka þjónustu er starfsmenn utanríkisþjónustunnar veita svo sem hér segir:
    1.     Fyrir aðstoð við útvegun vottorða og yfirlýsinga frá opinberum
              stjórnvöldum eða öðrum á Íslandi eða erlendis     3.000 kr.
    2.     Fyrir þýðingar sendiskrifstofa, hver síða     3.500 kr.
    3.     Fyrir milligöngu um birtingu stefnu í einkamálum og greiðsluáskoranir
              fyrir aðila erlendis     5.000 kr.
    4.     Fyrir tilnefningu vegna móttöku stefna, dóma og tilkynninga fyrir
              hönd innlendra fyrirtækja og stofnana     10.000 kr.
    5.     Fyrir millifærslu fjármuna til og frá útlöndum:
              a.    Fyrir millifærslu allt að 50.000 kr.     3.000 kr.
              b.    Fyrir millifærslu á bilinu 50.000 kr. til 200.000 kr.     7.500 kr.
              c.     Fyrir millifærslu yfir 200.000 kr. skal greiða 3,75% af millifærðri
                    fjárhæð en þó ekki hærra en 37.500 kr.

7. gr.

    Við 19. gr. laganna, sem verður 20. gr., bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Gjöld samkvæmt lögum þessum sem innt eru af hendi erlendis ber að greiða í mynt hlutaðeigandi ríkis í samræmi við skráð gengi hverju sinni. Gjöld sem mælt er fyrir um í 5.–10. tölul. og 12.–15. tölul. 14. gr. skulu taka mið af gengi evrunnar. Við útreikning gjalda þessara er heimilt að námunda upphæðina.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lögunum um aukatekjur ríkissjóðs er kveðið á um ýmiss konar gjaldtöku sem rennur í ríkissjóð.
    Frumvarpið samanstendur af tillögum um lögfestingu ýmissa gjaldtökuheimilda er tengjast starfsemi utanríkisþjónustunnar, en fram til þessa hafa þær heimildir verið að finna í reglugerð nr. 353/1999, um gjöld fyrir embættisverk starfsmanna utanríkisþjónustunnar.
    Samhliða er lagt til að lögfestar verði heimildir til gjaldtöku fyrir vegabréfsáritanir er byggjast á reglum Schengen-samstarfsins sem Ísland hefur skuldbundið sig að þjóðarétti til að fylgja. Verður nánar vikið að þessum atriðum í athugasemdum við einstök ákvæði frumvarpsins.
    Jafnframt er í frumvarpinu verið að jafna rétt öryrkja þannig að þeir greiði sama gjald og aldraðir fyrir útgáfu vegabréfa til útlanda. Grundvöllurinn fyrir þessari breytingu er sá að aldraðir og öryrkjar njóta í flestum tilvikum sams konar réttar til niðurfellingar eða undanþágu frá greiðslu ýmissa gjalda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með frumvarpinu er lagt til að það gjald sem innheimt verður vegna staðfestinga starfsmanna utanríkisþjónustunnar á skjölum verði hið sama og innheimt er fyrir aðrar eðlislíkar aðgerðir stjórnvalda.

Um 2. gr.

    Tannsmiðir fá útgefið starfsleyfi á grundvelli laga nr. 109/2000, um starfsréttindi tannsmiða. Fyrir útgáfu sambærilegra atvinnuréttinda eru greiddar 5.000 kr. og er talið rétt að fella atvinnuréttindi tannsmiða undir sömu reglu.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að gjald fyrir útflutningsleyfi verði 1.200 kr. sem er í samræmi við gildandi reglugerð sem utanríkisráðuneytið hefur byggt á. Hafa ber í huga að gjald þetta gildir einvörðungu að því er varðar útflutningsleyfi sem utanríkisráðuneyti gefur út en gert er ráð fyrir að sérstök ákvæði um gjöld fyrir útflutningsleyfi sem kunna að vera innheimt á grundvelli annarra laga haldi gildi sínu.

