Ferill 501. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1084  —  501. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndals um sjúkrasjóði stéttarfélaga.

     1.      Hve margir sjúkrasjóðir taka við iðgjöldum í samræmi við greiðsluskyldu skv. 6. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda?
    Samkvæmt upplýsingum Alþýðusambands Íslands eru reknir sjúkrasjóðir á vegum allra 108 aðildarfélaga þess. Í kjarasamningum vinnuveitanda og þessara aðildarfélaga eru ákvæði um sjúkrasjóði þar sem kveðið er á um greiðsluskyldu atvinnurekanda í samræmi við ákvæði 6. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.
    Með samkomulagi milli Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaga hins vegar um tiltekin atriði er varða réttindi starfsmanna í framangreindum samtökum var stofnaður sérstakur fjölskyldu- og styrktarsjóður en launagreiðendur greiða iðgjöld í sjóðinn. Má því segja að öll aðildarfélög BSRB hafi sérstaka sjúkrasjóði með hliðstæðu sniði og tíðkast á almennum vinnumarkaði.

     2.      Hvert er markmið og hlutverk sjúkrasjóða samkvæmt lögum?
    Í lögum er ekki kveðið á um markmið og hlutverk sjúkrasjóða heldur er það gert í kjarasamningum milli aðila vinnumarkaðarins og reglugerðum einstakra sjóða. Markmið sjúkrasjóðanna er fyrst og fremst að taka við greiðsluskyldu í veikinda- og slysatilfellum þegar veikindagreiðslur vinnuveitanda falla niður. Þegar reglur einstakra sjúkrasjóða eru skoðaðar virðist sem meginmarkmið og hlutverk séu nokkuð sambærileg óháð því hvaða stéttarfélag á í hlut.

     3.      Ber atvinnurekanda að greiða iðgjald af launum starfsmanns sem á ekki aðild að stéttarfélagi og hver er réttur starfsmannsins til bóta?
    Í 6. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, segir að „[ö]llum atvinnurekendum er skylt að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni, og samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.“ Ágreiningur um túlkun þessa ákvæðis hefur komið til kasta íslenskra dómstóla í máli nr. 344/1988 (H. 1988:1464). Ekki var um það deilt í málinu að vinnuveitandi hafi átt aðild að kjarasamningum vinnuveitenda við hið umrædda stéttarfélag enda aðili að þar til greindum samtökum vinnuveitenda. Einnig var óumdeilt í málinu að ákvæði voru í kjarasamningunum um greiðslur vinnuveitanda í styrktarsjóð stéttarfélagsins. Í dómi Hæstaréttar segir síðan að „[s]amkvæmt orðalagi og tilgangi 6. gr. laga nr. 55/1980, en tilganginum er lýst í greinargerð með lögum nr. 9/1974, sem lög nr. 55/1980 leystu af hólmi, skiptir ekki máli hvort starfsmenn áfrýjanda eru félagsbundnir eða ekki, enda verður við það að miða, samkvæmt málflutningi stefnda og reglum sjóðanna, að við greiðslu áfrýjanda öðlist starfsmenn hans full og óskoruð réttindi til úthlutunar úr sjóðum þessum.“ Af dómi Hæstaréttar má draga þá ályktun að félagsaðild starfsmanns sé ekki skilyrði þess að vinnuveitanda sé skylt að greiða í tiltekinn sjúkrasjóð. Hins vegar er það skilyrði að starfsmaður öðlist full og óskoruð réttindi til úthlutunar úr viðkomandi sjúkrasjóði.
    Í reglugerðum einstakra sjúkrasjóða er tekið á því hverjir eigi réttindi til greiðslna úr þeim. Um réttindi sjóðfélaga fer síðan eftir nánari reglum hvers sjúkrasjóðs fyrir sig.

     4.      Hvert er iðgjaldið sem hlutfall af launum og hvaða laun eru lögð til grundvallar hjá einstökum sjúkrasjóðum?
    Samkvæmt 6. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, er atvinnurekendum skylt að greiða þau iðgjöld sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni og samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina. Í lögum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, nr. 19/1979, er kveðið á um að vinnuveitendur skulu greiða 1% af útborguðu kaupi verkafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélags, nema um hærri greiðslur hafi verið samið í kjarasamningum, sbr. 7. gr.
    Þegar einstakir kjarasamningar eru skoðaðir virðist sem hlutfallið sem vinnuveitandi greiðir af launum sé jafnan það sama, þ.e. 1%, enda þótt ekki verði fullyrt hér að hlutfallið geti ekki verið hærra í einstökum samningum. Hins vegar virðist sem ekki sé fullkomið samræmi um hvers konar laun lögð eru til grundvallar. Svo dæmi séu tekin úr einstökum kjarasamningum er fjallað um „1% af útborguðu kaupi verkafólks“ í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Landssambands íslenskra verslunarmanna og Verslunarmannafélags Reykjavíkur hins vegar (10.1). Jafnframt er vísað í lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar – Sambands iðnfélaga f.h. aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkja (10.2) er kveðið á um að greiða skuli 1% á allt kaup starfsmanna til að standa straum af veikindum og sjúkrakostnaði og renni þær greiðslur í sjúkrasjóð viðkomandi félags. Þá skulu vinnuveitendur greiða 1% af kaupi í Styrktarsjóð RSÍ samkvæmt kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Samtaka atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði annars vegar og Rafiðnaðarsambands Íslands vegna aðildarfélaga hins vegar (10.1). Að lokum má nefna að í kjarasamningi milli Póstmannafélags Íslands og Íslandspósts hf. skal launagreiðandi greiða 1% af heildarlaunum starfsmanna (13.1).

