Ferill 743. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1394  —  743. mál.




Skýrsla


félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, til Alþingis um þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem haldið var á árinu 2000.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


    Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO), sem er sérstök stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna, var sett á stofn árið 1919. Ísland gerðist aðili að stofnuninni árið 1945. Þau ákvæði sem lágu til grundvallar stofnuninni er að finna í friðarsamningunum sem voru undirritaðir í Versölum 28. júní 1918. Er þar kveðið á um að komið skuli á fót sérstakri stofnun sem hafi það hlutverk að reyna að ráða bót á þeim félagslegu vandamálum sem öll ríki eigi við að stríða og verði aðeins unnið á með sameiginlegu félagslegu átaki þjóðanna.
    Starf ILO beinist einkum að grundvallarréttindum í atvinnulífinu, atvinnu, félagslegri vernd og samráði aðila vinnumarkaðarins. Á vettvangi ILO hafa verið sett alþjóðleg viðmið um grundvallarréttindi við vinnu sem birtast í fjölmörgum samþykktum og tilmælum stofnunarinnar um félagafrelsi, réttinn til að gera kjarasamninga, afnám nauðungarvinnu, takmörkun barnavinnu, jafnrétti til vinnu og fjölmörg önnur réttindamál tengd vinnu.
    Sérstaða ILO byggist mjög á hinu þríhliða samstarfi innan stofnunarinnar sem felur í sér að fulltrúar launafólks og atvinnurekenda taka þátt í umræðum og ákvörðunum stofnunarinnar ásamt fulltrúum ríkisstjórna. Starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar byggist sér í lagi á Alþjóðavinnumálaþinginu, stjórnarnefnd ILO og alþjóðavinnumálaskrifstofunni.
    Alþjóðavinnumálaþingið kemur saman í Genf í júní ár hvert. Sendinefndir aðildarríkja ILO á þinginu eru skipaðar tveimur ríkisstjórnarfulltrúum, fulltrúa atvinnurekenda og fulltrúa launafólks auk sérfræðinga. Venjulega eru vinnumálaráðherrar aðildarríkjanna í forsvari fyrir sendinefndunum. Á Alþjóðavinnumálaþinginu er fjallað um réttindi tengd vinnu og alþjóðleg viðmið um það efni samþykkt. Á þinginu er jafnframt samþykkt fjárhagsáætlun stofnunarinnar og stjórnarnefnd hennar kosin.
    Stjórnarnefnd ILO er framkvæmdastjórn stofnunarinnar og kemur saman þrisvar á ári í Genf. Þar eru teknar ákvarðanir um stefnu ILO og jafnframt samþykkt framkvæmdaáætlun og fjárhagsáætlun sem eru lagðar fyrir Alþjóðavinnumálaþingið til umfjöllunar og afgreiðslu. Kosningar forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar fara þar einnig fram. Samkvæmt stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eiga 56 fulltrúar sæti í stjórnarnefnd hennar. Þar af eru 28 ríkisstjórnarfulltrúar, fjórtán fulltrúar launafólks og fjórtán fulltrúar atvinnurekenda. Tíu ríkisstjórnarfulltrúanna eru tilnefndir af ríkisstjórnum iðnríkja en hinir átján eru kosnir af fulltrúum ríkisstjórna á Alþjóðavinnumálaþinginu.
    Alþjóðavinnumálaskrifstofan starfar undir eftirliti stjórnarnefndarinnar og undir yfirstjórn forstjóra skrifstofunnar sem er kosinn til fimm ára í senn. Á vegum skrifstofunnar starfa um 1.900 starfsmenn frá yfir 110 þjóðum í höfuðstöðvunum í Genf og á um 40 skrifstofum sem settar hafa verið upp víða um heim vegna sérstakra verkefna. Því til viðbótar starfa fjölmargir sérfræðingar í sendinefndum ILO við tækni- og þróunaraðstoð.

1. INNGANGUR
    Alþjóðavinnumálaþingið er meðal umfangsmeiri alþjóðaþinga sem haldin eru. Er þingstörfum þar haldið fram samtímis á allsherjarþingi og í fjölmörgum þingnefndum.
    Á 88. Alþjóðavinnumálaþinginu var m.a. fjallað um skýrslu forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar þar sem gerð er grein fyrir starfi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á árunum 1998–99. Þá var fjallað um skýrslu um framkvæmd grundvallarréttinda ILO um félagafrelsi og um réttinn til að gera kjarasamninga, sbr. samþykktir nr. 87 frá 1948 og 98 frá 1949. Í skýrslunni er m.a. farið yfir framkvæmd ríkja á samþykktunum og leitast við að gefa heildstæða mynd af stöðu þessara grundvallarréttinda um heim allan
    Á þinginu var afgreidd ný samþykkt, nr. 183, um mæðravernd. Koma þar fram margvíslegar breytingar varðandi réttindi kvenna í tengslum við þungun og fæðingu frá eldri samþykkt ILO um sama efni, nr. 103 frá 1952. Þá fór fram fyrsta umræða um nýja samþykkt um öryggi og hollustuhætti í landbúnaði. Umræðurnar voru undanfari frekari umfjöllunar og ráðgerðrar afgreiðslu nýrrar samþykktar um efnið á 89. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 2001.
    Umræða um starfsfræðslu og starfsþjálfun fór fram á þinginu og fjallað var sérstaklega um tillögur til þingsályktana. Samþykkt var tillaga um alnæmi og atvinnu þar sem ríkisstjórnir og samtök atvinnurekenda og launafólks eru hvött til að láta til sín taka varðandi þennan heimsfaraldur.
    Ein fjölmennasta nefnd þingsins var að venju nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna. Ýmsum viðurlögum er beitt í þeirri nefnd til að freista þess að fá aðildarríkin til að sjá að sér og bæta framkvæmd á ákvæðum samþykkta ILO sem þau hafa brotið. Hörðustu viðurlögin felast í því að aðildarríkis er getið í sérstökum hluta skýrslu nefndarinnar til allsherjarþings vinnumálaþingsins. Að þessu sinni var þessum viðurlögum beitt gagnvart Kamerún og Venesúela vegna brota á samþykkt nr. 87, um félagafrelsi og verndun þess, og Súdan vegna brota á samþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu.
    Ályktun um aðgerðir gegn Burma vegna ítrekaðra brota á samþykkt nr. 29, um bann við nauðungarvinnu, var samþykkt með miklum meiri hluta, en málefni Burma hafa ítrekað komið til umfjöllunar á Alþjóðavinnumálaþinginu vegna alvarlegra og viðvarandi brota á samþykktinni. Þá var samþykkt að fella úr gildi nokkrar úreltar samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
    Á þinginu var haldin sérstök móttaka fyrir þau ríki sem höfðu fullgilt samþykkt ILO nr. 182 frá 1999 um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd. Var Ísland á meðal þeirra 27 ríkja sem fullgilt höfðu samþykktina. Með þeirri fyllgildingu var Ísland eitt af 14 aðildarríkjum ILO sem höfðu fullgilt allar átta grundvallarsamþykktir stofnunarinnar.
    Eins og undanfarin ár er gerð grein fyrir starfi þríhliða nefndar sem fer með málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og um framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu á árinu 2000 í fylgiskjali með skýrslu þessari. Þá er í viðauka við skýrsluna greint frá athugasemdum sem sérfræðinganefnd Evrópuráðsins hefur gert við framkvæmd Íslands á ákvæðum sáttmálans á árunum 1997–98.
    Með vísan til 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er hér með lögð fyrir Alþingi skýrsla um 88. vinnumálaþingið.

2. 88. ALÞJÓÐAVINNUMÁLAÞINGIÐ 2000
2.1. Skipulag og þátttaka.
    Árlegt þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, hið 88. í röðinni, var haldið í Genf dagana 30. maí til 15. júní 2000. Samtals tóku þátt í þinginu u.þ.b. 3.140 fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks frá 158 af 175 aðildarríkjum ILO. Þá sóttu 138 ráðherrar þingið.
    Mario Alberto Flamarique, vinnumálaráðherra Argentínu, var að þessu sinni kjörinn forseti þingsins en sérstakur gestur þess var Jorge Fernando Branco de Sampaio, forseti Portúgal.
    Kjörnir voru varaforsetar úr röðum þeirra þriggja hópa sem eiga fulltrúa á þinginu: Thomas P. Moorhead, fulltrúi atvinnurekenda í Bandaríkjunum, Christian Appiah Agyei, fulltrúi launafólks frá Ghana, og Edit Bauer, ríkisstjórnarfulltrúi frá Slóvakíu.
    Sendinefnd Íslands á Alþjóðavinnumálaþinginu skipuðu að þessu sinni eftirtaldir: Frá félagsmálaráðuneyti: Elín Blöndal deildarstjóri og Gylfi Kristinsson, ráðgjafi hjá fastanefnd Íslands hjá Evrópusambandinu í Brussel. Frá utanríkisráðuneyti: Benedikt Jónsson, sendiherra Íslands hjá alþjóðastofnunum í Genf, varamaður hans var Haukur Ólafsson varafastafulltrúi. Fulltrúar atvinnurekenda: Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins, varamaður hennar var Jón H. Magnússon, lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins. Fulltrúar launafólks: Ástráður Haraldsson, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands, varamenn hans voru Hervar Gunnarsson, fyrsti varaforseti ASÍ, og Ari Skúlason, framkvæmdastjóri ASÍ.
    Á dagskrá þingsins voru eftirtalin málefni:
     1.      Skýrslur forstjóra og stjórnarnefndar.
     2.      Fjárhags- og framkvæmdaáætlun.
     3.      Framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna.
     4.      Endurskoðun samþykktar og tillögu frá 1952, um mæðravernd.
     5.      Menntun og þjálfun starfsfólks.
     6.      Öryggi og hollustuhættir í landbúnaði.
     7.      Afnám nokkurra úreltra samþykkta ILO.
     8.      Framkvæmd tilmæla vegna nauðungarvinnu í Burma.
     9.      Tillögur til þingsályktana.
     10.      Kjörbréf.
    Daginn fyrir setningu þingsins voru haldnir fundir hópanna þriggja sem eiga fulltrúa á þinginu, þ.e. ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Á fundunum var gengið frá tilnefningum fulltrúa til setu í þingnefndum. Samþykkt var stofnun eftirtalinna þingnefnda: fjárhagsnefndar, nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna, nefndar sem fjallaði um drög að samþykkt um mæðravernd (önnur umræða), nefndar um menntun og þjálfun starfsfólks, nefndar sem fjallaði um drög að samþykkt um öryggi og hollustu í landbúnaði (fyrsta umræða), ályktunarnefndar, þingskapanefndar og nefndar um framvindu þingsins. Fulltrúar Íslands tóku þátt í nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta, nefnd um mæðravernd, ályktunarnefnd og nefnd um menntun og þjálfun starfsfólks.

2.2. Skýrsla forstjóra.
    Umræða um skýrslu forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, Juan Somavia frá Chile, fór fram dagana 5.–12. júní. Í skýrslunni er gerð grein fyrir starfi stofnunarinnar á árunum 1998–99. Aðgerðir ILO á tímabilinu beindust einkum að þremur þáttum sem skýrslan grundvallast á. Í fyrsta lagi stuðningi við lýðræði og grundvallarréttindi launafólks, í öðru lagi að stuðla að atvinnu og baráttu gegn fátækt og loks vernd vinnandi fólks.
    Í ræðu sinni í allsherjarþinginu lagði forstjórinn m.a. áherslu á mikilvægi ILO sem þungamiðju þess að tryggja megi launafólki mannsæmandi vinnu ( decent work). Hann kvað hugtakið mannsæmandi vinna í rauninni fela í sér markmið ILO og að það svaraði til réttmætra væntinga launafólks um heim allan til vinnu, til að geta menntað börn sín og byggt upp öruggt fjölskyldulíf og öryggi, þar á meðal lífeyfisréttindi. Hugtakið taki hins vegar á sig ýmsar myndir þar sem ekki sé hægt að fella alla einstaklinga eða öll samfélög í sama mót. Þvert á móti verði að taka tillit til þess að mismunandi fólk, menningarheimar og samfélög hafa mismunandi væntingar og markmið. Hin vaxandi tilhneiging til óformlegrar og ótryggrar vinnu sem felur í sér lakari laun og vinnuskilyrði vinni gegn þessu markmiði. Byggja verði upp meiri væntingar fólks til vinnu sinnar frá upphafi. Sé það ekki gert verði niðurstaðan barnavinna, mismunun, hættuleg störf, óviðunandi framkvæmd og arðrán. Mannsæmandi vinna sé leiðarljós sem ber að fylgja til að vinna gegn slíkri framkvæmd og samfélagið sem heild beri ábyrgð á að því sé fylgt. Hann benti á yfirlýsingu ILO um grundvallarréttindi við atvinnu og samþykkt ILO nr. 182, um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd, sem mikilvæg tæki til að ná fram þessu markmiði.
    Fjölmargir ráðherrar og þingfulltrúar tóku þátt í umræðum um skýrsluna.

2.3. Umræður um skýrslu um framkvæmd samþykkta nr. 87 og 98.
    Í yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarréttindi í atvinnulífinu, sem samþykkt var af Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1998, var því lýst yfir að öllum aðildarríkjum, jafnvel þótt þau hafi ekki fullgilt hlutaðeigandi samþykktir, væri skylt sökum aðildar sinnar að stofnuninni að virða, stuðla að og beita í góðri trú meginreglunum um eftirfarandi grundvallarréttindi sem samþykktirnar fjalla um:
     a.      félagafrelsi og virka viðurkenningu á réttinum til að gera kjarasamninga,
     b.      afnám hvers konar nauðungarvinnu,
     c.      virkt afnám vinnu barna,
     d.      afnám misréttis við ráðningu til starfa og við vinnu.
    Yfirlýsingunni fylgir sérstök árétting á framkvæmd hennar, þar sem fram kemur að forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skuli ár hvert gefa út skýrslu sem taki til einhverra þeirra fjögurra sviða grundvallarmannréttinda sem tilgreind eru í yfirlýsingunni. Í áréttingunni segir að markmiðið sé að veita tækifæri til árlegrar endurskoðunar með einfaldari aðgerðum en endurskoðun á fjögurra ára fresti sem stjórnarnefnd ILO kom á árið 1995. Markmið skýrslunnar er jafnframt að gefa virka alþjóðlega mynd af hverju sviði grundvallarréttinda á undanförnu fjögurra ára tímabili og vera grundvöllur mats á gagnsemi þeirrar aðstoðar sem stofnunin veitir. Þá á skýrslan að vera grundvöllur ákvörðunar um forgangsröðun á næsta tímabili í formi framkvæmdaáætlana um tæknilega aðstoð.
    Að þessu sinni fór fram sérstök umræða í allsherjarþinginu um fyrstu alþjóðlegu skýrsluna um þetta efni. Skýrslan fjallar um framkvæmd grundvallarréttinda ILO um félagafrelsi og um réttinn til að gera kjarasamninga, sbr. samþykktir nr. 87 frá 1948 og 98 frá 1949 (skýrslan ber heitið „Your voice at work“). Í henni er m.a. farið yfir framkvæmd ríkja á samþykktunum og leitast við að gefa heildstæða mynd af stöðu þessara grundvallarréttinda um heim allan. Enda þótt fram komi í skýrslunni að um sé að ræða framfarir á vissum sviðum er niðurstaða hennar sú að víða viðgangast enn alvarleg brot á þessum réttindum, svo sem valdbeiting, ógnanir og morð á fulltrúum stéttarfélaga. Atvinnurekendur sem vilja ganga í samtök standa einnig frammi fyrir vandamálum í mörgum ríkjum. Þrátt fyrir að um sé að ræða grundvallarréttindi er þannig langt í land með að þau séu viðurkennd um heim allan.
    Fulltrúar vestrænna iðnríkja (IMEC) stóðu sameiginlega að ræðu í allsherjarþinginu þar sem skýrslunni sem slíkri var fagnað og hún sögð grunnur að frekari aðgerðum af hálfu ILO á þessu sviði. Mörg ríki lýstu hins vegar yfir við umræður um skýrsluna að þau teldu að hún mætti gefa heildstæðari mynd af ástandi mála en raun ber vitni. Þrátt fyrir mismunandi skoðanir voru þeir sem tóku þátt í umræðunum almennt sammála um að skýrslan komi til með að nýtast sem grundvöllur fyrir aðgerðir af hálfu ILO á þessu sviði. Í kjölfar umræðnanna á þinginu kemur til kasta stjórnarnefndar ILO að draga ályktanir af þeim um forgangsröðun og framkvæmdaáætlanir um tæknilega samvinnu sem hleypa skal af stokkunum á næsta fjögurra ára tímabili.

2.4. Umræður um kjörbréf.
    Í kjörbréfanefnd eiga aðeins þrír fulltrúar sæti og er hún fámennasta nefnd þingsins. Á 88. Alþjóðavinnumálaþinginu áttu eftirtaldir fulltrúar sæti í nefndinni: Jules Medenou Oni, ríkisstjórnarfulltrúi frá Benin, formaður, Funes de Rioja, fulltrúi atvinnurekenda í Argentínu, og Ulf Edström, fulltrúi launafólks í Svíþjóð.
    Nefndin var sammála um að telja öll fram komin kjörbréf gild. Þegar nefndin er sammála er niðurstaða hennar afgreidd án umræðu á allsherjarþinginu.

2.5. Fjármál.
    Sérstök þingnefnd, fjárhagsnefnd, fjallar um fjármál Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í henni eiga sæti fulltrúar ríkisstjórnar aðildarríkjanna. Formaður nefndarinnar að þessu sinni var M.A. Aji, ríkisstjórnarfulltrúi frá Nígeríu, og varaformaður var Ledezma Vegara frá Panama.
    Ekki verður sérstaklega gerð grein fyrir starfi nefndarinnar hér. Tekið skal fram að heildarframlög ríkja til stofnunarinnar árið 2001 voru áætluð 357.614.550 svissneskir frankar. Hlutdeild Íslands í árgjöldunum er 0,031%. Árgjald Íslands á árinu 2001 verður samkvæmt því 110.861 svissneskir frankar.

