Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1407  —  633. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um leigubifreiðar.

Frá 1. minni hluta samgöngunefndar.



    Með frumvarpinu er gerð tillaga um ný heildarlög um leigubifreiðar til fólksflutninga hér á landi og eiga þau að leysa af hólmi lög nr. 61/1995, með síðari breytingum. Ekki er gert ráð fyrir neinum gjaldtökum í núgildandi lögum nema hvað að ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð gjaldtöku fyrir veitar undanþágur.
    Í 12. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir gjaldtöku af ýmsu tagi. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að leyfishafi samkvæmt lögunum árlega greiði 16.000 kr. gjald fyrir atvinnuleyfi sitt. Þá skal greiða 2.500 kr. fyrir útgáfu atvinnuskírteina, en endurnýja skal skírteinin á þriggja ára fresti samkvæmt frumvarpinu. Fyrir tímabundna innlögn leyfis skal greiða 1.000 kr., fyrir úttekt leyfis 1.000 kr., fyrir vottorð um gild atvinnuleyfi vegna bifreiðakaupa 1.000 kr. og fyrir færslu á milli stöðva 2.000.
    Samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneyti, sbr. fylgiskjal með nefndaráliti þessu, er kostnaður af stjórnsýslu í núverandi kerfi um 6 millj. kr. Kostnaður vegna hins nýja kerfis samkvæmt frumvarpinu er hins vegar áætlaður um 13 millj. kr. Séu þessir útreikningar réttir hefur frumvarpið mikinn kostnaðarauka í för með sér í heildina séð.
    Minni hlutinn setur stórt spurningarmerki við þann aukna kostnað sem frumvarpið hefur í för með sér og þeirri ætlun samgönguráðherra að velta honum alfarið yfir á leigubifreiðastjóra.
    Fyrsti minni hluti treystir sér ekki til að styðja frumvarpið og mun sitja hjá við afgreiðslu þess.

Alþingi, 17. maí 2001.



Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Kristján L. Möller.




Fylgiskjal.

Minnisblað frá samgönguráðuneytinu um kostnað


vegna nýrra leigubílalaga.


(10. maí 2001.)



    Samgöngunefnd hefur óskað eftir frekari rökstuðningi við gjaldtöku í frumvarpi til nýrra leigubílalaga. Við því er sjálfsagt að verða.

     Núverandi kerfi:
    Mjög varlega metin áætlun yfir núverandi kostnað:

Kostnaður við lið 10157, umsjónarnefnd fólksbifreiða, 1999


         kr.
    Nefndarlaun og launatengd gjöld     2.124.850
    Auglýsingar og prentun     50.054
    Ýmislegt     2.240
    Hugbúnaðargerð     227.929
    Kostnaðarhlutdeild í sameiginlegri þjónustu     260.000
     Samtals     2.665.070

    Leiðrétting vegna ritara     90.697
    Hlutdeild í heildarlaunakostnaði starfsmanns
    40% af 3.499.772 kr.     1.399.909
    Hlutdeild í heildarlaunakostnaði fulltrúa
    60% af 2.235.940 kr.     1.341.564

    Samtals     5.497.240

    Hluti af sameiginlegum skrifstofukostnaði
    aðalskrifstofu, o.fl.     549.724

     Kostnaður við umsjónarnefnd alls     6.046.964

     Nýtt kerfi samkvæmt frumvarpi:
    Áætlun vegna frumvarpsins gerir ráð fyrir að uppsetning gagnagrunns kosti um 7,5 m.kr. Gera má ráð fyrir að til þess að reka hann þurfi að minnsta kosti einn starfsmann. Þá er gert ráð fyrir að standa þurfi straum af auglýsingum, hugbúnaðargerð o.fl. Sundurgreining kostnaðar er sem hér segir:
m.kr.
Afskriftir gagnagrunns 7,5 m.kr. á þremur árum 2,5
Kostnaður við starfsmann 4,0
Kostnaður við eftirlitsmann, hálft starf 2,5
Námskeið og undirbúningur 0,6
Auglýsingar og prentun 0,1
Hugbúnaðargerð, viðbætur, breytingar og þjónusta 0,5
Stjórnun, umsjón, húsnæði 0,5
Ófyrirséð, t.d. kostnaður við útstöðvar 2,0
Kostnaður alls 12,7

    Miðað við að leyfishafar séu um 700 verður gjaldið á hvern þeirra um 16.000 kr. ár hvert.
    Mismunur:
    Augljóst er að kostnaður stjórnsýslunnar við kerfið tvöfaldast samkvæmt þessum áætlunum. Málið er samt ekki svona einfalt. Þrennt kemur til. Í fyrsta lagi kostar samræmingin og þar með talinn gagnagrunnurinn sitt. Tölvukerfi, uppsetning og viðhald þeirra er gífurlega kostnaðarsamt. Í öðru lagi er gert ráð fyrir hálfri stöðu eftirlitsmanns, m.a. vegna ákvæðanna um starfsleyfi leigubifreiðastöðva. Í þriðja lagi er stór hluti þeirra vinnu sem leigubifreiðastjórafélögin hafa séð um tekinn inn í nýja kerfið. Leigubifreiðarstjórafélögin taka nú 700 kr. fyrir hverja veitta undanþágu. Frami gefur út um það bil 14.400 undanþágur á ári. Það gefur félaginu um 10 m.kr. á ári. Önnur félög eru minni en ráðuneytið áætlar að tekjur þeirra af útgáfu undanþágna geti numið 2 m.kr.
    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum gjöldum vegna útgáfu undanþágna því að engin vinna við þær verður á stöðvunum þar sem Vegagerðin mun sjá um alla uppfærslu heimilda. Eingöngu þarf að slá inn nöfn tveggja manna og undanþágan prentast sjálfkrafa út sé allt með eðlilegum hætti. Vera kann að stöðvarnar taki fyrir pappírskostnað og fyrir innslátt, en ekki getur verið hægt að réttlæta háan kostnað þess vegna. Ekki hefur verið ákveðið hver ber kostnað við útstöðvar, en hér er gert ráð fyrir að hann verði hjá Vegagerðinni. Hugsanlega verður hægt að nýta núverandi tölvukost stöðvanna.
    Ráðuneytið mun ekki skipta sér af gjaldtöku fyrir undanþágur, enda verður hún eflaust innifalin í stöðvargjöldunum.
    Kostnaður stéttarinnar er 12 m.kr. og stjórnsýslunnar 6 m.kr. vegna núverandi kerfis eða samtals 18 m.kr.
    Kostnaður stéttarinnar við nýtt kerfi verður hins vegar tæpar 13 m.kr.
    Hér er því um óverulegan kostnaðarauka að ræða fyrir stéttina. Og kerfið í heild verður hagkvæmara sem svarar mismuninum.