Ferill 567. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1223  —  567. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Meginefni frumvarpsins er að starfandi sparisjóðum er veitt heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. 1. minni hluti er því hlynntur, enda mikilvægt að sparisjóðirnir hafi þennan möguleika samfara þeim miklu breytingum sem orðið hafa á fjármálamarkaðinum.

Ágallar á frumvarpinu.
    Engu síður telur 1. minni hluti nokkra ágalla vera á frumvarpinu að óbreyttu, sem ástæða er til að lagfæra. Lúta þeir að eignarhaldi á sparisjóðunum þegar þeim verður breytt í hlutafélag og eftirliti með sjálfseignarstofnunum sem sparisjóður þarf að stofna við breytingu í hlutafélag. Einnig gerir 1. minni hluti athugasemdir við að ekki skuli vera skilgreint í lögum hvert stofnverð hlutabréfa í hendi stofnfjáreigenda á að vera og að ekki skuli vera ljóst hvert stofnverð hlutabréfa í eigu sjálfseignarstofnunar verður. 1. minni hluti gagnrýnir líka að í frumvarpinu skuli gert ráð fyrir að sjálfseignarstofnanir séu undanþegnar tekju- og eignarskatti. Slíkt hefur fordæmisgildi og vekur upp spurningar um jafnræði og samkeppnisstöðu annarra sambærilegra félaga sem greiða þurfa skatt af tekjum sínum og eignum. Jafnframt telur 1. minni hluti eðlilegt að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlitsskyldu með sjálfseignarstofnunum sem stofnaðar verða ef sparisjóði er breytt í hlutafélag, enda gengur meginhluti af eigin fé sparisjóðanna til sjálfseignarstofnana við þá breytingu.

Mikil völd í krafti lítils eignarhluta.
    Fyrsti minni hluti hefur gagnrýnt út frá viðskiptalegu sjónarmiði og almannahagsmunum að núverandi stofnfjáreigendur muni fá mikil völd í krafti tiltölulega lítils eignarhluta. Framlög stofnfjáreigenda voru í árslok 1999 um 1.500 millj. kr. af samanlögðu 10,6 milljarða kr. eigin fé sparisjóðanna eða um 14%. Hlutfall stofnfjáreigenda í nokkrum stórum sparisjóðum er innan við 1% en á milli 20–30% í nokkrum öðrum. Fram hefur komið opinberlega að áætlað heildarmarkaðsvirði sparisjóðanna sé rúmir 19 milljarðar króna.
    Stofnfjáreigendur fara með æðsta vald í málefnum sparisjóðanna og koma fram sem eigendur þeirra í krafti stofnfjárins. Frumvarpið felur í sér að við hlutafélagavæðingu sparisjóðs fái stofnfjáreigendur hlutabréf sem samsvarar núverandi verðmæti eignar þeirra í sparisjóðnum. Annað af hlutafénu rennur til sjálfseignarstofnunar sem sparisjóðurinn skal gangast fyrir stofnun á við breytinguna.
    Í stjórn fulltrúaráðs sjálfseignarstofnunarinnar eiga sæti allir sem voru stofnfjáreigendur í viðkomandi sparisjóði þegar honum var breytt í hlutafélag. Þeir kjósa stjórnarmenn sjálfseignarstofnunarinnar, en hún er sett á fót um þann hluta eigin fjár sem ekki er í eigu stofnfjáreigendanna. Fulltrúaráðið getur valið fleiri til setu í ráðinu en gert er ráð fyrir að fulltrúaráðsmenn séu ekki undir 30.

Handvalið í stjórnir og fulltrúaráð.
    Það sem ekki síst er gagnrýnt er að handvalið er af núverandi stofnfjáreigendum, þegar fjölgað er í fulltrúaráðinu og það af fámennum hópi sem hefur vald yfir gífurlegu fjármagni sem hann er ekki nema að litlu leyti eigandi að.
    Megintilgangur sjálfseignarstofnunarinnar verður að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins. Þannig virðist að því stefnt að breyta meginmarkmiði og tilgangi sparisjóða frá því sem þeir voru í upphafi stofnaðir til og óttast ýmsir að það verði á kostnað menningar og líknarmála í landinu. Til þeirra mála hafa sparisjóðirnir varið miklu fjármagni, en tilgangur þeirra var að greiða fyrir viðskiptum á sínu starfssvæði og stuðla að uppbyggingu og fjárhagslegu sjálfstæði byggðarlagsins. Það markmið hefur gengið framar því að hámarka arð eigendanna. Við breytingu sparisjóðanna í hlutafélag má ætla að arðsemi eigenda verði meginmarkmiðið. Í frumvarpinu kemur fram að nokkrir sparisjóðir hafa selt stofnfjárbréf með góðum árangri á undanförnum árum og ekki sé hægt að útiloka að ástæða eftirspurnar eftir þeim stofnfjárbréfum sé von fjárfestanna um að hagnast á hugsanlegri breytingu sparisjóðsins í hlutafélag. Athyglisvert er að ríkisskattstjóri segir um tilgang hlutafélagavæðingarinnar eftirfarandi í sinni umsögn: „Markmið með eignasöfnun sjálfseignarstofnunar þessarar er hins vegar að styrkja stöðu hlutafélagsins og tryggja hagsmuni eigenda þess, sem jafnframt eru þeir sem ráða sjálfseignarstofnuninni.“
    Í ljósi framangreinds flytur 1. minni hluti breytingartillögu við frumvarpið sem miðar að því að fjölga nýjum stofnfjáreigendum og opna hóp stofnfjáreigenda tiltekinn tíma fyrir almenningi áður en sparisjóði er breytt í hlutafélag. Telja verður það mun lýðræðislegra fyrirkomulag og í meira samræmi við hlutafélagalöggjöfina, sem ætlunin er að laga sparisjóðina að, að fjölga í hópi þeirra sem með valdið fara í stað þess að setja vald og mikla fjármuni í hendur stofnfjáreigenda, sem oft og tíðum eru mjög fáir og með framlög sem ekki eru í neinu samræmi við það vald og þá ábyrgð sem þeir hafa yfir gríðarlegum fjármunum sem ekki eru þeirra eigin.

