Ferill 667. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1229  —  667. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 66/1995, um grunnskóla, með síðari breytingum.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðna Olgeirsson frá menntamálaráðuneyti, Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur frá Félagi grunnskólakennara og Þórð Skúlason og Birgi Björn Sigurjónsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Frumvarpið er lagt fram í samræmi við sameiginlegar tillögur launanefndar sveitarfélaga, Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands frá 13. mars 2001 í tengslum við nýgerðan kjarasamning sveitarfélaganna og Kennarasambands Íslands. Með frumvarpinu eru ákvæði er lúta að umboði skólastjóra og ábyrgð gagnvart sveitarstjórn á starfsemi grunnskóla gerð skýrari. Kveðið er á um níu mánaða lágmarksstarfstíma nemenda á hverju skólaári í stað afdráttarlauss ákvæðis um að starfstími grunnskóla sé níu mánuðir á ári. Þá er heimilað að víkja frá ákvæðum um lögbundnar dagsetningar jóla- og páskaleyfa nemenda sem eru frá og með 21. desember til og með 3. janúar og frá pálmasunnudegi til og með þriðjudegi eftir páska. Ef slík frávik eru ákveðin ber að geta þess í skólanámskrá og er við slík frávik ekki heimilt að skerða lögboðinn hvíldartíma nemenda á skólaárinu. Jafnframt er heimilað að veita nemendum sem hafa annað móðurmál en íslensku undanþágu frá því að þreyta samræmd próf í íslensku í 4. og 7. bekk og undanþágu frá því að þreyta samræmd próf í stærðfræði í 4. og 7. bekk hafi þeir dvalið skemur á landinu en eitt ár.
    Einar Már Sigurðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.


Alþingi, 7. maí 2001.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Tómas Ingi Olrich.



Ólafur Örn Haraldsson.


Árni Johnsen.


Kolbrún Halldórsdóttir.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.