Ferill 705. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1262  —  705. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um eftirlit á nektarstöðum.

     1.      Hvað líður afgreiðslu á tillögu samstarfsnefndar Reykjavíkurborgar, dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og samgönguráðuneytis um endurskoðun á reglugerð nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum, í framhaldi af breytingum á lögum nr. 67/1985, um veitinga- og gististaði, með það að markmiði að kveða nánar á um og auðvelda eftirlit lögreglu með starfsemi veitingastaða, þar á meðal nektarstaða?
    Eftir að samstarfsnefnd Reykjavíkurborgar, dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og samgönguráðuneytis skilaði tillögum sínum var strax hafist handa í dómsmálaráðuneytinu við að afgreiða þá tillögu nefndarinnar er laut að endurskoðun reglugerðar nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum. Þegar sú vinna hófst í ráðuneytinu kom í ljós að í raun þyrfti að setja reglugerð um lögreglusamþykktir en ekki að endurskoða reglugerð nr. 587/1987. Ástæður þessa eru eftirfarandi: Reglugerð nr. 587/1987 er sett á grundvelli laga nr. 120/1947, um heimild til þess að marka skemmtunum og samkomum tíma. Í þeim lögum er ákvæði þess efnis að þau falli úr gildi þegar reglugerð um lögreglusamþykktir tekur gildi en lög um lögreglusamþykktir, nr. 36/1988, kveða á um að slík reglugerð skuli sett. Í 2. gr. þeirra laga segir að ráðherra setji reglugerð um lögreglusamþykktir sem vera skuli fyrirmynd að lögreglusamþykktum sveitarfélaganna. Reglugerðin komi í stað lögreglusamþykktar þar sem lögreglusamþykkt er ekki sett. Í 8. gr. laganna er svo kveðið á um að reglugerð um lögreglusamþykktir skuli setja sem fyrst eftir gildistöku laganna og skuli hún taka gildi þegar liðnir eru sex mánuðir frá birtingu hennar. Nefnd reglugerð um lögreglusamþykktir hefur ekki enn verið sett.
    Sú ákvörðun var tekin í dómsmálaráðuneytinu að í stað þess að leggja tíma og vinnu í að endurskoða reglugerð nr. 587/1987, sem vart stæðist lengi, yrði hafist handa við að semja reglugerð um lögreglusamþykktir. Sú vinna er langt á veg komin. Í IV. kafla reglugerðardraga er kveðið á um veitingastaði, skemmtanahald o.fl. Þar er meðal annars kveðið á um opnunar- og lokunartíma veitingastaða, skemmtanahald og hvernig skemmtunum og öðrum samkomum skuli markaður tími. Tekið hefur verið tillit til tillagna samstarfsnefndarinnar við undirbúning reglugerðarinnar. Samning reglugerðar um lögreglusamþykktir er vitaskuld umfangsmikið verk þar sem að mörgu er að huga og hefur sú vinna reynst tímafrek. Þeirri vinnu er þó að mestu leyti lokið og má vænta lokadraga innan skamms.
    Þess ber að geta að nýlega var skipuð nefnd af hálfu dómsmálaráðherra í samráði við ríkisstjórn, sem hefur það hlutverk að bregðast við niðurstöðum tveggja skýrslna sem unnar voru á vegum dómsmálaráðherra og fjalla annars vegar um vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess og hins vegar um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl. Nefndin hefur tekið til starfa og eitt af viðfangsefnum hennar er að kanna hvort ástæða sé til að setja reglur um rekstur og starfsemi nektardansstaða.      2.      Í hverju felst eftirlit lögreglu með nektarstöðum og á hvaða hátt er það framkvæmt?
    Lögreglan hefur almennt eftirlit með veitingastöðum sem hafa vínveitingaleyfi, en þeir eru 420 í umdæminu. Þar af eru 205 skemmtistaðir og af þeim hafa 33 heimild til ótakmarkaðs afgreiðslutíma um helgar. Í umdæmi lögreglustjórans í Reykjavík eru nú starfandi 7 veitingastaðir sem bjóða gestum sínum nektardans og hafa fjórir þeirra heimild til ótakmarkaðs afgreiðslutíma um helgar.
    Eftirlit lögreglu með veitingarekstri snýr einkum að því að kanna hvort fylgt sé gildandi ákvæðum laga um veitingarekstur, svo sem um fjölda gesta og aldur þeirra. Eftirlit lögreglu er að mestu leyti í höndum þriggja eftirlitsmanna. Lögreglan hefur einnig haft samstarf við ýmsa þá aðila sem hafa eftirlitsskyldum að gegna með veitingarekstri. Þannig var í marsmánuði samstarf við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur um eftirlit.