Áhrif hlutafélagavæðingar sparisjóðanna.
    Óljóst er hve margir sparisjóðir munu nýta sér ákvæði frumvarpsins um hlutafélagavæðingu, en í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að af reynslu nágrannalandanna megi draga þá ályktun að þeir verði ekki margir hér á landi. Vísað er til smæðar margra sparisjóðanna og erfiðleika þess vegna við að bjóða út hlutabréf sem ganga kaupum og sölum á markaði. Að því er vikið í greinargerðinni að ákvæði frumvarpsins gætu flýtt fyrir sameiningu sparisjóða og því að sameinaðir sparisjóðir breyti rekstrarformi sínu í hlutafélag.
    Í efnahags- og viðskiptanefnd var rætt um aðra leið en hlutafélagaleiðina, þ.e. að gera sparisjóðum kleift að bjóða upp á markaðshæf bréf í sérstakri deild, svokölluð B-deildar bréf, sem byggjast á því að stofna sérstakan eiginfjársjóð sem fjármagnaður er með sölu stofnfjárhluta sem aukinn arðsréttur fylgir, en þeim hluta gæti líka fylgt aukinn atkvæðisréttur. Ætla hefði mátt að þessi leið hefði getað gagnast minni sparisjóðunum, en fulltrúar sparisjóðanna sem mættu á fund efnahags- og viðskiptanefndar mæltu ekki með henni, ekki einu sinni sem valkvæðri í frumvarpinu á móti hlutafélagaleiðinni, en þeir töldu að slík bréf gætu ruglað markaðinn.

Skattaleg meðferð gagnrýnd.
    Ríkisskattstjóri gerir alvarlegar athugasemdir í sinni umsögn við frumvarpið við að skilgreiningu vanti á skattalegri meðferð á stofnverði hlutabréfa í hendi stofnfjáreigenda og stofnverði hlutabréfa í hendi sjálfseignarstofnunar. Einnig gagnrýnir ríkisskattstjóri að gert sé ráð fyrir að sjálfseignarstofnanir samkvæmt frumvarpinu séu undanþegnar tekju- og eignarskatti.
    Um skattskyldu stofnfjáreigenda segir ríkisskattstjóri orðrétt í sinni umsögn: „Við síðari sölu á hlutabréfunum myndast skattskyldur söluhagnaður í hendi seljanda sem mismunur á söluverði bréfanna og stofnverði þeirra í hans hendi. Ekkert segir í frumvarpinu um það hvernig stofnverð bréfanna skuli ákveðið.“ Síðar segir: „Eðlilegt væri að fjárhæð endurmetinnar stofnfjáreignar miðað við árslok 1996 myndaði stofnverð til útreiknings á söluhagnaði. Þannig væri í reynd lögð til sams konar regla og gildir um hlutabréf.“
    Um skattskyldu sjálfseignarstofnunar segir ríkisskattstjóri í umsögn sinni: „Ákvæði lagafrumvarpsins um sjálfseignarstofnunina uppfylla ekki skilyrði tekjuskattslaganna til skattfrelsis vegna starfa í þágu almannaheilla. Í fyrsta lagi er megintilgangur starfseminnar ekki almannaheill heldur fjáröflun og eignamyndun. Það skal á það bent í þessu samhengi að í úrskurðaframkvæmd hefur ákvæðið þetta verið túlkað fremur þröngt, þ.e. að ekki sé heimil nein ráðstöfun hagnaðar til uppbyggingar eigin fjár sjálfseignarstofnunarinnar umfram þarfir starfsemi viðkomandi stofnunar, heldur beri að ráðstafa öllum hagnaði til hinna skilgreindu almenningsheillamarkmiða. Markmið með eignasöfnun sjálfseignarstofnunar þessarar er hins vegar að styrkja stöðu hlutafélagsins og tryggja hagsmuni eigenda þess, sem jafnframt eru þeir sem ráða sjálfseignarstofnuninni.
    Í öðru lagi má nefna að svæðisbundin menningar- og líknarstarfsemi hefur ekki verið talin nægileg til skattfrelsis á grundvelli 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981 heldur þurfi skírskotun til almannaheilla að vera almennari. Í þriðja lagi er skattfrelsi af þessum ástæðum ekki ótímabundið en ákveðist frá ári til árs og því háð því skilyrði að öllum hagnaði af starfseminni ár hvert sé ráðstafað í þeim tilgangi sem skattfrelsið helgast af. Á það skal og sérstaklega bent að þeir lögaðilar sem skattfrjálsir eru samkvæmt 5 tölul. 4. gr. eru engu að síður framtalsskyldir samkvæmt 91. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Þannig er í reynd gengið út frá því að það komi til sjálfstæðrar skoðunar hverju sinni hvort skilyrðum skattfrelsis sé fullnægt.“
    Segja má að undir sjónarmið ríkisskattstjóra sé tekið í greinargerð með frumvarpinu þar sem rækilega er undirstrikað að sjálfseignarstofnanir þær sem stofnaðar verða við breytingu sparisjóðs í hlutafélag muni allar, eða nær allar, í upphafi starfseminnar uppfylla skilyrði 3. gr. laga um sjálfseignarstofnanir, þar sem kveðið er á um hvað telst sjálfseignarstofnun sem stundar atvinnurekstur.
    Loks segir ríkisskattstjóri í umsögn sinni: „Ákvæði frumvarpsins um skattfrelsi þessara sjálfseignarstofnana er því sbr. framangreint andstæð grundvallarreglum laga um tekjuskatt og eignarskatt um skattskyldu og mun skattfrelsi þeirra því verða til að skapa misræmi í samanburði við stofnanir sem njóta skattfrelsis vegna starfa í almannaþágu og í samanburði við þær stofnanir og félög sem atvinnurekstur stunda og skattskyldar eru skv. almennum ákvæðum skattalaganna. Sjálfseignarstofnanir þessar eru í raun ekki annað en eignarhaldsfélag og skattfrelsi þeirra hlýtur að vekja upp spurningar um jafnræði og samkeppnisstöðu annarra slíkra félaga sem greiða þurfa skatt af tekjum sínum og eignum auk þess sem fyrrum stofnfjáreigendur sækja sem eigendur hlutafélagssparisjóðs fjármálalegt áhrifavald í eignir sem þeir ekki eiga en eru í vörslu sjálfseignarstofnunar sem þeir stjórna. Skattfrelsi þetta verður sérstaklega vafasamt í ljósi þess að óhjákvæmilegt virðist að með tímanum verði nokkur hluti af eignum sjálfseignarstofnunarinnar bundin í öðru en hlutafé í sparisjóðnum og tekjur sjálfseignarstofnunarinnar af þeim ekkert tengdar starfsemi sjóðsins.
    Engin rök eru færð í greinargerð með frumvarpinu fyrir skattfrelsi þessara sjálfseignarstofnana umfram önnur félög sem stunda atvinnu þ.m.t. sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Með hliðsjón af því að skattfrelsi þetta stríðir á móti meginreglum skattalaga um þetta efni og er slæmt fordæmi sem auk þess vekur upp spurningar um jafnræði og samkeppnisstöðu telur ríkisskattstjóri mjög varasamt að fara þá leið sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu að gera þessar stofnanir skattfrjálsar og leggur eindregið til að síðasti málsliður í b- lið 3. gr frumvarpsins verður felldur úr því.“
    Það ákvæði frumvarpsins sem ríkisskattstjóri vísar hér til er sérstakt ákvæði sem hefur verið sett í frumvarpið um að sjálfseignarstofnanir sem koma skal á fót samkvæmt frumvarpinu skuli vera undanþegnar tekju- og eignarskatti.
    Með margvíslegum hætti er tekið undir það í greinargerð með frumvarpinu sem fram kemur í áliti ríkisskattstjóra að megintilgangur með starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar er ekki almannaheill heldur fjáröflun og eignamyndun. Má þar t.d. nefna að fram kemur í frumvarpinu að andvirði greidds arðs til sjálfseignarstofnunar sé hægt að ráðstafa með þrennum hætti. Í fyrsta lagi sé hægt að endurfjárfesta með kaupum á hlutabréfum í viðkomandi sparisjóði. Í öðru lagi að ávaxta laust fé, t.d. í innlánum eða markaðsverðbréfum, og í þriðja lagi gæti hún ráðstafað andvirði móttekins arðs til menningar- og líknarmála. Einnig er nefnt sem almenn leiðbeining um endurfjárfestingu í frumvarpinu að eðlilegt sé að sjálfseignarstofnun fjárfesti í auðseljanlegum eignum, svo sem sjóðum um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum eða í skuldabréfum og hlutabréfum skráðum á skipulegum verðbréfamarkaði.

