Ferill 737. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1307  —  737. mál.
Frumvarp til lagaum kjaramál fiskimanna og fleira.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)I. KAFLI
Um kjaramál fiskimanna.
1. gr.

    Verkfall aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, auk verkbanna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna gagnvart aðildarfélögum í Alþýðusambandi Vestfjarða, svo og verkföll og verkbönn og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, er óheimilt frá gildistöku laganna og á gildistíma ákvarðana gerðardóms skv. 2. og 3. gr. Þó er aðilum heimilt að semja um slíkar breytingar en eigi má knýja þær fram með vinnustöðvun.

2. gr.

    Hafi aðilar skv. 1. gr. ekki náð samkomulagi fyrir 1. júní 2001 skal Hæstiréttur tilnefna þrjá menn í gerðardóm. Skal gerðardómurinn ákveða eftirfarandi um kjaramál fiskimanna í þeim samtökum sem nefnd eru í 1. gr.:
     a.      atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila,
     b.      atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör,
     c.      atriði er varða kauptryggingu og launaliði,
     d.      atriði er varða slysatryggingu,
     e.      atriði er varða afmörkun á helgarfríi fiskimanna á netaveiðum,
     f.      atriði er varða mótframlag útvegsmanna vegna viðbótarlífeyrissparnaðar fiskimanna og
     g.      önnur atriði sem nauðsynlegt er að taka á varðandi kjaramál.
    Hæstiréttur kveður á um hver hinna þriggja gerðardómsmanna skuli vera formaður dómsins og kallar hann dóminn saman. Gerðardómurinn setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og getur krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra, af þeim aðilum sem gerðardómurinn telur nauðsynlegt. Aðilar skv. 1. gr. skulu eiga rétt á að gera gerðardóminum grein fyrir sjónarmiðum sínum. Skal gerðardómurinn ætla þeim hæfilegan frest í því skyni.

3. gr.

    Gerðardómurinn skal við ákvörðun sína samkvæmt lögum þessum taka mið af samningi um breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands sem undirritaður var 9. maí 2001 og öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á. Þá skal gerðardómurinn taka mið af sérstöðu þeirra aðila sem nefndir eru í 1. gr., auk sjónarmiða um almenna þróun kjaramála.
    Ákvarðanir gerðardómsins skv. 1. mgr. skulu vera bindandi frá gildistöku laga þessara og skal gerðardómurinn hafa lokið störfum fyrir 1. júlí 2001. Hann skal ákveða gildistíma ákvarðana sinna og hafa í því sambandi hliðsjón af gildistíma samnings um breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands sem undirritaður var 9. maí 2001.

4. gr.

    Kostnaður við störf gerðardóms skv. 2. gr. greiðist úr ríkissjóði.

II. KAFLI
Um niðurfellingu á lögum nr. 11/1998, um Kvótaþing, með síðari breytingum.
5. gr.

    Lög nr. 11/1998, um Kvótaþing, með síðari breytingum, eru felld úr gildi.

III. KAFLI
Um breytingar á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingu.
6. gr.

    2.–4. mgr. 12. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 1/1999, hljóða svo:
    Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um flutning aflamarks og öðlast hann ekki gildi fyrr en stofnunin hefur staðfest flutninginn. Í tilkynningu skulu m.a. koma fram upplýsingar um magn aflamarks sem flytja skal, auk upplýsinga um verð, nema þegar aflamark er flutt á milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila.
    Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks skal stofnunin skrá upplýsingar um flutning aflamarksins samkvæmt tilkynningu þar að lútandi. Ráðherra skal með reglugerð ákveða í hvaða formi tilkynningar til Fiskistofu um flutning aflamarks skuli vera. Sá sem tilkynnir um flutning aflamarks skal greiða Fiskistofu gjald að fjárhæð 2.000 kr. með hverri tilkynningu. Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks skal stofnunin fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum. Hann skal uppfylla kröfur Verðlagsstofu skiptaverðs sem gerðar eru samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
    Fiskistofa skal daglega birta aðgengilegar upplýsingar um flutning aflamarks, þar á meðal um magn eftir tegundum, auk upplýsinga um verð, þar sem við á.