Yfirlit yfir sérstakar eftirlitsferðir vegna nektardansstaða árið 2001.

Janúar Febrúar Mars Apríl

Samtals

Bóhem
4 4 1 1 10
Keikó/Clinton 2 1 4 3 10
Club Seven 3 1 2 1 7
Maxims 1 3 4 5 13
Óðal 1 2 3 1 7
Vegas 2 0 4 3 9
Þórskaffi 2 3 3 3 11
67

    Á yfirlitinu má sjá fjölda sérstakra eftirlitsferða lögreglu á þá skemmtistaði sem bjóða gestum nektardans. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2001 hafa verið farnar 67 slíkar ferðir. Að auki kanna lögreglumenn ýmis atriði sem varða veitingastaði samhliða því sem sinnt er beiðnum um aðstoð á viðkomandi staði. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins hefur einum framangreindra veitingastaða verið veitt áminning á grundvelli brota á áfengislögum og nokkur önnur mál eru til meðferðar vegna reksturs þeirra.
    Auk þessa eftirlits sem flokkast undir hefðbundið eftirlit hefur lögreglan haft uppi sérstakt eftirlit með framangreindum veitingastöðum til að fylgjast með atvinnuleyfum erlendra starfsstúlkna sem þar starfa. Á þessu ári hefur verið farin ein eftirlitsferð á alla staðina. Til einföldunar og skýringa má skipta nektardönsurum/starfsmönnum í þrjá hópa:
     1.      Íslenskar starfsstúlkur sem sýna nektardans. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir vegna þeirra starfa.
     2.      Einstaklinga sem koma frá EB-löndum eða Norðurlöndum. Þar eru könnuð ferðaskilríki og gerðar athugasemdir ef dvöl hefur verið lengri en þrír mánuðir því að þá þarf viðkomandi af afla sér dvalarleyfis. Engar athugasemdir voru gerðar af þessum sökum í fyrrgreindum eftirlitsferðum.
     3.      Einstaklinga utan EB-landa. Þeir þurfa að afla sér atvinnuleyfa. Í fyrrgreindum ferðum voru gerðar tvær athugasemdir. Í öðru tilvikinu var atvinnuleyfi útrunnið og í hinu hafði þess ekki verið aflað. Viðkomandi einstaklingum var gert að hætta þegar í stað og fóru af landi brott. Þau mál voru unnin í samvinnu við Útlendingaeftirlitið.

     3.      Hefur eftirlit verið aukið með nektarstöðum í kjölfar skýrslu dómsmálaráðherra um vændi? Ef svo er, hvernig er það framkvæmt?

    Enn sem komið er hafa engar breytingar verið gerðar á eftirliti með nektarstöðum, en sú nefnd sem getið var í 1. lið hefur til skoðunar hvort auka beri eftirlit með slíkum stöðum. Hlutverk nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi er meðal annars að fara yfir gildandi refsilög sem varða vændi og kynferðislega misnotkun, rannsókn og meðferð slíkra mála, þ.m.t. hjálparúrræði fyrir þolendur og hvort unnt sé að veita börnum og unglingum ríkari refsivernd á þessu sviði, og að kanna hvort ástæða sé til að setja reglur um rekstur og starfsemi nektardansstaða. Stefnt er að því að nefndin ljúki störfum nú í haust.