Sjálfseignarstofnanir verði eftirlitsskyldar hjá Fjármálaeftirlitinu.
    Loks flytur 1. minni hluti breytingartillögu um að sjálfseignarstofnun sem stofnað verði til í tengslum við hlutafélagavæðingu á sparisjóði verði eftirlitsskyld hjá Fjármálaeftirlitinu líkt og aðrar fjármálastofnanir. Telur 1. minni hluti slíkt eðlilegt í ljósi þess að sjálfseignarstofnunin er í raun eignarhaldsfélag sem á meginhlutann í sparisjóðnum við stofnun og eignast allt það hlutafé sparisjóðs sem stofnfjáreigendur geta ekki gert tilkall til. Að óbreyttu verður einungis um að ræða að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með hæfi sjálfseignarstofnunar til að fara með hlut í sparisjóði, sé eignarhlutur sjálfseignarstofnunarinnar virkur í skilningi laganna. 1. minni hluti flytur því breytingartillögu þess efnis að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar, sem er eðlilegt þar sem stofnunin er uppistaðan í starfsemi sparisjóðsins, en stærsti hluti efnahagsreiknings sjálfseignarstofnunarinnar er hlutafjáreign hennar í sparisjóðnum.

Álit minni hlutans.
    Fyrsti minni hluti tekur undir gagnrýni ríkisskattstjóra á þeirri sértæku skattalegu meðferð sem sjálfseignarstofnanir eiga að fá samkvæmt frumvarpinu með skattfrelsi sem ekki á sér hliðstæðu og er fordæmisgefandi. Flytur 1. minni hluti breytingartillögu í samræmi við ábendingar ríkisskattstjóra. Lögð er til breyting um að afnema ákvæði 4. mgr. í b-lið 3. gr. um að sjálfseignarstofnanir verði undanþegnar tekjuskatti og eignarskatti. Undanskilið er þó að fjárhæð sem sjálfseignarstofnun skv. 37. gr. laganna úthlutar af rekstrarhagnaði ársins til menningar og líknarmála dragist frá tekjuskattsstofni á því ári.
    Jafnframt flytur 1. minni hluti breytingartillögur í samræmi við ábendingar ríkisskattstjóra til að skilgreina í lögum hvert stofnverð hlutabréfa í hendi stofnfjáreigenda eigi að vera og hvert stofnverð hlutabréfa í hendi sjálfseignarstofnunar skuli vera. Fram hefur komið hjá ríkisskattstjóra að nauðsynlegt sé að lögfesta þau ákvæði óháð því hvort stofnanirnar greiði almennan tekjuskatt eða ekki. Verði það ekki gert gæti það leitt til mikillar óvissu þar sem færa má rök fyrir mismunandi stofnverði í skattalegum tilgangi.
    Auk þess flytur 1. minni hluti breytingartillögu um að sjálfseignarstofnanir samkvæmt frumvarpinu verði undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Jafnframt er lögð til sú breyting sem áður hefur verið lýst sem miðar að því að fjölga nýjum stofnfjáreigendum og opna hóp stofnfjáreigenda um tiltekinn tíma fyrir almenningi áður en sparisjóði er breytt í hlutafélag.
    Með framangreindum breytingum, sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, styður 1. minni hluti frumvarpið. Verði þær felldar vísar 1. minni hluti allri ábyrgð á málinu á hendur meiri hlutanum.

Alþingi, 4. maí 2001.Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Margrét Frímannsdóttir.
Fylgiskjal I.


Svör viðskiptaráðuneytis við spurningum Jóhönnu Sigurðardóttur
frá 26. apríl sl. um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um viðskiptabanka og sparisjóði, 567. mál.