IV. KAFLI
Um breytingar á lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
7. gr.

    Á eftir 1. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein sem hljóðar svo:
    Hafi samtök útvegsmanna og sjómanna gert með sér samkomulag um tiltekin markmið um viðmið varðandi verðlagningu á fiski við uppgjör á aflahlut sjómanna á gildistíma kjarasamnings eða ákvarðanir um slíkt hafa verið teknar með öðrum skuldbindandi hætti skal Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sbr. II. kafla, stuðla að því með störfum sínum og úrskurðum að þau markmið nái fram að ganga.

8. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist nýr málsliður sem hljóðar svo: Fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Sjómannasambands Íslands, Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna skulu hafa aðgang að álitinu.

V. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar
við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
9. gr.

    3. málsl. 9. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 158/2000, fellur brott.

VI. KAFLI
Gildistaka.
10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi að undanskildum ákvæðum II. og III. kafla laganna sem taka gildi 1. júní 2001.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Þar til ákvörðun gerðardóms skv. 2. og 3. gr. liggur fyrir eða kjaradeilan leysist með öðrum hætti skal til bráðabirgða fara með kjaramál fiskimanna sem um ræðir í 1. gr. samkvæmt fyrirkomulagi því sem komið var á með lögum nr. 10/1998, um kjaramál fiskimanna. Endanlegt uppgjör fari fram þegar ákvörðun gerðardóms eða nýr samningur liggur fyrir.

II.

    Kvótaþing skal ganga frá uppgjöri þeirra samninga sem gerðir hafa verið vegna starfsemi þess. Verði kostnaður umfram eignir þingsins greiðist hann úr ríkissjóði en verði afgangur rennur hann í ríkissjóð.

III.

