Ferill 739. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1323  —  739. mál.




Skýrsla



forsætisráðherra um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis á 123. og 124. löggjafarþingi.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Forsætisráðherra hefur á liðnum árum lagt fyrir Alþingi skýrslur um framkvæmd og meðferð á ályktunum Alþingis. Hin fyrsta þessara skýrslna var lögð fram á 112. löggjafarþingi, þá að beiðni nokkurra þingmanna, en síðari skýrslur voru teknar saman að frumkvæði forsætisráðuneytis. Hlé hefur orðið á þessari skýrslugjöf um nokkurt skeið. Í svari forsætisráðherra við fyrirspurn frá Rannveigu Guðmundsdóttur á þskj. 140 á yfirstandandi löggjafarþingi, þar sem spurt var hvort forsætisráðherra hygðist leggja slíka skýrslu fram á yfirstandandi þingi, kom fram að svo yrði. Jafnframt kom fram í svari forsætisráðherra að skýrslugjöf til Alþingis um framkvæmd og meðferð ályktana þess yrði eftirleiðis í fastari skorðum, enda sé það í anda vandaðra stjórnsýsluhátta.
    Skýrsla sú, sem nú er lögð fram nær til ályktana Alþingis á 123. og 124. löggjafarþingi, en í því svari forsætisráðherra, sem vitnað er til að framan, kom fram að eðlilegt mætti telja að árlegar skýrslur næðu til næstliðins þings, þegar þess væri að vænta að ráðuneytum eða öðrum, sem falin er meðferð og framkvæmd þingsályktananna, hefði veist nokkur tími og ráðrúm til athafna. Forsætisráðuneytið leitaði eftir því við önnur ráðuneyti með bréfi dags. 9. apríl 2001, að þau tækju saman stuttar greinargerðir um meðferð og framkvæmd þeirra þingsályktana, sem þeim hefði verið falin meðferð með, og fara svör ráðuneytanna hér á eftir.
    Skýrsla þessi er lögð fram með vísun til 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.

Þál. 9/123 um sérstakt átak til að draga úr reykingum kvenna, frá 10. mars 1999.

              Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að efna til sérstaks átaks til að draga úr reykingum kvenna. Verði sjónum einkum beint að stúlkum og ungum konum þannig að takast megi að koma í veg fyrir að stúlkur hefji reykingar og þær sem byrjaðar eru hætti.

    Árið 1998 reyktu 28% kvenna á aldrinum 18-69 ára. Í ljósi þeirrar staðreyndar að konur reyktu meira en karlar og með vísan til samþykktar þingsályktunartillögu um sérstakt átak til að draga úr reykingum kvenna ákvað Tóbaksvarnanefnd að þema ársins 1999 yrði að draga úr reykingum kvenna. Leitað var samstarfs við fjölmörg samtök vegna átaksins og margvíslegar auglýsingar birtar í fjölmiðlum.
          Birtar voru auglýsingar um skaðsemi reykinga á meðgöngu. Veggmyndum (reykjandi fóstur) var dreift til fyrirtækja, á heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og fleiri stofnanir.
          Gerður var samningur við þá sem sjá um Ford- og Eskimo-fyrirsætukeppnina um að reykleysi yrði skilyrði fyrir þátttöku. Sömuleiðis gerðir samningar við aðstandendur Fegurðarsamkeppni Íslands og UngfruIsland.is um sömu skilyrði.
          Sláandi auglýsingar birtar í sjónvarpi í upphafi áranna: ,,Hver einasta sígaretta veldur þér skaða“ og þeim fylgt eftir í dagblöðum og tímaritum. Útbúnar voru veggmyndir og þær sendar á allar tannlækna- og læknastofur á landinu.
          Samstarf við Hjartavernd um útgáfu á bæklingi, Reykingar — dauðans alvara, en í honum kemur m.a. í ljós að konum er hættara við að fá kransæðastíflu en körlum.
          Veggmyndum með fjórum þekktustu íþróttakonum landsins dreift á öll íþróttamót barna og ungmenna. Hver einasti keppandi fékk eintak.
          Samstarf við Kvennahlaupið - ,,Vertu frjáls, reyklaus“.
          Ráðgjöf í reykbindindi (reyklaus lína) sett á laggirnar á Húsavík.
          Öflugt tóbaksvarnastarf í grunnskólum og framhaldsskólum og sérstaklega reynt að virkja forvarnafulltrúa og skólahjúkrunarfræðinga.
          Samstarf við dagskrárgerðarmann vegna stuttmyndar um móður hans sem lést úr lungnakrabbameini.
          Þrjár auglýsingar í sjónvarpi um skaðsemi óbeinna reykinga.
          32 síðna aukablaði (um reykingar kvenna o.fl.) dreift með Morgunblaðinu á reyklausa daginn 31. maí 1999 og 2000.
          Fjölmörg önnur samstarfsverkefni voru í gangi og margt annað.
Reykingar kvenna hafa dregist saman á síðustu árum sem hér segir:
Reykingar kvenna árið 1998 (18–69 ára): 28%
Reykingar kvenna árið 1999 (18–69 ára): 26,6%
Reykingar kvenna árið 2000 (18–69 ára): 24,4%


Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

Þál. 6/123 um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001, frá 3. mars 1999.

    Þingsályktun um stefnu í byggðamálum er að finna í þskj. nr. 957, frá 123. löggjafarþingi.
    Sumarið 2000 fól iðnaðarráðherra Byggðastofnun að gera skýrslu um framkvæmd þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001 sem samþykkt var á Alþingi þann 3. mars 1999. Var óskað eftir að fram kæmu í skýrslunni ítarlegar upplýsingar um þær aðgerðir sem einstök ráðuneyti og stofnanir hafa gripið til í því skyni að fylgja eftir byggðaáætlun Alþingis. Jafnframt var farið fram á að Byggðastofnun legði mat á hvernig til hefur tekist við að ná þeim markmiðum sem stefnt var að með samþykkt þingsályktunarinnar.
    Vinna við gerð skýrslunnar er nú á lokastigi og stefnir iðnaðarráðherra að því að leggja hana fyrir Alþingi vorið 2001.

Þál. 14/123 um þriggja fasa rafmagn, frá 10. mars 1999.

              Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri úttekt á því hve mikið vanti á raflagnir fyrir þriggja fasa rafmagn í landinu. Nefndinni verði falið að meta þörf atvinnulífsins á landsbyggðinni fyrir þriggja fasa rafmagn og jafnframt að leggja mat á kostnað við að tryggja öllum landsmönnum aðgang að því.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu barst ályktunin til framkvæmdar 18. febrúar 2000. Hinn 11. apríl 2000 skipaði iðnaðarráðherra þriggja manna nefnd í samræmi við ályktun Alþingis til að vinna að framkvæmd þingsályktunartillögunnar. Nefndin hóf störf vorið 2000 og hefur verið unnið að úttektinni í samstarfi við viðkomandi raforkufyrirtæki og helstu hagsmunaaðila.
    Nefndin hefur lokið við úttekt á fyrri hluta ályktunarinnar. Hins vegar hefur nefndin á síðustu mánuðum unnið að því að meta þörf atvinnulífsins á landsbyggðinni og hefur í því skyni ritað öllum sveitarstjórnum bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um þörf á þriggja fasa rafmagni innan hvers sveitarfélags. Er þess að vænta að svör berist innan fárra vikna. Með þessu móti telur nefndin að auðveldara verði en áður að forgangsraða framkvæmdum við endurnýjun dreifiveitna þannig að þeir er þörf hafa fyrir þriggja fasa rafmagn njóti þar forgangs ef unnt er að koma því við.
    Stefnt er að því að nefndin ljúki störfum eigi síðar en í september 2001.


Landbúnaðarráðuneyti.


Þingsályktun 12/123 um íslenska hestinn, frá 10. mars 1999.

         Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að undirbúa í samvinnu við önnur stjórnvöld að íslenskir hestar og hestamenn gegni veigamiklu hlutverki við opinberar móttökur erlendra þjóðhöfðingja og við önnur hátíðleg tækifæri.

    Hinn 10. nóvember 1999 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd undir forustu Hjálmars Árnasonar alþm. til þess að vinna að framgangi framangreindrar ályktunar. Nefndin skilaði áliti 5. mars 2000. Tillögur hennar voru m.a. eftirfarandi:
          Þátttaka íslenskra hesta og hestamanna verði fastur liður við móttöku erlendra þjóðhöfðingja sem til landsins koma, annaðhvort við hina opinberu móttöku á Bessastöðum eða við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli og hestinum með því sköpuð staða sem þjóðartákni.
          Við aðrar opinberar heimsóknir verði reiðsýning (gangtegundasýning) ásamt sýningaratriðum með þjóðlegu ívafi, og eftir atvikum útreiðarferð, fastur liður í dagskrá heimsóknarinnar, allt eftir eðli heimsóknarinnar og áhuga hins erlenda gests.
          Áhersla verði lögð á að nýta þátttöku hesta og hestamanna í opinberum móttökum til þess að efla viðskiptatengsl, jafnt í þágu hrossaræktarinnar sem annarra atvinnugreina.
          Við opinberar athafnir og reiðsýningar (gangtegundasýningar) verði áhersla lögð á fagmennsku í reiðmennsku þar sem fram koma kostir og glæsileiki íslenska hestsins og sérstaða, bæði hvað varðar gangtegundir og litafjölbreytni. Einungis verði valdir til þátttöku mjög hæfir reiðmenn sem hafa yfir að ráða úrvalssýningargripum.
          Við opinberar athafnir og reiðsýningar verði knapar valdir úr hópi karla, kvenna, barna og aldraðra. Knapar klæðist bláum jakka og hvítum buxum.
          Val á hestum og knöpum til þátttöku í opinberum móttökum og reiðsýningum ásamt þjálfun sýningarliðsins verði í höndum sýningarstjóra, „einvalds“. Þriggja manna sýningarstjórn, skipuð fulltrúum frá Landssambandi hestamannafélaga, Félagi tamningamanna og landbúnaðarráðuneyti, hafi það hlutverk að velja sýningarstjóra og fylgja eftir gæðakröfum.
          Í því skyni að kynna íslenska hestinn og efla ferðaþjónustuna í landinu verði efnt til skrautreiðar á Þingvöllum þrjá daga í viku, 15. júní til 15. ágúst. Sýningin verði í því fólgin að valinn hópur 10 manna ríði skrautreið niður Almannagjá og ljúki reiðinni með gangtegundasýningu á völlunum við Öxará.

    Skipuð hefur verið sýningastjórn til þess að vinna að framgangi þessara tillagna. Nefndin hefur beitt sér fyrir stofnun sýningarliðs hestamanna sem komið hefur fram við nokkur tækifæri. Unnið er að kynningu meðal ráðuneyta og stofnana ríkisins á þeim valkostum sem fyrir hendi eru varðandi þátttöku sýningarliðsins í opinberum athöfnum. Þá er í athugun að haldnar verði reiðsýningar á Þingvöllum.

Þingsályktun 18/123 um markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis, frá 10. mars 1999.

     Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að leita samstarfs við samtök og fyrirtæki í atvinnulífinu um gerð markaðsáætlunar um sölu á íslensku dilkakjöti erlendis.

    Hinn 6. ágúst l999 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd undir forustu Einars Odds Kristjánssonar alþingismanns til að gera úttekt og meta markaðsmöguleika og markaðssetningu lambakjöts á mörkuðum erlendis til að fá sem hæst verð og gera tillögur til úrbóta samkvæmt því. Sérstaklega var nefndinni falið að „horfa til þeirra möguleika sem kunna að vera fólgnir í hollustu og hreinleika afurðanna til að skila bændum ásættanlegu verði“. Í áliti nefndarinnar segir m.a.:

         Á síðustu árum hefur töluverð áhersla verið lögð á framþróun lífrænnar og vistvænnar framleiðslu dilkakjöts hér á landi. Hefur þróunarverkefnið „Áform“ gegnt forustuhlutverki í því starfi. Hefur verið talið raunhæft að stefna að því að u.þ.b. 20% dilkakjötsframleiðslunnar geti orðið lífrænt vottuð á næstu 10 árum. Náðst hefur að greiða um 15–25% hærra skilaverð (af erlendum mörkuðum) til bænda fyrir lífrænt vottaða framleiðslu og nokkru hærra verð fyrir vistvænt vottaða framleiðslu heldur en fyrir óvottaða framleiðslu.
         Á síðari hluta þessa áratugar hefur á framangreindum forsendum verið markvisst unnið að markaðssetningu á íslensku dilkakjöti erlendis. Nú má segja að reynsla sé fyrir hendi sem unnt er að draga ályktanir af. Útflutningur á íslensku dilkakjöti hefur þróast yfir í útflutning á sérstæðri vöru sem sniðin er að óskum endanlegra kaupenda.

