Ferill 369. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1125  —  369. mál.




Nefndarálit



um breyt. á l. nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Óskar Maríusson frá Samtökum atvinnulífsins, Ingimar Sigurðsson frá umhverfisráðuneyti, Sigurbjörgu Gísladóttur frá Hollustuvernd ríkisins, Sigríði Andersen frá Verslunarráði Íslands, Kristján Sigmundsson frá Halldóri Jónssyni ehf., Frank Pitt frá Pharmaco og dr. Þorkel Jóhannesson.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Samtökum atvinnulífsins, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Verslunarráði Íslands, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Hollustuvernd ríkisins, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, Vinnueftirliti ríkisins, landlæknisembættinu og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.
    Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að í því séu atriði sem ekki geti beðið heildarendurskoðunar laganna. Ýmist sé um að ræða nauðsynlegar breytingar vegna þess að ekki sé tekið á málum í lögum eða til að eyða réttaróvissu.
    Í fyrsta lagi er lagt til að sett verði í lögin skýr og ótvíræð ákvæði um að fegrunar- og snyrtiefni falli undir lögin svo að tryggt verði að á markaði séu ekki slíkar vörur sem innihalda eiturefni og hættuleg efni. Í öðru lagi er gerð tillaga um að Hollustuvernd ríkisins geti tekið gjald fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast samkvæmt lögunum. Loks er um hreina leiðréttingu að ræða þar sem umhverfisráðherra er falin yfirstjórn mála samkvæmt lögunum þar sem málaflokkurinn færðist í reynd til hans frá heilbrigðisráðherra 1. júní 1994 án þess að lögunum væri breytt í samræmi við það.
    Nefndin telur nauðsynlegt að tryggja að á markaði sé ekki að finna fegrunar- og snyrtiefni sem innihalda eiturefni og hættuleg efni. Hins vegar tekur nefndin fram að aðgerðir í þeim tilgangi megi ekki íþyngja viðskiptum með slíkar vörur óþarflega, t.d. með því að farið verði að rannsaka efni sem þegar hafa verið rannsökuð af viðurkenndum rannsóknastofum og niðurstöður liggja fyrir eða vörur sem fylgja vottorð um að þær uppfylli kröfur Evrópusambandsins. Nefndin telur því að við framkvæmd laganna verði jafnframt að tryggja að sú verði ekki reyndin.
    Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ólafur Örn Haraldsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Katrín Fjeldsted voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. apríl 2001.



Kristján Pálsson,


varaform., frsm.


Ásta Möller.


Gunnar Birgisson.



Jóhann Ársælsson.


Kolbrún Halldórsdóttir.


Ólafía Ingólfsdóttir.