Ferill 662. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1370  —  662. mál.
Svarlandbúnaðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um rannsóknaraðstöðu í Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Telur ráðherra að aðstaða fyrir rannsóknir á veirusjúkdómum, riðu og erfðabreyttum örverum samkvæmt P-2 staðli sé fullnægjandi í Tilraunastöðinni að Keldum?
     2.      Telur ráðherra að núverandi aðstaða á Keldum sé viðunandi ef grunur vaknar hér á landi um gin- og klaufaveikismit eða annan sambærilegan bráðsmitandi sjúkdóm í dýrum?
     3.      Mun ráðherra beita sér fyrir bættu öryggi við rannsóknir á smitandi efni úr búfé og öðrum sýnum sem Tilraunastöðinni að Keldum er falið að sinna með því að koma upp aðstöðu samkvæmt P-3 staðli?
     4.      Mun ráðherra beita sér fyrir byggingu nýs húss fyrir þessar sérhæfðu rannsóknir á smitefnum?


    Samkvæmt upplýsingum starfandi forstöðumanns tilraunastöðvarinnar hefur stöðin ekki yfir að ráða rannsóknastofu sem uppfyllir kröfur samkvæmt P-2 staðli þegar rannsóknir á veirusjúkdómum, kúariðu eða erfðabreyttum örverum krefjast þess.
    Núverandi aðstaða að Keldum er ekki talin viðunandi ef grunur vaknar hér á landi um gin- og klaufaveiki eða annan bráðsmitandi dýrasjúkdóm. Stöðin hefur gert samning við dönsku dýrarannsóknastöðina um að taka við sýnum til rannsóknar frá Íslandi vegna slíkra tilfella.     Landbúnaðarráðherra telur mjög brýnt að öryggi við rannsóknir á sýnum frá dýrum sé tryggt og að í því skyni verði komið upp rannsóknastofu að Keldum sem uppfylli P-3 staðalinn.
    Komi til viðræðna við menntamálaráðuneytið um breytingar á starfsemi Keldna verður af hálfu lanbúnaðarráðuneytisins lögð áhersla á að nægt fjármagn verði veitt til byggingar og nauðsynlegra tækjakaupa í nýtt rannsóknahús fyrir sérhæfðar rannsóknir á hættulegum smitefnum frá dýrum.