(2. maí 2001.)


    Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður beindi 22 spurningum til viðskiptaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins um þingmál 567. Hér að neðan eru svör við þessum spurningum. Svör við spurningum 1, 2, 5 og 6 eru fengin frá Fjármálaeftirlitinu.

     1.      Hvernig hefur eigið fé sparisjóðanna þróast á undanförnum árum?
    Eigið fé síðustu árin miðað við árslok hjá sparisjóðunum er:
    1997     7,4 ma. kr.
    1998     8,4 ma. kr.
    1999     10,7 ma. kr.
    2000     14,8 ma. kr. (bráðabirgðatölur).

     2.      Hvernig hafa kostnaðarhlutföll, þ.e. rekstrargjöld sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum verið sl. þrjú ár?
    Kostnaðarhlutföll hafa verið eftirfarandi:
    1997     69,6%
    1998     71,2%
    1999     60,6%
    2000     50,0% (bráðabirgðatölur).
    Athuga ber að kostnaðarhlutföllin tvö síðustu árin eru mun lægri en árin á undan vegna óvenjulegrar aukningar í „öðrum rekstrartekjum“, sem gera má ráð fyrir að sé að verulegu leyti tímabundin.

     3.      Hve margar sveitarstjórnir eða héraðsnefndir skipa nú fulltrúa í stjórn sparisjóða og hver er forsagan að þeirri tilhögun?
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um nákvæman fjölda sveitarstjórna eða héraðsnefnda sem skipa fulltrúa í stjórn sparisjóða. Sparisjóðir eru nú 25 og tilnefna sveitarstjórnir eða héraðsstjórnir nú fulltrúa í stjórnir allra sjóðanna. Borgarstjórn Reykjavíkur skipar í stjórnir tveggja sparisjóða í Reykjavík. Í sumum tilvikum eru tvö eða fleiri sveitarfélög sem saman skipa fulltrúa í stjórn sparisjóðs.
    Forsögu þess að sveitarstjórnir eða héraðsnefndir tilnefna í stjórnir sparisjóða má rekja til ársins 1941. Þessi regla var studd eftirfarandi rökum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 69/1941, um sparisjóði: „Það telur nefndin og rétt, að stjórn sparisjóðanna eigi ekki að vera nema að sumu leyti í höndum stofnenda þeirra. Sparisjóðina á að reka með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum, en ekki til arðs fyrir stofnendur þeirra, enda eru ákvæði í lögum, sem eiga að sjá um, að arður þeirra geti ekki orðið nema hverfandi. Því hefir nefndin lagt til, að vald opinberra aðila, bæjarstjórna og umboðsmanna ríkisins, verði frekar aukið en minnkað.“

     4.      Er ekki æskilegt að mati ráðuneytisins í ljósi sérstöðu sparisjóðanna og markmiðs um að styrkja og breikka félagslegan bakgrunn sparisjóðanna vegna óljóss eignarhalds að gera að skyldu að fulltrúar sveitarstjórna eigi seturétt í stjórn sparisjóða eða eignarhaldsfélögum þeirra?
    Ráðuneytið telur að best fari á því að það sé ákvörðun stofnfjáreigenda í hverjum sparisjóði fyrir sig hvort sveitarfélög skuli skipa stjórnarmenn í sparisjóði. Það hefur lengi verið deilt um hvort sú skipan að sveitarfélög skipi í stjórn sparisjóða sé eðlileg. Hefur í því sambandi verið nefnt að það skjóti skökku við að í stjórn sparisjóðs sitji fulltrúar aðila sem oft eiga engra beinna hagsmuna að gæta við rekstur þeirra en fara samt sem áður með 40% stjórnarsæta. Sameiningar sparisjóða og sameiningar sveitarfélaga geta einnig leitt til þess að erfiðara verður að velja sveitarfélagsmenn til setu í stjórnum sparisjóða.
    Þess skal getið að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga var fyrsti flutningsmaður frumvarps sem lagt var fram á yfirstandandi þingi (137. mál) þess efnis að stofnfjáreigendur skyldu kjósa alla stjórnarmenn í sparisjóði.

     5.      Er dreifð eignaraðild tryggð með 5% hámarki atkvæðisréttar að mati Fjármálaeftirlitsins í ljósi þess að sjálfseignarstofnanir mun eiga 90–95% af sparisjóðum og heimilt að ákveða í samþykktum sjálfseignarstofnunar að hún geti fari með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði?
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að sú meginregla gildandi laga, sem felst í 5% atkvæðisrétti einstakra stofnfjáraðila, haldist óbreytt. Undantekning frá þessari meginreglu verður möguleg í tilviki sjálfseignarstofnunarinnar. Tilgangur þessarar reglu er að stuðla að dreifðri eignaraðild og eru ákvæði frumvarpsins að mati Fjármálaeftirlitsins til þess fallin að sá tilgangur náist.

     6.      Hvernig hefur markaðshlutdeild sparisjóðanna verið í inn- og útlánum sl. þrjú ár?
    Markaðshlutdeild sparisjóða í innlánum og útlánum viðskiptabanka og sparisjóða hefur verið eftirfarandi síðustu þrjú árin. Í heildartölunum er FBA meðtalinn árin 1998 og 1999.
    1998    Innlán 23,5%    Útlán 17,0%
    1999    Innlán 23,3%    Útlán 17,9%
    2000    Innlán 24,3%    Útlán 17,1 % (bráðabirgðatölur).

     7.      Er nokkuð því til fyrirstöðu að hafa valkvætt ákvæði í frumvarpinu milli B-deildar-leiðar (norsku leiðarinnar – B-deildar-bréf) og hlutafélagaformsins?
    Ráðuneytið telur B-deildar-leiðina ekki fýsilega. Með þeirri leið er reynt að líkja eftir hlutabréfaforminu með flóknum sérreglum og skapa markað fyrir bréfin. Fjárfestar þekkja hins vegar ekki formið til fulls, hafa varann á þegar bréf lúta ströngum sérreglum og eru ekki tilbúnir að kaupa bréfin nema með afslætti. Það leiðir til hærri fjármagnskostnaðar hjá sparisjóðum og minni samkeppnishæfni.