    
Nefndin lagði m.a. til að næstu sjö ár verði varið verulegum fjármunum á fjárlögum til markaðsráðgjafar, kynningarstarfs, útgáfu kynningarefnis og annarra nýsköpunarverkefna sem telja má sameiginleg til stuðnings útflutningi á dilkakjöti.
    Á árunum 1995–1996 var gerð tilraun með sölu á frystu dilkakjöti á Manhattan-svæðinu í New York í um það bil 30 verslunum. Segja má að tilraunin hafi tekist vel en verðið sem fékkst fyrir kjötið var of lágt til að grundvöllur væri til að framleiða fyrir þennan markað. Síðan þá hefur það gerst í Bandaríkjunum sem og í flestum löndum í Evrópu að vitund neytenda um mikilvægi hollra og hreinna afurða hefur aukist verulega og er nú svo komið að verslunum, sem bjóða vörur á þessum forsendum, fjölgar og hefðbundnar verslanir leita í síauknum mæli eftir hollum, hreinum gæðavörum. Þetta skapar íslenskri landbúnaðarframleiðslu nýtt tækifæri til að ná fótfestu á mörkuðum í Bandaríkjunum.
    Í september og október 2000 fór fram á vegum Áforms-átaksverkefnis, Goða hf. og verkefnisins Iceland Naturally kynning á lambakjöti í verslunum Fresh Fields í Maryland og Virginia í Bandaríkjunum. Verslanirnar eru almennt staðsettar í hverfum þar sem vel menntað efnafólk býr. Viðskiptavinirnir eru annars vegar fólk sem er vel upplýst um gæði matvæla og hins vegar fólk sem hefur miklar tekjur. Þá fór einnig fram hliðstæð kynning í verslunum Byerly's og Lunds í Minneapolis.
    Sú reynsla, sem þegar er fengin, bendir til að hagkvæmast sé að selja kjötið sem „Season-vöru“, það er að segja vöru sem er árstíðabundin á markaðinum, í þessu tilfelli bundin við sláturtíðina.
    Sú reynsla, sem fékkst af sölu og kynningu á íslensku dilkakjöti í Bandaríkjunum á sl. hausti, verður lögð til grundvallar þeirri kynningu sem ráðgert er að fari fram haustið 2001. Ráðgert er að kjötkynning hefjist í byrjun september í haust í öllum verslunum Fresh Fields.
    Þá er þess að geta að Sláturfélag Suðurlands og Goði hf. hafa á síðustu 2–3 árum unnið að sölu og kynningu á íslensku dilkakjöti í Danmörku með góðum árangri, m.a. með stuðningi verkefnisins Áforms.

Þingsályktun 13/123 um framleiðslu íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar, frá 10. mars 1999.

              
Alþingi ályktar að stefna beri að því að matvælaframleiðsla á Íslandi skuli vera á forsendum sjálfbærrar þróunar fyrir árið 2003. Jafnframt skuli stefnt að því að auka hlut landbúnaðarafurða sem vottaðar eru lífrænar.

    
Árið 1995 voru samþykkt lög um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Árangur af starfi verkefnisins lýsir sér fyrst og fremst í þeirri róttæku breytingu sem orðið hefur á sl. árum á viðhorfum manna til gæðastýringar í landbúnaði og skilningi og þekkingu á þeim kröfum sem gerðar eru til vara á hágæðamörkuðum og hvernig unnt er að mæta þeim kröfum. Almennt má segja að í íslenskum landbúnaði sé stefnt að framleiðslu á forsendum sjálfbærrar þróunar. Um það vitnar meðal annars aukin gæðavitund bænda almennt, áform um gæðastýringu innan einstakra búgreina, sem m.a. nær til landnýtingar, svo og virk þátttaka bænda í verkefnum sem lúta að endurheimt landgæða, svo sem landgræðslu í samvinnu við Landgræðslu ríkisins og skógrækt.
    Þá hefur verkefnið stuðlað að því að nú eru fyrir hendi forsendur til þess að hefja sókn í framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Af ráðstöfunarfé verkefnisins hefur verið varið um 21,5 milljónum kr. til rannsókna af ýmsu tagi. Þar eru fyrirferðarmestar rannsóknir og tilraunir sem lúta að fóðuröflun fyrir lífræna sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu. Þá skal getið rannsókna í lífrænni ylrækt, rannsókna á gæðum og efnainnihaldi íslensks dilkakjöts og grænmetis og rannsókna á íslenskum lækningajurtum. Niðurstöður þessara rannsókna skapa forsendur til nýrrar sóknar á mörgum sviðum og með þeim er lagður grunnur að vísindalegri þekkingu og reynslu til slíkra framleiðsluhátta við íslenskar aðstæður. Niðurstöður rannsókna á gæðum og efnainnihaldi dilkakjöts og grænmetis geta haft og hafa þegar haft mikla þýðingu við markaðssetningu þessara afurða. Þannig hafa niðurstöður rannsókna, sem leiða í ljós áberandi hreinleika íslensks grænmetis umfram innflutt, orðið til þess að styrkja markaðsstöðu þess á markaðinum í samkeppni við innflutt grænmeti.
    Engu að síður blasir við að þróun þessara mála hefur verið mjög hæg hér á landi og eru fyrir því m.a. eftirfarandi ástæður:
          Framleiðendur hafa ekki átt kost á aðlögunarstyrkjum, líkt og framleiðendur í nágrannalöndunum njóta (sbr. þó breytingu á árinu 1999 með tilkomu búnaðarlagasamnings).
          Mengun frá landbúnaði hér á landi er hverfandi lítil og hreinleiki matvæla viðurkenndur. Bændur hafa að því leyti ekki haft augljósar ástæður til þess að breyta búskaparháttum.
          Skort hefur vísindalega þekkingu og reynslu af lífrænum búskaparháttum við íslenskar aðstæður, s.s. hvað varðar fóðuröflun, til þess að byggja á markvissa fræðslu og leiðbeiningar fyrir bændur.
          Skort hefur markaðsreynslu til þess að unnt sé með markvissum hætti að meta afkomumöguleika bænda í lífrænni framleiðslu og hvort geti borið þann viðbótarkostnað sem framleiðslunni fylgir. Áhugi verslana á því að markaðssetja lífrænar afurðir sem slíkar hefur fram undir þetta verið takmarkaður, s.s. varðandi dilkakjöt, og því ekki reynt á raunverulegan áhuga neytenda hér á landi.
          Kennsluefni í lífrænni framleiðslu hefur ekki verið fyrir hendi þar til nú.
    Fyrir forgöngu landbúnaðarráðuneytisins og Áforms-átaksverkefnis hefur verið stofnuð lífræn miðstöð við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Hlutverk hennar er að stuðla að rannsóknar- og þróunarstarfi á sviði lífrænnar ræktunar, veita fræðslu um lífrænan landbúnað og kynna bændum möguleika greinarinnar hér á landi.
    Af hálfu landbúnaðarráðuneytisins hefur einnig verið unnið að því að treysta þann lagagrunn og reglugerðir sem fjalla um lífræna framleiðslu og í undirbúningi eru tillögur um styrki til bænda vegna aðlögunar að lífrænni framleiðslu.