2.6. Nefnd um framvindu þingsins.
    Nefnd um framkvæmd þingsins er skipuð 28 ríkisstjórnarfulltrúum, fjórtán fulltrúum úr hópi launafólks og fjórtán fulltrúum atvinnurekenda. Hlutverk nefndarinnar er einkum að skipuleggja dagskrá þingsins en einnig að gefa Alþjóðavinnumálaþinginu skýrslu um önnur málefni sem varða framkvæmd þingsins í samræmi við reglur þess.
    Formaður nefndarinnar var kjörinn J.F. Alfaro Mijangos, ríkisstjórnarfulltrúi frá Gvatemala, og varaformenn A.M. Kaissi, fulltrúi atvinnurekenda í Túnis, og Lord Brett, fulltrúi launafólks í Bretlandi.
    Í upphafi þingsins var ákveðið að nefndin skyldi fjalla um mál Burma vegna ítrekaðra brota á samþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu. Þá fjallaði nefndin að þessu sinni einnig um afnám úreltra samþykkta ILO og um formlega staðfestingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á Vínarsáttmálanum um túlkun alþjóðasamninga.

Mál Burma.
    Á allsherjarþinginu var að tillögu nefndarinnar samþykkt ályktun með 257 atkvæðum gegn 41 um aðgerðir gegn Burma vegna ítrekaðra brota á samþykkt nr. 29, um bann við nauðungarvinnu, en málefni Burma hafa ítrekað komið til umfjöllunar á Alþjóðavinnumálaþinginu vegna alvarlegra og viðvarandi brota á samþykktinni.
    Ályktunin grundvallast á 33. gr. stofnskrár ILO og er þetta í fyrsta skipti sem því ákvæði er beitt. Þar segir að ef ríki bregst því að fara eftir tilmælum sérstakrar rannsóknarnefndar geti stjórnarnefnd ILO mælt með þeim aðgerðum sem það telur nauðsynlegar til að tryggja að ríkið fari eftir þeim. Mat ráðstefnunnar var að þrátt fyrir skýringar ráðamanna Burma hafi raunverulegar aðstæður ekki breyst í ríkinu. Í ályktuninni er mælt fyrir um ýmsar aðgerðir og tekur hún gildi 30. nóvember 2000 hafi það ekki á þeim tíma sýnt fram á úrbætur í löggjöf og framkvæmd. Í ályktuninni felst m.a. heimild til eftirfarandi aðgerða: 1. Að framkvæmd Burma á tilmælum rannsóknarnefndarinnar verði á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins og að það verði sérstakur liður á dagskrá nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta að fjalla um málið þar til ríkið hefur uppfyllt skyldur sínar, 2. að allir meðlimir ILO, þ.e. ríkisstjórnir, samtök atvinnurekenda og launafólks, endurskoði tengsl sín við Burma og geri nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þau hafi ekki þau áhrif að styðja eða viðhalda nauðungarvinnu í ríkinu, 3. að forstjóri ILO skuli upplýsa aðrar alþjóðlegar stofnanir sem eiga samstarf við ILO um ályktunina, óska eftir að þær endurskoði samvinnu sína við Burma og, ef við á, að þær láti svo fljótt sem mögulegt er af sérhverjum aðgerðum sem kunna að styðja eða hvetja til framkvæmdar nauðungarvinnu, 4. að forstjóri ILO óski þess við efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) að það fjalli um brot Burma á fundi sínum í júlí 2001 og freisti þess að samþykkja tilmæli til ríkisstjórna og stofnana til að tryggja að aðgerðir þeirra séu ekki til þess fallnar að stuðla að nauðungarvinnu í ríkinu, 5. að forstjóri ILO upplýsi stjórnarnefnd ILO með jöfnu millibili um árangur þessara aðgerða.

Úreltar samþykktir felldar brott.
    Á allsherjarþinginu var samþykkt tillaga nefndarinnar um að fella úr gildi nokkrar úreltar samþykktir ILO. Þessar samþykktir eru nr. 31 (1931), um vinnutíma kolanámumanna, nr. 46 (1936), sem er endurskoðuð samþykkt um vinnutíma kolanámumanna, nr. 51 (1936), um fækkun vinnustunda, nr. 61 (1937), um fækkun vinnustunda í vefnaðariðnaði, og nr. 66 (1939), um vinnu farandverkamanna.
    Þetta var í fyrsta skipti sem samþykktir ILO eru felldar úr gildi af Alþjóðavinnumálaþinginu, en í mars 1996 samþykkti stjórnarnefnd ILO að framangreindar fimm samþykktir væru úreltar. Samþykkt eða tilmæli ILO teljast vera úrelt ef þau þjóna ekki markmiði sínu eða hafa ekki lengur gagnleg áhrif til að ná fram markmiðum stofnunarinnar. Forsenda þess að unnt var að fella samþykktirnar úr gildi er breyting sem gerð var á stofnskrá ILO á Alþjóðavinnumálaþinginu 1997. Með breytingunni var nýrri málsgrein bætt við (9. mgr.) 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Samkvæmt henni getur stjórnarnefnd ILO lagt til við Alþjóðavinnumálaþingið að felldar séu úr gildi alþjóðasamþykktir sem eru úreltar eða koma ekki lengur að gagni við að ná markmiðum stofnunarinnar. Þess má geta að Ísland fullgilti breytinguna á stofnskránni árið 1999.

Vínarsamningurinn.
    Á allsherjarþinginu var til viðbótar við framangreint samþykkt tillaga nefndarinnar um að Alþjóðavinnumálastofnunin staðfesti formlega Vínarsamninginn um túlkun alþjóðasamninga frá 1986 en samningurinn var undirritaður fyrir hönd stofnunarinnar árið 1987.

2.7. Framkvæmd samþykkta og tillagna.
    Nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta er fjölmennasta nefnd Alþjóðavinnumálaþingsins. Að þessu sinni áttu 227 fulltrúar með atkvæðisrétt sæti í nefndinni, 116 fulltrúar ríkisstjórna, 17 fulltrúar atvinnurekenda og 94 fulltrúar launafólks. Auk þess sátu áheyrnarfulltrúar frá 33 sjálfstæðum félagasamtökum fundi nefndarinnar.
    Formaður var kosinn P. van der Heijden, fulltrúi ríkisstjórnar Hollands, og varaformenn Alfred Wisskirchen, fulltrúi atvinnurekenda í Þýskalandi, og Luc M. Cortebeeck, fulltrúi launafólks í Belgíu. Af hálfu Íslands sátu Elín Blöndal, Ástráður Haraldsson, Hrafnhildur Stefánsdóttir og Jón H. Magnússon í nefndinni.
    Nefndin hélt samtals 17 fundi. Umræður í henni byggjast á skýrslu sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna. Árleg skýrsla sérfræðinganna til vinnumálaþingsins hefur vaxið mjög að umfangi síðustu árin. Í skýrslunni gerir sérfræðinganefndin almennt grein fyrir framvindu mála varðandi framkvæmd samþykkta og tillagna sem hafa verið afgreiddar af Alþjóðavinnumálaþinginu. Stærsti hluti skýrslu sérfræðinganefndarinnar fjallar um framkvæmd einstakra aðildarríkja á samþykktum sem þau hafa fullgilt. Einnig er að finna upplýsingar um það hvernig aðildarríkin uppfylla aðrar skuldbindingar, t.d. þá að kynna fyrir löggjafarsamkomu sinni samþykktir Alþjóðavinnumálaþingsins og hvort alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Genf hafa borist skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta eins og áskilið er í stofnskrá ILO.
    Störf þingnefndarinnar hófust á umræðum um almenna hluta skýrslu sérfræðinganna. Fjallað var um fjölda fullgildinga, skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta og um ýmis atriði sem fram koma í almennum hluta skýrslunnar. Formaður sérfræðinganefndarinnar, William Douglas, var viðstaddur almennar umræður í nefndinni.
    Fulltrúi ríkisstjórnar Danmerkur hafði að þessu sinni orð fyrir fulltrúum Norðurlanda í almennum umræðum. Hann gerði m.a. að umtalsefni átak Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á árinu 1999 í því skyni að hvetja ríki til að fullgilda samþykktir ILO um verndun grundvallarréttinda en þær eru nú átta talsins eftir að samþykkt nr. 182, um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd, var bætt við. Hann kvað árangur átaksins vera verulegan þar sem yfir 150 fullgildingar á grundvallarsamþykktum hefðu átt sér stað á árinu. Hann benti á að ein meginástæðan fyrir þessum árangri væri sú aðstoð sem Alþjóðavinnumálastofnunin veitir ríkjum til að skapa þeim skilyrði til að geta fullgilt samþykktirnar. Þá hefði yfirlýsing um grundvallarréttindi í atvinnulífinu sem samþykkt var á 87. Alþjóðavinnumálaþinginu 1998 haft mikilvæga þýðingu í þessu sambandi og á grundvelli hennar ættu sér stað umræður og aðgerðir til úrbóta varðandi þessi réttindi. Fulltrúinn benti á mikilvægi starfs vinnuhóps um endurskoðun samþykkta ILO sem væri nauðsynlegt til að tryggja að samþykktir stofnunarinnar væru í takt við tímann. Hann fjallaði einnig stuttlega um málefni Burma vegna brota þess á samþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu, og kvaðst vonast til að aðgerðir stofnunarinnar bæru loks árangur þannig að ríkið sæi sig um hönd og færi að tilmælum hennar. Að lokum benti hann á nokkur atriði sem betur mættu fara að því er snertir vinnulag nefndarinnar að mati fulltrúa Norðurlandanna, einkum það að rétt væri að stytta almennar umræður í nefndinni sem kæmu niður á umfjöllun um brot ríkja á samþykktum ILO.
    Síðari hluta almennra umræða í nefndinni var varið í umfjöllun um skýrslu sérfræðinganefndarinnar um framkvæmd samþykktar ILO nr. 144 (1976), varðandi samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála, og tilmæla er fylgja henni um sama efni. Skýrslan byggist einkum á upplýsingum frá ríkisstjórnum, en einnig á athugasemdum sem nefndinni bárust frá samtökum atvinnurekenda og launafólks í aðildarríkjunum. Í skýrslunni er farið yfir sögulegan bakgrunn grundvallarreglunnar sem Alþjóðavinnumálastofnunin byggist á, um þríhliða samstarf ríkisstjórna, samtaka atvinnurekenda og launafólks, gerð grein fyrir þeim kröfum sem gerðar eru í samþykktinni til framkvæmdar ríkja og mismunandi leiðum til að fylgja þeim. Einnig er gerð grein fyrir vandamálum sem ríkisstjórnir hafa staðið frammi fyrir við beitingu samþykktarinnar. Í umræðum um skýrsluna gerðu fjölmargir ríkisstjórnarfulltrúar grein fyrir framkvæmd samþykktarinnar heima fyrir og nokkrir fulltrúar ríkja sem ekki hafa fullgilt samþykktina kváðu skýrsluna vera til skýringar við undirbúning fullgildingar. Fram kom að ástæður þess að mörg ríki hafa ekki fullgilt samþykktina eru stjórnsýsluleg og fjárhagsleg vandkvæði fremur en að þau séu í grundvallaratriðum á móti þeim markmiðum sem samþykktin byggist á. Fjölmargir fulltrúar hvöttu þau ríki sem ekki hafa fullgilt samþykktina til þess en þann 10. desember 1999 hafði hún verið fullgilt af 93 ríkjum.

Umfjöllun um framkvæmd einstakra ríkja á alþjóðasamþykktum.
    Að venju var mestum hluta af starfstíma nefndarinnar varið í umfjöllun um framkvæmd aðildarríkjanna á alþjóðasamþykktum og um athugasemdir sem sérfræðinganefndin gerir við framkvæmd aðildarríkjanna á ákvæðum í stofnskrá ILO eða í samþykktum sem hlutaðeigandi ríki hafa fullgilt. Athugasemdirnar eru í árlegri skýrslu sérfræðinganefndarinnar til Alþjóðavinnumálaþingsins. Þar sem athugasemdirnar eru mun fleiri en nokkur kostur er að taka til umfjöllunar á þinginu vinnur þingnefndin eftir skrá yfir mál sem fulltrúar aðila vinnumarkaðarins koma sér saman um að tekin verði til athugunar í nefndinni. Á seinni árum hefur málum verið skipt í tvo flokka. Annars vegar eru málefni sem rekja má til vanrækslu af hálfu aðildarríkjanna. Misbrestur á því að kynna löggjafarsamkomu nýjar alþjóðasamþykktir eða tillögur er dæmi um mál af þessu tagi. Hinn flokkinn fylla alvarleg brot aðildarríkja á alþjóðasamþykktum. Þessi mál eru tekin til efnislegrar umfjöllunar sem getur tekið nokkrar klukkustundir, allt eftir efni og alvöru málsins. Brot á grundvallarsamþykktum ILO eru litin sérstaklega alvarlegum augum.
    Samtals var fulltrúum 24 aðildarríkja stefnt fyrir nefndina til að taka þátt í umræðum um meint brot á alþjóðasamþykktum og mættu fulltrúar 22 ríkja. Ríkin tvö sem ekki höfðu sent fulltrúa fyrir nefndina sendu ekki sendinefnd til þingsins.

Sérstakar ábendingar.
    Ýmsum viðurlögum er beitt í þingnefndinni til að freista þess að fá aðildarríkin til að sjá að sér og bæta framkvæmd á ákvæðum alþjóðasamþykkta sem þau hafa brotið. Alþjóðavinnumálastofnunin getur ekki þvingað aðildarríkin með valdi til að fara eftir ábendingum sínum. Þess í stað er höfðað til heiðurs hlutaðeigandi og skapað viðhorf meðal annarra aðildarríkja til brota ríkisins. Hörðustu viðurlögin felast í því að aðildarríkis er getið í svonefndum sérstökum hluta skýrslu nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta til allsherjarþings vinnumálaþingsins. Í þremur tilvikum var ríkjum veitt sérstök ábending og þeirra getið í sérstökum hluta skýrslu nefndarinnar. Þetta var gert í málum Kamerún og Venesúela vegna brota á samþykkt nr. 87, um félagafrelsi og verndun þess, og í máli Súdan vegna brota á samþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu. Auk þess voru margvísleg mál ríkja rædd, einkum brot á grundvallarsamþykktum ILO, en einnig á öðrum samþykktum, svo sem um samþykkt nr. 81, um vinnueftirlit, og nr. 122, um stefnu í atvinnumálum.
    Að þessu sinni var það einkennandi að umræður um mál einstakra ríkja leiddu oftsinnis til þess að ríkisstjórnir samþykktu, ýmist að eigin frumkvæði eða eftir hvatningu nefndarinnar, að taka á móti tæknilegri aðstoð af hálfu ILO. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga þrátt fyrir að fátækt og aðrir efnahagslegir og félagslegir þættir, jafnvel stjórnmálalegir þættir, geti valdið erfiðleikum í framkvæmd getur það ekki falið í sér réttlætingu fyrir því að ríki fari ekki eftir samþykktum sem þau hafa fullgilt og á það sérstaklega við um grundvallarsamþykktir stofnunarinnar.

Súdan:
    Brot Súdan á samþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu, hafa verið reglulegt viðfangsefni nefndarinnar um árabil. Í skýrslu nefndarinnar til Alþjóðavinnumálaþingsins er lýst miklum áhyggjum vegna langvarandi þrælahalds og mannrána í ríkinu. Þó virðist sem nokkrar úrbætur hafi átt sér stað af hálfu ríkisstjórnar Súdan og var hún hvött til að hraða frekari úrbótum. Nefndin óskaði þess að ríkisstjórnin mundi í næstu skýrslum sínum skýra frá að aðgerðir hefðu átt sér stað til samræmis við skuldbindingar hennar samkvæmt samþykktinni, þar með talið að þeim hefði verið refsað sem bæru ábyrgð á ástandinu. Nefndin hvatti einnig ríkisstjórn Súdan til að taka á móti sendifulltrúum ILO þannig að unnt væri að afla upplýsinga um raunverulega stöðu mála og gera raunhæfar tillögur um aðstoð til að koma á lögmætu ástandi í Súdan.

Kamerún:
    Þingnefndin samþykkti að geta Kamerún í sérstökum hluta skýrslu sinnar til allsherjarþingsins vegna alvarlegra brota á samþykkt nr. 87, um félagafrelsi og verndun þess. Nefndin lýsti yfir áhyggjum sínum þar sem málið hefur verið um árabil til meðferðar hjá henni án þess að breytingar hafi átt sér stað til hins betra. Hún hvatti ríkisstjórnina til að leggja af takmarkanir á réttinum til að setja á fót stéttarfélög, að afnema ákvæði laga sem heimila ákærur gegn stofnendum stéttarfélaga og að bregðast við kvörtunum varðandi afskipti stjórnvalda af málefnum stéttarfélaga og ofsóknum gagnvart meðlimum þeirra. Niðurstaða nefndarinnar var að því miður hefðu engar aðgerðir til framfara átt sér stað í ríkinu. Þó væri jákvætt að ríkið hefði boðist til að taka á móti sendifulltrúum ILO til að meta ástandið og gera tillögur um aðgerðir.

Venesúela:
    Í máli Venesúela vegna brota ríkisins á samþykkt nr. 87 hvatti nefndin ríkisstjórnina til að breyta löggjöf sinni hið fyrsta til að tryggja að launafólk og atvinnurekendur ættu þess kost að stofna félög og kjósa fulltrúa þeirra án íhlutunar stjórnvalda. Þess var jafnframt óskað að ríkið afnæmi allan þann fjölda af skyldum og markmiðum sem samtökum launafólks og atvinnurekenda væri ætlað að uppfylla.

