Ferill 722. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1170  —  722. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Iðnaðarráðherra er heimilt að veita Orkuveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 90 MW afli.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt til þess að afla lagaheimildar fyrir stækkun Nesjavallavirkjunar. Í núgildandi 3. mgr. 2. gr. laga nr. 60/1981, um raforkuver, er iðnaðarráðherra heimilað að veita Hitaveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 76 MW afli, í tveimur áföngum. Iðnaðarráðherra veitti Hitaveitu Reykjavíkur 16. júní 1997 leyfi til að reisa og reka allt að 60 MW virkjun á grundvelli þessarar lagaheimildar.
    Upphaflegar hugmyndir gerðu ráð fyrir að heimild í gildandi lögum um raforkuver yrði annars vegar nýtt með tveimur 30 MW vélasamstæðum og hins vegar svokallaðri tvífasatækni. Nánari útreikningar og rannsóknir leiddu hins vegar í ljós að hagstæðara væri að reisa þriðju 30 MW vélasamstæðuna.
    Orkustofnun hefur vaktað jarðhitasvæðið á Nesjavöllum undanfarin ár og sýna niðurstöður reiknilíkans stofnunarinnar (Orkustofnun — rannsóknarsvið, mars 2000) um afkastagetu jarðhitasvæðisins að jarðhitageymir Nesjavalla þolir vel að rafmagnsframleiðsla verði aukin í 90 MW auk þeirrar a.m.k. 200 MW varmaorku sem unnt er að framleiða í orkuverinu. Búist er við að gufuhlutfall jarðhitavökvans lækki með tímanum og gæti það kallað á breytta vinnslutilhögun á seinni hluta spátímabilsins, sem er 30 ár. Meiri varmanotkun á veitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur síðustu missiri kallar á aukna varmaframleiðslu í Nesjavallavirkjun og fer sú aukning vel saman við aukna raforkuframleiðslu í virkjuninni.
    Raforkunotkun á Íslandi hefur aukist verulega á síðust árum og er gert ráð fyrir að raforkunotkun fari í 8.182 GWst á þessu ári. Stærstan hluta aukinnar raforkunotkunar má rekja til stækkunar starfandi stóriðjuvera og byggingar nýrra. Í raforkuspá orkuspárnefndar er gert ráð fyrir að almenn notkun forgangsorku og ótryggðrar raforku muni aukast um 207 GWst á árunum 2001–2005. Þar af eykst raforkunotkun á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 133 GWst. Stækkun Nesjavallavirkjunar er hagkvæmasti kosturinn sem í boði er til að sinna raforkuþörf á þessu svæði.
    Í samræmi við 11. gr. orkulaga, nr. 58/1967, var leitað álits Orkustofnunar á því að stækka Nesjavallavirkjun úr 60 í 90 MW. Umsögn stofnunarinnar er birt í fylgiskjali I með frumvarpinu en þar er nánar fjallað um virkjunina og þróun raforkuþarfar.
    Til undirbúnings stækkun virkjunarinnar hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum og liggur fyrir úrskurður skipulagsstjóra frá 5. janúar 2001 þar sem fallist er á framkvæmdina. Þá hefur Orkuveita Reykjavíkur gert samning við Landsvirkjun um rekstur virkjunarinnar sem hluta af raforkukerfi landsins.


Fylgiskjal I.


Umsögn Orkustofnunar um stækkun Nesjavallavirkjunar úr 60 í 90 MW.


    Vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, hefur iðnaðarráðuneytið óskað umsagnar Orkustofnunar um stækkun Nesjavallavirkjunar úr 60 í 90 MW.

