Ferill 742. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1389  —  742. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Við sölu hlutabréfa í sparisjóði, sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, skal skattskyldur söluhagnaður þeirra bréfa sem stofnfjáreigandi fékk í skiptum fyrir stofnbréf sín vera söluverð bréfanna að frádregnu kaupverði þeirra. Kaupverð hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda skal ákveðið sem stofnfé sjóðsins endurmetið til ársloka 1996, skv. 23. gr. laga nr. 113/1996, að viðbættu innborguðu stofnfé frá þeim tíma þar til sparisjóðnum var breytt í hlutafélag. Kaupverð hlutabréfa sem rekstraraðili hefur fengið afhent sem stofnfjáreigandi skal þó ákvarðað sem kaupverð samkvæmt framangreindu þegar það hefur verið hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr. þessara laga, frá árslokum 1996 til söluárs, enda hafi hlutabréfin verið eignfærð í atvinnurekstrinum. Kaupverð hlutabréfa í sparisjóði sem sjálfseignarstofnun hefur eignast samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1996 ákvarðast sem raunvirði hreinnar eignar sparisjóðsins í árslok 1996 að frádregnu kaupverði hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda, sbr. framangreint. Raunvirði hreinnar eignar skal ákveðið samkvæmt þeim reglum sem gilda um ákvörðun á jöfnunarverðmæti hlutabréfa, sbr. 3. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er flutt af efnahags- og viðskiptanefnd í tengslum við frumvarp viðskiptaráðherra um viðskiptabanka og sparisjóði, en samkvæmt því verður heimilt að breyta sparisjóðum í hlutafélög. Við meðferð nefndarinnar á því frumvarpi kom í ljós að jafnframt væri nauðsynlegt að breyta lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, til þess að skýrt yrði hvernig stofnverð hlutabréfa í sparisjóði yrði ákveðið.
    Samkvæmt frumvarpinu verður stofnverð hlutabréfa í sparisjóði ákveðið með hliðstæðum hætti og nú gildir um hlutabréf almennt. Stofnverð í hendi stofnfjáreigenda, einstaklinga sem lögaðila, eru framreiknuð framlög til ársloka 1996 en eftir það kaupverð framlaga. Stofnverð bréfa í eigu sjálfseignarstofnunar er ákveðið sem mismunur á raunvirði hreinnar eignar í árslok 1996 og kaupverði hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda eins og það hefur verið ákveðið samkvæmt greininni. Kaupverð allra hlutabréfa í sparisjóðnum jafngildir því raunvirði hreinnar eignar hans, en raunvirði hreinnar eignar er það hámark sem útgáfa skattfrjálsra jöfnunarhlutabréfa miðaðist við og hámark jöfnunarverðmætis hlutabréfa í árslok 1996. Við sölu einstaklings á hlutabréfi í sparisjóði sem hann fékk afhent sem stofnfjárfestir verður skattskyldur söluhagnaður mismunurinn á söluverðinu og kaupverðinu eins og það er ákveðið í greininni, þ.e. með framreikningi til ársloka 1996. Við sölu sjálfseignarstofnunar, sem ekki er tekjuskattsskyld að öðru leyti en fjármagnstekjuskatt varðar, á hlutabréfi verður söluhagnaðurinn reiknaður með sama hætti, þ.e. sem mismunur á söluverði og kaupverði eins og það er ákveðið miðað við árslok 1996. Söluhagnaður annarra rekstraraðila sem verið hafa stofnfjáreigendur ákveðst með sama hætti að öðru leyti en því að kaupverðið eins og það er ákveðið tekur verðlagsbreytingum eftir 1996. Hjá þeim er skattskyldur söluhagnaður lægri en hjá einstaklingum og sjálfseignarstofnuninni sem nemur verðlagsbreytingum.