Kólumbía:
    Til viðbótar við framangreint er rétt að gera nokkra grein fyrir umfjöllun um mál Kólumbíu. Fulltrúar ríkisstjórna Norðurlandanna stóðu saman að erindi í máli Kólumbíu þar sem ríkisstjórnin var hvött til að láta hið fyrsta af brotum sínum á samþykkt nr. 87. Í niðurstöðum nefndarinnar til allsherjarþingsins segir að fjölmargar kvartanir um mjög gróf brot ríkisins á samþykktinni hafi borist til nefndar ILO um félagafrelsi. Nefndin hafi oftsinnis fjallað um málið án þess að fram hafi komið að nokkrar úrbætur varðandi framkvæmd samþykktarinnar hafi átt sér stað af hálfu ríkisstjórnarinnar. Nefndin vísaði til skýrslu sérfræðinganefndarinnar þar sem hún krefst þess að ríkisstjórn Kólumbíu afnemi allar takmarkanir á rétti launafólks til að stofna og ganga í stéttarfélög að eigin vali, til að kjósa fulltrúa sína og á rétti stéttarfélaga til að skipuleggja málefni sín án takmarkana af hálfu stjórnvalda. Þess væri vænst að á næsta ári lægju fyrir upplýsingar um breytingar á lögum og framkvæmd í ríkinu í samræmi við kröfur samþykktarinnar.

2.8. Mæðravernd.
    Síðari umræða um endurskoðun samþykktar nr. 103 frá 1952, um mæðravernd, og tilmæla nr. 95 um sama efni fór fram í sérstakri þingnefnd. Formaður nefndarinnar var kjörinn A. Andersen, ríkisstjórnarfulltrúi frá Danmörku, og varaformenn A. Knowles, fulltrúi atvinnurekenda á Nýja Sjálandi, og U. Engelen-Kefer, fulltrúi launafólks í Þýskalandi. Af hálfu Íslands sat Hrafnhildur Stefánsdóttir í þingnefndinni.
    Nefndin hélt samtals 21 fund. Fyrir henni lá vandasamt verkefni, að bæta réttindi kvenna í tengslum við þungun og fæðingu og að færa efni samþykktarinnar til samræmis við kröfur nútímans en jafnframt að ná það víðtæku samkomulagi um texta nýrrar samþykktar að sem flest ríki gætu fullgilt hana. Niðurstaða nefndarinnar varð tillaga að texta nýrrar samþykktar og tilmæla sem voru samþykkt af allsherjarþinginu með miklum meiri hluta en 304 þingfulltrúar greiddu atkvæði með samþykkt hennar, 22 á móti og 116 sátu hjá. Í samþykktinni koma fram margvíslegar breytingar frá eldri samþykktinni í tengslum við þungun og fæðingu. Þannig er mælt fyrir um 14 vikna lágmarksrétt til fæðingarorlofs í stað 12 vikna í eldri samþykktinni, nýtt ákvæði er í samþykktinni um heilsuvernd þungaðra kvenna og kvenna sem hafa barn á brjósti, aukin vernd þungaðra kvenna og mæðra gegn brottrekstri, m.a. þannig að vinnuveitandi ber sönnunarbyrðina um að brottrekstur hafi átt sér stað vegna ástæðna sem ekki tengjast þungun eða barnsburði, nýtt ákvæði um rétt kvenna til sama starfs eða sambærilegs starfs á sömu launum að loknu fæðingarorlofi, bann lagt við kröfu um þungunarpróf atvinnuumsækjenda, ákvæði sem felur í sér rétt til brjóstagjafar á vinnutíma og gildissvið samþykktarinnar aukið þannig að hún nær að meginreglu til allra kvenna. Í tilmælunum sem fylgja samþykktinni er m.a. mælst til þess að ríki lengi fæðingarorlof upp í a.m.k. 18 vikur, að þau veiti foreldraorlof og að réttur samkvæmt samþykktinni nái einnig til þeirra sem ættleiða börn.
    Samþykktin er birt sem fylgiskjal I með þessari skýrslu.

2.9. Starfsfræðsla og starfsþjálfun.
    Tilmæli nr. 150, um starfsfræðslu og starfsþjálfun, sem þætti í þróun vinnuafls voru samþykkt á 60. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1975. Í mars 1998 ákvað stjórnarnefnd ILO, m.a. með hliðsjón af örri efnahagslegri og félagslegri þróun frá samþykkt þessara tilmæla, að almenn umræða skyldi fara fram um starfsmenntun og starfsþjálfun á 88. Alþjóðavinnumálaþinginu.
    Fjallað var um málið í sérstakri þingnefnd og var formaður hennar L. Mishra, ríkisstjórnarfulltrúi frá Indlandi. Varaformenn voru C. Renique, fulltrúi atvinnurekenda í Hollandi, og E. Patel, fulltrúi launafólks í Suður-Afríku. Af hálfu Íslands sat Hervar Gunnarsson í þingnefndinni.
    Nefndin hélt samtals 15 fundi. Umræður byggðust á skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um þjálfun til vinnu, framleiðni og þátttöku í samfélaginu. Í lokaskýrslu sinni lagði nefndin áherslu á að með því að „stuðla að því að breyta einstaklingum í starfhæfa og upplýsta borgara stuðli þróun og þjálfun mannauðs að efnahagslegri þróun, fullri atvinnu og þátttöku í samfélaginu“. Nefndin lagði áherslu á þörf fyrir ráðstafanir þróunarríkja til að losna úr skuldum og minnka skuldir í því skyni að auka notkun fjármuna til að stuðla að þróun mannauðs. Þar eð allir hafi rétt til menntunar og þjálfunar ættu ríkisstjórnir og aðilar vinnumarkaðarins að tryggja að allir fái notið þessa réttar. Þótt ekki væri fyrir hendi nein allsherjaruppskrift fyrir fjárfestingu í þjálfun ættu ríkisstjórnir hinna ýmsu ríkja að skapa „almennt umhverfi til þess að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til að fjárfesta hvert fyrir sig og sameiginlega í menntun og þjálfun.“
    Í lokaskýrslu nefndarinnar er jafnframt hvatt til þróunar gæðakerfis á landsvísu þar eð slíkt auðveldar ævilangt nám, hjálpar fyrirtækjum og ráðningarstofum til að aðlaga framboð að eftirspurn hvað varðar hæfni og hjálpar einstaklingum við val á þjálfun og ævistarfi. Nefndin leggur jafnframt til að tilmæli ILO nr. 150 frá 1975 verði endurskoðuð í því skyni að stuðla að nýjum aðferðum við þjálfun. Með hinum nýju tilmælum ættu að fylgja hagnýtar leiðbeiningar og gagnagrunnur sem ættu að vera endurskoðuð reglulega af Alþjóðavinnumálastofnuninni.

2.10. Öryggi og hollustuhættir í landbúnaði.
    Fyrsta umræða fór fram í sérstakri þingnefnd um nýja samþykkt um öryggi og hollustuhætti í landbúnaði. Formaður nefndarinnar var kjörinn A.A. George, ríkisstjórnarfulltrúi frá Nígeríu, og varaformenn T. Makeka, fulltrúi atvinnurekenda í Lesotho, og L. Trotman, fulltrúi launafólks á Barbados. Nefndin hélt samtals 16 fundi.
    Landbúnaður hefur verið skilgreindur sem ein af þremur hættulegustu atvinnugreinum í heimi ásamt námavinnu og byggingarvinnu. Af hálfu ILO hafa verið gerðar sérstakar samþykktir um öryggi og hollustuhætti í tveimur síðarnefndu atvinnugreinunum en enginn alþjóðlegur sáttmáli fjallar sérstaklega um öryggi og hollustu í landbúnaði.
    Á hverju ári verður u.þ.b. helmingur af 335.000 banaslysum á vinnustöðum í landbúnaði. Til viðbótar verða á ári hverju milljónir landbúnaðarverkamanna, sem eru um 1,3 milljarðar í heiminum, fyrir alvarlegum vinnuslysum eða eitrunum af völdum plágueyða og annarra kemískra efna sem notuð eru í landbúnaði. Umræður í þingnefndinni tóku mið af framangreindum staðreyndum. Umræðurnar voru undanfari frekari umfjöllunar og ráðgerðrar afgreiðslu nýrrar samþykktar um efnið á 89. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 2001.
    Meðal helstu atriða sem nefndin mælir með í skýrslu sinni til allsherjarþingsins er að samþykktin skuli að meginreglu til ná til allra starfsmanna, þar með talið sjálfstætt starfandi bænda, svo og að tekið verði tillit til umhverfisáhrifa landbúnaðar. Meðal óleystra verkefna er að finna leiðir til að bæta öryggi og vinnuaðstæður starfsmanna í landbúnaði, en þar er um að ræða meiri fjölbreytni og minna skipulag en í iðnaði.
    Með hinum nýju stöðlum sem lagt er til að settir verði yrði lagður grundvöllur að þróun stefnu á landsvísu í hverju ríki varðandi öryggi og hollustuhætti í landbúnaði. Helstu atriðin sem eru til umfjöllunar ná til viðeigandi aðferða við áhættumat og áhættustýringu og forvarna- og verndaraðgerða varðandi öryggi við vélavinnu og vinnuvistfræði, meðhöndlun og flutning efna, meðferð kemískra efna, umönnun húsdýra, byggingarvinnu og viðhald mannvirkja og búnaðar í landbúnaði.
    Önnur ákvæði ná m.a. til ungra starfsmanna og starfandi barna, starfsmanna sem vinna tímabundið eða á tilteknum árstímum og sjálfstætt starfandi bænda, slysa- og sjúkratrygginga, aðbúnaðar og húsnæðis.

2.11. Þingsályktanir.
    Samkvæmt stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er heimilt að leggja fram tillögur til þingsályktunar á Alþjóðavinnumálaþinginu. Samkvæmt þingsköpum vinnumálaþingsins verða slíkar tillögur að hafa borist til stofnunarinnar 15 dögum fyrir þingsetningu. Fjallað er um tillögurnar í ályktunarnefnd sem er ein af fastanefndum þingsins.
    Að þessu sinni kaus nefndin sem formann Csaba Öry, ríkisstjórnarfulltrúa frá Litháen. Varaformenn voru kosnir Bokkie Botha, fulltrúi atvinnurekenda í Suður-Afríku, og Patricia O'Donovan, fulltrúi launafólks á Írlandi. Haukur Ólafsson tók þátt í starfi þingnefndarinnar af hálfu Íslands. Nefndin hafði að þessu sinni óvenjulega margar tillögur til umfjöllunar eða 16 talsins.
    Samkvæmt verklagsreglum nefndarinnar hefst starf hennar á almennri kynningu á framkomnum þingsályktunartillögum. Eftir það náðist samkomulag um sameiningu nokkurra tillagna hliðstæðs efnis þannig að eftir stóðu 10 tillögur. Þannig var tillaga, sem ríkisstjórnir Norðurlandanna stóðu sameiginlega að, sameinuð tveimur öðrum tillögum um jafnrétti. Að því loknu fór fram leynileg atkvæðagreiðsla um það í hvaða röð nefndin skyldi fjalla efnislega um tillögurnar. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er mikilvæg þar sem tímans vegna kemst nefndin venjulega ekki yfir að afgreiða nema fáar tillögur til allsherjarþingsins. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var eftirfarandi:
     1.      Tillaga um alnæmi og vinnu (1.145.341 vegin atkvæði).
     2.      Tillaga um hlutverk Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á 21. öld (835.839 vegin atkvæði).
     3.      Tillaga um aðgerðir í Palestínu og á hernumdu svæðunum (750.834 vegin atkvæði).
     4.      Tillaga um jafnrétti kynjanna (734.516 vegin atkvæði).
     5.      Tillaga um reglusetningu ILO ( normative policy) (695.001 vegin atkvæði).
    Nefndin náði aðeins að afgreiða fyrstu tillöguna, þ.e. um alnæmi og vinnu, sem lögð hafði verið fram af fulltrúum atvinnurekenda. Fjölmargar breytingartillögur voru lagðar fram við tillöguna í nefndinni og reyndust umræður um þær mjög tímafrekar. Tillagan var samþykkt af allsherjarþinginu með miklum meiri hluta atkvæða. Í tillögunni eru ríkisstjórnir og samtök atvinnurekenda og launafólks hvött til að auka möguleika aðila vinnumarkaðarins til að láta til sín taka varðandi þennan heimsfaraldur, til að styrkja heilbrigðis- og öryggiskerfi í því skyni að vernda áhættuhópa og móta og framkvæma stefnu og áætlanir í félagsmálum og atvinnumálum sem stuðla að því að draga úr áhrifum eyðni jafnt í einstökum fyrirtækjum og á landsvísu.

2.12. Samþykkt um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd.
    Samþykkt ILO nr. 182, um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd, var afgreidd samhljóða á 87. Alþjóðavinnumálaþinginu 1999. Samþykktinni er ætlað að styðja og vera til fyllingar samþykkt nr. 138 (1973), um lágmarksaldur við vinnu.
    Á þinginu var haldin sérstök móttaka/blaðamannafundur fyrir þau 27 ríki sem höfðu fullgilt samþykktina. Þar hélt forstjóri stofnunarinnar ávarp og lýsti velþóknun sinni á því hve mörg ríki hefðu fullgilt samþykktina svo snemma. Hann kvað þessi skjótu viðbrögð ríkja vera til marks um vaxandi stuðning við baráttu um allan heim gegn barnavinnu, sérstaklega í sinni verstu mynd, og gefi von um að afnám hennar verði að raunveruleika fyrir milljónir barna sem sæti slíku nú í dag. Þess má geta að Ísland varð 17. ríkið til að fullgilda samþykktina og var þá eitt af 14 aðildarríkjum ILO sem höfðu undirritað allar átta grundvallarsamþykktir stofnunarinnar.

2.13. Umræða um alnæmi.
    Meðal annarra viðburða á Alþjóðavinnumálaþinginu má geta sérstakra umræðna um alnæmi (HIV/AIDS) og vinnu þar sem Sam Nujoma, forseti Namibíu, hélt erindi meðal annarra. Þátttakendur á fundinum voru sammála um að hlutverk ILO sé mjög mikilvægt þar sem alnæmi hefur nú náð þeirri útbreiðslu að það felur í sér ógnun gegn réttindum launafólks, félagslegri og efnahagslegri þróun, félagslegu öryggi, framleiðni og jafnrétti. Aukinn fjöldi foreldralausra barna skiptir einnig máli að því er snertir umfang barnavinnu. Á fundinum var undirritaður samstarfssamningur á milli ILO og UNAIDS (framkvæmdaáætlun Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn alnæmi) um baráttu gegn alnæmi.

2.12. Samstarf við fulltrúa annarra ríkja.
    Í þessari skýrslu kemur fram að þingstörfum er fram haldið samtímis á allsherjarþingi og í fjölmörgum þingnefndum. Ljóst er að það er borin von fyrir litla sendinefnd eins og þá íslensku að geta fylgst með öllu sem fram fer. Þess vegna skiptir samstarf við aðra miklu máli. Þar vega þyngst vikulegir samráðsfundir fulltrúa ríkisstjórna Norðurlandanna. Á þeim fer fram kynning á stöðu málefna í einstökum nefndum og lögð eru á ráðin um sameiginlegt ræðuhald Norðurlandanna á allsherjarþinginu og í nefndum.
    Samráðsfundir fulltrúa vestrænna iðnríkja (IMEC) eru einnig til þess fallnir að létta sendinefndinni þingstörfin. Þessir fundir eru haldnir daglega og á þeim er farið yfir þau málefni sem eru efst á baugi hverju sinni. Með þátttöku í þessum fundum má fá gott yfirlit yfir það sem er að gerast á þessu fjölmenna alþjóðaþingi. Fundirnir eru einnig góður vettvangur til að kynna tillögur sem fulltrúar einstakra ríkja ráðgera að flytja í þingnefndum. Á þeim er jafnframt fjallað um mál sem eru til umfjöllunar í nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta, einkum ef þau snerta ríki sem eiga aðild að hópnum. Loks eru oft tekin til umfjöllunar drög að ræðum sem fulltrúar einstakra ríkja hyggjast flytja annaðhvort í eigin nafni, fyrir hönd fleiri ríkja eða hópsins í heild.



Fylgiskjal I.


Samþykkt nr. 183, um mæðravernd.

    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 88. þingsetu sinnar í Genf 30. maí 2000 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    með hliðsjón af nauðsyn þess að endurskoða (endurskoðaða) samþykkt um mæðravernd frá 1952 og tilmæli um mæðravernd frá 1952 í því skyni að stuðla frekar að jafnrétti allra kvenna á vinnumarkaði og heilbrigði og öryggi móður og barns, og í því skyni að viðurkenna mismun á efnahagslegri og félagslegri þróun innan aðildarríkjanna, svo og fjölbreytileika fyrirtækja, og þróun mæðraverndar í lögum og venjum hvers ríkis, og
    með hliðsjón af ákvæðum Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna (1948), samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (1979), samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (1989), Pekingyfirlýsingarinnar og -framkvæmdaáætlunarinnar (1995), yfirlýsingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jöfn tækifæri og jafna meðferð kvenna á vinnumarkaði (1975), yfirlýsingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarréttindi í atvinnulífinu og áréttingu á framkvæmd hennar (1998), svo og alþjóðlegra samþykkta og tilmæla sem ætlað er að tryggja jöfn tækifæri og jafna meðferð karla og kvenna á vinnumarkaði, einkum samþykktar um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, 1981, og
    að teknu tilliti til aðstæðna kvenna á vinnumarkaði og þörf fyrir vernd þungaðra kvenna, sem er sameiginleg ábyrgð stjórnvalda og samfélagsins, og
    að teknum ákvörðunum um að samþykkja tilteknar tillögur sem varða endurskoðun (endurskoðaðrar) samþykktar um mæðravernd frá 1952 og tilmæla frá 1952 sem er fjórða mál á dagskrá þessa þings, og
    að teknum ákvörðunum um að þessar tillögur skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar,
    gerir þingið í dag, fimmtánda júní 2000, eftirfarandi samþykkt sem nefna má samþykkt um mæðravernd, 2000.

Gildissvið.

1. gr.

    Í þessari samþykkt táknar hugtakið „kona“ sérhverja konu án nokkurrar mismununar og hugtakið „barn“ sérhvert barn án nokkurrar mismununar.

2. gr.

