Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1344  —  223. mál.




Nefndarálit



um frv. til þjóðminjalaga.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni J. Hafstein frá menntamálaráðuneyti, Gunnar J. Birgisson hrl., Guðnýju G. Gunnarsdóttur frá Félagi íslenskra safnmanna, Tryggva Felixson frá Landvernd, Trausta Baldursson og Guðríði Þorvarðardóttur frá Náttúruvernd ríkisins, Svein Runólfsson og Úlf Björnsson frá Landgræðslu ríkisins, Elínu Smáradóttur og Stefán Thors frá Skipulagsstofnun, Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð, Guðmund Ólafsson frá fornleifadeild Þjóðminjasafns, Garðar Guðmundsson og Ragnheiði Traustadóttur frá fornleifanefnd Þjóðminjasafns, Björn Stefánsson, Steinunni Kristjánsdóttur og Margréti Hermanns-Auðardóttur frá Fornleifafræðingafélagi Íslands, Bjarna Einarsson frá Fornleifafræðistofunni, Orra Vésteinsson frá Fornleifastofnun Íslands, Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hjörleif Kvaran frá Reykjavíkurborg. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá fræðslu- og menningarsviði Austur-Héraðs, Borgarbyggð, Byggðasafni Árnesinga, Byggðasafni Hafnarfjarðar, Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna, Byggðasafni Skagfirðinga, Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdælinga, Kristínu Huld Sigurðardóttur, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Félagi íslenskra fornleifafræðinga, Félagi íslenskra safnmanna, Félagi norrænna forvarða – Íslandsdeild, Fornleifafræðingafélagi Íslands, Fornleifafræðistofunni, Fornleifastofnun Íslands, fornleifadeild Þjóðminjasafns, húsverndardeild Þjóðminjasafns, Háskóla Íslands – sagnfræðiskori, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Kvikmyndasafni Íslands, Landvernd, Landgræðslu ríkisins, munadeild Þjóðminjasafns, safnráði Listasafns Íslands, Margréti Hermanns-Auðardóttur, Reykjavíkurakademíunni, Minjasafni Egils Ólafssonar, Minjasafninu á Akureyri, minjaverði Vesturlands og Vestfjarða, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruvernd ríkisins, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra, Sjóminjasafni Íslands, Sjóminjasafninu á Eyrarbakka, Skipulagsstofnun, Skógrækt ríkisins, starfsmönnum Árbæjarsafns, Sögufélaginu, Terry Gunnell, lektor í þjóðfræði, þjóðminjaráði, þjóðminjaverði, Þjóðskjalasafni Íslands og Þór Magnússyni, fyrrverandi þjóðminjaverði.
    Samhliða þessu frumvarpi eru lögð fram þrjú frumvörp: frumvarp til safnalaga, frumvarp til laga um húsafriðun og frumvarp til laga um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa. Með frumvörpum þessum er gildandi þjóðminjalögum, nr. 88/1989, skipt upp og lagt til að sérlög gildi um hvern framangreindan þátt.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á stjórn þjóðminjavörslunnar með það fyrir augum að einfalda og styrkja stjórnkerfi hennar, stytta boðleiðir og skilgreina betur ábyrgð og starfssvið hverrar stofnunar. Í því skyni er í frumvarpinu lagt til að breyta heiti Þjóðminjasafns Íslands í embætti þjóðminjavarðar og innan þeirrar stofnunar sé rekið safn sem beri heitið Þjóðminjasafn Íslands. Í grundvallaratriðum er ekki lögð til efnisleg breyting á inntaki þjóðminjavörslunnar.     Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og borist fjölmargar umsagnir um það. Er það niðurstaða nefndarinnar að til að ná framangreindum markmiðum sé skynsamlegast að skipta Þjóðminjasafni Íslands í tvær sjálfstæðar stofnanir, Þjóðminjasafn Íslands og Fornleifavernd ríkisins, sem hafi hvor um sig mikilvægu hlutverki að gegna á sviði þjóðminjavörslunnar og eðli málsins samkvæmt hafi náið samstarf. Í því sambandi leggur nefndin áherslu á að samkvæmt breytingartillögu nefndarinnar við 2. gr. frumvarpsins kemur fram að Þjóðminjasafn Íslands og Fornleifavernd ríkisins starfi saman að mörkun stefnu og gerð langtímaáætlunar um þjóðminjavörsluna í heild. Enn fremur bendir nefndin á breytingartillögu við 29. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að ráðherra skuli með reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna og skuli þar m.a. kveða á um samstarf Fornleifaverndar ríkisins, Þjóðminjasafns Íslands og húsafriðunarnefndar.
    Sú skipting sem leiðir af framangreindu kallar að mati nefndarinnar á breytingu á starfsheitum á þessum stofnunum sem lýsi vel starfssviði hvorrar stofnunar fyrir sig. Telur nefndin að heitið Fornleifavernd ríkisins lýsi vel þeirri stjórnsýslustarfsemi sem embætti þjóðminjavarðar var ætlað að hafa með höndum samkvæmt frumvarpinu. Fjallar Fornleifavernd ríkisins um allar staðbundnar og tímabundnar fornleifarannsóknir og veitir leyfi til þeirra. Er Fornleifavernd ríkisins söfnum og öðrum hlutaðeigandi aðilum til ráðgjafar um varðveislu og kynningu menningarsögulegra minja auk þess að hafa eftirlit með öllum fornleifarannsóknum og er hlutaðeigandi aðilum til ráðgjafar um skráningu, rannsóknir og varðveislu fornleifa. Nefndin telur hér mikilvægt að allir sem á þurfa að halda hafi aðgang að rannsóknarskýrslum og gagnagrunnum. Þjóðminjasafni Íslands er aftur á móti ætlað að vera höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslunnar. Það annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á minjum um menningarsögu þjóðarinnar og kynningar þeirra, innan lands og utan. Þjóðminjasafn Íslands er byggðasöfnum og öðrum minjasöfnum til ráðgjafar og stuðlar að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu á sviði þjóðminjavörslunnar. Með hliðsjón af framangreindu hlutverki Þjóðminjasafns Íslands telur nefndin rétt að forstöðumaður safnsins beri heitið þjóðminjavörður.
    Nefndin bendir enn fremur á að í frumvarpinu er lagt til að þjóðminjaráð og fornleifanefnd í núverandi mynd verði lögð niður. Sett verði á stofn úrskurðarnefnd er beri heitið fornleifanefnd, er verði skipuð aðilum með fræðilega þekkingu á málaflokknum, og þangað verði hægt að skjóta tilteknum ákvörðunum Fornleifaverndar.
    Þá bendir nefndin á að lagt er til að settur verði á fót sérstakur fornleifasjóður sem hafi það hlutverk að úthluta styrkjum til rannsóknaverkefna. Í úthlutunarreglum sjóðsins sé tryggt að styrkir séu veittir á faglegum grunni og að hlutlægt mat sé lagt á umsóknir.
    Enn fremur telur nefndin eðlilegt, til að gæta fyllstu hagkvæmni í rekstri, að Þjóðminjasafn Íslands, Fornleifavernd ríkisins og húsafriðunarnefnd geri með sér samning um sameiginlega skrifstofuþjónustu og fjármálaumsýslu þrátt fyrir stjórnsýslulegan aðskilnað.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 9. maí 2001.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Tómas Ingi Olrich.



Ólafur Örn Haraldsson.


Einar Már Sigurðarson.


Einar Oddur Kristjánsson.



Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Hjálmar Árnason.