Þingsályktun 19/123 um stuðning ríkisins við kræklingarækt og annan fjörubúskap, frá 10. mars 1999.

              
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa, með lagasetningu ef þarf, kræklingaeldi og hvers konar annan fjörubúskap sem ætla má að verði á næstu árum tekinn upp á lögbýlum sem aðgang eiga að sjó og að sjá til þess að á viðeigandi rannsóknastofnunum verði sú sérfræðiþekking fyrir hendi sem að haldi má koma og þarf til þess að leiðbeina væntanlegum ræktendum skelfisks og hafa fullnægjandi eftirlit með framleiðslu þeirra í samræmi við kröfur einstakra markaða.

    Á árinu 2000 var unnið að upplýsingaöflun og lagt mat á möguleika Íslendinga í kræklingarækt og voru skrifaðar fjórar skýrslur sem var dreift til allra starfandi kræklingaræktenda og einnig settar á heimasíðu Veiðimálastofnunar (www.veidimal.is). Fyrri hluta ársins var farið til Prins Edward eyju í Kanada til að kynna sér kræklingarækt. Í framhaldi af þeirri heimsókn var fenginn til landsins sérfræðingur í kræklingarækt til að aðstoða við staðarval og leiðbeina við ræktunina.
    Til kynningar á verkefninu voru haldnir á árinu opnir fræðslu- og kynningarfundir á Ísafirði, Akureyri og í Borgarnesi. Fundirnir voru á vegum Veiðimálastofnunar, Hafrannsóknastofnunarinnar og atvinnuþróunarfélaga víðs vegar um landið.
    Þann 6. október var undirritaður samningur milli Dýralæknaháskólans á Prins Edward eyju í Kanada og Veiðimálastofnunar. Í samningnum kemur fram viljayfirlýsing um að sérfræðingar á Dýralæknaháskólanum aðstoði Íslendinga við uppbyggingu á kræklingarækt, meðal annars með því að taka á móti nemendum sem hafa hug á að taka lokaverkefni í kræklingarækt, námskeiðahaldi fyrir kræklingaræktendur o.fl.
    Í lok ársins 2000 höfðu tólf aðilar hafið tilraunarækt á kræklingi víðs vegar um landið. Á árinu voru settir í sjó um 60 km af söfnurum og er áætluð framleiðslugeta alls um 300 tonn. Gera má ráð fyrir mun minni framleiðslu vegna ýmissa byrjunarörðugleika.
    Á þessu ári er áætlað að vinna aðallega að þróun á ræktunartækni við kræklingarækt hér á landi, athugunum á vandamálum sem fylgja æðarfugli og vinna að heilnæmiskönnunum á ræktunarsvæðum. Gert er ráð fyrir að heimsækja alla kræklingaræktendur tvisvar á árinu og í lok ársins verður gerð samantekt um framgang kræklingaræktar. Dagana 21.–22. apríl var haldið námskeið í samstarfi við Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og sóttu nítján manns námskeiðið.


Menntamálaráðuneyti

Þál. 22/123 um eflingu íþróttasamstarfs milli Vestur-Norðurlanda, frá 11. mars 1999.

               Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra Íslands að setja, í samvinnu við menntamálaráðherra Færeyja og Grænlands, á fót vinnuhóp til þess að móta tillögur til eflingar samstarfi landanna þriggja í íþróttamálum.

    Fram hafa farið viðræður á milli fulltrúa Grænlands, Færeyja og Íslands og skipaður sérstakur starfshópur til að vinna að tillögum um verkefni sem hefur það að markmiði að efla samstarf vestnorrænu landanna á sviði íþrótta. Undirbúningsfundir voru haldnir í Færeyjum í maí á síðasta ári og hér á landi í lok september sl. Fram kom sl. sumar beiðni frá Grænlendingum um að frestað yrði fram til ársins 2001 að halda íþróttaráðstefnu og íþróttahátíð samkvæmt samningi vestnorrænu landanna vegna annarra umfangsmikilla hátíða sem fram fóru þar í landi á árinu 2000. Samstarfshópurinn um þetta verkefni hefur lagt fram tillögur sínar um íþróttaráðstefnu og íþróttahátíð sem fram fari á Grænlandi um mánaðamótin ágúst-september á þessu ári. Lokaundirbúningur þessarar hátíðar mun fara fram á fundi íþróttasambanda vestnorrænu landanna í Færeyjum um miðjan maí 2001.

Þál. 20/123 um stofnun þjóðbúningaráðs, frá 10. mars 1999.

         Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að koma á fót þjóðbúningaráði til að varðveita þekkingu á íslenskum búningum og gerð íslenskra búninga. Ráðinu verði falið að koma á fót leiðbeiningarþjónustu.

    Menntamálaráðherra skipaði í þjóðbúningaráð frá 1. janúar 2001. Óskað var tilnefninga, samkvæmt greinargerð með tillögu til þingsályktunar (þskj. 221 — 203. mál, 123. löggjafarþing 1998–99), frá Kvenfélagasambandi Íslands, Þjóðdansafélagi Reykjavíkur, Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, Þjóðminjasafni Íslands og Árbæjarsafni. Menntamálaráðherra ákvað að skipa fulltrúa Þjóðminjasafns sem formann.
    Í skipunarbréfi er vísað til ofangreindrar þingsályktunar og auk þess segir þar: „Þjóðbúningaráð hefur til ráðstöfunar 1,5 m.kr. á árinu 2001 fyrir starfsemi sína og til starfrækslu leiðbeiningarþjónustu. Ákvarðanir um frekari fjárveitingar hafa ekki verið teknar, enda ráðast þær af tillögum þjóðbúningaráðs og er óskað eftir því, að þær verði kynntar ráðuneytinu eins fljótt og kostur er.“ Samkvæmt upplýsingum frá formanni þjóðbúningaráðs eru tillögur þess í undirbúningi og verða kynntar ráðuneytinu innan skamms.

