Ferill 687. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1252  —  687. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um. breyt. á l. nr. 88/1991, með aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Í þeim lögum er kveðið á um innheimta ýmiss konar gjalda sem renna í ríkissjóð.
    Með breytingunum, sem lagðar eru til í frumvarpinu, er verið að lögfesta ýmsar gjaldtökuheimildir fyrir embættisverk starfsmanna utanríkisþjónustunnar sem áður mátti finna í reglugerð. Þá er lagt til að lögfestar verði heimildir til gjaldtöku fyrir vegabréfsáritanir sem byggjast á reglum Schengen-samstarfsins. Einnig er tillaga um að öryrkjar greiði sama gjald og aldraðir fyrir útgáfu vegabréfa.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd leggjast ekki gegn því að ákveðið gjald sé tekið fyrir þá þjónustu sem veitt er af ríkinu. Samfylkingin telur hins vegar eðlilegra að slík gjöld endurspegli þann kostnað sem ríkið ber vegna þeirrar þjónustu sem veitt er hverju sinni.
    Ef lög um aukatekjur ríkissjóðs eru skoðuð má draga verulega í efa að þær upphæðir sem finna má í einstökum greinum laganna endurspegli sanngjarnt gjald fyrir veitta þjónustu. Hjá fulltrúa fjármálaráðuneytis kom einnig fram að engin slík skoðun hefði farið fram á þeirri gjaldtöku sem lögin um aukatekjur ríkissjóðs fela í sér né heldur á þeim breytingum sem nú er lagt til að gerðar verði á lögunum.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar átelja harðlega að ekki skuli hafa farið fram endurskoðun á lögum um aukatekjur ríkissjóðs til að kanna hvort þær tekjur sem þar er gert ráð fyrir að renni í ríkissjóð endurspegli þann kostnað sem ríkið verður fyrir vegna veittrar þjónustu. Ekki síst er þetta ámælisvert í ljósi þess að 8. maí 1993 var afgreidd frá Alþingi þingsályktun frá Jóhanni Ársælssyni þar sem ríkisstjórninni var falið að láta fara fram endurskoðun á aukatekjum ríkissjóðs. Í ályktuninni, sem samþykkt var og greinargerð sem með henni fylgdi, segir:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram endurskoðun á aukatekjum ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana.
    Markmið endurskoðunarinnar verði að gera skýran greinarmun á skattheimtu og gjaldtöku fyrir veitta þjónustu sem hið opinbera ákveður að innheimta. Skal við það miðað að þjónustugjöld, sem eru innheimt vegna tiltekinnar þjónustu, séu metin sem hlutdeild í þeim kostnaði sem af þjónustunni hlýst eða hluti þess kostnaðar en aldrei hærri.
    Ákveði hið opinbera að leggja gjald á tiltekna þjónustu umfram kostnaðinn við að veita hana skal koma skýrt fram við innheimtu hve há slík skattlagning er.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 115. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu úr nefnd og er því endurflutt.
    Margvísleg gjaldtaka er viðhöfð í stofnunum ríkisins, t.d. fyrir vottorð, leyfi, skírteini, þinglýsingar og stimpilgjöld, svo og þjónustugjöld stofnana af ýmsu tagi. Mjög mikilvægt er að opinberir aðilar innheimti aldrei óeðlilega há gjöld fyrir veitta þjónustu. Gjöld, sem innheimt eru vegna tiltekinnar þjónustu, skulu þess vegna vera metin sem hlutdeild í henni eða hluti þess kostnaðar, en aldrei hærri.
    Ýmis gjöld, sem hér er vísað til, eru það há að þau geta ekki verið eðlilegt endurgjald fyrir þjónustu og verður því að líta svo á að um skattlagningu sé að ræða. Full ástæða er til að meta að nýju hvort eðlilegt sé að ríkið noti sér ýmis þessara gjalda til sérstakrar tekjuöflunar. Það að taka háar fjárhæðir í ríkissjóð í stimpilgjöld eða fyrir skírteini, leyfi eða þjónustu án tillits til efnahags eða ástæðna þeirra er í hlut eiga er brot á þeim réttlætisviðhorfum sem ríkja skulu við ákvörðun skattstofns.
    Það kemur mörgum undarlega fyrir sjónir að hið opinbera skuli á tíðum innheimta gjöld af ýmsu tagi sem augljóslega eru óeðlilega há miðað við þá þjónustu sem veitt er. Þegar aftur á móti kemur að samningum um kaup og kjör eða önnur viðskipti milli almennra borgara landsins þykir sú regla sjálfsögð að full þjónusta sé veitt fyrir endurgjaldið og full rök séu færð fyrir þeim kröfum sem gerðar eru. Þá er einnig í ljósi þeirrar stefnu núverandi stjórnvalda að innheimta þjónustugjöld af ýmsu tagi í miklu meira mæli en áður ástæða til að gera aðgengilegar upplýsingar um hve stóran hlut menn greiða í þeirri þjónustu sem veitt er af hinu opinbera í hverju einstöku tilviki.
    Almenn viðhorf til viðskipta milli aðila og nauðsyn á rökstuddri réttlætingu á gerðum hins opinbera kallar á aðgerðir í þessu efni.“
    Átta ár eru liðin frá því að Alþingi samþykkti þessa ályktun án þess að ríkisstjórnin hafi sinnt því hlutverki sem henni er ætlað, þ.e. að taka lög um aukatekjur ríkissjóðs til gagngerrar endurskoðunar.
    Frá því að þingsályktunin var samþykkt hafa verið lagðar til breytingar á lögunum, lögð til ný gjaldtaka, án þess að ljóst sé hvort hún er í takt við þann sannanlega kostnað sem fellur til þegar þjónustan er veitt. Engin slík sundurliðun fylgdi þeim breytingum sem nú er lagt til að gerðar verði á lögunum.
    Samfylkingin átelur þessi óvönduðu vinnubrögð harðlega og mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. maí 2001.



Margrét Frímannsdóttir,


frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.