Um 4. gr.

    Með þessum breytingum er lagt til að gjald verði tekið af leyfisveitingum til skoteldasýninga og til skipulagðra brenna. Lögregluembætti hafa töluverða fyrirhöfn af framangreindum leyfisveitingum. Afgreiðsla umsóknar kostar bæði tíma og fyrirhöfn innan embættanna. Leita þarf umsagnar annarra stofnana, t.d. þarf að fá starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirlitinu auk samráðs við forvarnarsvið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Þá getur lögreglan auk þess þurft að kanna hvort samþykki lóðareiganda liggur fyrir, ef hann er annar en umsækjandi. Lögreglan þarf enn fremur að framkvæma vettvangsskoðun til þess að athuga aðstæður áður en skoteldasýningin eða brennan hefst, auk þess sem hún kemur í eftirlitsferðir á meðan á brennunni eða sýningunni stendur eða að henni lokinni. Lagt er til að innheimtar verði 5.000 kr. bæði fyrir brennuleyfi og leyfi fyrir skoteldasýningu.

Um 5. gr.

    Í 5. gr. er m.a. mælt fyrir um ýmsar breytingar á gjaldtöku sem snerta útgáfu vegabréfa og vegabréfsáritana.
    Í Schengen-samstarfinu tekur Ísland þátt í samstarfi Schengen-ríkjanna um meðferð og útgáfu vegabréfsáritana. Það samstarf byggist á samræmdum reglum sem m.a. fela í sér að samræmdur áritunarmiði er tekinn upp sem tekur til allra Schengen-ríkjanna. Samræmdar reglur gilda um skilyrði þess að áritun verði gefin út auk þess sem gjald það sem innheimta ber fyrir útgefnar áritanir verður samræmt. Samræming gjaldtöku að þessu leyti styðst við þau rök að mismunandi gjaldtaka kunni að leiða til þess að umsækjendur mundu leita þangað sem gjaldið væri lægst sem m.a. væri til þess fallið að auka hættuna á misnotkun kerfisins.
    Þær reglur er gilda um gjaldtöku fyrir vegabréfsáritanir samkvæmt Schengen-samningnum eru skuldbindandi fyrir Ísland að þjóðarétti og er talið eðlilegt að þær heimildir verði lögfestar.
    Í ákvæðinu eru lagðar til eftirfarandi breytingar:
    a.     Lagt er til að réttarstaða öryrkja og aldraðra verði jöfnuð að því er varðar gjaldtöku fyrir vegabréf. Aldraðir og öryrkjar hafa í flestum tilvikum notið sams konar réttar til niðurfellingar eða undanþágu frá greiðslu ýmissa gjalda. Sem dæmi um gjöld má nefna fasteignagjöld, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, fast afnotagjald síma og lægra gjald við læknisheimsóknir og lyfjakaup. Því hefur verið lagt til að öryrkjar greiði sama gjald og ellilífeyrisþegar við útgáfu vegabréfa. Í þessu sambandi ber að skilgreina öryrkja á sama hátt og gert er í lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar. Þar kemur fram að öryrki er sá sem er metinn til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar, er á aldrinum 16 til 67 ára og hefur verið búsettur á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu ár áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er hann tók hér búsetu. Öryrkjar með hlutfallslega örorku undir 75% njóta ekki þessarar lækkunar greiðslu á útgáfu vegabréfa.
    b.     Í 3. tölul. b-liðar ákvæðisins er lagt til að gjaldtaka fyrir diplómatísk vegabréf og þjónustuvegabréf verði færð til samræmis við gjaldtöku fyrir annars konar vegabréf. Fram til þessa hefur gjaldtaka fyrir þessar tegundir vegabréfa byggst á reglugerð en ekki þykja standa rök til þess að mismunur sé gerður að þessu leyti milli einstakra flokka vegabréfa. Fjárhæðir breytast ekki frá því sem verið hefur samkvæmt tilvitnaðri reglugerð.
