Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1253  —  345. mál.




Nefndarálit



um frv. til breyt. á l. um tóbaksvarnir, nr. 74/1984, sbr. lög nr. 101/1996.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein Njálsson og Þorgrím Þráinsson frá tóbaksvarnanefnd, Jakob Möller frá Lögmannafélagi Íslands, Örn Sigurbergsson frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Guðrúnu Ástu Sigurðardóttur frá Samtökum verslunarinnar, Skúla Skúlason og Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Ernu Hauksdóttur frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ástríði Thorsteinsson frá Flugmálastjórn, Herdísi Sveinsdóttur og Guðrúnu Jónsdóttur frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Guðlaugu Guðjónsdóttur frá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur, Guðrúnu Agnarsdóttur, formann Krabbameinsfélags Íslands, og Eyjólf Sæmundsson, forstjóra Vinnueftirlitsins. Jafnframt bárust nefndinni umsagnir um málið frá Flugleiðum hf., Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi, Flugmálastjórn, Samtökum ferðaþjónustunnar, Heilbrigðiseftirliti Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Flugfélaginu Atlanta hf., Vinnueftirliti ríkisins, laganefnd Lögmannafélags Íslands, Krabbameinsfélaginu, landlæknisembættinu, Barnaheillum, landssamtökunum Heimili og skóli, Landssamtökum hjartasjúklinga, Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, héraðslækni Suðurlands, héraðslækni Vesturlands, Landssambandi eldri borgara, héraðslækni Reykjaneshéraðs, tóbaksvarnanefnd, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra, Samtökum verslunarinnar, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Læknafélagi Íslands, Félagi íslenskra heimilislækna, Samtökum verslunar og þjónustu, Hollustuvernd ríkisins, Verslunarráði Íslands og Samtökum atvinnulífsins.
    Í frumvarpinu er kveðið á um hertar tóbaksvarnir í landinu og aukin réttindi þeirra sem ekki reykja. Meðal helstu nýmæla frumvarpsins má nefna að réttur fólks til reyklauss andrúmslofts er viðurkenndur og sérstaklega kveðið á um rétt barna og skal tóbaki vera þannig fyrir komið á útsölustöðum að það sé ekki sýnilegt viðskiptavinum. Þá er yngra fólki en 18 ára óheimilt að selja tóbak nema heilbrigðisnefnd á viðkomandi svæði veiti sérstaka undanþágu og sérstakt leyfi þarf til að selja tóbak í smásölu. Enn fremur eru heimildir til að leyfa reykingar á veitingastöðum þrengdar, hótelum og gististöðum er gert skylt að hafa reyklaus herbergi og skýrt er kveðið á um bann við reykingum í öllum húsakynnum sem almenningur hefur aðgang að vegna þátttöku í menningar- og félagsstarfsemi. Þá eru fjárveitingar til tóbaksvarna auknar og kveðið á um heimild til að svipta leyfishafa leyfi gerist hann brotlegur við 8. gr. laganna.
    Reykingar og þau áhrif sem þær hafa á heilsu manna er eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál sem þjóðir heims glíma við nú og er Ísland þar engin undantekning. Mikið hefur þó áunnist í baráttunni við þennan skaðvald á undanförnum árum og hefur ýmsum aðferðum verið beitt í þeim efnum. Lög um tóbaksvarnir hafa haft mikið að segja um þann árangur og telur nefndin nauðsynlegt að herða róðurinn í þeim efnum svo að frekari árangur megi nást.
    Til umfjöllunar í nefndinni er nú tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Forgangsverkefni númer eitt samkvæmt tillögunni miðar að því að hlutfall fólks á aldrinum 18–69 ára sem reykir verði undir 15% og jafnframt að hlutfall barna og unglinga 12–17 ára sem reykja verði undir 5%. Meðal annarra forgangsverkefna má nefna að stefnt er að því að draga úr dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma hjá fólki á aldrinum 25–74 ára um 20% hjá körlum og 10% hjá konum og einnig er stefnt að því að dánartíðni vegna krabbameins hjá fólki yngra en 75 ára lækki um 10%.
    Reykingar eru stór áhættuþáttur varðandi margar tegundir krabbameins og sá stærsti í sumum þeirra, t.d. lungnakrabbameini, og sama er að segja um hjarta- og æðasjúkdóma. Ef umrædd heilbrigðisáætlun á að verða meira en orðin tóm er nauðsynlegt að grípa til markvissra aðgerða á hinum ýmsu sviðum sem snerta heilbrigðismál og forvarnir. Frumvarp það sem hér liggur fyrir er skref í þá átt.