     8.      Í Danmörku var afleiðing hlutafélagavæðingar sparisjóðanna að tveir stærstu sparisjóðirnir hurfu strax inn í stærri banka, er ekki ástæða til að ætla að slíkt hið sama gerist hér eftir samþykkt frumvarpsins?
    Tilgangurinn með frumvarpinu er að gera sparisjóðum kleift að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag og gera stofnfjárbréf að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti. Ráðuneytið leggur áherslu á mikilvægi þess að sparisjóðirnir sjálfir móti framtíð sína og stjórnvöld geri ekki annað en að móta leikreglur sem geri sparisjóðunum kleift að keppa á nútímafjármálamarkaði. Því mun ráðuneytið ekki spá fyrir um hvaða áhrif frumvarpið muni hafa. Það er undir sparisjóðunum komið. Að öðru leyti vísast til umfjöllunar um litla og meðalstóra sparisjóði í 7. kafla í almennum athugasemdum við frumvarpið.

     9.      Hver á eigið fé sparisjóðanna sem er 9 milljarðar umfram stofnfé og hvert má áætla markaðsvirði sparisjóðanna nú?
    Enginn getur kastað eign sinni á þann hluta eigin fjár sparisjóðanna sem er umfram stofnfé enda sparisjóðir um margt líkir sjálfseignarstofnunum. Við slit sparisjóðs skal ráðstafa eignum umfram stofnfé í samræmi við ákvæði samþykkta sparisjóðsins. Í samþykktum allra sparisjóða er kveðið á um að við slit skuli fénu ráðstafað til líknar- og menningarmála á starfssvæði sparisjóðsins.
    Engin áætlun liggur fyrir um markaðsvirði sparisjóðanna en af samanburði við kennitölur viðskiptabanka sem skráðir eru á markaði má ætla að markaðsvirðið sé hærra en eigið fé.

     10.      Er það eðlilegt að allt niður í tveir stofnfjáreigendur (algengt 40–100) fái völd yfir öllum eignum sparisjóðanna og eigin fé?
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stofnfjáreigendur fái hlutabréf í sparisjóðnum sem jafngildi verðmæti stofnfjárbréfa þeirra. Stofnfjáreigendur mynda síðan fulltrúaráð sjálfseignarstofnunarinnar. Í greinargerð með frumvarpinu eru færð ítarleg rök fyrir þessu fyrirkomulagi. Í dag fara stofnfjáreigendur með æðsta vald í málefnum sparisjóða og hafa því í raun völd yfir öllum eignum sparisjóðanna og eigin fé.

     11.      Er það eðlilegt fyrirkomulag út frá viðskiptalegu sjónarmiði og almannahagsmunum að við það að sparisjóður breytist í hlutafélag eigi sæti í fulltrúaráði sjálfseignarstofnunar allir stofnfjáreigendur og í stjórn sparisjóðsins sé valið úr hópi fulltrúaráðsmanna? Erfist sæti í stjórn sjálfseignarstofnunar – og getur stofnfjáreigandi selt hlut sinn í sparisjóðnum en samt átt sæti í fulltrúaráði sjálfseignarstofnunarinnar? Hvernig er valið í fulltrúaráðið, er um að ræða „lokaðan klúbb“ þar sem handvalið er í fulltrúaráðið af stofnfjáreigendum sem hafa sjálfir lagt fram lítið brot af eigin fé sparisjóðanna?
    Telja verður að þeir einstaklingar sem hafa lagt sparisjóðnum til fé í gegnum tíðina í formi stofnfjár, og þannig tekið þátt í uppbyggingu hans, séu best til þess fallnir að stýra sjálfseignarstofnun sem hefur þann megintilgang að stuðla að viðgangi sparisjóðsins og vexti í starfsemi hans. Stofnfjáreigendur sem mynda fulltrúaráðið hafa þó engra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í sjálfseignarstofnuninni, enda er úthlutun fjárins eingöngu til almannaheilla.
    Tekið skal fram að um sjálfseignarstofnunina fer samkvæmt lögum nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þar er ítarlegur rammi um starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar. Sæti í fulltrúaráði sjálfseignarstofnunar erfist ekki. Engin tenging er á milli hlutabréfaeignar fyrrverandi stofnfjáraðila í sparisjóði og aðildar hans að fulltrúaráði sjálfseignarstofnunarinnar. Ekkert er því til fyrirstöðu að fulltrúaráðsmaður selji eignarhlut sinn í sparisjóði.
    Verði fulltrúaráðsmenn færri en 30 skal fjölga í ráðinu skv. b-lið 3. gr. frumvarpsins. Um það val fer skv. 22. gr. laga nr. 33/1999. Þar segir að í samþykktum skuli kveðið á um val og starfstíma fulltrúaráðsins og hlutverk eða starfssvið þess sem skal meðal annars velja í stjórn í samræmi við ákvæði samþykkta, vera tengiliður milli stofnenda og stjórnar eftir því sem við á, fylgjast með rekstri stofnunarinnar og hafa þá eftirlit með því hvernig stjórn og framkvæmdastjóri, ef til er, ráða málum hennar, þar með töldum fjármunum, og setja stofnuninni nauðsynlegar starfsreglur.

     12.      Hvaða aðrar leiðir telur ráðuneytið að sé hægt að nota til að velja í fulltrúaráðið og stjórn sparisjóða, sem betur þjóni viðskiptalegum sjónarmiðum og almannahagsmunum?
    Ráðuneytið telur enga leið þjóna betur viðskiptalegum sjónarmiðum og almannahagsmunum. Nefndin sem vann að gerð frumvarpsins velti því fyrir sér hvort aðrir aðilar væru betur til þess fallnir að skipa í fulltrúaráð sjálfseignarstofnunar. Í því sambandi má geta þess að í Danmörku var farin sú leið að stjórn sparisjóðs skipar meiri hluta í stjórn sjálfseignarstofnunar. Í ferð sparisjóðanefndarinnar til Danmerkur sl. haust kom fram mikil gagnrýni á það fyrirkomulag. Eins og rakið var í svari við síðustu spurningu taldi nefndin eðlilegast að þeir sem hefðu staðið að uppbyggingu sparisjóðs mynduðu fulltrúaráð sjálfseignarstofnunarinnar.