    Virk tilboð sem kunna að vera til staðar á Kvótaþingi við gildistöku II. og III. kafla laganna falla þá úr gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Verkfall aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, auk verkbanna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna gagnvart aðildarfélögum Alþýðusambands Vestfjarða, hófst á miðnætti aðfaranótt 16. mars sl. Verkfallinu var frestað með lögum 19. mars sl. til kl. 24.00 1. apríl sl. Sama gilti um verkbann það er félög og samtök útvegsmanna settu á fiskimenn frá og með miðnætti aðfaranótt 16. mars sl. Vinnustöðvun hófst þá aftur og hafði staðið óslitið í á sjöttu viku þegar vélstjórar og útvegsmenn undirrituðu kjarasamning 9. maí sl. Vinnustöðvunin á fiskiskipaflotanum er sú lengsta í áratugi og er þetta í fjórða sinn á sjö árum sem kjaradeilur sjómanna og útvegsmanna hafa leitt til þess að stærsti hluti fiskiskipaflotans stöðvast.
    Samningar hafa verið lausir frá 15. febrúar 2000 þegar lög nr. 10/1998, um kjaramál fiskimanna, féllu úr gildi. Samningsaðilar hafa á þeim tíma sem síðan er liðinn ekki náð árangri í samningaumleitunum, að frátöldum áðurnefndum samningi vélstjóra og útvegsmanna.
    Vinnustöðvunin hefur nú þegar valdið miklum skaða fyrir atvinnulíf landsmanna, nýtingu auðlinda sjávar, útflutningshagsmuni og fleiri þætti. Áhrif hennar eru hvað alvarlegust fyrir einstaklinga sem starfa við fiskvinnslu og fyrirtæki og sveitarfélög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi, en að auki hefur hún þegar haft áhrif langt út fyrir þá hagsmuni sem samningsaðilar fjalla um. Skýr merki eru um neikvæð áhrif vinnustöðvunarinnar á efnahagslífið og ef ekkert er að gert mun hún valda óbætanlegu tjóni fyrir þjóðarbúið í heild. Hér eru því ríkir almannahagsmunir í húfi og nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir þann mikla efnahagsskaða sem áframhaldandi stöðvun fiskiskipaflotans mundi annars valda.
    Með frumvarpinu er lagt til að bann verði lagt við verkfalli aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, auk verkbanna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna gagnvart aðildarfélögum Alþýðusambands Vestfjarða, svo og verkföllum og verkbönnum og öðrum aðgerðum sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lagt er til að tekin verði upp á grundvelli frumvarpsins. Lagt er til að bannið taki þegar gildi.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að samningsaðilum verði gefinn frestur til 1. júní nk. til að ljúka samningum. Hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma er lagt til að gerðardómi þriggja manna sem tilnefndir verði af Hæstarétti verði falið að taka ákvarðanir varðandi kjaramál félagsmanna í áðurnefndum félögum. Í því skyni eru gerðardóminum tryggðar nauðsynlegar rannsóknarheimildir og aðilum tryggður réttur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Frumvarpið gerir ráð fyrir að gerðardómurinn hafi við ákvarðanir sínar hliðsjón af samningi um breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands sem undirritaður var 9. maí 2001 og öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á. Þá skal gerðardómurinn taka mið af sérstöðu þeirra aðila sem taldir eru upp í 1. gr. auk sjónarmiða um almenna þróun kjaramála. Gert er ráð fyrir að gerðardómurinn ákveði gildistíma ákvarðana sinna með hliðsjón af gildistíma áðurnefndra kjarasamninga.
    Að auki gerir frumvarpið ráð fyrir að breytingar verði gerðar á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, og lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, auk þess að lög nr. 11/1998, um Kvótaþing, falli úr gildi. Er þetta gert í því skyni að stuðla að lausn kjaradeilu fiskimanna og útvegsmanna. Lög um Kvótaþing voru samþykkt samhliða lögum nr. 10/1998 sem bönnuðu vinnustöðvun sjómanna og útvegsmanna 27. mars 1998 jafnframt því að kveða á um kjaramál fiskimanna. Ákvæðin miðuðu að því að skapa umgjörð um kjaramál fiskimanna og voru sniðin að aðstæðum á þeim tíma.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um friðarskyldu milli deiluaðila frá því að frumvarpið fær lagagildi og á gildistíma ákvarðana gerðardómsins. Vinnustöðvanir deiluaðila, sem og hvers konar verkföll, verkbönn og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en frumvarpið gerir ráð fyrir, eru samkvæmt því óheimilar. Gildir í því sambandi einu hvort aðgerðir hafa hafist áður en frumvarpið fær lagagildi. Aðilum er heimilt að semja um aðra skipan kjaramála, en þeim er óheimilt að beita framangreindum úrræðum til að knýja fram þá skipan.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir að samningsaðilum verði gefinn frestur til 1. júní nk. til að ljúka samningum sín á milli. Hafi það ekki tekist fyrir þann tíma, kveður greinin á um að Hæstiréttur tilnefni þrjá menn í gerðardóm er skuli skera úr um kjaramál fiskimanna í þeim samtökum sem nefnd eru í 1. gr. Þannig skal gerðardómurinn ákveða atriði er tengjast markmiðum um verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila og atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör. Einnig skal gerðardómurinn ákveða atriði er varða kauptryggingu og launaliði, atriði er varða slysatryggingu, atriði er varða afmörkun á helgarfríi fiskimanna á netaveiðum, atriði er varða mótframlag útvegsmanna vegna viðbótarlífeyrissparnaðar fiskimanna og önnur atriði sem nauðsynlegt er að taka á varðandi kjaramál fiskimanna.
    Frumvarpið ætlar Hæstarétti að ákveða hver hinna þriggja gerðardómsmanna skuli vera formaður dómsins. Það er svo formannsins að kalla dóminn saman. Gerðardómnum er ætlað að setja sér starfsreglur og afla nauðsynlegra gagna og getur hann krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra, af þeim aðilum sem gerðardómurinn telur nauðsynlegt. Þá er í frumvarpinu kveðið á um rétt aðila til að koma sjónarmiðum sínum að við umfjöllun gerðardómsins og skal gerðardómurinn ætla þeim hæfilegan frest í því skyni.