    Í þjóðbúningaráði eiga sæti:
         Lilja Árnadóttir, tilnefnd af Þjóðminjasafni Íslands, formaður,
         Áslaug Sverrisdóttir, tilnefnd af Árbæjarsafni,
         Svanhildur Stefánsdóttir, tilnefnd af Kvenfélagasambandi Íslands,
         Dóra Guðbjört Jónsdóttir, tilnefnd af Þjóðdansafélagi Íslands og
         Elínbjört Jónsdóttir, tilnefnd af Heimilisiðnaðarfélagi Íslands.
    Varamenn eru:
         Margrét Gísladóttir, tilnefnd af Þjóðminjasafni Íslands,
         Unnur Björk Lárusdóttir, tilnefnd af Árbæjarsafni,
         Halla Aðalsteinsdóttir, tilnefnd af Kvenfélagasambandi Íslands,
         Lilja Ingibjörg Jóhannsdóttir, tilnefnd af Þjóðdansafélagi Íslands og
         Kristín Jónsdóttir Schmidhauser, tilnefnd af Heimilisiðnaðarfélagi Íslands.


Þál. 23/123 um eflingu internetssamvinnu milli skóla á Vestur-Norðurlöndum, frá 11. mars 1999.

         Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra Íslands, í samvinnu við menntamálaráðherra Færeyja og Grænlands, að hvetja til og beita sér fyrir aukinni samvinnu skóla í löndunum þremur varðandi samskipti og samvinnu á internetinu.

    Haustið 2000 var hafist handa við að hefja samstarf skóla á Grænlandi, í Færeyjum og á Íslandi til að vinna að verkefni sem byggist á samskiptum og miðlun upplýsinga á Netinu. Í mars 2001, eftir fund vestnorrænu embættismannanefndarinnar á Íslandi, var gengið frá fjárhagsáætlun vegna verkefnisins og tengiliðir skipaðir í löndunum þremur.
    Verkefnið, sem er undir stjórn Jónu Pálsdóttur í þróunardeild menntamálaráðuneytis, hefur fengið heitið „Vi i Vest-Norden“. Það byggist á notkun Netsins til samskipta og upplýsingamiðlunar. Annars vegar verður verkefnið sögulegs eðlis fyrir 12, 13 og 14 ára nemendur með tveimur þátttökuskólum í hverju landi, hins vegar er áætlað að skipuleggja verkefni fyrir einn framhaldsskóla frá hverju landi. Verkefnisstjóri grunnskólahlutans er Jóhanna Karlsdóttir kennari á Akranesi. Áætlaður kostnaður árið 2001 er 2.372.000 kr. Verkefnisstjóri framhaldsskólahlutans hefur ekki verið valinn. Áætlað er að undirbúningur kennara hefjist í maí og að vinna með nemendum hefjist haustið 2001. Áætlaður kostnaður árið 2001 vegna framhaldsskólahlutans er 1.300.000 kr. Gert er ráð fyrir að nemendur sæki um ferðastyrki í norræna styrkjakerfið, Nord-Plus, og stefnt að því að þeir hittist vorið 2002 eftir vetrarvinnu á Netinu.

Þál. 25/123 um að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra, frá 11. mars 1999.

         Alþingi ályktar að menntamálaráðherra verði falið að láta gera athugun á réttarstöðu heyrnarlausra hér á landi í samanburði við réttarstöðu heyrnarlausra í nágrannalöndunum með það að markmiði að tryggja sem best stöðu íslenska táknmálsins.

    Í upphafi er vakin athygli á því að í yfirliti yfir ályktanir Alþingis á 123. löggjafarþingi er missagt að þál. frá 11. mars 1999 sé um að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra. Upphaflegt orðalag ályktunarinnar, þegar hún var fyrst lögð fram, var með framangreindum hætti en henni var breytt í meðförum menntamálanefndar á þann veg að menntamálaráðherra yrði falið að gera athugun á réttarstöðu heyrnarlausra hér á landi í samanburði við réttarstöðu heyrnarlausra í nágrannalöndunum, með það að markmiði að tryggja sem best stöðu íslenska táknmálsins. Í nefndaráliti menntamálanefndar, sem fylgdi tillögu hennar til framangreindrar þingsályktunar, kom meðal annars fram að gera yrði athugun á því hvort rétt væri að festa það í lög að táknmálið yrði móðurmál heyrnarlausra eða hvort hægt væri að tryggja réttarstöðu heyrnarlausra á annan hátt. Í samræmi við orðalag ályktunar Alþingis og athugasemda menntamálanefndar, sem henni fylgdu, leit menntamálaráðuneytið svo á að verkefni þess væri tvíþætt, annars vegar að taka saman yfirlit yfir réttarstöðu heyrnarlausra hér á landi eins og hún væri í dag og afla síðan upplýsinga um núverandi réttarstöðu heyrnarlausra annars staðar á Norðurlöndunum. Jafnframt yrði réttarstaða heyrnarlausra í þessum löndum borin saman og að endingu yrði bent á leiðir sem mögulegar væru til að tryggja sem best stöðu íslenska táknmálsins.
    Hinn 28. mars 2000 kynnti menntamálaráðherra ríkisstjórn skýrslu sem byggðist á athugun á réttarstöðu heyrnarlausra hér á landi. Í þessari athugun er gerð grein fyrir réttarstöðu heyrnarlausra hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum, þ.e. í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Jafnframt er réttarstaða heyrnarlausra í þessum löndum borin saman og bent á leiðir sem mögulegar eru til að tryggja sem best stöðu íslenska táknmálsins. Samanburður á réttarstöðu heyrnarlausra hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum leiðir í ljós að Finnar hafa nokkra sérstöðu með því að táknmáli heyrnarlausra er mörkuð sérstök réttarstaða í stjórnarskrá. Í Svíþjóð er farin sú leið að lögbinda tvítyngi heyrnarlausra en í Noregi, Danmörku og hér á landi hefur fyrst og fremst verið farin sú leið að efla menntun á sviði táknmáls auk eflingar túlkaþjónustu. Þessi athugun leiðir í ljós að á Íslandi hefur á sviði menntamála verið stigið stórt skref í þá átt að efla stöðu íslensks táknmáls heyrnarlausra innan skólakerfisins bæði í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla. Þar er heyrnarlausum tryggður réttur til að öðlast menntun í táknmáli heyrnarlausra og tekið sérstakt tillit til sérþarfa þeirra. Með því hefur grunnur verið lagður til eflingar íslensks táknmáls.
    Í framhaldi af framangreindri athugun ákvað ríkisstjórnin að tillögu menntamálaráðherra að nefnd, skipuð fulltrúum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins undir forystu menntamálaráðuneytisins, skyldi gera tillögu um lögbundinn rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu, afmarka sérstaklega þann kostnað sem slíkri þjónustu fylgir og hver skuli standa straum af honum. Í nefndina voru skipuð Þorgerður Benediktsdóttir deildarstjóri, tilnefnd af félagsmálaráðuneytinu, Sólveig Guðmundsdóttir yfirlögfræðingur, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Valur Árnason lögfræðingur, tilnefndur af menntamálaráðuneytinu, og er hann formaður nefndarinnar.
    Vinna nefndarinnar er á lokastigi og mun hún skila menntamálaráðherra tillögum sínum fljótlega.