     5.      Hvernig er iðgjaldið ákveðið eða því breytt hjá einstökum sjúkrasjóðum?
    Iðgjald er ákveðið í kjarasamningum milli aðila vinnumarkaðarins, sbr. þó 7. gr. laga um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms og slysaforfalla. Þar er kveðið á um lágmarksiðgjald vinnuveitanda í sjúkrasjóð en ákvæðið er svohljóðandi: „Vinnuveitendur skulu greiða 1% af útborguðu kaupi verkafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélags, nema um hærri greiðslur hafi verið samið í kjarasamningum.“
    
     6.      Hverjar eru reglur um bætur hjá einstökum sjúkrasjóðum?
    Hver einstakur sjóður ákveður þær reglur er gilda um réttindi félagsmanna til bóta úr sjóðnum. Enda þótt ákveðinn grunnréttindi sé að finna í flestum sjóðunum til samræmis við meginmarkmið þeirra má reikna með að réttindi sjóðfélaga í sjúkrasjóðum séu mismunandi og fari eftir styrk hlutaðeigandi stéttarfélags. Þess má jafnframt geta að Alþýðusamband Íslands hefur gefið út leiðbeinandi reglugerð fyrir sjúkrasjóði stéttarfélaga innan þess. Aðildarfélög Alþýðusambandsins eru ekki bundin af því að fylgja efni hinnar leiðbeinandi reglugerðar en Alþýðusambandið hefur þó sett ákveðnar lágmarksreglur sem öllum sjúkrasjóðum aðildarfélaga þess er gert að fylgja. Er sjóðunum meðal annars gert skylt að setja sér reglugerð sem skal hljóta staðfestingu viðkomandi landssambands og miðstjórnar Alþýðusambandsins.

     7.      Hver er fjárfestingarstefna einstakra sjúkrasjóða?
     8.      Hvernig er fjármálaeftirliti og endurskoðun reikninga háttað hjá hverjum sjúkrasjóði?
     9.      Hver skipar stjórnir einstakra sjúkrasjóða?
     10.      Hverjar eru nýjustu upplýsingar úr ársreikningum einstakra sjúkrasjóða um eftirtalin atriði:
                  a.      tekjur vegna iðgjalds skv. 4. lið,
                  b.      aðrar tekjur,
                  c.      bótagreiðslur,
                  d.      rekstrarkostnað,
                  e.      annan kostnað,
                  f.      eignir,
                  g.      skuldir,
                  h.      hreina eign?

    Félagsmálaráðherra fer ekki með fjármálaeftirlit með sjúkrasjóðum stéttarfélaga og er ráðuneytinu því ekki kunnugt um fjárfestingarstefnu einstakra sjóða né heldur hvernig fjármálaeftirliti eða endurskoðun reikninga er háttað. Stéttarfélög eru almenn félög sem falla ekki undir 1. gr. laga um ársreikninga, nr. 144/1994, og því ekki skyldug til að birta ársreikninga sína né skylt að skila þeim til viðeigandi aðila samkvæmt þeim lögum. Ekki er heldur kveðið á um slíka skyldu í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, með síðari breytingum. Er það þess vegna ekki á valdsviði félagsmálaráðherra að veita nýjustu upplýsingarnar úr ársreikningum einstakra sjúkrasjóða. Þess má geta að í leiðbeiningarreglugerð Alþýðusambands Íslands eru ákvæði sem fjalla um hugsanlegar fjárfestingarleiðir sjóðanna í þeim tilgangi að ávaxta fé sitt. Einnig er þar að finna leiðbeinandi reglur um hvernig fara eigi með ársreikninga sjúkrasjóða. Eins og áður sagði er stéttarfélögum innan Alþýðusambandsins ekki skylt að fara eftir þessum reglum enda þótt þeim sé skylt að setja sér reglugerð sem skal hljóta staðfestingu miðstjórnar sambandsins. Enn fremur kveður 44. gr. laga Alþýðusambandsins á um að endurskoðaðir reikningar sem sýna stöðu sjúkrasjóðs áritaðir af löggiltum endurskoðanda skulu sendir miðstjórn fyrir maílok ár hvert.
    Samkvæmt upplýsingum Alþýðusambands Íslands eru stjórnir sjóðanna annaðhvort kjörnar á aðalfundum viðkomandi stéttarfélags eða á sérstökum aðalfundi sjúkrasjóðsins. Jafnframt er dæmi um að í kjarasamningi sé kveðið á um að vinnuveitendum sé heimilt að tilnefna annan endurskoðanda sjóðsins, sbr. meðal annars kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Verkamannasambands Íslands (Starfsgreinasambands Íslands) vegna aðildarfélaga annarra en Eflingar – stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

