Ferill 522. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1090  —  522. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason og Jónínu S. Lárusdóttur frá viðskiptaráðuneyti, Þórólf Jónsson hdl., Sigríði Andersen frá Verslunarráði, Tryggva Pálsson og Ingimund Friðriksson frá Seðlabanka Íslands, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Pál Gunnar Pálsson, Hannes J. Hafstein og Rúnar Guðmundsson frá Fjármálaeftirlitinu, Sigurjón Geirsson frá Landsbanka Íslands og Val Valsson frá Íslandsbanka–FBA. Þá bárust umsagnir um málið frá Verslunarráði Íslands, Seðlabanka Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Vátryggingafélagi Íslands hf., Samtökum fjármálafyrirtækja, Fjármálaeftirlitinu og Verðbréfaþingi Íslands. Nefndinni bárust einnig gögn frá viðskiptaráðuneyti.
    Frumvarpið er lagt fram í tengslum við töluverða umræðu um dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjum undanfarin ár og þá sérstaklega um að tryggja beri sem dreifðasta eignaraðild að þeim fyrirtækjum sem ríkissjóður selur í hendur einkaaðila. Frumvarpinu er ætlað að auka eftirlit Fjármálaeftirlitsins með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Í því skyni þarf að breyta ákvæðum laga um viðskiptabanka og sparisjóði, laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, laga um verðbréfaviðskipti og laga um vátryggingastarfsemi. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geri ítarlega könnun þegar einstaklingar eða lögaðilar hyggjast eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Þeir aðilar skulu beina skriflegri umsókn til Fjármálaeftirlitsins með nákvæmum upplýsingum um umsækjandann sjálfan til þess að mat geti farið fram á hæfi hans til að eignast og fara með eignarhlutinn. Samþykki Fjármálaeftirlitsins er nauðsynleg forsenda þess að einstaklingur eða lögaðili geti eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Í frumvarpinu er nákvæmlega tilgreint hvaða upplýsingar þurfi að fylgja umsókn um heimild til kaupa á virkum eignarhlut í fjármálafyrirtæki, sem og þær viðmiðanir sem Fjármálaeftirlitið skal hafa til hliðsjónar við mat á hæfi umsækjanda. Eftir sem áður er gert ráð fyrir því að virkur eignarhlutur sé bein eða óbein hlutdeild sem nemi 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerir eigandanum kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi fjármálafyrirtækis. Sömu viðmiðunarreglur gilda jafnframt um aukningu á eignarhlut, þ.e. aukningu umfram 20%, 33% og 50%.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var töluvert rætt um það að með lögfestingu þeirra reglna sem hér eru lagðar til yrði gengið lengra en nauðsynlegt er samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins nr. 2000/12/EBE sem gildandi löggjöf er í samræmi við. Nefndin lítur hins vegar svo á að með hliðsjón af því að verulega hafi vantað upp á að núgildandi ákvæðum laga um tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins hafi verið fylgt eftir séu þær reglur sem lagðar eru til í frumvarpinu um að afla verði samþykkis Fjármálaeftirlitsins áður en kaup á virkum eignarhlut fara fram til bóta og muni stuðla að virkum og öruggum fjármálamarkaði. Skilvirkara er að slík kaup séu samþykkt fyrir fram frekar en að kaupendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum eigi á hættu að kaupin verði látin ganga til baka. Það eru því hagsmunir fyrirtækjanna sjálfra sem eru í fyrirrúmi við lögfestingu hinna nýju reglna. Nefndin bendir jafnframt á að þrátt fyrir að ákvæði um þau atriði sem leggja skal til grundvallar við mat á því hvort umsækjandi sé hæfur til að eiga virkan eignarhlut séu matskennd er þó mjög til bóta að slík ákvæði séu lögfest svo að Fjármálaeftirlitið hafi tryggan grunn að byggja á við meðferð umsóknar.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lögð er til orðalagsbreyting við þær greinar þar sem rætt er um að samþykki Fjármálaeftirlitsins þurfi fyrir fram við kaup á virkum eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum.
     2.      Lagt er til að skilyrði um að upplýsa um kennitölu verði fellt brott þar sem það kallar á óþarfa umstang fyrir erlenda umsækjendur og Fjármálaeftirlitinu ætti að vera hægt um vik að fá þessar upplýsingar um íslenska umsækjendur.
     3.      Lagt er til að í stað ákvæðis um að umsækjandi skuli upplýsa um markmið sitt með eignarhaldi verði kveðið á um að hann skuli upplýsa um áform sín um breytingar á verkefnum viðkomandi fjármálafyrirtækis. Nefndin lítur svo á að með þessu sé greinin gerð markvissari og umsækjendum ljósara hvað í raun sé verið að biðja um.
     4.      Nefndin leggur til að í stað opins og ómarkviss ákvæðis um að umsækjanda verði gert skylt að upplýsa um þekkingu sína og atvinnusögu komi ákvæði um að hann veiti upplýsingar um reynslu sína af fjármálastarfsemi.
     5.      Lagt er til að felldur verði brott liður um að veita upplýsingar um fyrri afskipti eftirlitsstjórnvalda en Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar heimild til að krefjast þessara upplýsinga og annarra sem máli skipta við mat á hæfi eigenda virkra eignarhluta.
     6.      Lagt er til að tilgreint verði að viðbótarupplýsingar sem Fjármálaeftirlitið fer fram á að umsækjandi veiti verði að hafa þýðingu við mat á hæfi eigenda virkra eignarhluta.
     7.      Lagt er til að við bætist heimild til handa Fjármálaeftirlitinu til að veita umsækjendum undanþágur frá skilum á upplýsingum sem veittar skulu með umsókn um samþykki til kaupa á virkum eignarhlut. Nefndin telur að sú staða geti komið upp að lögaðili geti ekki aflað allra þeirra upplýsinga sem kveðið er á um í frumvarpinu, sér í lagi upplýsinga sem varða eigendur umsækjandans. Fyrri hluti breytingartillögunnar veitir Fjármálaeftirlitinu heimild til að veita undanþágu frá skilum á upplýsingum við slíkar kringumstæður en auk þess er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti leitað til fjármálaeftirlita annarra ríkja um upplýsingar er varða umsækjanda er lýtur opinberu fjármálaeftirliti þar.
     8.      Lögð er til breyting þess efnis að ótvírætt verði kveðið á um að við mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi umsækjanda skuli gætt meðalhófs. Þetta er í samræmi við meðalhófsákvæði stjórnsýslulaga.
     9.      Þá er lagt til að ótvírætt verði kveðið á um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að beita dagsektum í þeim tilvikum þegar eignarhlutur er ekki seldur þrátt fyrir að aðila sé það skylt. Nefndin lítur svo á að hæpið sé að unnt sé að beita ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi þar sem eigendur virkra eignarhluta eru ekki eftirlitsskyldir samkvæmt þeim og telur því nauðsyn bera til að kveða á um slíka heimild í lögum.
     10.      Loks eru lagðar til breytingar á frumvarpinu til lagfæringar, annars vegar þannig að tilvísun í 53. gr. laga um verðbréfaviðskipti er breytt í tilvísun í 60. gr. sömu laga og hins vegar þannig að tilvísun í 13. tölul. 2. gr. í 30. gr. laganna er breytt í tilvísun í 14. tölul. 2. gr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.
    Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.

Alþingi, 6. apríl 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Gunnar Birgisson.


Ragnheiður Hákonardóttir.


Daníel Árnason.



Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.


Össur Skarphéðinsson,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.