Ferill 616. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1299  —  616. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um erfðaefnisskrá lögreglu.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason og Dís Gunnsteinsdóttur frá dómsmálaráðuneyti og Jón H. Snorrason og Bjarna Bogason frá ríkislögreglustjóra.
    Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá landlæknisembættinu, ríkissaksóknara, Persónuvernd, ríkislögreglustjóra og Lögmannafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót sérstakri lögregluskrá til að auðvelda lögreglu rannsókn alvarlegra sakamála. Skránni er ætlað að geyma upplýsingar um erfðaefni en brotamenn skilja oft eftir sig líffræðileg spor sem innihalda erfðaefni tæk til rannsókna. Annars vegar er um að ræða kennslaskrá með upplýsingum um erfðaefni einstaklinga sem hlotið hafa dóm fyrir tiltekin afbrot, verið sýknaðir af tilgreindum ástæðum, dæmdir í öryggisgæslu eða sæta reynslulausn. Hins vegar er um að ræða sporaskrá þar sem geymdar eru upplýsingar sem fengnar eru úr lífsýnum á brotavettvangi, mönnum eða munum án þess að vitað sé frá hverjum þau stafa. Erfðaefnisskrá mun auka möguleika á samanburðarrannsóknum, m.a. þannig að hægt verður að bera sýni sem finnst á brotavettvangi saman við skrásettar upplýsingar og sýni af fleiri en einum brotavettvangi. Þá getur skráin auk þess haft sérstök varnaðaráhrif.
    Í frumvarpinu er jafnframt að finna ákvæði um aðgang að upplýsingum úr skránni en strangar kröfur eru gerðar til skráningar og varðveislu upplýsinga um erfðaefni þar sem um er að ræða mjög persónulegar og viðkvæmar upplýsingar. Auk þess er gert ráð fyrir að upplýsingarnar verði afmáðar við ákveðnar aðstæður.
    Mælir allsherjarnefnd með því að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi er lagt til að heimild til að vista lífsýni í lífsýnasafni verði felld brott þar sem nefndin telur að eðlilegt sé að lífsýni sé eytt þegar unnar hafi verið úr því erfðaefnisupplýsingar og málinu lokið. Í öðru lagi telur nefndin rétt að brýnar ástæður þurfi að koma til svo heimilt sé að skrá önnur tilvik í kennslaskrá en talin eru upp í lögunum. Í þriðja lagi leggur nefndin til að þegar einstaklingi er tilkynnt um skráningu verði honum jafnframt gerð grein fyrir tilgangi hennar. Loks leggur nefndin til að settur verði sex mánaða frestur til að afmá upplýsingar í kennslaskrá um einstakling sem sýknaður hefur verið eftir endurupptöku máls.
    Sverrir Hermannsson, Hjálmar Jónsson og Ólafur Örn Haraldsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.     Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. maí 2001.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Katrín Fjeldsted.



Ásta Möller.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.