    1. Samþykkt þessi nær til allra kvenna á vinnumarkaði, þar með talið þeirra sem starfa á grundvelli óhefðbundins ráðningarforms.
    2. Hins vegar er sérhverju aðildarríki, sem fullgildir samþykkt þessa, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök atvinnurekenda og launafólks, heimilt að skilja að öllu eða nokkru leyti undan gildissviði samþykktarinnar tiltekna hópa starfsmanna ef beiting ákvæðanna ylli sérstökum og verulegum vandamálum.
    3. Sérhverju aðildarríki, sem nýtir sér þann möguleika sem gefinn er í undanfarandi málsgrein, ber í fyrstu skýrslu sinni um framkvæmd samþykktarinnar skv. 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að birta lista yfir þá hópa starfsmanna sem eru undanskildir með þessum hætti og ástæður fyrir því. Í síðari skýrslum sínum ber aðildarríkinu að lýsa því hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar í því skyni að láta ákvæði samþykktarinnar með tímanum ná smám saman einnig til slíkra hópa.

Heilsuvernd.


3. gr.

    Sérhverju aðildarríki ber, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök atvinnurekenda og launafólks, að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þungaðar konur eða konur með barn á brjósti séu ekki skyldaðar til að vinna störf sem hlutaðeigandi yfirvald hefur skilgreint skaðleg heilbrigði móður eða barns eða þar sem mat hefur staðfest að um er að ræða verulega áhættu fyrir heilsu móður eða barns.

Fæðingarorlof.


4. gr.

    1. Við framvísun læknisvottorðs eða annarra viðeigandi vottorða, svo sem fyrir er mælt í landslögum og venju, þar sem fram kemur áætlaður fæðingardagur, skal kona sem samþykkt þessi nær til eiga rétt á fæðingarorlofi í a.m.k. 14 vikur.
    2. Sérhverju aðildarríki ber að tilgreina lengd ofangreinds fæðingarorlofs í yfirlýsingu sem fylgir staðfestingu þessarar samþykktar.
    3. Sérhverju aðildarríki er síðar heimilt að afhenda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar frekari yfirlýsingu um framlengingu fæðingarorlofs.
    4. Með tilliti til verndar heilsu móður og barns skal fæðingarorlof fela í sér sex vikna skyldubundið fæðingarorlof eftir barnsburð nema stjórnvöld og hlutaðeigandi samtök atvinnurekenda og launafólks hafi samið með öðrum hætti á landsvísu.
    5. Framlengja ber þann hluta fæðingarorlofs, sem veittur er fyrir barnsburð, um þann tíma sem líður frá áætluðum fæðingardegi til raunverulegs fæðingardags án þess að um nokkra styttingu sé að ræða á skyldubundnum hluta fæðingarorlofs eftir barnsburð.

Leyfi vegna veikinda eða fylgikvilla.


5. gr.

    Við framvísun læknisvottorðs ber að veita leyfi á undan eða eftir fæðingarorlofi ef um er að ræða veikindi, fylgikvilla eða hættu á fylgikvillum sem stafa af þungun eða barnsfæðingu. Eðli og hámarkslengd slíks leyfis má ákveða með landslögum og venju.

Greiðslur.


6. gr.

    1. Greiðslur skulu veittar samkvæmt landslögum og reglugerðum, eða með öðrum hætti í samræmi við landsvenju, konum sem leggja niður störf vegna fæðingarorlofs, sbr. 4. og 5. gr.
    2. Greiðslur skulu vera með þeim hætti að þær tryggi konunni og barni hennar viðunandi aðstæður hvað varðar heilbrigði og lífskjör.
    3. Ef greiðslur vegna fæðingarorlofs, sbr. 4. gr., eru greiddar með tilliti til fyrri tekna, samkvæmt landslögum eða venju, skal fjárhæð slíkra greiðslna ekki vera lægri en tveir þriðju af fyrri tekjum konu eða þeim hluta teknanna sem tillit er tekið til við útreikning á greiðslum.
    4. Ef öðrum aðferðum er beitt, samkvæmt landslögum eða venju, til að ákvarða greiðslur vegna fæðingarorlofs, sbr. 4. gr., skal fjárhæð slíkra greiðslna vera sambærileg við þá fjárhæð sem að jafnaði fæst þegar beitt er undanfarandi málsgrein.
    5. Sérhvert aðildarríki skal tryggja að skilyrði fyrir greiðslum geti verið uppfyllt af meiri hluta kvenna sem samþykkt þessi nær til.
    6. Ef kona fullnægir ekki skilyrðum um greiðslur samkvæmt landslögum og reglugerðum eða með öðrum hætti í samræmi við landsvenju á hún rétt á viðunandi greiðslum úr sjóðum félagslegrar aðstoðar að teknu tilliti til könnunar á fjárhagsstöðu sem krafist er vegna slíkrar aðstoðar.
    7. Sjúkragreiðslur skulu veittar konu og barni hennar samkvæmt landslögum og reglugerðum eða með öðrum hætti í samræmi við landsvenju. Sjúkragreiðslur skulu ná til umönnunar fyrir fæðingu, barnsburðar og umönnunar eftir fæðingu, svo og sjúkrahúsvistunar ef hún reynist nauðsynleg.
    8. Til þess að vernda stöðu kvenna á vinnumarkaði skulu greiðslur vegna fæðingarorlofs, sbr. 4. og 5. gr., greiddar úr skyldubundnum almannatryggingasjóðum eða opinberum sjóðum eða með þeim hætti sem ákveðið er með landslögum eða venju. Vinnuveitandi er ekki persónulega ábyrgur fyrir beinum kostnaði af slíkum greiðslum til handa konu sem starfar hjá honum án þess að vinnuveitandinn hafi samþykkt það sérstaklega, að því undanteknu:
     a.      að mælt hafi verið fyrir um slíkt með landslögum eða venju aðildarríkis áður en Alþjóðavinnumálaþingið gerði samþykkt þessa, eða
     b.      að stjórnvöld og hlutaðeigandi samtök atvinnurekenda og launafólks semji um slíkt síðar á landsvísu.

7. gr.

    1. Aðildarríki, þar sem efnahags- og almannatryggingakerfi eru vanþróuð, teljast fullnægja 3. og 4. mgr. 6. gr. ef fjárhæð greiðslna er ekki lægri en fjárhæðir sem greiddar eru vegna veikinda eða tímabundinnar örorku samkvæmt landslögum og reglugerðum.
    2. Aðildarríki sem nýtir sér heimild undanfarandi málsgreinar ber í fyrstu skýrslu sinni um framkvæmd samþykktarinnar skv. 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að útskýra ástæður sínar fyrir því og tilgreina fjárhæðir greiðslna sem veittar eru. Í síðari skýrslum sínum ber aðildarríkinu að lýsa því hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að hækka slíka fjárhæð greiðslna með tímanum.

Vinnuvernd og bann við mismunun.


8. gr.

    1. Vinnuveitanda er óheimilt að segja konu upp störfum á meðan á þungun hennar stendur eða á meðan hún er í fæðingarorlofi, sbr. 4. og 5. gr., eða í tiltekinn tíma eftir að hún hefur snúið til starfa sem ákveðinn er í landslögum eða reglugerðum nema af ástæðum sem tengjast ekki þungun eða barnsfæðingu eða afleiðingum af henni eða brjóstagjöf. Sönnunarbyrði fyrir því að ástæður uppsagnar tengist ekki þungun eða barnsfæðingu og afleiðingum hennar eða brjóstagjöf hvílir á vinnuveitanda.
    2. Kona hefur rétt til að hverfa aftur að sama starfi eða sambærilegu starfi á fyrir sama endurgjald við lok fæðingarorlofs.

9. gr.

    1. Sérhverju aðildarríki er skylt að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þungun og barnsburður valdi ekki mismunun í starfi, þar með talinn — þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 2. gr. — aðgangur að vinnu.
    2. Meðal þeirra ráðstafana sem getið er um í undanfarandi málsgrein skal vera bann við þeirri kröfu að kona fari í þungunarpróf eða leggi fram vottorð um að hún hafi farið í þungunarpróf þegar kona sækir um vinnu nema þess sé krafist í landslögum eða reglugerðum varðandi störf.

Mæður með börn á brjósti.


10. gr.

    1. Konu skal veittur réttur til þess að gera daglega eitt eða fleiri hlé á vinnu sinni eða að fækka daglegum vinnustundum til þess að gefa barni sínu brjóst.
    2. Tímabilið þegar heimilt er að veita vinnuhlé til brjóstagjafar eða að fækka daglegum vinnustundum, fjölda þeirra, lengd brjóstagjafahléa og aðferðum við fækkun daglegra vinnustunda skal ákveða með landslögum eða venju. Slík hlé eða fækkun daglegra vinnustunda teljast til vinnutíma sem greiða skal fyrir.

Regluleg endurskoðun.


11. gr.

    Sérhverju aðildarríki ber að kanna reglulega, í samráði við hlutaðeigandi samtök atvinnurekenda og launafólks, hvort viðeigandi sé að lengja fæðingarorlofstímann, sbr. 4. gr., eða hækka fjárhæð greiðslna, sbr. 6. gr.

Framkvæmd.


12. gr.

    Samþykkt þessari skal hrinda í framkvæmd með lögum eða reglugerðum eða með öðrum hætti samkvæmt venju í hverju landi, svo sem með almennum kjarasamningum, úrskurði gerðardóms eða dómsúrskurði.

Lokaákvæði.


13. gr.

    Samþykkt þessi er endurskoðun á (endurskoðaðri) samþykkt um mæðravernd frá 1952.

14. gr.

    Formlegar fullgildingar samþykktar þessarar skulu sendar forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.

15. gr.

    1. Samþykkt þessi skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hafa látið forstjórann skrá fullgildingar sínar.
    2. Samþykktin gengur í gildi 12 mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá forstjóranum.
    3. Síðan gengur samþykktin í gildi að því er snertir hvert aðildarríki 12 mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.

16. gr.


    1. Aðildarríki sem fullgilt hefur samþykkt þessa getur sagt henni upp að tíu árum liðnum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.
    2. Sérhvert aðildarríki sem fullgilt hefur samþykkt þessa en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrstu málsgrein, rétt þann til uppsagnar sem þar er kveðið á um skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil en er síðan heimilt að segja henni upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

17. gr.

    1. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.
    2. Þegar forstjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar, sem honum berst, skal hann vekja athygli þeirra á því hvaða dag samþykktin gengur í gildi.

18. gr.

    Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.

19. gr.

    Þegar stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd samþykktar þessarar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins endurskoðun hennar allrar eða hluta hennar.

20. gr.

    1. Ef þingið gerir nýja samþykkt sem breytir samþykkt þessari að nokkru eða öllu leyti og sú samþykkt mælir ekki fyrir um á annan veg skal:
     a.      fullgilding aðildarríkis á hinni nýju endurskoðuðu samþykkt lögum samkvæmt hafa í för með sér tafarlausa uppsögn samþykktar þessarar, þrátt fyrir ákvæði 16. gr. hér að framan, ef hin nýja endurskoðaða samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma þegar það gerist,
     b.      aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda samþykkt þessa eftir að hin nýja endurskoðaða samþykkt hefur öðlast gildi.
    2. Samþykkt þessi skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu hvað varðar form og efni í þeim aðildarríkjum sem hafa fullgilt hana en ekki hina endurskoðuðu samþykkt.

21. gr.

    Enskur og franskur texti samþykktar þessarar er jafngildur.


Fylgiskjal II.


Tilmæli nr. 191 um mæðravernd.


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar,
    sem kom saman til 88. þingsetu sinnar í Genf 30. maí 2000 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar og hefur samþykkt tilteknar tillögur er varða mæðravernd sem er fjórða mál á dagskrá þessa þings, og
    sem hefur ákveðið að þessar tillögur skuli gerðar í formi tilmæla sem koma til viðbótar samþykkt um mæðravernd, 2000 (hér eftir nefnd „samþykktin“),
    samþykkir í dag, hinn fimmtánda júní 2000, eftirfarandi tilmæli sem nefna má tilmæli um mæðravernd, 2000.

Fæðingarorlof.


    1. (1) Aðildarríkin ættu að leitast við að lengja fæðingarorlof, sbr. 4. gr. samþykktarinnar, í a.m.k. 18 vikur.
    (2) Ákvæði ættu að kveða á um framlengingu fæðingarorlofs við fjölburafæðingar.
    (3) Að svo miklu leyti sem unnt er ætti að gera ráðstafanir til að tryggja að kona geti valið sjálf hvort hún taki hinn óskyldubundna hluta fæðingarorlofs fyrir eða eftir barnsburð.

Greiðslur.


    2. Þar sem því verður við komið og að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök atvinnurekenda og launafólks ætti að hækka greiðslur sem kona á rétt á í fæðingarorlofi, sbr. 4. og 5. gr. samþykktarinnar, þannig að þær nemi fyrri tekjum konunnar eða þeim hluta teknanna sem tillit er tekið til við útreikning á greiðslum.

    3. Að svo miklu leyti sem unnt er ættu sjúkragreiðslur, sbr. 7. mgr. 6. gr. samþykktarinnar, að ná til:
     a.      umönnunar heimilislæknis eða sérfræðings á læknastofu, á heimili eða á sjúkrahúsi eða annarri sjúkrastofnun,
     b.      umönnunar ljósmóður eða annars konar umönnunar vegna þungunar og barnsburðar á heimili eða á sjúkrahúsi eða á annarri sjúkrastofnun,
     c.      dvalar á sjúkrahúsi eða annarri sjúkrastofnun,
     d.      hvers konar nauðsynlegra lyfja, hjálpartækja og búnaðar, rannsókna og prófana sem læknir eða annar hæfur aðili mælir fyrir um, og
     e.      tannlækninga og læknisaðgerða.

Fjármögnun greiðslna.


    4. Hvers konar framlög vegna skyldubundinna almannatrygginga, sem standa undir fæðingarorlofsgreiðslum og hvers konar skattar, sem byggjast á launagreiðslum og innheimtir eru í því skyni að fjármagna slíkar greiðslur, hvort sem greiðendur eru bæði vinnuveitandi og starfsmenn eða einungis vinnuveitandi, ættu að greiðast í samræmi við heildarfjölda starfandi karla og kvenna án tillits til kynferðis.

Vinnuvernd og bann við mismunun.


    5. Kona ætti að eiga rétt á að hverfa aftur að sama starfi eða sambærilegu starfi fyrir sama endurgjald við lok fæðingarorlofs, sbr. 5. gr. samþykktarinnar. Fæðingarorlofið, sbr. 4. og 5. gr. samþykktarinnar, ætti að reiknast til starfstíma við mat á réttindum hennar.

Heilsuvernd.


    6. (1) Aðildarríkin ættu að gera ráðstafanir til að tryggja mat á hvers konar áhættuþáttum á vinnustað sem varða öryggi og heilbrigði þungaðrar konu eða konu með barn á brjósti og barns hennar. Niðurstöður slíks mats ættu að vera aðgengilegar hlutaðeigandi konu.
    (2) Við hvers konar aðstæður skv. 3. gr. samþykktarinnar eða þar sem komið hefur í ljós að um verulega hættu sé að ræða skv. 1. mgr. ætti að gera ráðstafanir á grundvelli læknisvottorðs, ef slíkt á við, til að tryggja öryggi konunnar sem felast í að:
     a.      draga úr hættu,
     b.      breyta vinnuskilyrðum hennar,
     c.      fela henni annað starf án þess að það hafi áhrif á laun hennar til lækkunar ef ekki er unnt að breyta vinnuskilyrðum hennar, eða
     d.      veita henni greitt leyfi samkvæmt landslögum, reglugerðum eða venju ef ekki er unnt að fela henni önnur störf.
    (3) Einkum ætti að grípa til þeirra ráðstafana sem tilgreindar eru í 2. mgr. þegar um er að ræða:
     a.      erfiða vinnu sem er fólgin í að lyfta eða bera byrði eða ýta eða draga þung hlöss,
     b.      vinnu sem felur í sér líffræðilega, efnafræðilega eða eðlisfræðilega skaðvalda sem valda heilsufarslegri hættu á meðgöngu,
     c.      vinnu þar sem krafist er sérstaks jafnvægis,
     d.      vinnu sem veldur líkamlegu álagi vegna langrar setu eða stöðu og vegna mikils hita eða titrings.
    (4) Ekki ætti að skylda þungaða konu eða konu með barn á brjósti til að vinna að næturlagi ef í læknisvottorði kemur fram að slík vinna samrýmist ekki þungun hennar eða brjóstagjöf.
    (5) Konan ætti að hafa rétt til að hverfa aftur að fyrra starfi eða sambærilegu starfi aftur um leið og slíkt telst öruggt fyrir hana.
    (6) Konu ætti að vera heimilt að yfirgefa vinnustað, ef nauðsyn krefur, eftir að hún hefur tilkynnt vinnuveitanda sínum um það í því skyni að gangast undir læknisrannsókn í tengslum við þungunina.

Konur með barn á brjósti.


    7. Við framvísun læknisvottorðs eða annarra viðeigandi skilríkja samkvæmt landslögum eða venju ætti að aðlaga tíðni og lengd hléa til brjóstagjafar persónulegum þörfum sérhverrar konu.
    8. Þar sem því verður við komið, og með samþykki vinnuveitanda og viðkomandi konu, ætti að vera unnt að draga saman þann tíma sem ætlaður er til daglegra hléa til brjóstagjafar, til að heimila styttingu á vinnutíma hennar við upphaf eða lok hvers vinnudags.
    9. Þar sem því verður við komið ætti að gera ráðstafanir til að útvega aðstöðu til brjóstagjafar þar sem gætt er viðeigandi hreinlætis á eða nærri vinnustað.

Leyfi af svipuðum ástæðum.