Samgönguráðuneyti

Þingsályktun 26/123 um langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi, frá 11. mars 1999.

    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi. Áætlunin feli í sér úttekt á kostum sem taldir eru á jarðgangagerð á landinu, kostnaðarmat og arðsemismat einstakra framkvæmda og forgangsröðun verkefna. Sérstaklega verði horft til framkvæmda sem rjúfa vetrareinangrun, koma í stað annarrar kostnaðarsamrar vegagerðar, stytta vegalengdir eða stækka atvinnusvæði. Áætlunin liggi fyrir áður en lokið verður við næstu reglulegu endurskoðun vegáætlunar.

    
Í samræmi við ályktun Alþingis frá 11. mars 1999 fól samgönguráðherra Vegagerðinni að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga. Í framhaldi af kynningu skýrslu Vegagerðarinnar um málið í ríkisstjórn fól samgönguráðherra Vegagerðinni að vinna tillögu að framkvæmdum við jarðgöng á tímabili nýrrar vegáætlunar eða 2000–2004.
    Tillaga til þingsályktunar um jarðgangaáætlun 2000–2004 var samþykkt á Alþingi þann 13. maí 2000 og birt í A-deild Stjórnartíðinda 6. júlí 2000.

Þingsályktun 11/123 um rannsóknir á gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn, frá 10. mars 1999.

         Alþingi ályktar að fela samgönguráðherrra að hlutast til um að Siglingastofnun Íslands hefji sem fyrst undirbúningsrannsóknir og hagrænar athuganir á stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn.

    Siglingastofnun hefur unnið að rannsóknum á byggingu vöruhafnar í Þorlákshöfn í samræmi við þingsályktunartillögu frá 10. mars 1999. Fyrst var sjónum beint að höfn fyrir 10.000 tonna skip annars vegar og fyrir 20.000 tonna skip hins vegar. Kostnaðaráætlun fyrir hafnargerðina var um 600 milljónir kr. fyrir 10.000 tonna skip og um 1.900 milljónir kr. fyrir 20.000 tonna skip. Í þessum tillögum var gert ráð fyrir viðlegu við núverandi Suðurvarnargarð og ekki tekið beint tillit til staðsetningar iðjuvers. Fyrir um tveimur árum síðan kom fram ósk frá Jarðgufufélaginu um að athugað verði hvort mögulegt sé að höfnin geti tekið allt að 40.000 tonna skip. Niðurstöður frumathugunar benda til að það sé tæknilega mögulegt. Gróf kostnaðaráætlun segir að heildarkostnaður geti orðið rúmlega 4 milljarðar. Þá er ekki tekið sérstakt tillit til þess hvers konar stóriðja notar höfnina Sérkröfur, sem hafa kostnað í för með sér, myndu hækka heildarkostnaðinn. Jafnframt var unnið að arðsemisathugunum þessara framkvæmda. Þó svo að athuganir á stóriðjuhöfn fyrir Jarðgufuverksmiðjuna hafi verið lagðar á hilluna er áfram unnið eftir þingsályktunartillögunni um gerð vöruhafnar.
    Fyrir svo stórt og vandasamt verk eins og stækkun Þorlákshafnar er nauðsynlegt að vanda mjög til undirbúnings. Gerð hefur verið frumkönnun á hvort hægt sé að dýpka hafnarstæðið með dælingu og reyndust niðurstöður jákvæðar. Rannsóknir á öldufari og straumum við suðurströndina samnýtast þremur rannsóknarverkefnum, gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn, könnun á ferjuaðstöðu við Bakkafjöru og athugunum á öryggi skipa á siglingaleið við Suðvesturland. Nýr hugbúnaður verður tekinn í notkun við rannsóknir á öldufari inn að Þorlákshöfn og við rannsóknir á straumum verður stuðst við reiknilíkan Siglingastofnunar um sjávarföll og sjávarflóð.
    Stærsti kostnaðarliðurinn eru framkvæmdir við varnargarða. Ölduáraunin er það mikil að þróa hefur þurft frekar hönnun brimvarnagarða af bermugerð. Af tæplega 60 bermugörðum sem byggðir hafa verið í heiminum hefur um helmingurinn verið byggður hér á landi. Nauðsynleg forsenda fyrir frekari vinnu við verkefnið er að nægjanlegt magn sé til staðar af 20 til 30 tonna stórgrýti nærri hafnarstæðinu. Fyrstu niðurstöður rannsókna benda til að svo sé. Fullyrða má að bygging bermugarða í tengslum við stækkun í Þorlákshöfn sé hagkvæmasti kosturinn til að mynda skjól. Í framhaldi af þessum rannsóknum er stefnt að því að byggja líkan af hafnarsvæðinu í Þorlákshöfn og kanna ýmsa kosti við stækkun fiskihafnarinnar og gerð vöruhafnar.

Þingsályktun 5/123 um hafnaáætlun 1999–2002, frá 16. febrúar 1999.

    Skýrsla samgönguráðherra um hafnarframkvæmdir 1999 var lögð fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000 og vísast til hennar (þskj. 1385).

Þingsályktun 24/123 um vinnuumhverfi sjómanna, frá 11. mars 1999.

         Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stuðla að því að vinnuumhverfi sjómanna sé bætt. Meðal annars þarf að huga að mengunarvörnum um borð í skipum, eftirliti með meðferð matvæla og meðferð hættulegra efna, auk þess sem gefa þarf gaum að vinnuvernd um borð í fiskiskipum og kaupskipum á þann hátt að um vinnuumhverfi sjómanna gildi vinnu-, hollustu- og mengunarvarnareglur sambærilegar við þær sem gilda hjá öðrum starfsstéttum.