    Jafnframt eru lagðar til ýmsar breytingar á lögunum sem annars vegar tengjast gjaldtöku á vegum utanríkisráðuneytisins eða stofnana þess og hins vegar þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Um er að ræða eftirtaldar breytingar:
    Um 4. tölul.: Lagt er til að lögfest verði gjald vegna aðgangsskírteina sem sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli gefur út og veita heimild til aðgangs að flugvellinum. Er þar annars vegar um að ræða tímabundin skírteini og hins vegar skírteini til fastráðinna starfsmanna.
    Um 5. tölul.: Vegabréfsáritun samkvæmt þessum tölulið heimilar handhafa hennar, sem sérstaklega þarf á því að halda, að fara um alþjóðlegt gegnumferðarsvæði flughafnar án þess að fara inn á yfirráðasvæði viðkomandi ríkis vegna millilendingar eða þegar skipt er um vél milli tveggja áfanga alþjóðlegrar flugleiðar. Samkvæmt Schengen-reglum er miðað við að gjald fyrir þessa tegund áritana sé 10 evrur.
    Um 6. tölul.: Vegabréfsáritun samkvæmt þessum tölulið heimilar handhafa hennar á leið frá einu þriðja ríki til annars að fara um yfirráðasvæði Schengen-ríkjanna. Samkvæmt Schengen-reglum er miðað við að gjald fyrir þessa tegund áritana sé 10 evrur.
    Um 7. tölul.: Vegabréfsáritun samkvæmt þessum tölulið heimilar handhafa hennar aðgang að Schengen-svæðinu til óslitinnar dvalar eða til að dveljast þar í nokkur skipti, í mesta lagi 30 daga. Samkvæmt Schengen-reglum er miðað við að gjald fyrir þessa tegund áritana sé 15–25 evrur. Að fyrirmynd Dana er lagt til gjaldtakan miðist við 23 evrur.
    Um 8. tölul.: Vegabréfsáritun samkvæmt þessum tölulið heimilar handhafa hennar aðgang að Schengen-svæðinu til óslitinnar dvalar eða til að dveljast þar í nokkur skipti, í mesta lagi þrjá mánuði samanlagt næsta hálfa ár eftir fyrstu komu til lands. Samkvæmt Schengen-reglum er miðað við að gjald fyrir þessa tegund áritana sé 30 evrur auk 5 evra fyrir hverja komu.
    Um 9. tölul.: Vegabréfsáritun samkvæmt þessum tölulið heimilar handhafa hennar aðgang að Schengen-svæðinu til óslitinnar dvalar eða til að dveljast þar í nokkur skipti, í mesta lagi þrjá mánuði samanlagt næsta hálfa ár eftir fyrstu komu til lands. Gildistími hennar er eitt ár. Samkvæmt Schengen-reglum er miðað við að gjald fyrir þessa tegund áritana sé 50 evrur.
    Um 10. tölul.: Vegabréfsáritun samkvæmt þessum tölulið heimilar handhafa hennar aðgang að Schengen-svæðinu til óslitinnar dvalar eða til að dveljast þar í nokkur skipti, í mesta lagi þrjá mánuði samanlagt næsta hálfa ár eftir fyrstu komu til lands. Gildistími hennar getur verið allt að fimm ár. Samkvæmt Schengen-reglum er miðað við að gjald fyrir þessa tegund áritana sé 50 evrur auk 30 evra fyrir hvert viðbótarár.
    Um 11. tölul.: Í þessu ákvæði er lagt til að gjald fyrir vegabréfsáritun sem bundin er við ferð til Íslands verði 2.500 kr. en í því efni er höfð hliðsjón af gjaldi því er Danir heimta fyrir áritun sem bundin er við ferð til Danmerkur.