    Nefndin telur að þau nýmæli sem í frumvarpinu felast séu til þess fallin að draga úr reykingum og þá sérstaklega reykingum barna og unglinga og um leið stuðli þau að því að markmið heilbrigðisáætlunar megi nást.
    Nefndin vill benda á að sýnt hefur verið fram á að hækkun tóbaksverðs sé áhrifaríkasta leiðin til að draga úr reykingum. Vægi tóbaksverðs í vísitölu neysluverðs gerir það að verkum að allar hækkanir á tóbaksverði leiða til hækkunar á vísitölunni og hefur af þeim sökum m.a. gætt tregðu til að hækka tóbaksverð. Nefndin hvetur til þess að skoðað verði rækilega hvort unnt sé að rjúfa tengsl tóbaks og vísitölu þannig að unnt sé að beita verðhækkunum á tóbaki sem þætti í tóbaksvörnum án þeirra neikvæðu hliðarverkana sem hækkun neysluvísitölu óneitanlega hefur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að í 3. efnismgr. c-liðar 6. gr. frumvarpsins, þar sem kveðið er á um að tóbaki skuli komið þannig fyrir á útsölustöðum að það sé ekki sýnilegt viðskiptavinum, verði jafnframt kveðið á um að vörumerki tóbaks verði ekki sýnileg viðskiptavinum.
     2.      Lagt er til að áður en reglugerð um undanþágur, sbr. 1. efnismgr. b-liðar 7. gr., er sett, skuli leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins. Hagir barna og ungmenna á vinnumarkaði eru á starfssviði Vinnueftirlitsins og því eðlilegt að það komi að reglusetningu um þetta efni.
     3.      Lagt er til að tóbakssöluleyfi verði veitt til fjögurra ára í senn en ekki fimm eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Almenn starfsleyfi heilbrigðisnefnda eru gefin út til fjögurra ára í senn og er eðlilegt að samræmi sé þarna á milli.
     4.      Lögð er til breyting á b-lið 9. gr. frumvarpsins. Lagt er til að þeir fangar sem ekki reykja eigi rétt á reyklausum fangaklefum. Í núgildandi lögum er kveðið á um slíkan rétt vistmanna á hjúkrunar- og dvalarheimilum og þykir nefndinni rétt að fangar sem ekki reykja hafi þennan sama rétt.
     5.      Jafnframt er lagt til að d-liður 9. gr. frumvarpsins falli brott. Í d-lið er lagt til að heimild til að gera ráð fyrir afdrepi þar sem reykingar eru heimilaðar, innan annarra opinberra stofnana en þeirra sem um getur í 1. mgr. 10. gr. laganna, verði felld niður. Nefndin bendir á að hér sé einungis um heimild að ræða og það sé í höndum hverrar stofnunar fyrir sig að meta hvort ástæða sé til að útbúa slík afdrep. Niðurfelling þessarar heimildar mun að sinni einungis auka það ónæði sem fylgir reykingum starfsfólks, m.a. við innganga stofnana.
     6.      Lagðar eru til breytingar á 12. gr. frumvarpsins. Ef greinin yrði samþykkt óbreytt fæli hún í sér að reykingar yrðu óheimilar í flugi íslenskra flugrekenda milli áfangastaða erlendis, án viðkomu á Íslandi. Slíkt fæli í sér skerðingu á samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga við öflun erlendra leiguverkefna og gæti haft ófyrirséð tekjutap í för með sér fyrir viðkomandi flugfélög. Sterk hefð er fyrir því víða erlendis að reykingar séu leyfðar í flugi og ekki á okkar færi að breyta því. Það er því lagt til að reykingar verði leyfðar í hluta farþegarýmis í atvinnuflugi milli þriðju ríkja.
                  Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 13. gr. tóbaksvarnalaga tekur reykingabann í almenningsfarartækjum aðeins til farþegarýmis viðkomandi farartækja. Lagt er til að þessu verði breytt þannig að bannið taki til alls rýmis í almenningsfarartækjum. Í þessu sambandi má benda á að samkvæmt núgildandi lögum er ekki bannað að reykja á salerni farþegaflugvélar eða í stjórnklefa hennar því þessi svæði teljast ekki til farþegarýmis í merkingu þess orðs. Flugfélögin hafa hins vegar sjálf lagt bann við reykingum á þessum stöðum.
     7.      Loks er lagt til að lögin taki gildi 1. ágúst nk. í stað 1. júní, svo að nægur tími gefist til að undirbúa reglugerðir og til útgáfu tóbakssöluleyfa.
    Ásta R. Jóhannesdóttir, Karl V. Matthíasson og Þuríður Backman skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og gera breytingartillögur við málið.

Alþingi, 9. maí 2001.



Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Tómas Ingi Olrich.


Katrín Fjeldsted.



Þuríður Backman,


með fyrirvara.

Ásta Möller.


Karl V. Matthíasson,


með fyrirvara

Magnús Stefánsson.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.