    10. (1) Við dauða móður áður en leyfi eftir barnsburð er lokið ætti að veita starfandi föður barns heimild til að fá leyfi frá vinnu í þann tíma sem eftir er af fæðingarorlofi.
    (2) Ef móðirin er veik eða dvelur á sjúkrahúsi að loknum barnsburði og áður en fæðingarorlofi er lokið, og ef móðirin er ekki fær um að annast barnið, ætti að veita starfandi föður barns heimild til að fá leyfi frá vinnu í þann tíma sem eftir er af fæðingarorlofi, í samræmi við landslög og venju, til þess að annast barnið.
    (3) Starfandi móðir eða starfandi faðir barns ætti að hafa rétt til foreldraorlofs þegar að loknu fæðingarorlofi.
    (4) Tímabilið þegar foreldraorlof kann að vera veitt, lengd foreldraorlofs og önnur atriði, svo sem greiðslu til foreldra og nýtingu og skiptingu foreldraorlofs milli starfandi foreldra, ætti að ákveða með landslögum eða reglugerðum eða með þeim hætti sem samrýmist landsvenju.
    (5) Þar sem landslög og venja heimila ættleiðingu ættu ættleiðendur að hafa aðgang að því verndarkerfi sem samþykktin veitir, einkum hvað varðar fæðingarorlof, greiðslur og vinnuvernd.



Fylgiskjal III.


Skýrsla um starf nefndar sem fer með málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar


og um framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu á árinu 2000.


    Á 61. Alþjóðavinnumálaþinginu, sem haldið var í Genf árið 1976, var afgreidd samþykkt nr. 144, um samstarf ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála. Ísland fullgilti samþykktina árið 1981. Samþykktin endurspeglar það samstarf fulltrúa ríkisstjórna og aðila vinnumarkaðarins sem fram fer innan Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og skapar henni sérstöðu meðal annarra stofnana sem starfa innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Í öllum nefndum og ráðum stofnunarinnar eiga sæti fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Í anda samþykktar nr. 144 var skipuð 16. apríl 1982 samstarfsnefnd ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins (hér eftir kölluð ILO-nefndin) sem fjallar um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina. Á árinu 2000 skipuðu eftirtaldir nefndina: Fulltrúi Alþýðusambands Íslands, Ástráður Haraldsson, lögfræðingur ASÍ, fulltrúi Samtaka atvinnulífsins, Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur SA. Fulltrúi félagsmálaráðuneytisins, sem jafnframt gegnir formennsku í nefndinni, er Elín Blöndal, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu. Í september var Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, skipuð ritari nefndarinnar.
    Verkefni nefndarinnar eru svipuð frá ári til árs, þ.e. að fara yfir drög að skýrslum til alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf um framkvæmd fullgiltra alþjóðasamþykkta, svara spurningaskrám sem skrifstofan sendir aðildarríkjunum þegar undirbúin eru drög að nýjum samþykktum og fjalla um athugasemdir sem sérfræðinganefnd ILO gerir við framkvæmd á alþjóðasamþykktum. Nefndin ræðir einnig framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu.
    Nefndin hélt samtals 10 fundi á árinu 2000. Helstu viðfangsefni nefndarinnar voru eftirfarandi:

Málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
a. Skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta á sviði vinnumála.
    Samkvæmt 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er aðildarríki skylt að gefa stofnuninni skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Þannig skulu aðildarríkin gefa ILO reglulega skýrslur um framkvæmd þeirra samþykkta sem þau hafa fullgilt. Þá getur stjórnarnefnd ILO falið alþjóðavinnumálaskrifstofunni að óska eftir skýrslum frá aðildarríkjunum um framkvæmd ákvæða í öðrum samþykktum sem þau hafa ekki fullgilt. Gert er ráð fyrir að stjórnvöld hafi samráð við aðila vinnumarkaðarins um samningu þessara skýrslna.
    Á árinu 2000 undirbjó ILO-nefndin skýrslur ríkisstjórnarinnar um framkvæmd eftirfarandi alþjóðasamþykkta sem Ísland hefur fullgilt:
    Nr. 29, um nauðungarvinnu eða skylduvinnu.
    Nr. 87, um félagafrelsi og verndun þess.
    Nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf.
    Nr. 122, um stefnu í atvinnumálum.

b. Undirbúningur fyrir þátttöku á 88. Alþjóðavinnumálaþinginu.
    ILO-nefndin fjallaði á fundum sínum fyrri hluta árs 2000 um dagskrármál 88. Alþjóðavinnumálaþingsins. Á fundunum var farið yfir drög að nýrri samþykkt um mæðravernd sem felur í sér endurskoðun á samþykkt nr. 103 um sama efni. Enn fremur var farið yfir skýrslur sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði tekið saman til undirbúnings umræðum um helstu dagskrármál Alþjóðavinnumálaþingsins.

c. Fullgilding alþjóðasamþykkta.
    Á árinu fjallaði nefndin um hugsanlega fullgildingu Íslands á samþykktum ILO nr. 182, um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana, og nr. 183, um mæðravernd.
    Nefndin mælti á árinu með fullgildingu samþykktar nr. 182 en henni fylgja jafnframt tilmæli sama efnis þar sem ríki eru hvött til enn frekari aðgerða til afnáms barnavinnu. Samþykktin var fullgilt af Íslands hálfu þann 29. maí 2000. Samþykktin tekur gildi fyrir Ísland þann 29. maí 2001 í samræmi við 3. mgr. 10. gr. samþykktarinnar. Fullgilding hennar kallar ekki á lagabreytingar hér á landi.
    Á árinu 1999 hafði nefndin gert tillögu til félagsmálaráðherra um fullgildingu samþykktar ILO nr. 156 (1981), um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Nefndin hafði jafnframt gert tillögu um lagaákvæði vegna samþykktarinnar en fyrir lá að breyta þyrfti lögum hér á landi vegna fullgildingar hennar. Var það vegna ákvæðis hennar um að fjölskylduábyrgð skuli ekki vera gild ástæða til uppsagnar starfs. Frumvarpið var lagt fram á 124. löggjafarþingi vorið 1999 en varð ekki útrætt. Það var lagt fram að nýju á 125. löggjafarþingi haustið 1999 og afgreitt í maí 2000 sem lög nr. 27/ 2000 um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna. Þann 22. júní 2000 afhenti fastafulltrúi Íslands í Genf fullgildingarskjal Íslands vegna samþykktarinnar. Samþykktinni fylgja tilmæli nr. 165 sem bera sama nafn og samþykktin og fela í sér nánari útfærslu á efni hennar. Ísland var 31. aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem fullgilti samþykkt nr. 156. Samþykktin tekur gildi fyrir íslenska ríkið að liðnum 12 mánuðum frá fullgildingu hennar, þ.e. 22. júní 2001.

d. Norræn ráðstefna um málefni ILO.
    Dagana 17. og 18. október 2000 fór fram þríhliða ráðstefna um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Osló. Fjallað var um stefnu ILO varðandi setningu alþjóðlegra viðmiða. Sendinefnd Íslands á ráðstefnunni skipuðu Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir lögfræðingur, fulltrúi félagsmálaráðuneytisins, Jón H. Magnússon lögfræðingur frá Samtökum atvinnulífsins og Ari Skúlason framkvæmdastjóri frá Alþýðusambandi Íslands.

Félagsmálasáttmáli Evrópu.
    Umfjöllun um aðild Íslands að félagsmálasáttmála Evrópu er meðal verkefna sem falin hafa verið ILO-nefndinni. Helstu viðfangsefni nefndarinnar voru gerð skýrslu um framkvæmd nokkurra ákvæða sáttmálans, athugun á athugasemdum sérfræðinganefndar Evrópuráðsins við framkvæmd Íslands á sáttmálanum, könnun á hugsanlegri fullgildingu Íslands á endurskoðaðri gerð félagsmálasáttmála Evrópu frá árinu 1996 og könnun á mögulegri fullgildingu á viðauka við sáttmálann frá 1991.

a. Skýrsla um framkvæmd ákvæða félagsmálasáttmálans sem Ísland hefur fullgilt.
    Ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti á fundi sínum 17. september 1992 að breyta til reynslu fyrirkomulagi á skýrslugjöf um framkvæmd sáttmálans. Samkvæmt 21. gr. sáttmálans skulu aðildarríki taka saman á tveggja ára fresti skýrslu um framkvæmdina. Samkvæmt því hafa aðildarríkin tekið saman annað hvert ár skýrslu um framkvæmd allra fullgiltra ákvæða sáttmálans. Enn fremur hefur þeim verið skipt í tvo hópa og hafa ríkjahóparnir skipst á um að senda Evrópuráðinu skýrslur sínar. Þessu var breytt þannig að taka skal saman á hverju ári skýrslu um framkvæmd á tilteknum fjölda greina. Aðildarríkin hafa því í raun skilað skýrslu á tveimur árum um framkvæmd ákvæða sáttmálans. Síðar var ákveðið að létta aðildarríkjunum skýrslugjöfina með því að óska einungis eftir skýrslu fjórða hvert ár um tilteknar greinar sáttmálans. Af þessum breytingum hefur leitt að sérfræðinganefnd Evrópuráðsins hefur nú getað lagt samtímis mat á framkvæmd allra aðildarríkjanna á ákvæðum sáttmálans. Það hefur leitt til þess að betri samanburður fæst á framkvæmd ríkjanna á sáttmálanum.
    Í samræmi við breyttar reglur um skýrslur um framkvæmd félagsmálasáttmálans óskaði Evrópuráðið eftir skýrslu á árinu 2000 um framkvæmd á eftirtöldum greinum sáttmálans á tímabilinu 1. janúar 1995 til 31. desember 1998: 11. gr. (réttur til heilsuverndar), 14. gr. (réttur til að njóta góðs af félagslegri velferðarþjónustu) og 2.–3. mgr. 18. gr. (réttur til atvinnu í landi annars samningsaðila). Þá óskaði hún eftir skýrslu um framkvæmd eftirfarandi ákvæða á tímabilinu 1. janúar 1993 til 31. desember 1998: 17. gr. (réttur mæðra og barna til félagslegrar og efnahagslegrar verndar) og 1. og 4. mgr. 18. gr. (réttur til atvinnu í landi annars samningsaðila). Var 14. skýrslu Íslands um framkvæmd félagsmálasáttmálans skilað til Evrópuráðsins í júlí 2000.
    Við gerð skýrslunnar var m.a. byggt á upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, Vinnumálastofnun, Vinnueftirliti ríkisins og Barnaverndarstofu. Þá var skýrslan send til umsagnar BHM og BSRB auk þeirra samtaka sem eiga fulltrúa í ILO-nefndinni.

b. Skýrsla um framkvæmd ákvæða félagsmálasáttmálans sem Ísland hefur ekki fullgilt.
    Samkvæmt 22. gr. félagsmálasáttmálans ber aðildarríkjum sáttmálans að senda aðalritara Evrópuráðsins með hæfilegu millibili skýrslur varðandi þau ákvæði II. kafla sáttmálans sem þau hafa ekki fullgilt.
    Að ósk ráðherranefndar Evrópuráðsins fjallaði nefndin á árinu um framkvæmd 1., 3. og 4. mgr. 7. gr. félagsmálasáttmálans sem varðar vinnu barna. Í skýrslu um framkvæmd ákvæðisins, sem send var til Evrópuráðsins af hálfu íslenskra stjórnvalda og fjallað var um í nefndinni, er vísað til ákvæða barnaverndarlaga nr. 58/1992, laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar nr. 426/1999 sem varðar vinnu barna og ungmenna. Þá er vísað til þess að Ísland fullgilti samþykkt ILO nr. 138 um lágmarksaldur við vinnu á árinu 1999. Sérstaklega hafði verið óskað eftir af hálfu Evrópuráðsins að fram kæmu í skýrslunni upplýsingar um ástæður sem koma í veg fyrir að Ísland fullgildi þessar málsgreinar 7. gr. sáttmálans. Í skýrslu Íslands segir að litið sé svo á að eðlilegt sé að athugað verði með mögulega fullgildingu þessara ákvæða við yfirferð yfir ákvæði endurskoðaðrar gerðar félagsmálasáttmálans með tilliti til fullgildingar. Skýrslan var send til umsagnar BHM og BSRB auk þeirra samtaka sem eiga fulltrúa í ILO-nefndinni.

c. Athugasemdir við framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmálans.
    Nefndin fjallaði á árinu um athugasemdir við framkvæmd Íslands á nokkrum ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu sem koma fram í skýrslu sérfræðinganefndar Evrópuráðsins sem var gefin út í niðurstöðum XV-1. Um er að ræða niðurstöður í framhaldi af 13. skýrslu Íslands sem skilað var árið 1999 um framkvæmd eftirfarandi ákvæða félagsmálasáttmálans: 1. gr. um réttinn til vinnu., 5. gr. um félagafrelsi, 6. gr. um réttinn til að semja sameiginlega, 12. og 13. gr. sem varða réttinn til félagslegs öryggis og til félags- og heilbrigðisaðstoðar og 16. gr. sem fjallar um rétt fjölskyldunnar til félagslegrar, lagalegrar og efnahagslegrar verndar. Á fund nefndarinnar komu fulltrúar frá fjármálaráðuneytinu vegna framkvæmdar 6. gr. og 4. mgr. 12. gr. og frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu vegna framkvæmdar 12 og 13. gr. sáttmálans. Athugasemdir sérfræðinganefndarinnar eru birtar í viðauka með þessari skýrslu.

d. Hugsanleg fullgilding á endurskoðaðri gerð félagsmálasáttmálans og viðauka við sáttmálann frá 1991.
    Árið 1990 samþykktu evrópskir félagsmálaráðherrar tillögu Lalumiere, þáverandi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, um endurskoðun á ákvæðum félagsmálasáttmálans. Í framhaldi af samþykkt tillögunnar var hafin endurskoðun sáttmálans af sérstakri nefnd á vegum Evrópuráðsins. Nefndin afgreiddi til ráðherranefndar Evrópuráðsins árið 1991 drög að viðauka við félagsmálasáttmálann þar sem m.a. er kveðið skýrar á um hlutverk sérfræðinganefndar Evrópuráðsins. Í henni er einnig kveðið skýrar á um verkefni nefndar sem í eiga sæti fulltrúar aðildarríkja sáttmálans, svokallaðrar embættismannanefndar. Að tillögu nefndarinnar samþykkti ráðherranefndin árið 1995 viðauka við sáttmálann sem veitir heildarsamtökum vinnumarkaðarins rétt til að kæra framkvæmd sáttmálans til Evrópuráðsins. Þriðja skjalið sem nefndin afgreiddi til ráðherranefndarinnar er ný gerð sáttmálans þar sem eldri ákvæði hafa verið færð í nútímalegra horf en jafnframt bætt við 11 nýjum efnisgreinum. ILO-nefndin fór á árinu yfir breytingar sem hafa verið gerðar frá eldri gerð sáttmálans. Markmiðið hefur verið að kanna hugsanlega fullgildingu Íslands á þessari endurskoðuðu gerð félagsmálasáttmálans. Sú umfjöllun stóð enn yfir í árslok 2000.
    Þá hóf nefndin á árinu umfjöllun um mögulega fullgildingu framangreinds viðauka við félagsmálasáttmálann frá 1991.

Athugasemdir nefndar óháðra sérfræðinga við framkvæmd Íslands


á félagsmálasáttmála Evrópu á árunum 1997–98.


    Hér á eftir eru birtar athugasemdir sem nefnd óháðra sérfræðinga á vegum Evrópuráðsins (European Committee on Social Rights) hefur gert við framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu. Um er að ræða athugasemdir í framhaldi af 13. skýrslu Íslands um framkvæmd á eftirtöldum greinum sáttmálans á tímabilinu 1. janúar 1997 til 31. desember 1998: 1., 5., 6., 12., 13. og 16. gr. Athugasemdirnar eru birtar í skýrslu sérfræðinganefndarinnar: European Social Charter: European Committee of Social Rights, Conclusions XV-1, Strasbourg, apríl 2000. Tekið skal fram að athugasemdirnar eru ekki tilfærðar orðrétt heldur er um að ræða efnislega samantekt.

1. gr.

Réttur til vinnu.


     1. mgr. Full atvinna.
    Að því er snertir atvinnuástand veitir nefndin því athygli að samkvæmt íslensku skýrslunni dró jafnt og þétt úr atvinnuleysi á viðmiðunartímanum og varð það hið minnsta síðan 1991 (3,9% 1997 og 2,8% 1998). Atvinnuleysi kvenna (4,0%) var enn tvöfalt meira en atvinnuleysi karla (1,8%) árið 1998. Nefndin veitir því jafnframt athygli í kennitölum vinnumarkaðarins 1999 í riti Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að langtímaatvinnuleysi er óverulegt miðað við meðaltalið í Evrópu (0,4% af heildaratvinnuleysi). Hún óskar eftir að fá í næstu skýrslu íslenskra stjórnvalda um framkvæmd ákvæðisins tölur sem ná til næsta viðmiðunartímabils varðandi atvinnuleysi farandverkamanna og ungmenna.
    Hvað varðar atvinnumálastefnu á Íslandi veitir nefndin því athygli að stöðugur efnahagsvöxtur hélt áfram á viðmiðunartímanum sem hafði í för með sér auknar fjárfestingar og aukna spurn eftir vinnuafli. Í hefðbundnum atvinnugreinum (svo sem fiskveiðum og landbúnaði) hafa orðið örar breytingar til nútímahorfs en ekki að sama skapi í verkkunnáttu. Þetta misræmi hefur valdið skorti á vel menntuðu starfsfólki og auknu atvinnuleysi þeirra sem skortir verkkunnáttu, svo og meðal landsbyggðafólks og farandverkamanna. Stjórnvöld hafa brugðist við þessu með því stofna til svæðisbundinnar þróunaráætlunar fyrir landsbyggðina og ver til hennar 153,4 milljónum króna á fjárlögum, og er áætlað að verja helmingi þeirrar fjárhæðar sérstaklega til atvinnusköpunar. Nefndin óskar eftir að fá í næstu skýrslu upplýsingar um árangurinn af þessari svæðisbundnu þróunaráætlun.

