Ferill 707. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1267  —  707. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgönguráðuneytinu, Guðmund Ólafsson og Skarphéðin Steinarsson starfsmenn framkvæmdanefndar um einkavæðingu, Þórarin V. Þórarinsson og Friðrik Pálsson frá Landssíma Íslands hf., Davíð Birgisson og Helgu Jónsdóttur frá Starfsmannafélagi Landssíma Íslands, Þórólf Árnason frá Tali hf., Gústaf Arnar frá Póst- og fjarskiptastofnun, Eyþór Arnalds frá Íslandssíma hf., Ingvar Garðarsson frá Frjálsum fjarskiptum, Ármann Þorvaldsson frá Kaupþingi, Almar Guðmundsson og Ívar Guðjónsson frá Íslandsbanka-FBA, Hrafnkel Óskarsson frá Samkeppnisstofnun, Jóhannes Gunnarsson og Markús Möller frá Neytendasamtökunum, Þórð Skúlason og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Elías Halldór Ágústsson og Þröst Jónasson frá Samtökum netverja, Davíð Guðmundsson frá Tölvun í Vestmannaeyjum, Björn Davíðsson frá Snerpu á Ísafirði, Rögnvald Guðmundsson frá Skríni á Akureyri, Eirík Bragason frá Línu.neti, Magnús Ásgeirsson frá Tölvusmiðjunni á Egilsstöðum, Pál Kolbeinsson frá Element á Sauðárkróki, Tryggva Þór Ágústsson frá Gagnvirkri miðlun og Björn Inga Jónsson frá Tölvuþjónustu Austurlands á Hornafirði.
    Þá bárust umsagnir frá Samkeppnisstofnun, Byggðastofnun, Landssambandi eldri borgara, Bændasamtökum Íslands, Félagi netverja, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra.
    Með frumvarpinu er lagt til að Alþingi veiti heimild til að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf.
    Samkvæmt athugasemdum með frumvarpinu og skýrslu framkvæmdanefndar um einkavæðingu er stefnt að því að sala hlutafjárins hefjist vorið 2001 og að 49% af heildarhlutafé verði í eigu annarra en ríkisins í árslok 2001. Fyrirhuguð sala er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu ríkisfyrirtækja.
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um aðstöðu fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins til að stunda fjarvinnslu og aðra þjónustu á sviði upplýsingatækni sem gerir kröfu til öflugra gagnaflutninga. Þrátt fyrir að verðskrá fyrir gagnaflutninga hafi lækkað mikið að undanförnu, þ.m.t. fyrir gagnanet og leigulínur, er ljóst að enn er talsverður munur á verðlagningu á þeirri þjónustu eftir því hvar notandinn er á landinu. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að áfram verði unnið markvisst að því að jafna kostnað og aðgang landsmanna að öflugustu og hagkvæmustu gagnaflutningsleiðum, eins og tæknin þróast á hverjum tíma óháð vegalengd.
    Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar telur meiri hlutinn eðlilegt að nýta hluta af söluverðmæti Landssímans til að ná markmiðum um að upplýsingatæknin nýtist öllum landsmönnum sem best og að fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu takmarki ekki samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni. Meiri hlutinn beinir því til samgönguráðherra að hann vinni, í samstarfi við samgöngunefnd, tillögur um að jafna kostnað við gagnaflutninga og þar með samkeppnisstöðu fyrirtækja um allt land og skal þeirri vinnu vera lokið fyrir árslok 2001.
    Forsenda samkeppni á fjarskiptamarkaði sem og öðrum mörkuðum byggist á því að eftirlit með starfsemi fjarskiptafyrirtækja sé öflugt og eftirlitsstofnanir hafi yfir virkum úrræðum að ráða. Ný lög hafa verið sett um Póst- og fjarskiptastofnun þar sem heimildir hennar til eftirlits og aðgerða hafa verið efldar til muna. Með sama hætti hafa verið gerðar breytingar á samkeppnislögum sem veita samkeppnisyfirvöldum mun virkari úrræði en áður til að bregðast við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Meiri hlutinn telur að með þessu séu til staðar þau úrræði sem nauðsynleg eru til að unnt sé að bregðast við misnotkun á markaðsráðandi stöðu á fjarskiptamarkaði. Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að búa verði vel að eftirlitsaðilum og þeim tryggður nægur mannafli og fjármagn til að sinna því eftirliti sem þeim er ætlað. Þannig má ætla að ráða þyrfti til Fjarskiptastofnunar í 2–3 stöðugildi vegna aukinnar samkeppni á fjarskiptamarkaði og svipaðan fjölda hjá Samkeppnisstofnun. Nefndin leggur áherslu á að þeim þörfum verði mætt.