    
Með bréfi forsætisráðuneytis, dags. 6. desember 2000, var samgönguráðuneytinu falin framkvæmd þingsályktunar um vinnuumhverfi sjómanna en Alþingi sendi hana forsætisráðuneyti 23. mars 2000. Með bréfi til Alþingis 18. desember 1999 tilkynnti ráðuneytið að það hefði þegar hafið undirbúning að framkvæmd ályktunarinnar með væntanlegri langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda.
    Langtímaáætlunin hefur nú verið lögð fram og er til umfjöllunar í samgöngunefnd Alþingis. Í framhaldi af samþykkt hennar verður m.a. unnið að þeim málefnum sem þingsályktun um vinnuumhverfi sjómanna tekur til.

Þingsályktun 10/123 um vegtolla, frá 10. mars 1999.

          Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er kanni hvort unnt sé og skynsamlegt að beita vegtollum til þess að draga úr þörf fyrir gerð samgöngumannvirkja, stuðla að minni mengun og afla fjár til vegagerðar. Miðað verði við að heildarskattheimta af bifreiðum og umferð aukist ekki.

    Með bréfi forsætisráðuneytis, dags. 1. desember 2000, var samgönguráðuneytinu falin meðferð og framkvæmd þingsályktunartillögu um vegtolla sem samþykkt var þann 10. mars 1999. Ekki hefur verið gengið frá skipun nefndar til að fjalla um málið en það verður gert innan tíðar.

Sjávarútvegsráðuneyti

Þál. 8/123 um hvalveiðar, frá 10. mars 1999.

         Alþingi ályktar að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land og tekur fram að ályktun þess frá 2. febrúar 1983 stendur ekki í vegi fyrir því. Veiðarnar fari fram á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og undir eftirliti stjórnvalda.
         Alþingi leggur áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands við nýtingu hvalastofna á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda.
         Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar, meðal annars með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Undirbúningur miði að því að veiðar geti hafist sem fyrst. Kostnaður við kynninguna verði greiddur úr ríkissjóði. Öllu kynningarstarfi verði flýtt svo sem auðið er.

    Í samræmi við þingsályktunartillöguna hefur frá upphafi verið lögð sérstök áhersla á að kynna stefnu Íslands í hvalamálum á fundum sjávarútvegsráðherra með fulltrúum annarra þjóða, fulltrúum frjálsra félagasamtaka og blaðamönnum. Hefur sjávarútvegsráðherra m.a. kynnt hana á fundum með sjávarútvegsráðherrum Kína, Bretlands, Írlands, Spánar, Frakklands og sjávarútvegsráðherrum Norðurlanda. Sjávarútvegsráðherra átti fund með framkvæmdastjóra fiskveiðimála hjá Evrópusambandinu og kynnti þá fyrir honum stefnu Íslands í hvalamálum. Þá hefur sjávarútvegsráðherra átt fundi með sendiherrum fjölmargra ríkja. Meðal þeirra eru Bandaríkin, Kanada, Japan, Þýskaland og Kína. Sérstakir fundir hafa verið haldnir með embættismönnum frá Japan. Meðal frjálsra félagasamtaka, sem rætt hefur verið við um hvalamál, má nefna Marine Stewardship Council. Fréttamenn frá m.a. frönskum, breskum, bandarískum, þýskum, kanadískum, spænskum og norrænum fjölmiðlum hafa átt viðtöl við sjávarútvegsráðherra sem hefur gert þeim grein fyrir stefnu Íslands í hvalamálum.
    Sjávarútvegsráðherra hefur falið Stefáni Ásmundssyni, þjóðréttarfræðingi ráðuneytisins, að hafa kynningu og annan undirbúning að hvalveiðum Íslands sem aðalverkefni sitt á þessu og næsta ári. Jafnframt hefur áhersla verið lögð á að fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins sæki fundi alþjóðastofnana er varða hvalamál og kynni þar stefnu Íslands í hvalamálum fyrir fulltrúum annarra ríkja. Í þessu sambandi má nefna fundi aðildarríkjaþings samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES), fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO).
    Kynning með ofangreindum hætti mun halda áfram. Sérstök kynning á hvalamálum í Bandaríkjunum stendur yfir. Jafnframt er verið að undirbúa mögulega inngöngu Íslands í Hvalveiðiráðið að nýju. Þá hefur Hafrannsóknastofnuninni verið falið að undirbúa þá vísindalegu ráðgjöf sem veiðarnar munu byggjast á. Í stuttu máli þá er unnið að málinu á grundvelli þingsályktunartillögunnar með það að markmiði að hefja hvalveiðar að nýju.
    Í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir að varið verði alls 25 milljónum króna til kynningar á stefnu Íslands í hvalamálum.


Umhverfisráðuneyti

Þál. 15/123 um Vatnajökulsþjóðgarð, frá 10. mars 1999.

     Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kanna, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, möguleika á að stofna Vatnajökulsþjóðgarð.
         Umhverfisráðherra kynni Alþingi stöðu málsins á vorþingi árið 2000 með það í huga að unnt verði að stofna Vatnajökulsþjóðgarð á aldamótaárinu.

    Haustið 1999 skipaði ráðherra starfshóp til að kanna möguleika á að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Það var niðurstaða starfshópsins að hægt væri að taka ákvörðun um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á aldamótaárinu ef mörk þjóðgarðsins ráðast af jaðri jökulsins og mörkum þjóðgarðsins í Skaftafelli. Starfshópurinn benti jafnframt á að mörg mál þurfi að leysa áður en til formlegrar stofnunar þjóðgarðs geti komið, þar á meðal eignarhald á svæðinu. Vorið 2000 kynnti ráðherra fyrir Alþingi, sbr. þingskjal 1300, niðurstöður starfshópsins.
    Síðastliðið sumar óskaði ráðuneytið eftir því við óbyggðanefnd að hún tæki svæðið umhverfis Vatnajökul til meðferðar og varð nefndin við þeirri ósk og hefur fjármálaráðuneytinu verið tilkynnt um ákvörðun nefndarinnar. Fjármálaráðuneytið hefur nú lýst kröfum sínum á land í Sveitarfélaginu Hornafirði en beðið er eftir því að fjármálaráðuneytið lýsi kröfum sínum í Rangárvallarsýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Það mun þó vera nokkur tími þar til óbyggðanefnd úrskurðar um þjóðlendumörk.
    Þann 26. september sl. samþykkti svo ríkisstjórn Íslands að stofnaður yrði Vatnajökulsþjóðgarður sem nær til Vatnajökuls og þjóðgarðsins í Skaftafelli. Samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, verður það Náttúruvernd ríkisins sem mun vinna að friðlýsingartillögum fyrir væntanlegan þjóðgarð. Stefnt verður að því að þjóðgarðurinn verði formlega stofnaður árið 2002, á alþjóðlegu ári fjalla.