    2. mgr. Réttur starfsmanns til að vinna fyrir sér í starfi sem hann velur sjálfur.
    Hvað varðar misrétti á grundvelli kynferðis segir í skýrslunni að fjögurra ára framkvæmdaáætlun til þess að koma á jafnrétti kvenna og karla samkvæmt jafnréttislögum, nr. 28/1991, hafi verið í gildi til ársloka 1997. Í skýrslu ráðherra til Alþingis við lok þessa tímabils var lagt mat á einstaka þætti verkefnisins, en matið byggðist einkum á skýrslum frá hlutaðeigandi ráðuneytum til skrifstofu Jafnréttisráðs. Nefndin telur þá starfsemi sem fram fór í þessu skyni á vegum hinna ýmsu ráðuneyta athyglisverða. Hún veitir því einnig athygli að árið 1997 samþykkti Alþingi nýja fjögurra ára áætlun um ráðstafanir til þess að stuðla að jafnrétti á tímabilinu 1998 til 2001. Sem svar við spurningu nefndarinnar um árangur Norðurliljuverkefnisins um jafnrétti kynjanna í menntakerfinu segir í skýrslunni að ítarlegar skýrslur hafi verið gefnar út við lok verkefnisins og efni þeirra kynnt öllum menntastofnunum. Hvað varðar annars konar mismunun er bent á það í skýrslunni að samkvæmt ákvæðum laga nr. 66/1995, um grunnskóla, beri að haga kennslu með þeim hætti að meðal annars sé lögð áhersla á að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli uppruna, kynferðis, búsetu, þjóðfélagsstöðu, trúarbragða eða fötlunar. Í fyrri niðurstöðum sínum óskaði nefndin eftir upplýsingum um ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að hvetja til jafns aðgengis að vinnu án mismununar á grundvelli kynþáttar, þjóðernis eða félagslegs uppruna og stjórnmálaskoðana. Í skýrslunni er því svarað til að samkvæmt ákvæðum laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 13/1997, sé svæðisvinnumiðlunum skylt að veita aðstoð öllum þeim sem hafa svonefndan ótakmarkaðan rétt til atvinnu á Íslandi, þ.e. ótakmarkað atvinnuleyfi, til að leita sér að atvinnu og velja sér starfsþjálfunarnámskeið. Samkvæmt skýrslunni er ekki um að ræða neina mismunun gagnvart fólki við beitingu þessa ákvæðis. Í skýrslunni segir að orðalagið „ótakmarkaðan rétt til atvinnu á Íslandi“ eigi við um þegna þeirra ríkja sem eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) með sama hætti og íslenskir ríkisborgarar og alla þá þegna erlendra ríkja sem eru ríkisborgarar annarra ríkja en aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins og hafa undir höndum ótakmarkað atvinnuleyfi samkvæmt ákvæðum laga atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994. Hvað varðar útgáfu takmarkaðra og ótakmarkaðra atvinnuleyfa vísar nefndin til niðurstöðu sinnar samkvæmt 3. mgr. 18. gr. (síðast í Niðurstöðum XIII-4, bls. 317–318). Loks veitir nefndin því athygli að aðstaða erlendra ríkisborgara, m.a. staða, þátttaka og félagsleg aðlögun að íslensku samfélagi, svo og stefnumótun varðandi erlenda ríkisborgara, hefur verið til athugunar hjá menntamálaráðuneytinu og Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. Hún óskar eftir upplýsingum um árangur þessarar athugunar.
    Nefndin ályktar að ástand mála sé í samræmi við þetta ákvæði félagsmálasáttmálans hvað varðar útrýmingu hvers konar mismununar í atvinnumálum.
    Að því er snertir bann við vinnuþrælkun segir í skýrslunni að ekki hafi verið lagt fram neitt frumvarp um vinnuþrælkun á Íslandi síðan ákvæði 81. sjómannalaga, nr. 35/1985, var afnumið með lögum nr. 53/1990. Nefndin ályktar að Ísland fullnægi ákvæðum 2. mgr. 1. gr. félagsmálasáttmálans hvað varðar bann við vinnuþrælkun.

    3. mgr. Ókeypis vinnumiðlun.
    Í íslensku skýrslunni segir að meginbreytingar hafi verið gerðar á skipulagi vinnumiðlunarþjónustu síðan á fyrra viðmiðunartímabili eftir samþykkt laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 13/1997, og laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997. Meginárangur hinna nýju laga er sá að komið var á fót nýrri stofnun, Vinnumálastofnun, sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið, og sér hún um vinnumiðlunarmálefni. Nýmæli hinna nýju laga eru fólgin í samræmingu atvinnumálastefnu fyrir landið allt og stofnun heildarvinnumarkaðar fyrir allt landið.
    Stofnaðar hafa verið átta vinnumiðlunarstofur víðs vegar um landið og ber þeim að fylgjast með þróun mála á vinnumarkaði og gera ráðstafanir í atvinnumálum til þess að aðstoða hina atvinnulausu.
    Varðandi ráðningarþáttinn gera svæðisskrifstofurnar sérstaka ráðningaráætlun fyrir hvern þann sem er að leita eftir atvinnu og leitast hún við að samræma framboð og spurn eftir vinnuafli. Slíkar áætlanir eiga að vera tilbúnar innan tíu vikna frá skráningu hjá skrifstofunni. Til að aðstoða þá sem leita eftir atvinnu bjóða svæðisvinnumiðlunarstofurnar einnig upp á aðra þjónustu, svo sem starfsþjálfun, starfskynningarnámskeið og tímabundna ráðningu. Þær stuðla að reynsluráðningu, þ.e. vinnuveitendur ráða til reynslu þá sem eru að leita að atvinnu (í allt að þrjá mánuði) með það fyrir augum að fastráða þá ef þeir reynast hæfir. Sérstök þjónusta er einnig veitt atvinnulausum ungmennum, eldra fólki og fötluðum sem eru að leita að vinnu. Í skýrslunni segir að árið 1998 hafi 1.200 manns fengið vinnu fyrir tilstilli vinnumiðlunarskrifstofanna og að 2.400 manns hafi fengið vinnu á vegum einkarekinna stofa. Nefndin óskar eftir því að í næstu skýrslu verði tilgreint nákvæmar hve mörgum hin opinbera vinnumiðlunarþjónusta hefur útvegað vinnu og að staðfest verði að slík þjónusta sé ókeypis. Hvað sem því líður kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að ástandið á Íslandi fullnægi ákvæðum 3. mgr. 1. gr. félagsmálasáttmálans.

5. gr.

Réttur til að stofna stéttarfélög.


    Nefndin kveður ástandið á Íslandi ávallt hafa verið talið fullnægjandi hvað varðar stofnun stéttarfélaga. Í fyrri niðurstöðum sínum óskaði nefndin eftir því að fá nýjustu upplýsingar um ástandið hvað varðar lög og framkvæmd hvað snertir rétt til að ganga í stéttarfélög. Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, eru ákvæði þess efnis að stéttarfélög séu opin öllum mönnum í hlutaðeigandi starfsgrein á því landsvæði sem stéttarfélag nær til samkvæmt félagslögum sínum. Stéttarfélög geta sett sér reglur um lágmarkskröfur fyrir félagsaðild en þær skulu vera almenns eðlis, án þess að stuðla að mismunun og mega ekki brjóta í bága við meginregluna. Í skýrslunni segir að réttur til aðildar að stéttarfélagi sé virtur í reynd og að ekki sé um að ræða neina nýlega dómsúrskurði varðandi þennan rétt. Ákvæði um rétt opinberra starfsmanna til að stofna stéttarfélög er að finna í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986. Nefndin veitir athygli svörum við spurningum sem hún bar fram í fyrri niðurstöðu og athugasemdum sem gerðar voru varðandi rétt til að ganga í stéttarfélög. Hún minnist þess að 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, að áorðnum breytingum 1995, hljóðar svo: „Ekki má skylda neinn til að eiga aðild að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.“ Í skýrslunni er vísað til yfirlýsingar stjórnarskrárnefndar Alþingis þess efnis að 2. mgr. 74. gr. „eigi ekki við um skuldbindingar á grundvelli frjálsra samninga, þ.m.t. almennra kjarasamninga.“ Þar segir að nefndin hafi einnig bent á að ákvæði í almennum kjarasamningum þess efnis að fyrirtækin skuli aðeins ráða til starfa þá sem eiga aðild að tilteknu stéttarfélagi feli ekki í sér þá skyldu að ganga í félag af þeirri gerð sem vísað er til í 1. málsl. 2. mgr. Hins vegar segir einnig í skýrslunni að skoðanir séu skiptar hvort unnt sé að samþykkja túlkun á bráðabirgðagögnum ( travaux preparatoires) með tilliti til afdráttarlauss orðalags ákvæðisins. Einnig segir að íslenskir dómstólar hafi ekki úrskurðað í því skyni að skýra lagalega stöðu hvað þetta varðar.
    Vegna skorts á fordæmisrétti, sem bendir til hins gagnstæða, kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn Íslands hafi ekki sýnt fram á að gerðar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands verndi rétt til að eiga ekki aðild að stéttarfélagi að nægilega miklu leyti að því er snertir ákvæði í almennum kjarasamningum þess efnis að fyrirtæki megi aðeins ráða til starfa þá sem eiga aðild að hlutaðeigandi stéttarfélagi eða vegna ákvæða um forgangsrétt. Fjöldi slíkra ákvæða í almennum kjarasamningum er í sjálfu sér vísbending um það að lagavernd sé áfátt að þessu leyti. Nefndin minnir á það á ný að „frelsi til að ganga í stéttarfélög, sem tryggt er í 5. gr. félagsmálasáttmálans, hljóti að fela í sér að ekki sé fyrir hendi neins konar skylda til að ganga í eða eiga aðild að stéttarfélagi.“ Eins og nefndin hefur oftlega bent á er í 5. gr. gert ráð fyrir viðeigandi vernd slíks frelsis í landslögum, annaðhvort með lögum eða fordæmisrétti (Niðurstöður XI-1, bls. 72).
    Hvað varðar 2. málsl. 2. mgr. 74 gr. stjórnarskrárinnar, þar sem löggjafanum er heimilað að takmarka rétt manna til að eiga aðild að tilteknum félögum, er útskýrt að samkvæmt bráðabirgðagögnum ( travaux preparatoires) ber í báðum þeim tilvikum sem tilgreind eru í ákvæðinu að mæla fyrir undanþágunni með lögum. Enn fremur kveður nefndin skýrt að skyldan til að eiga aðild að félagi verður að vera félaginu nauðsynleg til að gera því kleift að inna af hendi þær skyldur sem því ber að inna af hendi samkvæmt lögum. Að þessum skilyrðum uppfylltum er unnt að skylda einstakling til að eiga aðild að félagi í almannaþágu. Í bráðabirgðagögnunum ( travaux preparatoires) er tiltekið sérstaklega að þetta sé almennt ákvæði sem nær til þeirra liða sem fram koma í 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Nefndin leggur áherslu á að einu takmarkanirnar á réttinum til að stofna stéttarfélag, hvort sem um skylduaðild er að ræða eða ekki, og heimilað er samkvæmt sáttmálanum, eru þær sem tilgreindar eru í 31. gr. Hún óskar eftir því að fá upplýsingar í skýrslum í framtíðinni um hvers konar lagasetningu samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 74. gr. Hvað varðar ástandið í reynd veitir nefndin athygli ítarlegu svari í skýrslunni við beiðni um upplýsingar um tilvist þess ákvæðis í almennum kjarasamningum að fyrirtækjum sé ekki heimilt að ráða til starfa aðra en félaga í því stéttarfélagi sem þau semja við um kaup og kjör eða að félagar í því stéttarfélagi gangi fyrir um vinnu. Hún veitir því athygli að mikill meiri hluti launamanna á Íslandi (u.þ.b. 85%) á aðild að stéttarfélagi og er Alþýðusamband Íslands stærsta stéttarfélagið með um 50% vinnufærra manna innan sinna vébanda. Ákvæði í almennum kjarasamningum um forgangsrétt til vinnu eiga sér langa sögu og eru fastbundin af hefð. Frá og með 1996 hafa verið gerðar skipulegar tilraunir til að fella brott slík ákvæði úr almennum kjarasamningum stéttarfélaga innan ASÍ. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. stofnskrár ASÍ er aðildarfélögum þess bannað að hafa slík ákvæði í stofnskrám sínum.
    Forgangsréttur eins stéttarfélags kemur ekki í veg fyrir stofnun fleiri stéttarfélaga innan sömu atvinnugreinar í sama héraði. Í einu dómsmáli viðurkenndi Félagsdómur rétt stéttarfélags til að semja fyrir hönd félaga sinna, jafnvel þótt annað stéttarfélag hefði samið um forgangsrétt fyrir sína félaga (sjá úrskurð Félagsdóms frá 17. október 1994: Flugfélagið Atlanta gegn Félagi íslenskra atvinnuflugmanna).
    Með fordæmisrétti sínum hefur Félagsdómur viðurkennt kröfu stéttarfélaganna um forgangsréttarákvæði í almennum kjarasamningum sem löglega kröfu í samningaviðræðum.
    Aðeins eitt aðildarfélag ASÍ hefur nú í almennum kjarasamningum sínum ákvæði þess efnis að fyrirtæki megi ekki ráða til starfa aðra en félaga þess.
    Við skoðanakönnun um fjölda almennra kjarasamninga, sem innihalda ákvæði um forgangsrétt til starfa eða ákvæði þess efnis að fyrirtæki megi ekki ráða til starfa aðra en félaga í því stéttarfélagi sem það semur við um kaup og kjör, sem voru í gildi 31. desember 1998, kom í ljós að í kjarasamningum 118 af 119 aðildarfélögum ASÍ voru ákvæði um forgangsrétt til vinnu og í kjarasamningum eins félags ákvæði þess efnis að fyrirtæki mættu ekki ráða til starfa aðra en félaga í því stéttarfélagi. Í síðastnefnda félaginu voru 12.133 félagar af þeim 61.386 félögum sem áttu aðild að ASÍ. Auk þess voru 34 stéttarfélög bundin almennum kjarasamningum sem innihéldu forgangsréttarákvæði fyrir 5.763 félaga og 13 stéttarfélög sem voru bundin almennum kjarasamningum með ákvæði þess efnis að fyrirtæki mættu ekki ráða til starfa aðra en félaga í því stéttarfélagi sem það semdi við um kaup og kjör fyrir 1.871 félaga.
    Loks segir í skýrslunni að ekki sé að finna nein forgangsréttarákvæði í almennum kjarasamningum opinberra starfsmanna.
    Nefndin minnir á það að ákvæði þess efnis að fyrirtæki megi ekki ráða til starfa aðra en félaga í því stéttarfélagi sem þau semja við um kaup og kjör og ákvæði um forgangsrétt til vinnu brjóta í grundvallaratriðum í bága við félagsmálasáttmála Evrópu (Niðurstöður XIV-1, bls. 381).
    Að því er varðar starfsemi stéttarfélaga vísar nefndin um ástand mála varðandi almenna kjarasamninga til niðurstöðu sinnar varðandi ákvæði 2. mgr. 6. gr. Hvað varðar beiðni nefndarinnar um upplýsingar um aðgang fulltrúa stéttarfélaga að vinnustöðum og fundarfrelsi veitir hún því athygli að almenn ákvæði í lögum og almennum kjarasamningum kveða á um vinnuaðstöðu trúnaðarmanna starfsmanna og heimila m.a. að trúnaðarmanni í fyrirtæki sé heimilt að boða til fundar með starfsmönnum á vinnustaðnum tvisvar á ári á vinnutíma. Slíka fundi skal boða í samráði við hlutaðeigandi stéttarfélag og stjórn fyrirtækisins. Hvað varðar opinbera starfsmenn er í lögum nr. 94/1986 að finna ákvæði um fulltrúa stéttarfélaga (trúnaðarmenn), hlutverk þeirra og skyldur. Hugmyndin um „umboð“ stéttarfélags gildir ekki í einkageiranum. Hins vegar gilda sérstakar reglur um opinbera starfsmenn samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986. Samkvæmt þeim eru stéttarfélög starfsmanna ríkis og bæja, eða samtök slíkra stéttarfélaga, fulltrúar félaga sinna í viðræðum um almenna kjarasamninga samkvæmt lögunum og við aðrar ákvarðanir varðandi slíka samninga. Þeim stéttarfélögum sem höfðu, þegar lögin gengu í gildi, sérstaka almenna kjarasamninga við fjármálaráðherra samkvæmt þágildandi lögum um almenna kjarasamninga opinberra starfsmanna, eða höfðu almenna kjarasamninga við sveitarfélögin samkvæmt reglugerð frá 1976, var veittur réttur til að gera almenna kjarasamninga við sömu aðila svo fremi þau sæktu um það sérstaklega þegar lögin gengu í gildi. Önnur stéttarfélög eða samtök geta öðlast rétt til að koma fram sem samningsaðili ef a.m.k. einu af eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
     1.      Að í stéttarfélagi sé meiri hluti starfsmanna ríkis eða bæja aðrir en þeir sem eru félagar í stéttarfélögum sem hafa rétt til samninga samkvæmt 2. eða 3. tölul.
     2.      Að í stéttarfélagi séu a.m.k. 2/ 3þeirra starfsmanna sem samkvæmt lögunum starfa hjá tiltekinni stofnun og að fjöldi slíkra félaga sé 100 eða meiri.
     3.      Að í stéttarfélagi séu a.m.k. 2/ 3starfsmanna sem lögin ná til og eru í starfshópi sem nýtur lögbundinna starfsréttinda eða fullnægja skilyrðum um formlega menntun sem telja má að veiti jafngild réttindi og að fjöldi slíkra félaga sé 40 eða meiri.
    Fyrsti töluliður fjallar um almenn stéttarfélög, 2. tölul. um stéttarfélög stofnana og 3. tölul. um stéttarfélög sérmenntaðs fólks.
    Fulltrúar fjármálaráðherra, þ.e. að jafnaði samninganefnd ríkisins, taka afstöðu til þess hvort stéttarfélag fullnægir skilyrðum laganna til að hljóta viðurkenningu sem stéttarfélag með því að hefja samningaviðræður við það eða hafna samningaviðræðum. Deilum aðila um rétt einstakra stéttarfélaga til að gera kjarasamninga og þá starfsmenn sem þeir hafa umboð fyrir má vísa til Félagsdóms.
    Með tilliti til þeirra upplýsinga sem veittar eru í skýrslunni um forsendur umboðs varðandi opinber störf og með tilliti til tryggingar um eðlilega málsmeðferð í formi málskots til Félagsdóms kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að ástand mála á Íslandi sé samræmi við 5. gr. félagsmálasáttmálans hvað það atriði varðar. Að því er snertir persónusvið ( scope ratione personae) kveður nefndin ástand mála ávallt hafa verið talið fullnægja kröfum ákvæðisins. Í svari við beiðni nefndarinnar um nýjustu upplýsingar um rétt opinberra starfsmanna og lögreglumanna til að stofna félög er í skýrslunni vísað til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986. Eru þar ákvæði þess efnis að starfsmaður sem lögin ná til hafi rétt til að ganga í stéttarfélag sem hefur rétt til að gera samninga fyrir hans hönd. Lögin hindra starfsmenn ekki í því að ganga einnig í önnur stéttarfélög. Sem svar við almennri spurningu nefndarinnar um kjörgengi fulltrúa stéttarfélaga, ríkisborgara annarra aðildarríkja félagsmálasáttmálans, í starfsráð ( works councils) og aðrar opinberar stofnanir, sem vinnuveitendur og stéttarfélög taka þátt í (Niðurstöður XIV-1, bls. 45), segir í skýrslunni að almennar meginreglur um bann við mismunun eigi við í sambandi við tilnefningar til ráða og nefnda á vegum ríkisins (65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. kafli stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem m.a. er lagt bann við mismunun á grundvelli þjóðernis). Hið sama á jafnt við um nefndir og ráð sem ráðherra tilnefnir menn í. Nefndin spyr hvort um sé að ræða kjörnar stofnanir sem vinnuveitendur og fulltrúar stéttarfélaga eiga aðild að og ef svo er hver sé staða ríkisborgara annarra aðildarríkja.
    Loks ber að geta þess að í lögum nr. 94/1986 og nr. 80/1938 eru engin ákvæði sem takmarka rétt erlendra ríkisborgara til að stofna og ganga í félög. Samkvæmt skýrslunni tryggja ótvíræðar jafnræðisreglur í stjórnarskránni og stjórnsýslulögum öllum einstaklingum þennan rétt, hvert sem þjóðerni þeirra er.
    Niðurstaða nefndarinnar er sú að ástand mála varðandi lög og framkvæmd á Íslandi varðandi þann rétt manna að gerast ekki aðilar að félögum samræmist ekki 5. gr. félagsmálasáttmálans.