     13.      Er með frumvarpinu verið að skjóta lagalegum stoðum undir eign og ráðstöfunarvald á öllum eignum sparisjóða við tiltekinn uppgjörstíma til handvalinna stofnfjáreigenda, þar sem fulltrúaráðum sem virðast endurnýjast innan frá er afhent ráðstöfunarvald yfir milljörðum króna, og í sumum tilvikum tugmilljarða, í eignum viðkomandi sparisjóðs?
    Með frumvarpinu er verið að gera sparisjóðum kleift að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag í því skyni að auðvelda þeim að afla sér nýs eigin fjár og bæta samkeppnisstöðu þeirra. Sá hluti eigin fjár sparisjóðs sem stofnfjáreigendur geta ekki gert tilkall til verður eign sjálfseignarstofnunar. Í fulltrúaráði sjálfseignarstofnunarinnar sitja þeir aðilar sem byggt hafa upp sparisjóðinn í gegnum tíðina. Um sjálfseignarstofnunina gilda almenn lög.

     14.      Hverjir eru hinir raunverulegu eigendur að öllu núverandi stofnfé, eigin fé og eignum og verðmætum sparisjóðanna?
    Í töflu á bls. 7 í almennum athugasemdum við frumvarpið kemur fram að í árslok 1999 nam stofnfé um 1.500 millj. kr. af samanlögðu 10.600 millj. kr. eigin fé sparisjóðanna, eða um 14%. Stofnfjáreigendur geta því gert tilkall til um 14% eigin fjár sparisjóðanna. Að öðru leyti vísast til svars við 9. spurningu.

     15.      Er það eðlilegt að sparisjóðsstjórn geti ákveðið hvort hún sjálf eða aðrir megi selja stofnbréf?
    Í 18. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði segir að sala eða annað framsal stofnfjárhlutar í sparisjóði sé óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Þetta ákvæði kemur til af sérstöku eðli sparisjóðanna, þ.e. ekki var gert ráð fyrir því að stofnfjárbréf gengju kaupum og sölum á markaði. Í 20. gr. er síðan kveðið á um í hvaða tilvikum stjórn sparisjóðs er heimilt og skylt að innleysa stofnfjárhluti. Í 1. gr. frumvarpsins eru heimildir stjórnar sparisjóðs til að innleysa stofnfjárhluti rýmkaðar verulega.

     16.      Geta stofnfjáreigendur framselt stofnfé til erfingja?
    Samkvæmt 18. gr. gildandi laga er framsal ekki heimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Stjórn sparisjóðs er síðan skv. 1. mgr. 20. gr. heimilt að innleysa stofnfjárhlut við andlát stofnfjáreiganda.

     17.      Getur stjórn sparisjóðs heimilað að einhver stór aðili kaupi alla hluthafa út?
    Fyrrnefnt ákvæði 18. gr. laganna á ekki við um sparisjóði sem breyta sér í hlutafélög, sbr. 10. mgr. a-liðar 3. gr. frumvarpsins. Um hlutafélagið gilda reglur um hlutafélagsbanka og ákvæði hlutafélagalaga að öðru leyti en því að 5% atkvæðatakmörkun er í sparisjóði sem breytt hefur rekstrarformi sínu. Stjórn sparisjóðs sem rekin er í formi hlutafélags hefur því enga beina aðkomu að viðskiptum með bréf félagsins.

     18.      Er nokkuð því til fyrirstöðu að opna hóp stofnfjáreigenda um einhvern tiltekinn tíma fyrir almenningi áður en sparisjóð er breytt í hlutafélag?
    Nei. Það er sparisjóðum í sjálfsvald sett hvort þeir opni hóp stofnfjáreigenda áður en sparisjóði er breytt í hlutafélag.

     19.      Er eðlilegt að heimila að leggja ákveðinn hluta hagnaðar á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda sem sjálfir hafa ekki lagt fram nema lítinn hlut af eigin fé sparisjóðanna?
    Þessari breytingu er ætlað að bæta stöðu þeirra sparisjóða sem líklegt má telja að hafi ekki áhuga á að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Markmiðið er að gera stofnfjárbréf að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti með því að auka arðsvon stofnfjáreiganda.

     20.      Hve há eru stofnframlög allra stofnfjáreigenda, 4.133 talsins, af eigin fé sparisjóðanna?
    Endurmetið stofnfé allra stofnfjáreigenda er samtals um 1.500 millj. kr. miðað við árslok 1999. Ekki er vitað hvernig sú tala skiptist á milli upphaflegs stofnfjár og endurmats.

     21.      Hvað forsendur liggja að baki þess að heimilt skuli að greiða arð þótt tap sé á rekstri sparisjóða og er hægt að benda á fordæmi fyrir því, t.d. í hlutafélagalöggjöfinni? Telur ráðuneytið slíkt eðlilegt út frá viðskiptalegum sjónarmiðum og almannahagsmunum, t.d. hagsmunum innistæðueigenda?
    Markmiðið með þessu ákvæði er að gera sparisjóðum kleift að þróa skýra arðgreiðslustefnu og jafna arðgreiðslur á milli ára. Arðgreiðslan takmarkast þó við ákvörðun öryggissjóðs. Það skal tekið fram að þetta ákvæði á einungis við um þá sparisjóði sem ekki breyta rekstrarformi sínu.
    Ákvæðið er mun nær hlutafélagalögum en gildandi ákvæði. Hlutafélög geta greitt arð þótt tap sé á rekstri félagsins, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í 99. gr. hlutafélagalaga segir að einungis sé heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta árs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað.

     22.      Hver tekur ákvörðun og hvaða reglur munu gilda ef sjálfseignarstofnun er slitið um hvernig fjármagni verður ráðstafað til menningar- og líknarmála á svæðinu?
    Tveir þriðju hlutar fulltrúaráðsmanna geta tekið ákvörðun um slit sjálfseignarstofnunar. Breyting á samþykktum krefst einnig atkvæða 2/ 3 hluta fulltrúaráðsmanna. Sé stofnun leyst upp skal farið eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, eftir því sem við getur átt, sbr. 36. gr. laga nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.Fylgiskjal II.