    Um 12. tölul.: Hér er um að ræða samræmda Schengen vegabréfsáritun sem hefur takmarkað landfræðilegt gildissvið, bundin við eitt eða fleiri tiltekin Schengen-ríki. Reglur Schengen setja tilteknar viðmiðanir vegna gjalds fyrir þessa tegund áritana. Sú fjárhæð sem lögð er til í þessu tilviki tekur mið af gjaldi því er Danir heimta.
    Um 13. tölul.: Hér er mælt fyrir um gjald fyrir vegabréfsáritanir í flokkum A og B sem gefnar eru út fyrir hópa. Þetta eru vegabréfsáritanir til gegnumferðar. Reglur Schengen gera ráð fyrir að gjald fyrir þessar áritanir sé 10 evrur auk 1 evru fyrir hvern einstakling í hópnum.
    Um 14. tölul.: Hér er mælt fyrir um gjald fyrir vegabréfsáritanir í flokki C1 sem gefnar eru út til hópa. Um er að ræða samræmda vegabréfsáritun sem heimilar dvöl á Schengen-svæðinu í allt að 30 daga. Reglur Schengen gera ráð fyrir að gjald fyrir þessar áritanir sé 30 evrur auk 1 evru fyrir hvern einstakling í hópnum.
    15. tölul.: Hér er um að ræða sams konar áritun og getur í 14. tölul. en heimilar fleiri en eina komu inn á Schengen-svæðið. Reglur Schengen gera ráð fyrir að gjald fyrir þessar áritanir sé 30 evrur auk 3 evra fyrir hvern einstakling í hópnum.
    c.     Reglur Schengen-samningsins heimila í undantekningartilvikum að vegabréfsáritanir verði gefnar út á landamærum einstakra aðildarríkja. Í reglum Schengen er mælt fyrir um að í þeim tilvikum skuli innheimt tvöföld sú fjárhæð sem innheimt yrði ef áritun hefði verið gefin út með hefðbundnum hætti. Reglurnar heimila þó að fallið sé frá gjaldtöku í þessu tilviki og mundi slík ákvörðun falla undir almennt undanþáguákvæði sem lagt er til í 6. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. er lagt til að nýjum kafla verði bætt við lög um aukatekjur ríkissjóðs þar sem verði að finna heimildir til gjaldtöku vegna sérstakrar þjónustu sem starfsmenn utanríkisþjónustunnar veita.
    Þarfnast ákvæðið ekki skýringar umfram það að það endurspeglar ýmiss konar þjónustu sem utanríkisþjónustan veitir. Í öllum tilvikum taka tillögurnar mið af þeirri gjaldtöku sem mælt er fyrir um í gildandi reglugerð, nr. 353/1999, um gjöld fyrir embættisverk starfsmanna utanríkisþjónustunnar.

Um 7. gr.

    Hér er lagt til með hliðsjón af skuldbindingum Íslands samkvæmt Schengen-samningnum að sett verði ítarleg ákvæði um innheimtu gjalda vegna vegabréfsáritana. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að gjöld fyrir vegabréfsáritanir skuli taka mið af gengi evrunnar en það er sú viðmiðun er reglur Schengen-samningsins gera ráð fyrir.
    Að lokum er lagt til að við útreikning gjalda þessara verði heimilt að námunda fjárhæðina en það er í samræmi við gildandi reglugerð.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1991,
um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði ákvæði um ýmsa gjaldtöku í tengslum við starfsemi utanríkisþjónustunnar sem fram til þessa hefur verið byggð á reglugerð um gjöld fyrir embættisverk starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Jafnframt eru í frumvarpinu ákvæði um gjaldtöku fyrir vegabréfsáritanir vegna Schengen-samningsins og nokkrar aðrar breytingar á gjöldum sem innheimt eru á grundvelli laga um aukatekjur ríkissjóðs. Lögfesting frumvarpsins ætti ekki að hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.