1. Orkuþörf.
    Raforkuvinnslu er í meginatriðum skipt í tvennt, forgangsorku og ótryggða orku. Forgangsorkan er skilgreind sem sú orka sem nánast ætíð (í 99,8% tilvika) er unnt að afhenda, hvernig sem árar. Orkugeta virkjana er skilgreind sem sú orka sem unnt er að vinna með þessu afhendingaröryggi. Það þýðir að yfirleitt er hægt að vinna meiri raforku í vatnsaflsvirkjunum en orkugetan segir til um. Oft er miðað við að í meðalvatnsári sé hægt að vinna 10% meiri raforku í vatnsaflsstöðvum en orkugetan segir til um. Þetta á hins vegar ekki við um jarðvarmastöðvar því að orkugeta þeirra er óháð tíðarfari. Vatnsaflsstöðvar stóðu undir 83,6% af orkugetu raforkukerfisins á árinu 2000 en jarðvarmastöðvar leggja fram 16,4%. Sala á ótryggðri raforku byggist á þessum aðstæðum í raforkukerfinu. Yfirleitt er hægt að vinna meiri raforku en orkugetan segir til um en fyrir fram er ekki hægt að tryggja afhendingaröryggi slíkrar orku. Framleiðandinn hefur því möguleika á að skerða afhendingu á ótryggðri orku ef aðstæður í vatnsbúskap kalla á það.
    Orkugeta íslenska raforkukerfisins var um síðustu áramót um 7.700 GWst/ári. Virkjunarframkvæmdir eru í gangi við Vatnsfell (90 MW) og við stækkun Nesjavallavirkjunar (30 MW). Að þessum framkvæmdum loknum mun orkugeta kerfisins aukast um 650 GWst/ári þannig að heildargetan verður um 8.350 GWst/ári.
    Taflan hér á eftir sýnir ástand og horfur í raforkumálum landsins fram til 2005.

Raforkuvinnsla á Íslandi 1995–2005.



Ár Orkugeta GWst/ári Vinnsla alls GWst/ári Þar af ótryggð orka GWst/ári Umframorka GWst/ári
1995 5.211 4.977 1.092 234
1996 5.253 5.112 1.194 141
1997 5.562 5.582 1.201 -20
1998 6.117 6.277 850 -160
1999 6.729 7.186 681 -457
2000 7.698 7.679 769 19
2001 7.818 8.182 957 -364
2002 8.348 8.522 987 -174
2003 8.348 8.572 990 -224
2004 8.348 8.623 992 -275
2005 8.348 8.541 896 -193

    Tölur fyrir árin 1995–2000 eru rauntölur en tölur um tímabilið 2001–2005 eru byggðar á raforkuspá orkuspárnefndar frá október 2000. Í dálki um orkugetu raforkukerfisins er gert ráð fyrir að þriðja vélin á Nesjavöllum (30 MW) verði tekin í notkun á miðju ári 2001 og að Vatnsfell (90 MW) komi inn í byrjun árs 2002. Orkuspárnefnd reiknar með því að dregið verði úr rekstri Áburðarverksmiðjunnar frá og með árinu 2005. Það skýrir lækkun á áætlaðri raforkuvinnslu það ár. Verði reksturinn óbreyttur má ætla að vinnslan verði 8.679 GWst.
    Dálkur um raforkuvinnslu sýnir annars vegar raunverulega raforkuvinnslu áranna 1995–2000 og hins vegar heildarsummu eftirspurnarþáttanna almenn notkun með dreifitöpum, umsamin stóriðja og flutningstöp eins og orkuspárnefnd metur þessar stærðir fyrir árin 2001–2005. Gert er ráð fyrir að almenn notkun aukist um 276 GWst/ári á þessu tímabili. Stóriðjunotkunin byggist á núverandi stóriðju auk umsaminnar aukningar raforkusölu til Norðuráls (stækkun um 30 þús. tonn) sem gert er ráð fyrir að komi til á árunum 2001–2002. Ekki er gert ráð fyrir frekari stóriðju, svo sem frekari stækkun Norðuráls eða stækkun Ísals, en báðar þessar verksmiðjur hafa þegar starfsleyfi fyrir talsverðri aukningu á framleiðslu.
    Í fjórða dálki töflunnar er sýnd sala á ótryggðri orku, annars vegar rauntölur áranna 1995–2000 og hins vegar mat orkuspárnefndar fyrir árin 2001–2005.
    Fimmti dálkur töflunnar sýnir umframorku í raforkukerfinu, þ.e. muninn á orkugetu og vinnslu. Fram til 1996 var fyrir hendi raunveruleg umframorka í kerfinu, en eftir 1997 hefur raforkuvinnslan verið heldur meiri en orkugeta kerfisins nema árið 2000 þegar vinnslan var nokkurn veginn sú sama og orkugetan. Neikvæðar tölur í þessum dálki þýða að komið getur til skerðingar á ótryggri raforku þegar slíkar aðstæður eru fyrir hendi í vatnsbúskap. Til skerðingar kom bæði árið 1998 og 1999. Um helmingur af ótryggðu orkunni er umsaminn í stóriðjusamningum með vissum afhendingarskilmálum sem t.d. kveða á um að helming þessarar orku verði að vera unnt að afhenda á hverju almanaksári. Það ásamt öðru setur því skorður hvað þolanlegt er að dálkurinn „umframorka“ sýni háar neikvæðar tölur. Þannig kom til skerðingar á afhendingu ótryggðrar orku bæði árið 1998 og 1999 og var þó neikvæð umframorka fyrra árið innan við 20% af sölu ótryggðrar orku.
    Að öllu samanlögðu sýnir taflan að þörf er á því að auka orkugetu raforkukerfisins með þriðju vélinni á Nesjavöllum auk virkjunarinnar við Vatnsfell sem er í smíðum. Þrátt fyrir þessa viðbót við raforkukerfið má búast við að komið geti til skerðingar á afhendingu ótryggðrar orku að öllu óbreyttu. Vart eru aðrir virkjunarkostir en umræddur þriðji áfangi Nesjavallavirkjunar í boði sem gætu sinnt þessari orkuþörf. Þar við bætist að orkuvinnsla þessi er hagkvæm, enda er verið að samnýta auðlind og framkvæmdir bæði til varma- og raforkuvinnslu.

