Ferill 686. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1220  —  686. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Ragnheiði Snorradóttur, Telmu Halldórsdóttur, Ólaf Pál Gunnarsson, Ingva Má Pálsson, Jónu Björk Guðnadóttur og Elvu Ósk Wiium frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Verslunarráði Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar, Seðlabanka Íslands, ríkisskattstjóra, Félagi hópferðaleyfishafa og Félagi sérleyfishafa.
    Í frumvarpinu er kveðið á um tímabundna heimild til að endurgreiða 2/ 3hluta virðisaukaskatts sem greiddur er af þeim sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða.
    Nefndin bendir á að auk þess að auðvelda endurnýjun hópferðabifreiðaflota landsins og draga úr mengun felur frumvarpið í sér sértæka styrkveitingu til þeirra aðila sem hafa með höndum hópferðabifreiðaþjónustu. Að öllu jöfnu telur nefndin æskilegt að slíkar breytingar á umhverfi atvinnurekstrar séu almennar.
    Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu sem varðar orðalag en ekki efnisatriði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


    2. málsl. efnismálsgreinar 1. gr. verði svohljóðandi: Endurgreiðsluheimildin verði bundin við hópferðabifreiðar, þ.e. ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga, sem skráðar eru fyrir 18 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni, sem nýskráðar eru á tímabilinu og búnar eru aflvélum samkvæmt EURO2 staðli ESB.

    Kristinn H. Gunnarsson, Gunnar Birgisson og Margrét Frímannsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Hjálmar Árnason.


Einar K. Guðfinnsson.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.