Ferill 410. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1175  —  410. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á hjúskaparlögum, nr. 31 14. apríl 1993.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason, Drífu Pálsdóttur og Hauk Guðmundsson frá dómsmálaráðuneyti og Skúla Guðmundsson frá Hagstofu Íslands.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, biskupsstofu, miðstöð nýbúa og Sýslumannafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að einungis borgaralegir vígslumenn, þ.e. sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra, annist könnun hjónavígsluskilyrða þegar annað hjónaefna eða bæði eru erlendir ríkisborgarar. Könnun hjónavígsluskilyrða felst í að leysa úr því hvort fullnægt er lagaskilyrðum til að stofna til hjúskapar. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að töluverð vinna felist oft í athugun á lagaatriðum þegar um er að ræða erlenda ríkisborgara og nokkur þekking á alþjóðlegum einkamálarétti sé þá nauðsynleg. Nefndin telur hins vegar að slík þekking þurfi frekar að vera til staðar þegar annað hjónaefna eða bæði, óháð ríkisfangi þeirra, eiga ekki lögheimili í hér á landi þar sem Hagstofa Íslands geymir nauðsynleg gögn til könnunar hjónavígsluskilyrða. Þykir nefndinni því rétt að borgaralegir vígslumenn, sem eru löglærðir, annist könnunina þegar annað hjónaefna eða bæði eiga ekki lögheimili á landinu en löggiltir hjónavígslumenn annist hana í öðrum tilvikum.
    Mælir nefndin með því að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Í stað orðanna „eru erlendir ríkisborgarar“ í a-lið 2. gr. komi: eiga ekki lögheimili hér á landi.
     2.      4. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. október 2001.

    Sverrir Hermannsson og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 2001.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Ásta Möller.


Katrín Fjeldsted.



Ólafur Örn Haraldsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.



Hjálmar Jónsson.


Jónína Bjartmarz.


Prentað upp.