     11.      Hefur verið kannað hvort lagaskylda allra atvinnurekenda til að greiða iðgjald í sjúkrasjóð, sem er ákveðið af þriðja aðila og nýtist launþega en ekki atvinnurekanda, samrýmist ákvæðum 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um að skattamálum skuli skipað með lögum?
    Samkvæmt 6. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, er öllum vinnuveitendum skylt að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni og samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina. Samhljóða ákvæði 6. gr. laganna var áður að finna í lögum um starfskjör launþega o.fl., nr. 9/1974. Í greinargerð með þeim lögum var fjallað um mikilsvert félagslegt og menningarlegt hlutverk sem lífeyrissjóðir, sjúkrasjóðir og orlofssjóðir gegndu og var því spáð að það hlutverk mundi fara mjög vaxandi. Það var skoðun manna að löggjafarvaldinu bæri tvímælalaust skylda til að tryggja öllum launþegum aðild að þessum sjóðum svo að ekki skapaðist verulegt misrétti milli starfsfólks innbyrðis. Var því tilgangur þessarar lagasetningar fyrst og fremst sá að tryggja það að vinnuveitendur gætu ekki komist hjá því að greiða iðgjöld í framangreinda sjóði með því að standa sjálfir utan samtaka vinnuveitenda og að því tilskildu að starfsfólk þeirra stæði af einhverjum ástæðum utan samtaka launafólks. Var því verið að stuðla að jafnrétti meðal starfsfólks í þessum efnum. Vinnuveitendum var þannig gert skylt að greiða iðgjald í sjúkrasjóði stéttarfélaga en ekki var ákveðið hvert iðgjaldið skyldi vera. Kom það í hlut aðila vinnumarkaðarins að semja um það í kjarasamningsviðræðum.
    Á 100. löggjafarþingi Alþingis voru samþykkt lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóma- og slysaforfalla, nr. 19/1979, en þar var lögfest sú skylda vinnuveitanda að greiða 1% af útborguðu kaupi verkafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélaga, nema um hærri greiðslur hafi verið samið í kjarasamningum, sbr. 7. gr. Þarna var ákveðið lágmarksiðgjald fyrir tiltekinn hóp launafólks en engu að síður er heimild til að semja um hærri iðgjöld. Í greinargerð með lögunum kom fram að ákvæði um framlög vinnuveitanda í sjúkrasjóði verkafólks væru þegar í samningum flestra launþegasamtaka. Var jafnframt tekið fram að hlutfall þessara greiðslna væri víða hærra en það 1% sem gert væri ráð fyrir að væri lágmarksgreiðsla samkvæmt lögunum.
    Með hugtakinu skattur í 77. gr. stjórnarskrárinnar er átt við greiðslu, venjulega peningagreiðslu, sem tilteknir hópar einstaklinga eða lögaðila verða að gjalda til hins opinbera samkvæmt einhliða ákvörðun ríkisvaldsins eftir almennum, efnislegum mælikvarða og án sérgreinds endurgjalds frá hinu opinbera. Það er því skilyrði til þess að greiðsla teljist skattur að hún renni í ríkissjóð, um sé að ræða einhliða ákvörðun ríkisvaldsins sem byggist á almennum, efnislegum mælikvarða og að ekkert sérgreint endurgjald komi í staðinn fyrir greiðsluna frá hinu opinbera.
    Umrætt iðgjald vinnuveitenda í sjúkrasjóði uppfyllir ekki framangreind skilyrði þar sem ekki er um að ræða greiðslur í ríkissjóð heldur í sjúkrasjóði tiltekinna félagasamtaka, stéttarfélaga. Jafnframt byggist iðgjaldið ekki á einhliða ákvörðun ríkisvaldsins enda þótt kveðið sé á um lágmarksiðgjaldagreiðslu fyrir tiltekinn hóp launafólks þar sem aðilar vinnumarkaðarins hafa ákveðið frelsi til að semja um iðgjöldin í kjarasamningsviðræðum. Er því um að ræða skyldu vinnuveitenda til að semja um og greiða iðgjald í sjúkrasjóði til að auka félagsleg réttindi launafólks sem ekki verður jafnað við skattaálögur í skilningi 77. gr. stjórnarskrárinnar.