Hugmynd ríkisskattstjóra að breytingum á frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.
(7. maí 2001.)


    Efnahags- og viðskiptanefnd óskaði eftir að ríkisskattstjóri gerði nánar grein fyrir þeim hugmyndum að breytingum á frumvarpinu, sem vikið var að í umsögn embættisins í bréfi dags 25. apríl sl., og jafnframt voru framsendar fyrirspurnir frá nefndarmanni.
    Í umsögn ríkisskattstjóra var vikið að nokkrum atriðum sem að mati hans væri til bóta að breyta eða kveða á um í frumvarpinu. Í fyrsta lagi að kveðið verði á um það í lögum hvert skuli vera stofnverð hlutabréfa í hendi væntanlegra hluthafa. Í öðru lagi að fallið verði frá því að fyrirhugaðar sjálfseignarstofnanir verði skattfrjálsar og í þriðja lagi því tengt að kveðið verði á um að afhending hlutabréfa í hlutafélagssparisjóði til þessara sjálfseignarstofnana við stofnun þeirra verði ekki skattskyldar tekjur í hendi þeirra. Fara hér á eftir hugmyndir að breytingu á frumvarpinu, útfærðar eftir því sem unnt hefur verið á þeim tíma sem til ráðstöfunar hefur verið. Enn fremur er hér að finna útfærslu á því að árleg úthlutun hagnaðar til almannaheilla verði skattfrjáls, tillaga þess efnis var ekki í umsögn ríkisskattstjóra en kemur fram í erindi nefndarmanns sem framsent var ríkisskattstjóra. Fara hugmyndir um breytingar á frumvarpinu hér á eftir.

Hugmyndir um breytingar á frumvarpinu.
     1.      Síðasti málsliður 4. mgr., b-liðar 3. gr. falli niður.
     2.      Við frumvarpið bætist svohljóðandi grein:
             Við sölu hlutabréfa í sparisjóði, sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessara laga skal skattskyldur söluhagnaður vera söluverð bréfanna að frádregnu kaupverði þeirra. Kaupverð hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda skal ákveðið sem stofnfé sjóðsins, endurmetið til ársloka 1996 skv. 23. gr. að viðbættu því stofnfé sem greitt hefur verið inn á stofnfjárreikninga frá þeim tíma og þar til sparisjóðnum var breytt í hlutafélag. Kaupverð hlutabréfa í sparisjóði í eigu sjálfseignarstofnunar ákvarðast sem raunvirði hreinnar eignar sparisjóðsins við breytingu hans í hlutafélag að frádregnu kaupverði hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda, sbr. framangreint. Raunvirði hreinnar eignar skal ákveðið samkvæmt þeim reglum sem gilda um ákvörðun á jöfnunarverðmæti hlutabréfa, sbr. 3. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981. Kaupverð hlutabréfa í eigu rekstraraðila skal hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til söluárs enda séu hlutabréfin eignfærð í atvinnurekstrinum.
                  Ef sparisjóði er breytt í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessara laga skal sú breyting ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir sparisjóðinn, hlutafélagið eða hluthafa í því þ.m.t. sjálfseignarstofanir þær sem verða hluthafar í sparisjóðnum.
                  Fjárhæð sem sjálfseignarstofnun skv. 37. gr. laga þessara úthlutar af rekstrarhagnaði ársins í samræmi við 4. mgr. þeirrar greinar skal heimilt að draga frá tekjuskattsstofni á því ári.

Skýringar við 2. tölul.:
    Með 1. mgr. er stofnverð hlutabréfa í sparisjóði ákveðið með hliðstæðum hætti og nú gildir um hlutabréf almennt. Stofnverð í hendi einstaklings er framreiknuð framlög til ársloka 1996 en eftir það er það kaupverð framlaga, þ.e. framlögin sjálf, hvort sem þau hafa verið greidd af stofnfélaga eða lögð á stofnfjárreikning af sparisjóðnum. Stofnverð bréfa í höndum rekstraraðila, þ.m.t. sjálfseignarstofnunarinnar, er ákveðið sem mismunur á raunvirði hreinnar eignar og jöfnunarverðmæti hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda og með sama hætti og hjá öðrum rekstraraðilum tekur það verðlagsbreytingum eftir það. Hjá þeim er skattskyldur söluhagnaður lægri en hjá einstaklingum, sem nemur verðlagsbreytingum.
    Með 2. mgr. er því náð að við afhendingu á hlutabréfum til stofnfjáreigenda og til sjálfseignarstofnunarinnar stofnast ekki til skattskyldu hjá þeim eða hlutafélaginu sem tekur við skattalegum skyldum og réttindum sparisjóðsins.
    3. mgr. felur í sér að sá hluti tekna sjálfseignarstofnunarinnar sem varið er á hverju ári til almannaheilla í samræmi við ákvæði laganna verður ekki skattlagður.
    Það skal tekið fram að án breytingar skv. 1. tölul., þ.e. að sjálfseignarstofnanirnar verði skattskyldar eins og kveðið er á um í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, er engu að síður nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að kveða á um hvernig stofnverð hlutabréfa í hendi stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunar skuli ákveðið með þeim hætti sem lagt er til í 1. mgr. 2. tölul. eða sambærilegum hætti.