Um 3. gr.

    Gert er ráð fyrir að gerðardómur taki mið af samningi um breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands sem undirritaður var 9. maí 2001. Að auki geti gerðardómur tekið tillit til þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið á síðustu mánuðum, eftir því sem við á. Þá er ætlast til að dómurinn taki tillit til sérstöðu þeirra aðila sem taldir eru upp í 1. gr. og sjónarmiða um almenna þróun kjaramála. Þá skal gerðardómur ákveða gildistíma ákvarðana sinna með hliðsjón af breytingum á fyrrgreindum kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands ásamt öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum. Í frumvarpinu kemur fram að ákvarðanir gerðardóms skuli vera bindandi frá gildistöku laganna og að gerðardómurinn skuli hafa lokið störfum fyrir 1. júlí 2001.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Kvótaþing var sett á stofn með lögum nr. 11/1998 og var frumvarp til þeirra laga lagt fram samhliða frumvarpi til laga um kjaramál fiskimanna auk frumvarpa sem tengdust þeim. Miðaði lagasetningin að því að skapa umgjörð um kjaramál fiskimanna og voru lögin sniðin að aðstæðum á þeim tíma. Skiptar skoðanir hafa verið um hvort Kvótaþing hafi skilað tilætluðum árangri.
    Í frumvarpinu er lagt til að Kvótaþing verði lagt niður, enda gerir frumvarpið ráð fyrir annarri umgjörð en ákveðin var með setningu laganna 1998.

Um 6. gr.

    Með frumvarpinu er lagt til að núgildandi 2.–4. mgr. 12. gr. laga 38/1990 verði felldar úr gildi, enda gera þær ráð fyrir tilvist Kvótaþings. Í stað þeirra komi nýjar málsgreinar sem ætlað er að leysa þær af hólmi. Þær kveða á um nýja umgjörð um flutning og viðskipti aflamarks.
    Gert er ráð fyrir því í nýrri 2. mgr. að Fiskistofu verði tilkynnt fyrir fram um flutning aflamarks. Er það gert að skilyrði fyrir því að flutningurinn öðlist gildi að stofnunin hafi staðfest hann. Gert er ráð fyrir að í tilkynningu skuli m.a. koma fram upplýsingar um magn aflamarks sem flytja skal, auk upplýsinga um verð, nema þegar aflamark er flutt á milli skipa sama aðila, einstaklings eða lögaðila.
    Í nýrri 3. mgr. er kveðið á um að staðfesting Fiskistofu fáist ekki fyrr en stofnunin hefur skráð upplýsingar um flutning aflamarksins samkvæmt tilkynningu þar um. Tilkynningar skulu vera í því formi sem ráðherra ákveður með reglugerð. Þá er áskilið að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar við uppgjör á aflahlut sjómanna. Skal Verðlagsstofa skiptaverðs staðfesta að slíkur samningur liggi fyrir og að hann uppfylli þær kröfur sem stofnunin gerir samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Fiskistofu er óheimilt að staðfesta flutning aflamarks áður en slík staðfesting Verðlagsstofu skiptaverðs liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að sá sem tilkynnir um flutning aflamarks greiði gjald sem nemi 2.000 kr. til Fiskistofu, en ætla má að Fiskistofu berist um þrjú þúsund tilkynningar á ári. Er þessu gjaldi ætlað að standa undir þeim kostnaði sem ætla má að Fiskistofa hafi af auknum verkefnum sem flytjast frá Kvótaþingi er hefur innheimt gjald vegna starfa sinna sem nam á árinu 2000 um 16 millj. kr.
    Í nýrri 4. mgr. er kveðið á um að aðgengilegar upplýsingar um flutning aflamarks, m.a. heildarmagn og verðmæti eftir tegundum, og upplýsingar um verð þar sem við á, skuli birta daglega.

Um 7. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að aukið verði við hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, sbr. II. kafla laganna. Gerir greinin þannig ráð fyrir að með störfum sínum og úrskurðum skuli Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna stuðla að því að markmið samninga sem nást milli sjómanna og útvegsmanna um uppgjör á aflahlut nái fram að ganga. Hið sama gildi um ákvarðanir um slíkt sem teknar eru með öðrum skuldbindandi hætti.

