Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1072  —  367. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dómsmálaráðuneyti, Jakob Möller frá Lögmannafélagi Íslands, Helga I. Sigurðsson frá Dómarafélagi Íslands, Boga Nilsson ríkissaksóknara og Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann.
    Umsagnir bárust frá Dómarafélagi Íslands og laganefnd LMFÍ, lögreglustjóranum í Reykjavík, dómstólaráði, Sýslumannafélagi Íslands og ríkissaksóknara.
    Með frumvarpinu er lagt til að hagsmunaaðili geti kært til dómsmálaráðherra ákvörðun ríkissaksóknara um hvort opinber rannsókn á grundvelli 4. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála skuli fara fram eða ekki. Þegar svo ber undir er gert ráð fyrir að ráðherra geti fellt ákvörðun ríkissaksóknara úr gildi og sett sérstakan saksóknara til að ákveða hvort rannsókn fari fram og færi hann þá jafnframt með málið.
    Í umsögnum sem borist hafa nefndinni er lögð áhersla á sjálfstæði embættis ríkissaksóknara sem æðsta handhafa ákæruvalds lögum samkvæmt. Ríkissaksóknari, Lögmannafélag Íslands og Dómarafélag Íslands telja að frumvarpið feli í sér frávik frá grundvallarreglunni um sjálfstæði ákæruvaldsins og því sé það í ósamræmi við þá réttarþróun sem átt hefur séð stað í þessum málaflokki.
    Meiri hluti nefndarinnar lítur hins vegar svo á að sjálfstæði ákæruvaldsins sé ekki ógnað með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu því að ákvörðun ríkissaksóknara getur aldrei lotið að beitingu ákæruvalds þar sem refsingu verður ekki við komið í þessu tilviki heldur er um að ræða sérstaka heimild ríkissaksóknara sem æðsta handhafa rannsóknarvalds til að mæla fyrir um rannsókn vegna ríkra almanna- og einkahagsmuna. Ríkissaksóknara var fengin þessi heimild með breytingu á lögunum hinn 10. mars 1999 og telur meiri hlutinn eðlilegt að ákvarðanir ríkissaksóknara um synjun á slíkum rannsóknum geti sætt endurskoðun ráðherra, enda er um ríka almanna- og einkahagsmuni að ræða.
    Það er þó mat meiri hlutans að endurskoðun dómsmálaráðherra eigi eingöngu að taka til synjunar ríkissaksóknara um að hefja skuli rannsókn á grundvelli 4. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála og leggur til að frumvarpinu verði breytt í samræmi við það. Meiri hlutinn telur varasamt að ekki sé hægt að kæra slíka synjun ríkissaksóknara til ráðherra í tilvikum sem til dæmis geta varðað hugsanleg brot í opinberu starfi.
    Loks telur meiri hlutinn bæði rétt og eðlilegt að það sé ráðherra sem ákveði, um leið og hann fellir ákvörðun ríkissaksóknara um synjun á rannsókn úr gildi, að rannsókn skuli hefjast en ekki sérstakur saksóknari, eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið, og er því gerð tillaga um breytingu á frumvarpinu til að undirstrika það. Hlutverk hins sérstaka saksóknara sé eingöngu að stýra rannsókn málsins í kjölfar ákvörðunar ráðherra. Það fyrirkomulag telur meiri hlutinn að sé einfaldara og í samræmi við reglur stjórnsýslunnar.
    
    Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
    Við 4. mgr. 66. gr. laganna, sbr. lög nr. 36/1999, bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sá sem á hagsmuna að gæta getur kært ákvörðun ríkissaksóknara um synjun á rannsókn til dómsmálaráðherra. Nú ákveður ráðherra að rannsókn fari fram og setur hann þá sérstakan saksóknara til að fara með og rannsaka málið.

    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur afgreiðslu málsins.
    Guðrún Ögmundsdóttir og Sverrir Hermannsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. apríl 2001.Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ólafur Örn Haraldsson.Soffía Gísladóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.


Katrín Fjeldsted.