Ferill 730. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1409  —  730. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um starfsemi kaupskrárnefndar.

     1.      Hefur ráðherra í hyggju að endurskoða starfsemi kaupskrárnefndar eða leggja nefndina niður?
    Kaupskrárnefnd varnarsvæða var fyrst skipuð í október 1952 til að koma upplýsingum um ráðningarkjör og vinnuskilyrði hér á landi til varnarliðsins, eins og nánar er kveðið á um í 4. tölul. 6. gr. viðbætisins við varnarsamninginn, sbr. lög nr. 110/1951. Var það verkefni hennar að endurskoða þær reglur um kaup og kjör sem þá var farið eftir hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og erlendum verktökum á þess vegum og færa þær til samræmis við kaup og kjör fyrir sambærileg störf í Reykjavík. Nefndin tók saman upplýsingar um launakjörin í svonefnda kaupskrá sem varnarmálanefnd fékk í hendur til ákvörðunar á launakjörum íslenskra starfsmanna hjá varnarliðinu. Hefur kaupskrárnefnd starfað nær óslitið frá október 1952, en starfsemi hennar þó tekið miklum breytingum í tímans rás. Skipan nefndarinnar hefur verið óbreytt frá upphafi; fulltrúi félagsmálaráðuneytisins er formaður en aðrir nefndarmenn eru tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins.
    Lagagrundvöllinn fyrir skipun kaupskrárnefndar er að finna í 4. tölul. 6. gr. viðbætis við varnarsamninginn, sbr. lög nr. 110/1951, um lögfestingu varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Í ákvæðinu segir: „Bandaríkin æskja þess að ráða hæfa íslenska borgara, eftir því sem föng eru á, til starfa í sambandi við samning þennan. Að svo miklu leyti sem Ísland kann að samþykkja ráðningu íslenskra borgara til starfa hjá liði Bandaríkjanna, skal slík starfsráðning framkvæmd með aðstoð og um hendur þess eða þeirra fyrirsvarsmanna, sem af Íslands hálfu eru til þess kvaddir. Ráðningarkjör og vinnuskilyrði, einkum vinnulaun, launauppbætur og öryggisráðstafanir við vinnu, skulu fara að íslenskum lögum og venjum.“ Kaupskrárnefnd var skipuð til þess að skrá gildandi kaupgjald í landinu á hverjum tíma, og sjá um að erlendir vinnuveitendur á Keflavíkurflugvelli fengju vitneskju um það, þ.e. koma upplýsingum um ráðningarkjör og vinnuskilyrði á íslenskum vinnumarkaði á framfæri við bandarísk stjórnvöld.
    Kaupskrárnefnd er sá aðili, sem í tæp 50 ár hefur tryggt að Íslendingar, sem vinna hjá varnarliðinu eða öðrum erlendum aðilum á Keflavíkurflugvelli, fái og hafi fengið kaup og kjör og notið þess öryggis á vinnustað sem venjur, íslensk lög og kjarasamningar hafa mælt fyrir um á hverjum tíma, sbr. 4. tölul. 6. gr. viðbætisins. Varnarliðið er ekki lögpersóna á Íslandi og getur því ekki átt aðild að kjarasamningum við íslenska starfsmenn sína. Það er ástæðan fyrir því að íslensk stéttarfélög gera ekki kjarasamninga f.h. félagsmanna sinna við varnarliðið, heldur hefur kaupskrárnefnd verið fengið það hlutverk að ákvarða launakjör þeirra í samræmi við gildandi launakjör á almennum vinnumarkaði á Íslandi.
    Eins og fram kom áður hefur starfsemi kaupskrárnefndar breyst mikið í tímans rás. Í upphafi var nefndinni ætlað að skrá gildandi launakjör í landinu og koma upplýsingum um það til hins erlenda vinnuveitanda. Í dag er kaupskrárnefnd stjórnsýslunefnd er starfar á grundvelli stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og reglna nr. 284/1999. Um meðferð mála hjá nefndinni fer samkvæmt framangreindum reglum. Ákvarðanir nefndarinnar eru í formi stjórnsýsluúrskurða sem birtir eru aðilum.
    Utanríkisráðherra hefur þrisvar sett kaupskrárnefnd sérstakar starfsreglur, í fyrsta sinn árið 1994, en núgildandi reglur, sem settar voru árið 1999, leystu af hólmi reglur frá 1996. Umgjörð kaupskrárnefndar hefur með setningu þessara reglna verið sett í sama búning og umgjörð annarra stjórnsýslunefnda og raunar hafa reglur hennar með tímanum færst nær ákvæðum stjórnsýslulaga. Má nefna að með núgildandi reglum var stigið það skref að festa í sessi stöðu kærunefndar kaupskrárnefndar sem æðra stjórnsýslustigs, en staða þeirrar nefndar sem æðra stigs í stjórnsýslu kaupskrárnefndar hafði, fram að því, ekki verið nægilega skýr.
