Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1391  —  597. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta umhverfisnefndar.

    
    Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að málið er á margan hátt illa undirbúið. Nefndinni gafst ekki heldur nægur tími til að vinna að málinu. Stefnumörkunin sem í frumvarpinu felst virðist helst vera sú að koma rekstri náttúrustofanna yfir á sveitarfélögin.
    Yfirsýn yfir hvaða hlutverki stofurnar eigi að þjóna verður ekki lesin út úr frumvarpinu. Það er mat 1. minni hluta að löggjafinn sé þar með að bregðast þeirri skyldu sinni að móta heildarstefnu í þessum málum. Hluti þeirrar stefnu er óhjákvæmilega að setja markmið fyrir náttúrustofurnar og ákvarða hvaða hlutverki þær eiga að gegna á sviði náttúruvísinda, einnig móta í samvinnu við sveitarfélögin hvaða hlutverk stofunum er ætlað í viðkomandi byggðarlagi.
    Upphaflega var með lagasetningu gert ráð fyrir því að stofurnar gætu þróast og unnið sig upp í að verða að setrum Náttúrufræðistofnunar Íslands og að þannig fækkaði náttúrustofunum aftur. Í þeirri framtíðarsýn var gert ráð fyrir að starfsemi náttúrustofa yrði fyrst og fremst í þeim landshlutum þar sem ekki væru setur Náttúrufræðistofnunar. Með frumvarpinu er þessum hugmyndum kastað án þess að skýr stefnumörkun sé sett fram í staðinn. Þessi kúvending í málinu er ekki á nokkurn hátt rökstudd.
    Við umfjöllun í nefndinni kom fram að skoðanir eru skiptar um hvaða verkefnum einstakar náttúrustofur skuli einkum sinna og því ekki ljóst hvort þeim muni ætlað að sinna rannsóknum, og hefðu þá aðaltengingu við Náttúrufræðistofnun, eða stjórnsýslulegu eftirliti, og hefðu þá aðaltengingu við Náttúruvernd ríkisins. Ætli stofurnar sér bæði hlutverkin skapast hætta á hagsmunaárekstrum og vanhæfi þar sem ekki yrði gerður skýr greinarmunur á rannsóknarhlutverki þeirra annars vegar og eftirlitshlutverki hins vegar. Þessi galli einn og sér er nægur til að ráðherra ætti að skoða málið betur og marka starfseminni stefnu, í samráði við sveitarfélögin sem eiga að reka þessa starfsemi, áður en málinu er ráðið til lykta.
    Umsagnaraðilar fengu of skamman tíma til að fjalla um málið. Fjölmargar athugasemdir og aðfinnslur komu þó fram. Allir fulltrúar stjórna og starfsmenn náttúrustofanna virtust telja að gefa ætti lengri tíma til stefnumörkunar fyrir þessa mikilvægu starfsemi og að ekki væri tímabært nú að vísa allri rekstrarábyrgð náttúrustofanna heim í hérað.
    Stjórnendur náttúrustofanna töldu að það mundi skaða starfsemina að raska þeim starfssvæðum sem hefðir hefðu skapast um á umliðnum árum. Sveitarfélögin sem standa að rekstri stofanna hefðu lagt í uppbyggingu sem miðuðust við þau. Því væri óviðunandi að forsendum fyrir starfseminni yrði breytt með þeim hætti sem hér er stefnt að. Stjórnendur stofanna bentu þess vegna á að betra væri að fjölga starfsstöðvum þeirra náttúrustofa sem fyrir eru en að fjölga náttúrustofum um tvær eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá gagnrýndu þeir að ekki væri skýrt hver ætti að borga fyrir vinnu stofanna fyrir náttúruverndarnefndir og að ekki væri ljóst hvort þær fengju aukið fjármagn með nýjum skyldum.
    Fram komu alvarlegar áhyggjur forsvarsmanna einstakra stofa af því að erfiðleikum yrði bundið að fá styrki frá erlendum aðilum ef sveitarfélögin en ekki ríkið væru bakhjarl stofanna.
    Þá segir Náttúrufræðistofnun á einum stað í umsögn sinni „vandséð hvernig tryggja skuli að stofurnar geti sinnt hlutverki sínu skv. 4. gr. frumvarpsins,“ en í greininni eru helstu hlutverk þeirra tilgreind. Gjaldtökuheimildir eru óljósar og ekki er skýrt kveðið á um samstarf stofanna og Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Fulltrúar sveitarfélaga gerðu athugasemdir við að framlag þeirra ætti að binda við ákveðna hlutfallstölu. Meiri hlutinn gerir tillögu um að hlutdeild sveitarfélaganna verði lækkuð úr þeim 30% sem frumvarpið gerir ráð fyrir niður í 20%. Þessi breyting þrengir auðvitað þann ramma sem í raun var fjallað um við meðferð málsins og setur spurningarmerki við það hversu mikil ábyrgð sveitarfélaganna á rekstrinum verður í raun ef rekstrarframlagið verður ekki meira en þetta.
    Þá er sveitarfélögunum ætlað að bera allan stofnkostnað vegna stofanna, en þau báru hann að hálfu áður. Stofurnar eru mjög misjafnlega settar. Sumar eru nýjar og eftir er að kaupa öll tæki og leggja í annan stofnkostnað en aðrar hafa nú þegar góðan tækjakost. Þetta er því ekki sanngjarnt gagnvart þeim sveitarfélögum sem í hlut eiga.
    Í þessu áliti er bent á fjölmörg atriði sem þurfa nánari skoðun. 1. minni hluti telur allt of marga annmarka hafa komið fram við meðferð málsins, það þurfi að vinna miklu betur og leggur til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 16. maí 2001.


Jóhann Ársælsson,

frsm.

Rannveig Guðmundsdóttir.