Ferill 671. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1333  —  671. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um skipan opinberra framkvæmda.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Ólason og Hafstein Hafsteinsson frá fjármálaráðuneyti, Skúla Magnússon, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, Hjörleif Kvaran borgarlögmann, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Stefán L. Stefánsson frá Kópavogsbæ, Árna Jóhannsson frá Samtökum iðnaðarins, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Guðrúnu Rögnvaldardóttur frá Staðlaráði Íslands, Júlíus S. Ólafsson frá Ríkiskaupum og Guðrúnu Ástu Sigurðardóttur frá Samtökum verslunarinnar. Umsagnir bárust um málið frá Ríkisendurskoðun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, laganefnd Lögmannafélags Íslands, bæjarráði Kópavogs, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Verslunarráði Íslands, Ríkiskaupum, Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnun. Einnig bárust gögn frá fjármálaráðuneyti.
    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um opinber innkaup sem gert er ráð fyrir að hafi framvegis að geyma reglur um innkaup og útboð. Með frumvarpinu eru gerðar tvær meginbreytingar á núgildandi lögum um skipan opinberra framkvæmda, nr. 63/1970, annars vegar eru breytingar sem stafa af breytingum á lögum um opinber innkaup og hins vegar er kveðið á um hlutverk og starfsemi Framkvæmdasýslu ríkisins. Frumvarpinu er ætlað að tryggja faglega málsmeðferð við framkvæmdir sem ríkið stendur að og miðar það að því að settar verði reglur um nánari skilgreiningu á verklagi og skipulagi einstakra áfanga opinberra framkvæmda, þ.e. um frumathugun, áætlunargerð, verklega framkvæmd og skilamat. Áfangaskipting og aðrir þættir sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru að mestu óbreyttir frá því fyrirkomulagi sem nú er viðhaft, en helsti munurinn er sá að settar verða fram verklagsreglur.
    Meiri hlutinn leggur til svofelldar breytingar á frumvarpinu:
     1.      Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til að ákvæðum um lýsingu á ábyrgðarsviði og verkaskiptingu þeirra aðila sem standa að framkvæmd verði bætt inn í upptalningu á þeim atriðum sem áætlunargerð um opinberar framkvæmdir skal hafa að geyma skv. 7. gr. Meiri hlutinn lítur svo á að með ákvæði sem þessu verði hægt að komast hjá margvíslegum ágreiningi, þar sem það muni liggja fyrir strax í upphafi framkvæmdar hver ber ábyrgð á hverjum þætti verks og hver skuli framkvæma hann. Meiri hlutinn bendir á að ábyrgð Framkvæmdasýslu ríkisins við undirbúning framkvæmdar felst í því að sinna hlutverki sínu sem ráðgefandi aðili og sjá til þess að undirbúningi sé hagað í samræmi við ákvæði laganna, að allar áætlanir séu sem best úr garði gerðar og að þeim sem skylt er að komi að ákvarðanatöku, svo sem fjármálaráðuneyti, sé gert ljóst hvernig staðið sé að málum. Stofnunin ber einnig ábyrgð á stjórn verklegra framkvæmda fyrir hönd verkkaupa. Í því felst að sjá til þess að farið sé að lögum og reglum ásamt því að vinna í samræmi við almenn markmið í rekstri stofnunarinnar, sbr. 20. gr. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að komi upp ágreiningur milli Framkvæmdasýslu ríkisins og verkkaupa varðandi einstaka þætti við undirbúning eða framkvæmd verkefnis geta aðilar leitað álits fjármálaráðherra á grundvelli þess að hann fer með framkvæmd laganna. Þá bendir meiri hlutinn á varðandi gerð kostnaðaráætlana að fulltrúar fjármálaráðuneytis upplýstu við meðferð málsins að hún yrði eitt af þeim atriðum sem fjallað yrði um í sérstakri nefnd ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að skilgreina verklag við opinberar framkvæmdir og að í framhaldi af því yrði unnið að samræmingu milli stærstu verkkaupa af hálfu ríkisins þannig að þessi þáttur opinberra framkvæmda verði skýr og afmarkaður.
     2.      Þá telur meiri hlutinn óeðlilegt að ekki sé gert ráð fyrir þeim möguleika að Framkvæmdasýsla ríkisins geti falið einkaaðilum að annast einstök verkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt ákvæðum 20. gr. og leggur til að við greinina verði bætt ákvæði þess efnis.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. maí 2001.Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Gunnar Birgisson.Sigríður A. Þórðardóttir.


Hjálmar Árnason.