Ferill 573. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1352  —  573. mál.




Frumvarp til laga



um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja.

(Eftir 2. umr., 15. maí.)



1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um fyrirtæki sem hefur staðfestu utan Íslands og sendir starfsmann hingað til lands, sbr. 2. gr., í tengslum við veitingu þjónustu, sem starfar að jafnaði utan Íslands en er sendur tímabundið til starfa hér á landi.
    Lög þessi gilda ekki um áhafnir kaupskipa.

2. gr.

Fyrirtæki.

    Fyrirtæki telst senda starfsmann í skilningi 1. gr. hingað til lands í eftirfarandi tilvikum:
     1.      Þegar það sendir á sínum vegum og undir sinni stjórn starfsmann í tengslum við samning um veitingu þjónustu við fyrirtæki hér á landi.
     2.      Þegar það sendir starfsmann til starfsstöðvar eða fyrirtækis í eigu sömu fyrirtækjasamstæðu hér á landi.
     3.      Þegar það framleigir sem afleysingarfyrirtæki eða atvinnumiðlun starfsmann til notendafyrirtækis sem hefur staðfestu eða er með starfsemi hér á landi.
    Í þeim tilvikum sem greinir í 1. mgr. er það ávallt skilyrði að ráðningarsamband sé milli fyrirtækisins og starfsmannsins á þeim tíma sem hann starfar hér á landi.

3. gr.
Starfskjör.

    Þegar fyrirtæki sendir starfsmann hingað til lands í skilningi laga þessara gildir eftirfarandi löggjöf um starfskjör hans, og reglur settar á grundvelli hennar, án tillits til erlendrar löggjafar sem að öðru leyti gildir um ráðningarsamband hans og hlutaðeigandi fyrirtækis:
     1.      Lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, 1. gr., að því er varðar lágmarkslaun, yfirvinnugreiðslur, réttindi til orlofs, hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma.
     2.      Lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
     3.      Lög nr. 30/1987, um orlof, sbr. þó 11. gr. orlofslaga.
     4.      Lög nr. 35/1993, um eftirlit með skipum, 4. gr.
     5.      Lög nr. 60/1998, um loftferðir, VI. kafli.
     6.      Lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, 11., 29. og 30. gr.
     7.      Lög nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, auk annarra ákvæða um bann við mismunun.
    Ákvæði 1. mgr. gildir með fyrirvara um betri starfskjör starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi við hlutaðeigandi fyrirtæki eða samkvæmt kjarasamningi eða löggjöf í því ríki þar sem hann starfar að jafnaði.

4. gr.
Frávik.

    Ef um er að ræða fyrstu samsetningu og/eða fyrstu uppsetningu vöru, sem er þáttur í samningi um veitingu vöru og er nauðsynleg til að taka megi vöruna í notkun og er framkvæmd af faglærðum eða sérhæfðum starfsmönnum fyrirtækis, sbr. 2. gr., skulu ákvæði 1. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. ekki eiga við ef það tímabil sem starfsmaðurinn er hér á landi varir ekki lengur en átta daga.
    Ákvæði 1. mgr. á ekki við um hvers kyns byggingarvinnu sem lýtur að byggingu, viðgerðum, lagfæringum, breytingum eða niðurrifi bygginga.
    Við ákvörðun þess hve lengi starfsmaður hefur unnið hér á landi skv. 1. mgr. skal reikna með öll starfstímabil hans hér á landi síðustu 12 mánuði. Við slíka útreikninga skal telja með sérhvert fyrra tímabil sem annar starfsmaður kann að hafa gegnt starfinu áður.

5. gr.
Varnarþing.

    Starfsmaður erlends fyrirtækis, sbr. 1. gr., getur höfðað mál hér á landi vegna vanefnda vinnuveitanda á skyldum sínum samkvæmt ákvæðum 3. og 4. gr. laga þessara.

6. gr.
Upplýsingar.

    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, svo sem um samstarf og veitingu upplýsinga af hálfu stjórnvalda og samskipti við þar til bærar stofnanir í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. ákvæði 4. og 5. gr. tilskipunar nr. 96/ 71/EB.

7. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi, sem sett eru með hliðsjón af tilskipun nr. 96/71/EB um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu, öðlast þegar gildi.