Um 8. gr.

    Í 6. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna segir að stofnunin skuli fylgjast með uppgjöri á aflahlut áhafnar. Telji hún misræmi milli gagna um söluverðmæti afla og uppgjörsverðs skal hún taka saman álitsgerð varðandi það. Hingað til hefur Verðlagsstofu skiptaverðs borið að tilkynna útgerð og áhöfn viðkomandi skips um álit sitt. Lagt er til að við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein sem kveður á um að fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Sjómannasambands Íslands, Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna skuli einnig hafa aðgang að álitinu.

Um 9. gr.

    Með greininni er fellt úr gildi ákvæði laga nr. 99/1999 sem tekur til Kvótaþings, enda gerir þetta frumvarp ráð fyrir að starfsemi þess verði lögð niður.

Um 10. gr.

    Greinin gerir ráð fyrir því að lögin taki þegar gildi við birtingu. Þó er gert ráð fyrir að ákvæði II. og III. kafla taki gildi 1. júní 2001 og Kvótaþingi verði þannig gefinn hæfilegur frestur til að ljúka málum sínum, auk þess sem Fiskistofu er gefið ráðrúm til að búa sig undir breyttar aðstæður.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Með lögum nr. 10/1998, sem giltu til 15. febrúar 2000, voru kaup og kjör fiskimanna ákveðin á grundvelli miðlunartillögu ríkissáttasemjara frá 16. mars það ár og fylgdi miðlunartillagan lögunum og var hluti þeirra. Með bráðabirgðaákvæði þessu er gert ráð fyrir að um kjaramál fiskimanna sem frumvarp þetta tekur til fari samkvæmt því fyrirkomulagi sem þá var komið á. Það gildi þangað til ákvörðun gerðardóms liggur fyrir eða kjaradeilan leysist með öðrum hætti.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Kvótaþing hefur gert samninga vegna starfsemi og rekstrar þingsins. Nauðsynlegt er að ganga frá þessum samningum og gera þá upp þegar Kvótaþingið verður lagt niður. Líklega mun það hafa í för með sér einhvern kostnað fyrir þingið og því er gert ráð fyrir í þessu ákvæði að ríkissjóður aðstoði við fjárhagslegt uppgjör, sé þess þörf.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að virk tilboð sem kunna að vera til staðar á Kvótaþingi við gildistöku II. og III. kafla laganna 1. júní nk. falli þá úr gildi.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um kjaramál fiskimanna og fleira.

    Með frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði gerðardómur sem ákveði tiltekin atriði um kjaramál sjómanna, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Lauslega áætlað má gera ráð fyrir að kostnaður við gerðardóminn og nauðsynlega sérfræðivinnu fyrir hann verði um 10 m.kr. og greiðist sá kostnaður úr ríkissjóði skv. 4. gr. frumvarpsins. Í 5. og 6. gr. er lagt til að Kvótaþing verði lagt niður og Fiskistofa taki að sér að birta daglega upplýsingar um flutning aflamarks, bæði magn og verð. Gert er ráð fyrir sérstöku gjaldi til Fiskistofu fyrir hverja tilkynningu og er áætlað að heildartekjur nemi um 6 m.kr. á ári og standi undir kostnaði við verkefnið. Á móti falla niður 16 m.kr. tekjur og gjöld vegna Kvótaþings. Loks er í ákvæði til bráðabirgða II kveðið á um að Kvótaþing geri upp alla samninga sem gerðir hafa verið vegna starfsemi þess og verði kostnaður umfram eignir þingsins greiðist hann úr ríkissjóði. Ekki er á þessu stigi mögulegt að meta hver kostnaðaráhrifin af því ákvæði eru, en þau eru talin óveruleg.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er tímabundinn kostnaður árið 2001 um 10 m.kr. en tekjur og útgjöld lækka samtals um 10 m.kr. til frambúðar vegna breytinga á Kvótaþingi.