    Með nýju fjarskiptalögunum var aðkoma nýrra fyrirtækja að fjarskiptamarkaði auðvelduð verulega. Lög og reglur áskilja nú að þjónusta milli rekstrareininga Landssímans sé seld á sama verði og til annarra fjarskiptafyrirtækja. Með þessu er tryggt að bæði notendur sem og fjarskiptafyrirtæki í samkeppni við Landssímann greiði ekki hærri gjöld fyrir fjarskiptaþjónustu en þeir mundu gera ef fyrirtækinu yrði skipt upp. Þá eru víðtækar heimildir í fjarskiptalögum til að tryggja fullnægjandi þjónustustig með svokallaðri alþjónustu, auk þess sem samgönguráðherra hefur heimildir til að leggja í framkvæmdir eða rekstur sem er til almannaheilla, í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum og ætla má að skili ekki arði. Þannig getur ríkið eflt fjarskiptaþjónustu þar sem samkeppni skortir. Meiri hlutinn bendir á að nú er til umfjöllunar í þinginu tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2887/2000, um opinn aðgang að heimtaugum. Með upptöku reglna þessara í íslenskan rétt mun jafn aðgangur allra að grunnnetinu vera tryggður enn frekar en nú er.
    Það er álit meiri hlutans að það lagaumhverfi sem skapað hefur verið á fjarskiptasviði tryggi að samkeppnisaðilar fái eðlilegt svigrúm til athafna. Þessa má þegar sjá merki, sbr. samninga Íslandssíma og Tals um aðgang að farsímakerfi Landssímans.
    Meiri hlutinn hafnar með öllu hugmyndum um að aðskilja grunnnetið frá Landssímanum. Fyrir því liggja m.a. tæknilegar ástæður en sérfræðingar telja að aðskilnaður netsins frá annarri starfsemi mundi leiða til vandkvæða og erfiðleika í þróun þess með þeim afleiðingum að þjónusta við notendur versnaði. Þá mundi það rýra verðmæti fyrirtækisins verulega og hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir notendur.
    Meiri hlutinn leggur til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er feli það í sér að hlutabréf ríkisins, útgefið 23. janúar 1998, skuli teljast ógilt án undangenginnar innköllunar við útgáfu á rafbréfum í félaginu, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Þar sem einungis er um að ræða eitt hlutabréf ríkissjóðs í félaginu verður að telja óþarft að fram fari sérstök innköllun hlutabréfa samkvæmt lögunum. Í ákvæðinu er einnig tekið fram, svo að það fari ekki á milli mála, að ákvæði 1. mgr. 20. gr. laga um hlutafélög, sem fjallar um tölu hluthafa, gildi ekki um Landssíma Íslands hf. á meðan hlutafé er en að fullu í eigu ríkissjóðs og jafnframt að samgönguráðherra fari með eignarhlut ríkisins í Landssímanum eins og hingað til.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, skal hlutabréf ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf., útgefið 23. janúar 1998, vera ógilt við útgáfu á rafbréfum í félaginu í verðbréfamiðstöð án undangenginnar innköllunar.
    Ákvæði 1. mgr. 20. gr. laga um hlutafélög gildir ekki um Landssíma Íslands hf. á meðan hlutafé er að fullu í eigu ríkissjóðs.
    Samgönguráðherra fer með eignarhlutdeild ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf.

Alþingi, 11. maí 2001.



Árni Johnsen,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Guðmundur Hallvarðsson.


Magnús Stefánsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.