    Starfsemi kaupskrárnefndar byggist á gömlum grunni en hefur stöðugt aðlagast breyttum aðstæðum á vinnumarkaði og í stjórnsýslu. Starfsreglur nefndarinnar og stjórnsýslulög festa starfsemi hennar mjög í sessi, starfsemi sem reynst hefur farsæl undanfarin 50 ár. Eina leiðin til að ákvarða launakjör íslenskra starfsmanna varnarliðsins og uppfylla þær skyldur, er ákvæði 4. tölul. 6. gr. viðbætisins við varnarsamninginn leggur á herðar íslenskra og bandarískra stjórnvalda, er að íslensk stjórnvöld taki að sér það hlutverk að miðla upplýsingum til varnarliðsins um launakjör á almennum vinnumarkaði. Kaupskrárnefnd var í öndverðu falið að sinna þessu verkefni og hefur þetta fyrirkomulag reynst afar vel og almenn sátt ríkt um það. Rökin fyrir því að breyta þessu fyrirkomulagi eru því vandfundin.

     2.      Telur ráðherra réttarstöðu íslenskra starfsmanna bandaríkjahers, sem heyra undir kaupskrárnefnd hvað launakjör snertir, samrýmast nútímaviðhorfum um réttindi launamanna, gerð kjarasamninga og því um líkt?
    Í lokamálslið 4. tölul. 6. gr. viðbætisins við varnarsamninginn segir að ráðningarkjör og vinnuskilyrði hjá varnarliðinu, einkum vinnulaun, launauppbætur og öryggisráðstafanir við vinnu, skuli fara að íslenskum lögum og venjum. Almenn lögskýringarsjónarmið leiða til þess að þetta ákvæði verður að túlka svo að um þessi mál fari samkvæmt gildandi lögum og venjum á hverjum tíma. Það þýðir að launakjör íslenskra starfsmanna varnarliðsins þróast og taka breytingum með sama hætti og á almennum vinnumarkaði, og hefur svo verið alla tíð. Í fyrstu skráði kaupskrárnefnd gildandi kaupgjald í landinu, og starfsmönnum varnarliðsins voru svo ákveðin sambærileg laun. Laun varnarliðsstarfsmanna hafa þá þróast í samræmi við almenna launaþróun í landinu. Í dag eru íslenskir starfsmenn varnarliðsins félagar í íslenskum stéttarfélögum. Launakjör þeirra taka mið af gildandi kjarasamningum á almennum markaði, kjarasamningum sem stéttarfélög þeirra eða bandalög stéttarfélaga hafa gert fyrir hönd félagsmanna sinna við viðsemjendur sína. Þeir njóta kjarasamningsbundinna kjara með sama hætti og starfsmenn á vinnumarkaði utan varnarsvæða, þeir njóta einnig launabreytinga vegna launaþróunar á gildistíma kjarasamninga sem og áunninna réttinda viðkomandi starfsstétta. Launaþróun innan varnarsvæða endurspeglar því launaþróunina utan varnarsvæða.
    Rétt er einnig að benda á að íslensk lög gilda að fullu á varnarsvæðunum. Íslenskir starfsmenn varnarliðsins hafa því sömu réttarstöðu samkvæmt íslenskum lögum á hverjum tíma og aðrir íslenskir þegnar, sem t.d. endurspeglast í vinnuvernd á varnarsvæðunum, meðferð mála fyrir kaupskrárnefnd og því að íslenskir starfsmenn varnarliðsins geta skotið niðurstöðum nefndarinnar til dómstóla.
    Vissulega er aðferðin við að ákvarða íslenskum starfsmönnum varnarliðsins laun frábrugðin því sem almennt gerist á íslenskum vinnumarkaði. Það markast af réttarstöðu vinnuveitanda þeirra, varnarliðsins, sem er í þeirri stöðu að geta ekki gert kjarasamninga við starfsmenn sína hér á landi. Vegna þessarar sérstöðu hafa íslensk stjórnvöld frá upphafi varnarsamstarfsins séð til þess að íslenskir starfsmenn verði í engu af launakjörum sem gilda fyrir launþega í sambærilegum störfum og það varðar mestu; að tryggja að þeir njóti launakjara í samræmi við launakjör á almennum markaði, eins og mælt er fyrir um í 4. tölul. 6. gr. viðbætisins við varnarsamninginn, sbr. lög nr. 110/1951.