Ferill 567. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1212  —  567. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti, Indriða H. Þorláksson ríkisskattstjóra, Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Guðmund Hauksson frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Sigurð Hafstein frá Sambandi íslenskra sparisjóða. Umsagnir bárust um málið frá Þjóðhagsstofnun, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Sambandi íslenskra sparisjóða, Verslunarráði Íslands, ríkisskattstjóra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Einnig bárust gögn frá viðskiptaráðuneyti.
    Meginákvæði frumvarpsins miða að því að veita sparisjóðum heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Við það breytist stofnfjárframlag í hlutafé en það sem eftir stendur af eigin fé skal vera eign sjálfseignarstofnunar. Aðalmarkmið sjálfseignarstofnunarinnar er að stuðla að vexti og viðgangi viðkomandi sparisjóðs. Þannig er gert ráð fyrir að sjálfseignarstofnanir muni minnka eignarhluti sína í sparisjóðum og veita nýjum fjárfestum svigrúm til að kaupa hluti í sparisjóðunum, en ólíklegt er að hlutafélagaformið nýtist að öðrum kosti til fulls. Jafnframt eru með frumvarpinu gerðar breytingar á núgildandi ákvæðum um stofnfjárbréf sem er ætlað að gera þau að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti með því að stofnfjáreigendum verður auðveldað að selja bréf sín auk þess sem heimilt verður að ráðstafa allt að 10% af hagnaði hvers árs til hækkunar á stofnfé sjóðsins, en hækkun stofnfjár má aldrei vera meira en 5% á ári, og að greiða arð þrátt fyrir tap á rekstri sparisjóðs. Loks er ákvæðum um stjórnarmenn í sparisjóði breytt þannig að heimilt verður að kveða á í samþykktum um að stofnfjáreigendur kjósi alla fimm stjórnarmenn sparisjóðs í stað þess að tveir þeirra séu tilnefndir af sveitarfélagi eða héraðsnefnd. Þetta er gert þar sem eðlilegast þykir að þeir sem bera ábyrgð á stjórn sparisjóðs hafi sjálfir hagsmuna að gæta af því að rekstur sparisjóðsins gangi vel.
    Meiri hlutinn lítur svo á að lögfesting ákvæða frumvarpsins muni stuðla að sterkari eiginfjárstöðu sparisjóðanna og auðvelda þeim þátttöku í þróun á fjármálamarkaði hér á landi. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að þeir sparisjóðir sem ekki nýta sér heimild til hlutafélagavæðingar verða betur settir en áður með auknum heimildum til að greiða út arð til stofnfjáreigenda. Með lögfestingu ákvæða frumvarpsins verða stofnfjárbréf í sparisjóðum samkeppnishæfari á markaði en áður.
    Sjálfseignarstofnanirnar sem verða eigendur að meiri hluta hlutafjár í sparisjóðunum eru undanþegnar greiðslu tekjuskatts og eignarskatts. Þetta skattfrelsi byggist á því að ekki er hægt að úthluta af fjármunum þeirra nema til menningar- og líknarmála. Meiri hlutinn tekur fram að þótt sjálfseignarstofnanirnar séu undanþegnar tekjuskatti og eignarskatti eru þær engu að síðar skyldar til að greiða 10% fjármagnstekjuskatt skv. 72. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Til áréttingar leggur meiri hlutinn til breytingu á frumvarpinu þess efnis að við síðasta málslið 4. mgr. b-liðar 3. gr. verði bætt ákvæði sem tekur af allan vafa um að ákvæði um skattfrelsi sjálfseignarstofnana eigi ekki við nema fjármunir sem úthlutað er úr þeim renni sannanlega til menningar- og líknarmála.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:

    Við lokamálslið 4. mgr. b-liðar 3. gr. bætist: enda sé farið eftir skilyrðum 1. málsl. um úthlutun til menningar- og líknarmála.

    Einar K. Guðfinnsson, Gunnar Birgisson og Hjálmar Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 2001.Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.