6. gr.

Réttur til að gera almenna kjarasamninga.


    1. mgr. Gagnkvæmt samráð.
    Í fyrri niðurstöðu sinni samkvæmt þessu ákvæði óskaði nefndin eftir því að ríkisstjórn Íslands veitti nýjustu upplýsingar um gagnkvæmt samráð innan einkageirans á landsgrundvelli og á vettvangi fyrirtækja, svo og innan opinbera geirans. Samkvæmt skýrslunni er gagnkvæmt samráð enn óaðskiljanlegur hluti íslensks vinnuréttar og menningar og nátengt gerð almennra kjarasamninga.
    Í lögum eru ákvæði sem skylda vinnuveitendur til að hafa samráð við starfsmenn eða fulltrúa þeirra. Sem dæmi má nefna að í skýrslunni er getið um lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lög nr. 77/1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, og lög um orlof, nr. 30/1987. Þessi lög gilda jafnt í einkageiranum og í opinbera geiranum.
    Nefndin óskar eftir upplýsingum í næstu skýrslu um ákvæði í almennum kjarasamningum þar sem kveðið er á um gagnkvæmt samráð um málefni sem ekki eru tilgreind í lögum. Hún endurtekur einnig beiðni sína um upplýsingar um gagnkvæmt samráð á þjóðargrundvelli, í einkageiranum og opinbera geiranum.
    Með tilliti til þeirra upplýsinga sem gefnar eru í þessari skýrslu og gefnar hafa verið í fyrri skýrslum ályktar nefndin að ástand mála fullnægi ákvæðum í 1. mgr. 6. gr. félagsmálasáttmálans.

    2. mgr. Stuðlað að frjálsum samningaumleitunum.
    Í fyrri niðurstöðu sinni um Ísland veitti nefndin athygli lögum nr. 75/1996 sem breyttu ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Hún hafði frestað því að taka afstöðu til þessara breytinga, sem verkalýðshreyfingin hafði gagnrýnt, og óskað eftir upplýsingum um það hvernig lögunum var beitt í framkvæmd við gerð almennra kjarasamninga 1997. Í síðustu skýrslunni er útskýrt að aðilar vinnumarkaðarins hafi farið að ákvæðum laganna við gerð almennra kjarasamninga 1997 án nokkurra vandkvæða. Þar eð nefndinni hafa ekki borist neinar athugasemdir íslenskra stéttarfélaga um skýrsluna sér hún ekki ástæðu til að ætla að lagabreytingarnar teljist vera til takmörkunar á rétti til almennra kjarasamninga.
    Nefndin veitir athygli samþykkt laga um kjarasamninga sjómanna, nr. 10/1998, hinn 27. mars 1998, í því skyni að binda enda á sjómannaverkfall sem hófst 3. febrúar 1998. Nánari umfjöllun um ástand mála eftir þessa íhlutun í almenna kjarasamninga milli sjómanna og útgerðarmanna er að finna í niðurstöðum nefndarinnar varðandi 4. mgr. 6. gr.
    Af þeim ástæðum sem nánar er fjallað um í niðurstöðu nefndarinnar í 4. mgr. 6. gr. álítur hún að íhlutun í almenna kjarasamninga í kjölfar samþykktar laga um kjarasamninga sjómanna, nr. 10/1998, hinn 27. mars 1998 teljist ekki brot á ákvæðum 2. mgr. 6. gr., sbr. 31. gr. félagsmálasáttmálans. Nefndin telur að íhlutunin falli innan valdsviðs ríkisstjórnar Íslands til að ákveða til hvaða ráða skyldi grípa í þessu sérstaka tilviki í lýðræðisríki í því skyni að vernda rétt og frelsi annarra og í almannaþágu. Í mati sínu tók nefndin tillit til framlengingar gildandi almennra kjarasamninga til 15. febrúar 2000 þótt viðmiðunartíminn sé á enda 31. desember 1998.
    Nefndin ályktar að ástand mála á Íslandi sé í samræmi við 2. mgr. 6. gr. félagsmálasáttmálans.

    3. mgr. Sáttafyrirkomulag og gerðardómur.
    Í skýrslu Íslands er svarað spurningu nefndarinnar í fyrri niðurstöðu um sættir við opinbera starfsmenn: samkvæmt lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með áorðnum breytingum, að sömu reglur skuli gilda innan opinbera geirans og einkageirans. Nefndin veitir því athygli að ekki eru nein dæmi um þvingandi gerðardóma á viðmiðunartímanum. Hún ályktar að ástand mála á Íslandi sé í samræmi við 3. mgr. 6. gr. félagsmálasáttmálans.

     4. mgr. Réttur til sameiginlegra aðgerða.
    Að því er snertir merkingu hugtaksins sameiginlegar aðgerðir tekur nefndin fram að í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, er sérstaklega tekið fram að stéttarfélög, samtök atvinnurekenda og einstakir atvinnurekendur hafi rétt til grípa til sameiginlegra aðgerða til þess að ná fram kröfum sínum í vinnudeilum og til þess að vernda rétt sinn samkvæmt lögunum með þeim skilmálum og skilyrðum sem lögin setja. Nefndin gefur gaum að því í skýrslunni að í lögum nr. 75/1996, um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, er skilgreining á hugtakinu „vinnustöðvun“ þar sem átt er við verkbann atvinnurekenda og verkföll þar sem starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að nokkru eða öllu leyti í því skyni að ná sameiginlegu takmarki. Hugtakið á einnig við um aðrar ráðstafanir vinnuveitenda og starfsmanna sem líkja má við vinnustöðvanir.
    Nefndin veitti athygli tilteknum takmörkunum á verkfallsrétti í fyrri niðurstöðu sinni og taldi þær viðunandi skv. 4. mgr. 6. gr. félagsmálasáttmálans. Almenna reglan er sú að sameiginlegar aðgerðir eru ekki heimilar í deilum um rétt, þ.e. um túlkun, gildi eða brot á almennum kjarasamningi eða túlkun eða brot á vinnulöggjöf. Um nokkrar undantekningar er að ræða frá friðarskyldu, t.d. er heimilt að fara í verkfall til stuðnings öðru stéttarfélagi sem á í löglegu verkfalli eða til að fylgja eftir úrskurði Félagsdóms.
    Hvað varðar þá spurningu í fyrri niðurstöðu nefndarinnar um hver hafi rétt til sameiginlegra aðgerða segir í skýrslunni að í samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur hafi aðeins stéttarfélög rétt til að boða verkfall. Nefndin veitir því athygli í upplýsingum sem hún fékk skv. 5. gr. að engin formleg skilyrði eru sett fyrir stofnun stéttarfélags. Til að geta orðið lögpersóna er stéttarfélagi skylt að hafa stjórn og félagslög. Skv. 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur eru stéttarfélög samningsaðilar um kaup og kjör félaga sinna svo fremi hlutaðeigandi stéttarfélag hafi í lögum sínum ákveðið að láta starfsemi sína ná til slíkra mála. Nefndin óskar eftir upplýsingum í næstu skýrslu, ef um slíkt er að ræða, um hvort stéttarfélagi sé einnig heimilt að grípa til sameiginlegra aðgerða svo fremi félagar þess samþykki slíkar aðgerðir í atkvæðagreiðslu.
    Nefndin minnir á að fyrri niðurstaða hennar var neikvæð þar eð verkfallsréttur opinberra starfsmanna er takmarkaður samkvæmt ákvæðum laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, við þær aðstæður að verkfallinu sé beint að lokum gerðar almennra kjarasamninga. Hún veitir því athygli í skýrslunni að þær breytingar sem gerðar voru á tilteknum ákvæðum um opinbera starfsmenn hafa ekki leitt til breytinga á þessu skilyrði, sem veldur því að ástand mála brýtur í bága við 4. mgr. 6. gr. félagsmálasáttmálans.
    Nefndin gefur gaum að því í skýrslunni að takmarkanir á verkfallsrétti nokkurra flokka opinberra starfsmanna, eftir breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, eru hinar sömu og í eldri ákvæðum. Nefndin telur að slíkar takmarkanir valdi engum vanda varðandi samræmi við 4. mgr. 6. gr. m.a. vegna þess að stéttarfélögum er heimilt að vefengja þær fyrir Félagsdómi, og hafa þegar gert það, í því skyni að ómerkja þá skoðun að undir þær falli tilteknar stöður á útgefnum listum. Samkvæmt skýrslunni túlkar Félagsdómur löggjöfina þröngt.
    Nefndin minnir á að í allmörgum tilvikum hefur hún talið að ástand mála á Íslandi samræmdist ekki 4. mgr. 6. gr. af þeim sökum að lög hafa verið sett til þess að binda enda á verkföll (Niðurstöður XII-1, bls. 128; Niðurstöður XIV, bls. 391). Samkvæmt nýjustu skýrslunni voru lög um kjarasamninga sjómanna, nr. 10/1998, samþykkt 27. mars 1998 í því skyni að binda enda á sjómannaverkfall. Í skýrslunni segir að verkfall sjómanna á fiskiskipaflotanum hafi hafist 3. febrúar 1998. Almennir kjarasamningar milli sjómanna og útgerðarmanna höfðu verið lausir til endurskoðunar síðan í árslok 1996, þ.e. í röska 13 mánuði. Deila sjómanna og útgerðarmanna snerist um fiskveiðikvóta og afla. Áður en verkfall var boðað hafði fjármálaráðherra gert ráðstafanir til að stofna til óformlegra samningaviðræðna aðila. Ljóst var að áhrif verkfallsins yrðu veruleg þar eð 70–75% af heildarútflutningi eru sjávarafurðir sem gefa 50–55% af útflutningstekjum. Að loknum löngum og árangurslausum samningaviðræðum að frumkvæði sáttasemjara ríkisins lagði sjávarútvegsráðherra fyrir Alþingi frumvarp til laga til að binda enda á verkfallið á fiskveiðiflotanum. Samkvæmt ósk fulltrúa sjómanna í samninganefndinni var verkfalli frestað frá 11. febrúar til 15. mars 1998. Ósk um frestun kom fram á þeirri forsendu að nefnd yrði skipuð samkvæmt 1. gr. framangreindra laga sem skyldi rannsaka myndun fiskverðs og þá þætti sem hafa áhrif á það. Fulltrúar allra aðila að deilunni samþykktu þessa tilhögun 11. febrúar 1998. Sjávarútvegsráðherra skipaði þá framangreinda nefnd og dró frumvarpið til baka. Nefndin skilaði deiluaðilum áliti sínu 4. mars 1998 en síðan hófust samningaviðræður aðila um nýjan almennan kjarasamning sem skyldi m.a. byggjast á þeirri ætlun að tillögur nefndar yrðu staðfestar með lögum. Viðræðurnar reyndust árangurslausar og verkfall sjómanna á fiskveiðiflotanum hófst á ný 15. mars 1998. Sáttasemjari ríkisins lagði fram sáttatillögu 16. mars 1998. Sjómenn samþykktu sáttatillöguna en útgerðarmenn höfnuðu henni. Viðræður aðila reyndust árangurslausar eftir að tillögunni hafði verið hafnað. Mikið bar á milli og engin lausn virtist finnast á deilunni.
    Ríkisstjórnin var þeirrar skoðunar að verkfallið gæti staðið í langan tíma, en það hefði haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslífið. Það hefði einnig alvarlegar afleiðingar fyrir starfsmenn í fiskiðnaði og fyrirtækin og bæjarfélögin. Ríkisstjórnin ákvað því að leggja fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt var til að efnisleg ákvæði í tillögu ríkissáttasemjara yrðu samþykkt sem lög. Lögin voru samþykkt þannig á Alþingi og framlengdu þau einnig gildandi almenna kjarasamninga til 15. febrúar 2000.
    Eins og nefndin hefur lagt áherslu á „eru bein afskipti ríkisins af gerð almennra kjarasamninga afar alvarleg ráðstöfun sem er aðeins unnt að réttlæta með viðeigandi skilyrðum í 31. gr. Félagsmálasáttmálans. Auk þess skyldi aðeins gripið til þess ráðs um þann tíma sem þörf er á þar til að snúið verði aftur til eðlilegs ástands þar sem réttur til gerðar almennra kjarasamninga yrði tryggður á ný“ (Niðurstöður X-1, bls. 72).
    Nefndin álítur að lögin hafi vísað til almenns kjarasamnings sem hafði verið laus til endurskoðunar í nær 13 mánuði, að þau hefðu verið sett að loknum nær tveggja mánaða verkfallsaðgerðum, þótt hlé væri gert á, og að það hafi verið að loknum langdregnum og hörðum samningsviðræðum deiluaðila, m.a. að tilhlutan ríkissáttasemjara. Allar líkur voru á því að verkfallið mundi standa lengi og hafa alvarlegar afleiðingar fyrir efnahag landsins og atvinnu manna í fiskvinnslu.
    Við slíkar aðstæður telur nefndin að íhlutun í almenna kjarasamninga með samþykkt laga um kjarasamninga sjómanna, nr. 10/1998, hinn 27. mars 1998 hafi ekki verið brot á ákvæðum 4. mgr. 6. gr., sbr. 31. gr. félagsmálasáttmálans. Hún er þeirrar skoðunar að íhlutunin falli innan valdsviðs ríkisstjórnar Íslands þegar um er að ræða til hvaða ráðstafana er nauðsynlegt að grípa við sérstakar aðstæður í lýðræðisríki til að vernda rétt og frelsi annarra og í almannaþágu. Við mat sitt hefur nefndin haft hliðsjón af þeirri staðreynd að almennur kjarasamningur var framlengdur til 15. febrúar 2000 sem hún telur að kunni að vera réttlætanlegt við slíkar aðstæður, einkum vegna þess að samningar höfðu þá verið lausir til endurskoðunar í verulega langan tíma án þess að aðilar næðu árangri.
    Að því er snertir afleiðingar sameiginlegra aðgerða eru lögmæt samskipti milli vinnuveitanda og starfsmanns rofin í verkfalli og á meðan verkfall stendur eru þeir ekki bundnir ráðningarsamningi. Nefndin hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að ástand mála væri í samræmi við þetta ákvæði félagsmálasáttmálans hvað varðar rétt starfsmanna til verndar fyrir uppsögn vegna þátttöku þeirra í löglegu verkfalli (Niðurstöður X-1, bls. 75). Sem svar við almennri spurningu nefndarinnar sem fram kom í niðurstöðu XIII-1 (bls. 153) um frádrátt frá launum í verkfalli segir í skýrslunni að launalækkun sé í réttu hlutfalli við þann tíma þegar engin vinna var innt af hendi, þ.e. á meðan verkfall stóð.
    Í fyrri niðurstöðu sinni gerði nefndin nákvæma grein fyrir kröfum um málsmeðferð sem hún taldi að væri í samræmi við 4. mgr. 6. gr.
    Nefndin ályktar að ástand mála á Íslandi fullnægi ekki enn 4. mgr. 6. gr. félagsmálasáttmálans þar eð verkfallsréttur opinberra starfsmanna er enn takmarkaður við þær aðstæður þar sem verkfalli er ætlað að knýja á um gerð almenns kjarasamnings.

12. gr.

Réttur til almannatrygginga.