Þingsályktun 7/123 um rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu, frá 8. mars 1999.

         Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta gera ítarlegar rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu með það að markmiði að stuðla að skynsamlegri nýtingu rjúpnastofnsins. Tilgangur rannsóknanna verði að kanna umfang og áhrif skotveiða á stofninn, viðkomu hans eftir svæðum, samhengi veiða og náttúrulegra affalla og að gera samanburð á rjúpnastofninum undir mismiklu veiðiálagi.

    Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur nú að rannsóknum á vetrarafföllum rjúpu og er um þriggja ára verkefni að ræða. Haustið 1999 ákvað umhverfisráðherra í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands að friða rjúpu fyrir skotveiði á stóru svæði á Suðvesturlandi til þriggja ára. Þetta var gert til að unnt yrði að kanna áhrif skotveiða á rjúpnastofninn á svæðinu en rannsóknir bentu til þess að stofninn væri ofveiddur. Áfangaskýrslu fyrir þennan hluta rannsóknanna var skilað til umhverfisráðherra vorið 2000.
    Nú fara fram rannsóknir á vetrarafföllum rjúpna í Eyjafirði og er ætlunin að bera saman vetrarafföll á friðuðu svæði og vetrarafföll á svæði þar sem skotveiði er leyfð. Síðastliðið haust var rjúpnaveiði bönnuð á austurströnd Eyjafjarðar en veiði leyfð á vesturströndinni. Á næsta hausti verður vesturströnd Eyjafjarðar friðuð en friðun aflétt á austurströndinni. Þegar þessum rannsóknum er lokið mun Náttúrufræðistofnun Íslands skila lokaskýrslu um vetrarafföll rjúpna til umhverfisráðherra og verður skýrslan lögð fram á Alþingi til kynningar.
    Á næstunni munu ráðuneytið og Náttúrufræðistofnun Íslands hefja viðræður um framhald rannsókna á vetraraföllum rjúpna.

Þál. 21/123 um kortlagningu ósnortinna víðerna á Íslandi, frá 10. mars 1999.

         Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kortleggja ósnortin víðerni á Íslandi. Gerð verði áætlun um verkefnið, umfang þess og kostnað, og nauðsynleg framlög mörkuð í fjárlögum.

    Náttúruvernd ríkisins var falið að vinna áætlun um kortlagninguna og hefur stofnunin haft samband við Landmælingar Íslands um að Landmælingar geri kort þar sem stuðst verður við vinnuaðferð Norðmanna, þ.e. að kortleggja ósnortin víðerni með tilliti til fjarlægðar frá mannvirkjum. Auk þess er fyrirhugað að meta m.a. upplýsingar um hæðarskiptingu, ár, vötn og jökla, helstu örnefni, vegi og slóða, sæluhús, neyðarskýli og vita, virkjanir, gróðurfar, búsvæði og jarðfræði við kortlagninguna.
    Samkvæmt náttúruverndarlögum, nr. 44/1999, skal Náttúruvernd ríkisins í samvinnu við aðrar stofnanir vinna að nátttúruverndaráætlun sem umhverfisráðherra mun leggja fram á haustþingi 2002. Í náttúruverndaráætluninni á meðal annars að taka tillit til ósnortinna víðerna. Það var því ákveðið að kortlagning ósnortinna víðerna yrði unnin samhliða vinnu við náttúruverndaráætlunina og verður þá kortlagningunni lokið árið 2002.


Utanríkisráðuneyti


Þál. 1/123 um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1999, frá 19. desember 1998.

          Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirtalda samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1999 sem gerðir voru í Reykjavík 7. október 1998:
        1.
     Sameiginlega bókun um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 1999.
         2.    Bókun um sérstakar verndunarráðstafanir með tilliti til stjórnunar veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1999.
        3
.     Samning milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1999.
        4.
     Samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands, efnahagslögsögu Noregs og fiskveiðilögsögu Jan Mayen á árinu 1999.
        5.
     Samkomulag milli Íslands og Rússneska sambandsríkisins um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 1999.

    Framangreindum samningum, sem giltu aðeins fyrir árið 1999, var beitt til bráðabirgða frá 1. janúar 1999. Þeir voru staðfestir af Íslands hálfu 31. desember 1998 en voru ekki staðfestir af hálfu annarra samningsaðila og öðluðust því ekki formlega gildi.

Þál. 2/123 um fullgildingu samnings milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um Norræna fjárfestingarbankann, frá 19. desember 1998.

         Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um Norræna fjárfestingarbankann sem gerður var í Ósló 23. október 1998.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 22. janúar 1999 og öðlaðist gildi 18. júlí 1999.

Þál. 16/123 um fullgildingu samnings um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra, frá 10. mars 1999.

         Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra sem samþykktur var í Ósló 18. september 1997.

    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 5. maí 1999 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. nóvember 1999.


Þál. 17/123 um staðfestingu samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen, frá 10. mars 1999.


         Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirtalda samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen sem gerðir voru í Reykjavík 18. júní 1998:
    1.
     Samning milli Íslands, Grænlands/Danmerkur og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen.
    2.
     Samning um gagnkvæmar veiðar í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands.
    3.
     Tvíhliða samkomulag milli Íslands og Noregs.

    
Samningnum var beitt til bráðabirgða frá 20. júní 1998. Hann var staðfestur af Íslands hálfu 14. ágúst 1999 og öðlaðist gildi 10. desember 1999.


124. löggjafarþing:


Þál. 1/124 um staðfestingu samnings milli Íslands, Noregs og Rússlands um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs ásamt tvíhliða bókunum Íslands og Noregs annars vegar og Íslands og Rússlands hins vegar, frá 16. júní 1999.

          Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta samning milli ríkisstjórnar Íslands, ríkisstjórnar Noregs og ríkisstjórnar Rússneska sambandsríkisins um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs ásamt bókunum ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Noregs annars vegar og ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Rússneska sambandsríkisins hins vegar samkvæmt samningnum sem undirritaður var í St. Pétursborg 15. maí 1999.

    
Samningurinn og bókanirnar voru staðfestar af Íslands hálfu 16. júní 1999 og öðluðust gildi 15. júlí 1999.