Ferill 717. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1179  —  717. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Jóhannesdóttur um nýgengi krabbameins á Suðurnesjum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvert hefur verið nýgengi krabbameins á Suðurnesjum undanfarna áratugi samanborið við aðra landshluta?
    
    Samanburður var gerður á aldursstöðluðu nýgengi, miðað við alþjóðlegan staðal. Skoðað var árlegt nýgengi, nýgengi í þriggja ára tímabilum svo og allt tímabilið.
    Tímabil sem notað var í samanburðinum var 1991–1999. Val á tímabili miðaðist við fyrirliggjandi mannfjöldatölur á Suðurnesjunum fengnum frá Hagstofunni.
    Borið var saman nýgengi fyrir eftirfarandi mein:
    
    Öll krabbamein    hjá körlum og konum.
    Blöðruhálskirtilskrabbamein    hjá körlum.
    Brjóst    hjá konum.
    Lungnakrabbamein    hjá körlum og konum.
    
    Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbamein karla, brjóstakrabbamein algengasta krabbamein kvenna og lungnakrabbamein er í öðru sæti hjá báðum kynjum.
    Að neðan má sjá árlegan meðalfjölda þeirra sem greindust með krabbamein á umræddu tímabili (1991–1999) svo og mannfjöldatölur:

Meðalfjöldi
greindra á ári
Mannfjöldi
meðaltal á ári
karlar konur karlar konur
Suðurnes 23 26 8.027 7.631
Allt landið 502 488 134.058 133.058

    Ekki var hægt að greina mun á nýgengi krabbameins í körlum á Suðurnesjum og á landinu öllu. Gilti það bæði um nýgengi allra meina, krabbameins í blöðruhálskirtli og lungnakrabbamein. Sama niðurstaða fékkst fyrir nýgengi brjóstakrabbameins í konum.
    Nýgengi allra krabbameina hjá konum var heldur hærra á Suðurnesjunum miðað við landið allt, þegar skoðuð voru þriggja ára tímabil. Ef skoðuð eru einstök ár eru Suðurnesin með hærra nýgengi í 2/ 3 tilfella. Hærra nýgengi Suðurnesjakvenna miðað við landið allt var þó langt frá því að vera marktækt.
    Nýgengi lungnakrabbameins í konum á Suðurnesjunum var nokkru hærra öll árin, miðað við nýgengi lungnakrabbameins á öllu landinu, þó ekki reyndist um marktækan mun að ræða, nema þegar öll 9 árin voru skoðuð saman. Á Suðurnesjunum hefur tilfellum fækkað meira síðustu árin heldur en á öllu landinu.
Fjöldi kvenna sem greindust með lungnakrabbamein
Suðurnes Landið allt
1991–1993 16 159
1994–1996 13 169
1997–1999 9 134

Niðurstaða: Ekki er hægt að fullyrða að fleiri greinist með krabbamein á Suðurnesjunum en í öðrum landshlutum, en þó er tilhneiging hjá konum í þá veru og á það sérstaklega við um lungnakrabbamein.