    1. mgr. Stofnun eða viðhald almannatryggingakerfis.
    Í skýrslu Íslands segir að nýjustu upplýsingar um almannatryggingakerfið verði sendar nefndinni svo fljótt sem auðið er. Nefndin óskar eftir því að í nýjustu upplýsingum komi m.a. fram, varðandi hvern flokk almannatrygginga, sá hundraðshluti landsmanna sem nýtur trygginganna, þar með taldir ómagar á framfæri hinna tryggðu. Hún telur að til þess að almannatryggingakerfið fullnægi ákvæðum 1. mgr. 12. gr. félagsmálasáttmálans verði tryggingarnar að ná til verulegs hundraðshluta landsmanna, einkum varðandi mikilvægar greinar, svo sem læknisþjónustu. Nefndin óskar einnig eftir upplýsingum um til hvaða ráðstafana sé gripið til þess að koma í veg fyrir að vinnuveitendur dragi greiðslur eða hafni því að greiða félagsleg framlög. Þá óskar hún eftir upplýsingum um svokallaða svarta vinnu og hvaða ráðstafanir eru gerðar til þess að koma í veg fyrir slíka vinnu. Loks óskar hún eftir því að fá upplýsingar um aðgerðir til að koma í veg fyrir að hlutastörf séu notuð sem svört vinna.
    Að svo komnu máli ályktar nefndin að ástand mála á Íslandi fullnægi ákvæðum 1. mgr. 12. gr. félagsmálasáttmálans.

    2. mgr. Viðhald almannatryggingakerfisins á viðunandi stigi sem jafnast a.m.k. á við það stig sem er skilyrði fyrir staðfestingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 102.
    Nefndin gefur gaum að því að Ísland fullnægir enn kröfum hinna þriggja hluta samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 102 sem Ísland hefur staðfest (ellilaun, fjölskyldubætur og örorkubætur). Hún ályktar því að ástand mála á Íslandi fullnægi ákvæðum 2. mgr. 12 gr. félagsmálasáttmálans.

    3. mgr. Áframhaldandi endurbætur á almannatryggingakerfinu.
    Í skýrslu Íslands er lýst breytingum á eftirlaunakerfi opinberra starfsmanna með lögum nr. 141/1996 sem tóku gildi 1. janúar 1997. Nefndin óskar eftir því að í næstu skýrslu verði útskýrt hvert markmiðið var með breytingunum og að lýst verði þeim félagslega og efnahagslega ramma sem gilti þegar þær voru gerðar og hvaða árangur hefur náðst.
    Í skýrslunni er einnig lýst breytingum sem gerðar voru á kerfi atvinnuleysisbóta með lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, nr. 46/1997, og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 13/1997. Samkvæmt skýrslunni var markmiðið með breytingunum að bæta ástandið varðandi vinnumarkaðinn og atvinnuleysistryggingar. Nefndin telur að breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu séu í samræmi við ákvæði 3. mgr. 12. gr. félagsmálasáttmálans: takmörkunum sem ákveðnar hafa verið er ætlað að bæta atvinnuástand og hindra ekki virka verndun þeirra sem eru atvinnulausir.
    Svo fremi nefndin fái svör við spurningum sínum ályktar hún að ástand mála á Íslandi á viðmiðunartímanum fullnægi ákvæðum 3. mgr. 12. gr. félagsmálasáttmálans.

    4. mgr. Jafnrétti ríkisborgara annarra þátttökuríkja varðandi almannatryggingar.
    Nefndin minnir á að Ísland er bundið ákvæðum reglugerðar ESB nr. 1408/71 sem aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og að Ísland hefur staðfest bráðabirgðasamninga um almannatryggingar.

     4. mgr. a. Jöfn meðferð og varðveisla áunninna bóta.
    Í fyrri niðurstöðu sinni gaf nefndin gaum að því að ástand mála varðandi ríkisborgara ríkja sem reglugerðir ESB ná til og búa eða hafa búið á Íslandi fullnægði ákvæðum 4. mgr. 12. gr. félagsmálasáttmálans. Hún hefur ekki orðið vör við neinar breytingar á því ástandi.
    Hvað varðar ríki sem eru ekki háð reglugerðum ESB tekur nefndin eftirfarandi fram:
    Samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, eru fjölskyldubætur sem greiddar eru með hverju barni undir sextán ára aldri, háðar því skilyrði að barnið búi á Íslandi, hvert sem þjóðerni þess er. Nefndin álítur að með því að viðhalda kröfu um búsetu barna ríkisborgara tiltekinna aðildarríkja félagsmálasáttmálans brjóti íslensk lög í bága við 4. mgr. 12. gr. vegna þess að beiting þeirra kann að valda mismunun. Niðurfelling greiðslu fjölskyldubóta hefur meiri áhrif fyrir erlenda ríkisborgara en íslenska vegna þess að þeir búa ekki á Íslandi.
    Greiðsla bótaauka, einkum barnabóta handa börnum sem hafa misst annað foreldri sitt eða foreldrið er á örorkubótum, er háð því skilyrði að barnið eða foreldrið búi og hafi búið á Íslandi samfellt ár þrjú ár fram til þessa tíma að sótt er um bætur. Nefndin minnir á að ákvæði 4. mgr. 12. gr. heimilar ríkjum að krefjast búsetu í tiltekinn tíma áður en þau greiða bætur þar sem ekkert mótframlag hefur komið til áður. Hún telur að í þessu tilviki sé þriggja ára búsetuskilyrði ekki óhóflegt miðað við niðurstöðu þess og fullnægi því skilyrðum 4. mgr. 12. gr.
    Að því er snertir varðveislu áunninna réttinda (útfluning bóta) kemur hvergi fram í skýrslunni að lög um almannatryggingar heimili ríkisborgurum aðildarríkja félagsmálasáttmálans, sem reglugerðir ESB ná ekki til, að halda þeim réttindum sem þeir hafa öðlast á Íslandi. Nefndin óskar eftir því að í næstu skýrslu verði veittar upplýsingar um þetta efni og einkum hvort réttur til örorkubóta, ellilífeyris eða eftirlifendabóta og eftirlauna, varðandi vinnuslys eða atvinnusjúkdóma, varðveitist þegar viðkomandi maður flyst til annars ríkis.

     4. mgr. b. Veiting, viðhald og endurheimt tryggingaréttinda.
    Í fyrri niðurstöðu sinni gat nefndin þess að ástand mála hjá ríkisborgurum ríkja sem reglugerðir ESB ná til og búa eða hafa búið á Íslandi fullnægði ákvæðum 4. mgr. 12. gr. félagsmálasáttmálans. Hún hefur ekki orðið vör við neinar breytingar á því ástandi.
    Hvað varðar ríki sem reglugerðir ESB ná ekki til minnir nefndin á að samkvæmt skuldbindingu í 4. mgr. b 12. gr. er krafist uppsöfnunar tryggingartímabila eða atvinnutímabila ríkisborgara allra aðildarríkjanna á landsvæði sérhvers annars aðildarríkis. Þar eð nefndin veitir því athygli að samningar sem Ísland hefur undirritað heimila ekki fullkomna beitingu þessarar meginreglu gagnvart ríkisborgurum annarra aðildarríkja, sem reglugerðir ESB ná ekki til og að Ísland hefur ekki sýnt fram á að slíkt sé tryggt með öðrum hætti, kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að ástandið fullnægi ekki ákvæðum 4. mgr. 12. gr.
    Niðurstaða nefndarinnar er sú að almannatryggingar á Íslandi fullnægi ekki ákvæðum 4. mgr. 12. gr. félagsmálasáttmálans, þar sem annars vegar er jöfn meðferð ekki tryggð varðandi rétt til fjölskyldubóta og hins vegar að uppsöfnun tryggingartímabila og vinnutímabila er ekki tryggð fyrir alla ríkisborgara aðildarríkja félagsmálasáttmálans.

13. gr.

Réttur til félagslegrar aðstoðar og læknisþjónustu.


    1. mgr. Félagsleg aðstoð og læknisþjónusta handa bágstöddum.
    Nefndin minnir á að í fyrri niðurstöðu sinni leitaði hún eftir frekari upplýsingum um lækkun bótastigs handa þeim sem hafna því að leita eftir eða þiggja vinnu, hve lengi slíkar refsiaðgerðir vara og til hvaða aðgerða sveitarstjórnir grípa í því skyni að finna aðrar lausnir. Hún endurtekur óskir sínar um upplýsingar um þetta efni. Jafnframt því spurðist nefndin fyrir um það hvort — þar sem skjóta má ákvörðunum áfrýjunarnefndar félagsþjónustunnar til dómstóla — dómstólum gæfist kostur á að kanna réttmæti hinnar umdeildu ákvörðunar. Hún endurtekur einnig þá spurningu.
    Að því er snertir almannatryggingar og félagslegar bætur óskar nefndin eftir að fá upplýsingar um stig fjárhagsaðstoðar og fjölda þeirra sem fá slíkar bætur á núverandi og síðari viðmiðunartímabilum. Einnig er óskað eftir upplýsingum um verðbætur varðandi slíkar bætur.
    Í skýrslu Íslands er þess getið að þeir sem hafa ekki lokið sex mánaða búsetuskyldu til þess að njóta heilsugæslu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu geti samt sem áður fengið læknisþjónustu þótt þeir geti ekki greitt fyrir hana. Nefndin gefur gaum að því í upplýsingum fengnum skv. 4. mgr. 13. gr. að gera má undanþágur frá reglum um þann búsetutíma sem Tryggingastofnun ríkisins krefst. Undanþágurnar eru tilgreindar í reglugerð nr. 463/1999 og varða meðal annars bráða sjúkdóma og smitsjúkdóma. Í félagsmálasáttmálanum er ákvæði þess efnis að þeir sem hafa ekki efni á læknisþjónustu vegna sjúkdóma skuli eiga kost á „annaðhvort fjárhagsaðstoð svo að þeir geti greitt meðferðarkostnað vegna ástands síns eða ókeypis heilsugæslu“ (Niðurstöður XIII-4, bls. 57). Nefndin telur að ástandið á Íslandi fullnægi ekki ákvæðum félagsmálasáttmálans hvað þetta varðar.
    Í tíundu skýrslu Íslands, sem tekin var til athugunar í eftirlitshring XIII-4, segir að þótt tryggðum mönnum hafi enn verið gert að greiða hluta meðferðar veiti Tryggingastofnun ríkisins tekjutengda aðstoð. Frekari aðstoð kann að verða veitt að mati sveitarstjórnar. Nefndin óskar eftir nánari upplýsingum um fyrrnefnt atriði (lagagrunn og reikningsaðferð) og upplýsingum um þá venju sveitarstjórna að veita fjárhagsaðstoð vegna greiðslu á læknisþjónustu.
    Nefndin ályktar að ástand mála á Íslandi fullnægi ekki ákvæðum 1. mgr. 13. gr. félagsmálasáttmálans vegna skilyrðis um sex mánaða búsetu til þess að njóta læknisþjónustu.

    2. mgr. Stjórnmálaleg og félagsleg réttindi þeirra sem njóta félagslegrar aðstoðar.
    Samkvæmt skýrslu Íslands telur nefndin að engar breytingar hafi orðið á ástandi mála sem hún hefur áður talið fullnægjandi. Hún ályktar því að ástand mála fullnægi ákvæðum 2. mgr. 13 gr. félagsmálasáttmálans.

    3. mgr. Ráðgjöf og persónuleg aðstoð handa bágstöddum.
    Í skýrslu Íslands er vísað til laga um félagslega þjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, þar sem segir að menn skuli hvattir til að bera ábyrgð á sjálfum sér og öðrum og að félagsþjónustan eigi að bjóða skjólstæðingum sínum nauðsynlegan stuðning til þess að ná aftur valdi á ástandi sínu. Félagsleg og fjárhagsleg ráðgjöf er veitt samtímis því að fjárhagsaðstoð er veitt. Hvað varðar fjármuni þá sem eru til reiðu fyrir félagsþjónustuna vísar skýrslan til skyldu sveitarfélaga til að veita þá þjónustu sem kveðið er á um í lögum. Hins vegar hefur nefndin ekki enn fengið upplýsingar um fjölda, hæfni og skyldur starfsmanna þrátt fyrir beiðni þar um í tveimur síðustu niðurstöðum sínum. Hún óskar einnig eftir að fá gögn um útgjöld til ráðgjafar- og hjálparþjónustu handa bágstöddum. Loks óskar hún eftir að fá upplýsingar um það hvort félagsþjónustan hafi aðstöðu til að framkvæma ferilsathuganir eftir því sem nauðsynlegt kann að reynast og fylgjast með þróun mála á þessu sviði í landinu.
    Nefndin hefur ákveðið að bíða eftir umbeðnum upplýsingum og frestar því að birta niðurstöðu sína.

4. mgr. Félagsleg aðstoð og læknisþjónusta handa ríkisborgurum aðildarríkjanna sem dvelja með löglegum hætti á landsvæði annars aðildarríkis.
    Í skýrslu Íslands er ekki að finna svar við spurningu nefndarinnar um aðstæður þar sem félagsleg aðstoð yrði veitt eða ekki veitt ríkisborgara annars aðildarríkis félagsmálasáttmálans sem dvelur með löglegum hætti á Íslandi þótt hann sé ekki búsettur þar. Nefndin leggur áherslu á að fá þessar upplýsingar í næstu skýrslu þar eð nauðsynlegt er að ganga úr skugga um það hvort ástand mála fullnægi í reynd ákvæðum 4. mgr. 13. gr. félagsmálasáttmálans.
    Nefndin vekur athygli á því varðandi læknisþjónustu að læknum og sjúkrahúsum er skylt að taka til meðferðar þá sem þarfnast bráðaþjónustu. Slík skylda er óháð því hvort viðkomandi maður er búsettur í landinu eða ekki. Ef maður getur ekki greitt fyrir þjónustuna kann ríkið að greiða hana. Nefndin telur að ástand þessara mála fullnægi ákvæðum félagsmálasáttmálans.
    Hins vegar frestar nefndin því enn á ný að birta niðurstöðu sína þangað til henni hafa borist nánari upplýsingar um félagslega aðstoð.

16. gr.

Réttur fjölskyldu til félagslegrar, lagalegrar og efnahagslegrar verndar.


    Nefndin gefur gaum að því að árið 1998 var stofnað fjölskylduráð á vegum félagsmálaráðuneytisins í því skyni að bæta stöðu fjölskyldunnar. Hlutverk þess er að veita ríkisstjórninni ráðgjöf um málefni fjölskyldunnar, gera tillögur um framkvæmdir á sviði fjölskyldustefnu og hvetja til rannsókna á ástandi fjölskyldunnar.
    Í skýrslunni er ekki minnst á neinar breytingar á lagalegri stöðu fjölskyldna á Íslandi.
    Að því er snertir fjölskyldubætur hefur Ísland ekki staðfest Evrópusáttmála um almannatryggingar. Ísland staðfesti samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 102 árið 1961 og samþykkti VII. hluta um fjölskyldubætur. Þar eð nefndin veitir því athygli að á viðmiðunartímanum hefur engri athugasemd verið beint til Íslands frá sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um samþykkt nr. 102 telur hún að ástand mála sé fullnægjandi þar eð verulegur fjöldi fjölskyldna nýtur fjölskyldubóta og þar með fullnægjandi viðbótartekna.
    Nefndin gefur því gaum að ný lög um barnabætur (þar sem almennar fjölskyldubætur eru flokkaðar með bótaauka) voru samþykkt 1997. Hún óskar eftir upplýsingum um það hvaða breytingum lögin valda.
    Nefndin minnir á að samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, eru fjölskyldubætur sem greiddar eru með sérhverju barni undir sextán ára aldri háðar því að barnið sé búsett á Íslandi hvert svo sem þjóðerni þess er. Hvað varðar bótaauka minnir nefndin á að hann er háður skilyrði um búsetu og að í sumum tilvikum kann einnig að vera um að ræða skilyrði um lágmark búsetutíma. Sem dæmi má nefna að þær barnabætur sem greiddar eru ef annað foreldrið hefur fallið frá eða nýtur örorkubóta eru háðar því að barnið eða annað foreldrið hafi verið búsett á Íslandi í þrjú ár áður en sótt er um bæturnar. Umönnunarbætur, sem greiddar eru foreldrum, sem bera ábyrgð á umönnun fatlaðs barns eða barns með langvinnan sjúkdóm, eru háðar því að foreldrarnir séu búsettir á Íslandi. Hið sama á við um mæðralaun og feðralaun sem greidd eru einstæðum foreldrum með börn undir átján ára aldri á framfæri.
    Nefndin minnir á, með tilliti til 4. mgr. 12. gr., að sú krafa að hlutaðeigandi börn skuli vera búsett á Íslandi til þess að réttur skapist til fjölskyldubóta brýtur í bága við 16. gr. Nefndin telur að hætt sé við því að þetta búsetuskilyrði getið valdið óbeinni mismunun gagnvart ríkisborgurum þeirra ríkja sem reglugerð ESB nr. 1408/71 nær ekki til.
    Að því er varðar ákvæði um skatta bendir nefndin á að í skattkerfi því sem lýst er í skýrslunni er gert ráð fyrir persónuafslætti og skattafslætti sem byggist á vaxtagreiðslum af veðlánum (vaxtabótum). Í því er ekki gert ráð fyrir börnum.
    Nefndin gefur gaum að því að árið 1997 voru 14.857 börn frá eins árs til fimm ára aldurs vistuð í leikskólum og 2.035 börn frá 0 til 9 ára nutu þjónustu dagmæðra. Þessar tölur gera nefndinni ekki kleift að ákvarða hvort á Íslandi sé boðið upp á umönnunarþjónustu fyrir nægilega mörg börn og að hún fullnægi nauðsynlegum stöðlum um aðgengi og gæði. Nefndin fer því þess á leit við ríkisstjórnina að hún útvegi viðeigandi upplýsingar eða staðtölur sem sýna fram á að veitt þjónusta fullnægi kröfum félagsmálasáttmálans.
    Að því er snertir húsnæðismálastefnu óskar nefndin eftir því að í næstu skýrslu verði að finna upplýsingar um hvort Ísland reki húsbyggingarstefnu í samræmi við þarfir fjölskyldna.
    Hvað varðar þátttöku foreldra og samráð óskar nefndin eftir því að í næstu skýrslu verði útskýrt með hvaða hætti foreldrar fá að taka þátt í ákvörðunum sem varða þá.
    Nefndin ályktar að Ísland fullnægi ekki ákvæðum 16. gr. félagsmálasáttmálans þar eð jöfn meðferð er ekki tryggð hvað varðar rétt til fjölskyldubóta.