2. Vinnslugeta á Nesjavöllum.
    Um leið og iðnaðarráðherra veitti Hitaveitu Reykjavíkur (nú Orkuveita Reykjavíkur) leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun með allt að 60 MW afli að Nesjavöllum gerðu ráðuneytið og Hitaveitan með sér sérstakt samkomulag þess efnis að Hitaveitan fylgdist mjög vel með viðbrögðum jarðhitakerfisins við aukinni vinnslu og tilkynnti Orkustofnun reglulega um niðurstöður þess eftirlits. Tilgangur þessa samkomulags var að tryggja aðgát og eftirlit með skynsamlegri nýtingu auðlindarinnar.
    Í samræmi við þetta samkomulag hefur rannsóknarsvið Orkustofnunar gert hermireikninga sem miða að því að spá fyrir um ástand jarðhitageymisins árið 2030 ef raforkuvinnslan á Nesjavöllum verður aukin í 90 MW. Meginniðurstöður þeirra athugana eru að í heild sýnist sem jarðhitageymir Nesjavalla þoli vel að rafmagnsframleiðsla þar verði aukin í 90 MW, auk þeirra a.m.k. 200 MW sem framleiða má í varmaorkuverinu. Þá virðist svæðið duga áfram vel til heitavatnsframleiðslu eftir árið 2030, en meiri óvissa ríkir um rafmagnshlutann þá vegna minnkandi hlutfalls háþrýstigufu með tímanum. Þá getur lækkað meðalvermi holna leitt til þess að lækka verði skiljuþrýsting á spátímabilinu. (Skýrsla Orkustofnunar OS- 2000/019.)
    Þessar niðurstöður sýna að ef raforkuvinnsla á Nesjavöllum verður aukin í 90 MW er komið að þanmörkum jarðhitageymisins á Nesjavöllum til raforkuvinnslu. Að öllum líkindum getur jarðhitakerfið á Nesjavöllum staðið undir 90 MW raforkuvinnslu í 30 ár, en óvissa er um framhaldið. Hugsanlega þarf að breyta vinnslurás orkuversins á seinni tíma spátímabilsins til þess að viðhalda 90 MW raforkuvinnslu í 30 ár. Hins vegar er mun lengra í að ástand jarðhitageymisins fari að takmarka heitavatnsvinnslu á Nesjavöllum.
    Að þessu sögðu er niðurstaðan sú að jarðhitasvæðið á Nesjavöllum geti a.m.k. í 30 ár staðið undir 90 MW raforkuvinnslu.


Virðingarfyllst,



Þorkell Helgason,


orkumálastjóri.




Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneytið,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 60/1981,
um raforkuver, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilt að veita Orkuveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 90 MW afli. Frumvarpið leiðir ekki til aukinna útgjalda ríkissjóðs verði það að lögum.