Svör við fyrirspurnum.
    Erindi nefndarinnar fylgdu fyrirspurnir nefndarmanns, Jóhönnu Sigurðardóttir, og var óskað eftir að þeim yrði svarað. Svör, eftir því sem unnt hefur verið að vinna þau á þeim takmarkaða tíma sem gafst, fara hér á eftir.
    Spurt er hvað áhrif það hafi ef ekki verður ákveðið í lögum hvert stofnverð hlutabréfa í hendi stofnfjáreigenda skuli vera. Áhrifin yrðu fyrst og fremst óvissa þar sem færa má rök að mismunandi stofnverði í skattalegum tilgangi, svo sem að það skuli vera nafnverð innborgaðs stofnfjár, uppfært með verðlagsbreytingum til ársloka 1996 eða til þess tíma að sparisjóði er breytt, eða nafnverð væntanlegra hlutabréfa. Við sölu stofnfjáreigenda á hlutabréfunum yrði söluhagnaðurinn afar mismunandi eftir því hver niðurstaðan yrði. Enn fremur er ekki án lagaákvæða ljóst hvert stofnverð hlutabréfa í hendi sjálfseignarstofnana verður. Ákvörðun stofnverðs er nauðsynleg hvort sem stofnanir þessar bera almennan tekjuskatt eða ekki.
    Spurt er hvert yrði skattalegt tap ríkis og sveitarfélaga af óbreyttu frumvarpi. Til svars við þessari spurningu liggja ekki fyrir upplýsingar aðrar en þær sem koma fram í frumvarpinu og í fyrirspurninni og hefur ríkisskattstjóri ekki lagt mat á réttmæti þeirra. Eins og fram kom í umsögn ríkisskattstjóra er skattalegt tap fólgið í því að við útborgun hagnaðar úr hlutafélögum þeim sem stofnuð verða fellur niður skattur á hluthafa í formi sjálfseignarstofnunar. Var þá miðað við að skattfrelsisákvæðið tæki til alls tekjuskatts, m.a. skatts á fjármagnstekjur. Skattur af arði sem greiddur yrði skattskyldri sjálfseignarstofnun yrði 10% af arðinum skv. 3. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981 en aðrar tekjur hennar, svo sem söluhagnaður af eignum, þar á meðal hlutabréfum, og vaxtatekjur, t.d. af verðbréfum, yrðu skattlagðar samkvæmt almennum reglum. Ef miðað er við að markaðsverð sparisjóðanna sé um 19 milljarðar kr., eins og fram kemur í fyrirspurninni, og að bókfært eigið fé sé um 11 milljarðar kr., eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins, má líta á mismuninn, um 8 milljarða kr., sem óskattlagðan hagnað sem með tímanum rennur til eigenda. Í hlut sjálfseignarstofnana kæmu tæplega 9 milljarðar kr. af þeirri fjárhæð. Sé gert ráð fyrir að hagnaðurinn raungerist fyrst í hendi hlutafélagsins en sé síðan greiddur sem arður til eigenda yrðu skattar sjálfseignarstofnananna um 560 millj. kr. Með sölu hlutabréfanna yrðu fjárhæðir þessar hærri. Verði sjálfseignarstofnanirnar skyldar til að greiða skatt af fjármagnstekjum en skattfrjálsar að öðru leyti mundu skattar þeirra af arðstekjum verða óbreyttar og framangreint skattatap hyrfi að mestu en einhverju gæti munað í sköttum af öðrum tekjum. Ekki er séð að um verði að ræða skattalegt tap fyrir sveitarfélögin.
    Spurt er hver yrði skattalegur ávinningur núverandi stofnfjáreigenda ef frumvarpið verður óbreytt að lögum. Ekki verður séð að núverandi stofnfjáreigendur sem væntanlegir hluthafar muni hafa beint skattalegt hagræði af því að sjálfseignarstofnanirnar sem eiga hlutafé á móti þeim verði skattfrjálsar.
    Spurt er hverju það breyti ef sjálfseignarstofnanirnar greiða eingöngu fjármagnstekjuskatt. Eins og fram hefur komið liggur munurinn í því að sem skattskyldur aðili mundi sjálfseignarstofnunin greiða almennan skatt af öllum sínum tekjum nema arði, sem bæri 10% skatt. Þá er á sá munur að hjá skattskyldum rekstraraðila er stofnverð hlutabréfa í eigu hans framreiknað miðað við verðlagsbreytingar þegar söluhagnaður er ákveðinn og skattstofninn því lægri en hann er hjá skattfrjálsum aðila. Enn fremur getur skattskyldur aðili dregið rekstrarkostnað frá tekjum sínum áður en skattur er reiknaður. Auk þessa mundi sjálfseignarstofnun greiða eignarskatt en í því sambandi þarf að hafa í huga að skattstofninn yrði nafnverð hlutabréfa í eigu hennar. Líklegt er að skattgreiðslur sjálfseignarstofnana yrðu lægri ef þær sættu almennri skattlagningu en óvíst að sá munur yrði mikill.
    Spurt er hvaða fordæmi það gæfi að hafa skattamál sjálfseignarstofnana eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Að mati ríkisskattstjóra felst alvarlegasta fordæmið í því að með því yrði vikið frá grundvallarreglum og sjónarmiðum í skattalögunum. Samkvæmt þeim eru allir einstaklingar skattskyldir, svo og lögaðilar, félög, sjóðir o.s.frv. sem reka atvinnu. Frávik frá skattskyldunni (sbr. 4. gr. laga nr. 75/1981) eru tiltölulega fá og þau sem til eru styðjast við ákveðin efnisleg rök en byggjast ekki á vildarsjónarmiðum ef frá er talin undanþága vegna almannaheilla sem eins og fram hefur komið getur ekki átt við sjálfseignarstofnanir þær sem um ræðir. Þessi grundvallarsjónarmið eru afar mikilvæg fyrir alla skattframkvæmd og er þess skemmst að minnast að skattfrelsi forseta Íslands var afnumið með tilliti til þeirra. Annað fordæmi felst í því að með skattareglum er verið að mismuna aðilum sem að flestu er eins ástatt um. Í reynd eru þær sjálfseignarstofnanir sem um ræðir ekkert annað en eignarhalds- eða fjárfestingarfélög en mundu njóta hagstæðari skattalegrar meðferðar en önnur slík félög.
    Að lokum er spurt hvernig skattlagningu sparisjóðanna sé nú háttað. Sparisjóðir eru skattlagðir eftir sömu reglum og gilda um hlutafélög og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð. Skatthlutfallið er 30%. Arður til stofnfjáreigenda, hvort sem hann er greiddur út eða er lagður á stofnfjárreikning, er skattlagður hjá eiganda með 10%.
    Afrit af skeyti þessu er sent fjármálaráðuneytinu en því hafa áður verið send aðalatriði í hugmyndum að lagabreytingunum.

Virðingarfyllst,
Indriði H. Þorláksson.