Ferill 669. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1366  —  669. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



     1.      Við 1. gr. Við 6. tölul. bætist tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Ökuskólar geta jafnframt notið lækkunar samkvæmt þessum tölulið. Skilyrði þess eru að ökuskóli hagi skráningu á akstri bifreiðar sem nýtur lægra vörugjalds þannig að á hverjum tíma sé unnt að gera grein fyrir akstri bifreiðarinnar í þágu ökukennslu. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um. Sé bifreið notuð til annars er tollstjóra heimilt að innheimta fullt vörugjald skv. 3. gr. laganna með 50% álagi. Við mat á því hvort bifreið hafi einungis verið notuð til ökukennslu skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 80% af akstri hennar í þágu ökukennslu með framvísun þar til gerðrar akstursbókar eða öðrum hætti sem tollstjóri metur fullnægjandi. Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um þær bifreiðar sem njóta undanþágu samkvæmt þessum tölulið.
             Brot á þeim skilyrðum sem sett eru í þessum tölulið varðar því að hinn brotlegi, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, missir rétt til lækkunar í þrjú ár frá síðasta broti.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
              Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2001.