Ferill 737. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1330  —  737. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um kjaramál fiskimanna og fleira.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að enn einu sinni skuli sett lög á kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna og nú í annað skipti í þessari lotu sjómanna við að reyna að ná kjarasamningi með því að beita verkfallsvopninu. Ríkisstjórnin greip inn í deiluna 19. mars sl. eftir að verkfall hafði staðið í þrjá sólarhringa og frestaði því til 1. apríl. Þetta var gert þrátt fyrir að talið væri að gangur væri að komast í viðræðurnar og deiluaðilar hefðu mótmælt því að löggjafinn gripi inn í. Afleiðingar þeirra afskipta urðu til að spilla fyrir samningsmöguleikum eins og stjórnarandstaðan varaði við þegar frestunarlögin voru sett. Nú sex vikum síðar standa menn svo frammi fyrir afleiðingum fyrri inngripa: samningar hafa ekki tekist.
    Með þessari lagasetningu er verið að banna verkfall sjómanna og þeir þannig sviptir rétti sínum til að beita þeim vopnum sem fyrir löngu hafa verið viðurkennd sem hluti af mannréttindum. Nefndinni gafst afar takmarkaður tími til starfa og minni hlutanum var neitað um að kalla hagsmunaaðila á fund nefndarinnar til að fá álit þeirra á málinu. Með frumvarpinu er gerðardómi falið að ákvarða kjör sjómanna. Í 2. gr. frumvarpsins eru talin upp þau atriði sem gerðardómur á að taka ákvörðun um. Minni hlutinn telur að afar hæpnar forsendur séu fyrir því að lögfesta þau atriði sem gerðardómur á að takast á við og varða munu kjör sjómanna. Efnislega gagnrýnir minni hlutinn einkum a-lið 1. mgr. 2. gr. þar sem gerðardómi er falið að ákveða ,,atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila“. Hér er vísað í atriði sem einungis er að finna í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Minni hlutinn bendir á að samkvæmt kjarasamningum sjómanna, grein 1.26, skal útgerðarmaður tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn. Minni hlutinn telur að svokallað,,verð til viðmiðunar“ sé fráhvarf frá þessari grein kjarasamningsins og varar við lögfestingu þessa ákvæðis. Afleiðing þessa kann að verða sú að til verði eins konar nýtt ,,landssambandsverð“ og að þeir aðilar sem hingað til hafa lagt sinn fisk inn á markað kjósi þá frekar að nýta sér hið nýja ,,landssambandsverð“ til uppgjörs á aflahlut sjómanna. Ef svo fer er það stórt skerf aftur á bak á sama tíma og talið er eðlilegt að samkeppni og markaður ráði verði á öðrum sviðum atvinnulífsins. Nær hefði verið að ríkisstjórnin lýsti því yfir að stefnt væri að aðskilnaði veiða og vinnslu og að allur afli yrði verðlagður á markaði. Þannig væri stærsta deilumál sjómanna og útvegsmanna leyst og forsendur skapaðar fyrir eðlilegum samskiptum þessara aðila.
    Það vekur sérstaka eftirtekt að ríkisstjórninni skuli hafa legið svo á að koma lögum yfir sjómenn að hún gaf sér ekki tíma til að gaumgæfa hvort það frumvarp sem lagt var fyrir Alþingi, á einstæðum útbýtingarfundi, samrýmdist ýmsum alþjóðasáttmálum og samþykktum sem Ísland er aðili að, eins og samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). Það rann hins vegar upp fyrir ríkisstjórninni við 1. umræðu málsins að líklega hefði hún gengið út fyrir öll mörk í frumvarpinu. Í tilraun til að forðast frekari ákúrur af hálfu ILO, og til að eiga síður á hættu að verða uppvís að því að brjóta frekar af sér gagnvart öðrum samningum sem Ísland er bundið af, hefur ríkisstjórnin hlutast til um að meiri hlutinn geri breytingar á 3. gr. frumvarpsins. Þar hafa nú verið teknar út viðmiðanir gagnvart efni og tímalengd vélstjórasamningsins. Þannig telur ríkisstjórnin að hún hafi skorið sig niður úr þeirri snörunni. Eftir stendur meginefni frumvarpsins sem er gróf íhlutun í kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna. Því hefur minni hlutinn mótmælt harðlega.
    Minni hlutinn vill vekja athygli á því að fram kom í viðræðum nefndarinnar við Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna, að útvegsmenn gætu samþykkt frestun á verkfalli sjómanna til að ljúka mætti samningum með eðlilegum hætti. Í ljósi þess má ætla að ekki sé fullreynt hvort unnt væri að ná samningum milli deiluaðila ef þeir fengju tóm til þess.
    Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 15. maí 2001.



Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Jóhann Ársælsson.


Guðjón A. Kristjánsson.