Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1349  —  224. mál.




Breytingartillögur



við frv. til safnalaga.

Frá menntamálanefnd.



     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  Í lögum þessum er kveðið á um skipulag lista- og minjasafna í þeim tilgangi að varðveita og kynna menningarsögu íslensku þjóðarinnar og náttúrusögu Íslands.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                  Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn málefna minja- og listasafna. Til minjasafna teljast menningarminjasöfn og náttúruminjasöfn.
                  Menntamálaráðherra skipar safnaráð til fjögurra ára í senn. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn fulltrúa auk varamanns og Félag íslenskra safnmanna einn fulltrúa auk varamanns. Auk þeirra eiga sæti í ráðinu forstöðumenn höfuðsafna og skulu þeir tilnefna varamenn í sinn stað. Menntamálaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna.
     3.      Við 3. gr. Greinin orðist svo:
                  Safnaráð er samráðsvettvangur starfsemi lista- og minjasafna. Safnaráð hefur eftirlit með söfnum í eigu ríkisins og söfnum sem hljóta ríkisstyrki. Safnaráð úthlutar úr safnasjóði, sbr. 10. gr.
     4.      Við 4. gr. Greinin orðist svo:
                  Safn er samkvæmt lögum þessum stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar.
     5.      Við 5. gr.
                 a.     2. málsl. 2. mgr. orðist svo: Á fjögurra ára fresti skulu höfuðsöfn semja sameiginlega stefnuyfirlýsingu fyrir það safnasvið sem þau veita forstöðu og skal stefnuyfirlýsing ásamt verkáætlun kynnt safnaráði.
                  b.      2. málsl. 5. mgr. orðist svo: Náttúruminjasafn Íslands annast kynningu og sýningar á náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda.
     6.      Við 7. gr. Í stað orðanna „safnaráðs og þjóðminjavarðar“ í 1. málsl. komi: forstöðumanns viðkomandi höfuðsafns og safnaráðs.
     7.      Við 10. gr.
                  a.      B-liður 2. mgr. orðist svo: önnur framlög.
                  b.      Í stað orðanna „verkefnatengda styrki“ í 1. málsl. 3. mgr. komi: verkefnastyrki.
                  c.      Við bætist ný málsgrein er orðist svo:
                     Höfuðsöfn og önnur söfn, sem rekin eru af ríkinu, geta ekki notið styrkja úr safnasjóði.
     8.      Við ákvæði til bráðabirgða. 2. mgr. orðist svo:
                  Ákvæði 5. mgr. 5. gr. sem kveður á um að Náttúruminjasafn Íslands hafi stöðu höfuðsafns kemur ekki til framkvæmda fyrr en sett hafa verið sérlög um Náttúruminjasafn Íslands í samræmi við lög þessi. Náttúruminjasöfn eiga eftir sem áður rétt á styrkjum úr safnasjóði á grundvelli 10. gr. með sama hætti og önnur minjasöfn.
     9.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Þar til Náttúruminjasafn Íslands hefur verið sett á stofn, sbr. 5. mgr. 5. gr., skal forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands eiga sæti í safnaráði og tilnefna varamann í sinn stað. Eftir þann tíma tekur forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands sæti í safnaráði samkvæmt lögum þessum.