Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1475  —  225. mál.




Frumvarp til laga



um húsafriðun.

(Eftir 2. umr., 19. maí.)



I. KAFLI
Yfirstjórn og skipulag.

1. gr.

    Tilgangur þessara laga er að varðveita íslenska byggingararfleifð sem hefur menningarsögulegt gildi.
    Lögin kveða á um friðun húsa og annarra mannvirkja og skipulag húsafriðunar.

2. gr.

    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn húsafriðunar í landinu.
    Menntamálaráðherra skipar húsafriðunarnefnd til fjögurra ára í senn. Arkitektafélag Íslands tilnefnir einn fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn og þrír fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi nefndarmanna.

3. gr.

    Húsafriðunarnefnd stuðlar að varðveislu byggingararfs þjóðarinnar og metur hvaða hús er rétt að friða hverju sinni og gerir um það tillögur til menntamálaráðherra. Nefndin hefur samráð við embætti þjóðminjavarðar og minjavörð þess landsvæðis sem hús tilheyrir þegar fjallað er um friðun húss. Húsafriðunarnefnd fer með yfirstjórn og veitir styrki úr húsafriðunarsjóði. Jafnframt er húsafriðunarnefnd umsagnaraðili fyrir ráðherra í málum er snerta húsafriðun.
    Þjóðminjavörður eða fulltrúi hans hefur seturétt á fundum húsafriðunarnefndar.
    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann húsafriðunarnefndar til fimm ára í senn. Kveða skal á um störf hans að öðru leyti í reglugerð.

II. KAFLI

Friðun húsa og annarra mannvirkja.

4. gr.

    Friða má mannvirki, hús eða húshluta, sem hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi. Friðun getur náð til nánasta umhverfis friðaðs mannvirkis. Friða má samstæður húsa sem hafa sama gildi og að framan greinir og gilda þá reglur friðunar um hvert einstakt þeirra. Tilgangur friðunarinnar er að tryggja sem besta varðveislu friðaða mannvirkisins.

5. gr.

    Menntamálaráðherra ákveður friðun eða brottfall friðunar að fengnum tillögum húsafriðunarnefndar. Ráðherra getur að tillögu húsafriðunarnefndar ákveðið að afnema friðun sem byggist á aldursákvæðum 6. gr.
    Friðun sem ákveðin var í tíð eldri laga heldur gildi sínu.

6. gr.

    Öll hús, sem reist eru fyrir 1850, eru friðuð, svo og allar kirkjur reistar fyrir 1918.
    Eigendum húsa, sem reist eru fyrir 1918, er skylt að leita álits hjá húsafriðunarnefnd með góðum fyrirvara ef þeir hyggjast breyta húsi sínu, flytja það eða rífa.
    Húsafriðunarnefnd skal innan fjögurra vikna tilkynna viðkomandi aðilum, að fenginni umsögn minjavarðar, hvort hún telur ástæðu til friðunar.
    Byggingarfulltrúum ber að fylgjast með því að eigendur húsa, sem fjallað er um í þessari grein, leiti eftir áliti húsafriðunarnefndar og minjavarða áður en leyfi er veitt til framkvæmda.

7. gr.

    Ákvörðun um friðun skal tilkynna húseiganda, öðrum þeim sem eiga þinglesin réttindi yfir eigninni, hlutaðeigandi lögreglustjóra, bæjar- eða sveitarstjórn og byggingarnefnd. Greina skal í tilkynningu til hvers friðunin nær.
    Þinglýsa skal friðun sem kvöð á fasteign sem í hlut á og auglýsa friðunina í Stjórnartíðindum. Þinglýsingarstjóri skal tilkynna húsafriðunarnefnd ef þinglesin eru eigendaskipti að friðaðri húseign.
    Heimilt er að fella niður fasteignagjöld af friðuðum húsum.

8. gr.

    Telji húsafriðunarnefnd hættu á að hús, sem hefur menningarsögulegt eða listrænt gildi en hefur þó ekki verið friðað, verði rifið eða gildi þess rýrt á nokkurn hátt getur hún ákveðið skyndifriðun viðkomandi húss.
    Skyndifriðun tekur gildi þegar húsafriðunarnefnd hefur tilkynnt með tryggilegum hætti öllum hlutaðeigandi aðilum, sbr. 7. gr., ákvörðun sína og gildir hún í tvær vikur. Skyndifriðun þarf ekki að þinglýsa.
    Meðan á skyndifriðun stendur gilda að öðru leyti allar reglur um friðun.
    Menntamálaráðherra ákveður að fengnum tillögum húsafriðunarnefndar hvort friða skuli viðkomandi hús áður en skyndifriðun lýkur.

9. gr.

    Óheimilt er að gera nokkrar breytingar á friðaðri húseign án leyfis húsafriðunarnefndar.
    Við endurbætur og viðhald friðaðra fasteigna skal leitað álits og samþykkis húsafriðunarnefndar. Leyfi nefndarinnar þarf til að setja skilti eða aðrar áletranir á friðuð hús.
    Vilji eigandi friðaðrar eignar ráðast í framkvæmd, sem leyfi þarf til skv. 1. mgr., skal hann í umsókn sinni til húsafriðunarnefndar lýsa nákvæmlega fyrirhuguðum framkvæmdum og láta uppdrátt fylgja. Nefndin skal svo fljótt sem við verður komið, og í síðasta lagi innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst, gera eiganda grein fyrir afstöðu sinni. Setji nefndin það skilyrði fyrir samþykki sínu að verk sé framkvæmt á tiltekinn annan hátt en tilgreindur er í umsókn er eiganda skylt að hlíta því. Skal eigandi fá greiddan aukakostnað sem leiðir af fyrirmælum nefndarinnar.

10. gr.

    Ef breytingar hafa verið gerðar á friðuðu húsi án leyfis húsafriðunarnefndar getur nefndin lagt fyrir eiganda að færa húsið í fyrra horf innan hæfilegs frests. Nú sinnir eigandi ekki fyrirmælum nefndarinnar og getur hún þá að fengnu samþykki menntamálaráðherra látið framkvæma verkið á kostnað eiganda.

11. gr.

    Ef vanrækt er viðhald friðaðs húss getur húsafriðunarnefnd lagt fyrir eiganda að gera umbætur innan hæfilegs frests. Nú líður frestur án þess að úr sé bætt og getur þá húsafriðunarnefnd að fengnu samþykki menntamálaráðherra látið framkvæma verkið á kostnað eiganda.

12. gr.

    Nú verður friðuð eign fyrir spjöllum af eldi eða öðrum ástæðum og skal eigandi eða sá er afnot hefur af eigninni þá gera húsafriðunarnefnd viðvart um það þegar í stað. Lætur nefndin þá fara fram skoðunargerð og mat á spjöllum. Ef ráðist verður í endurbyggingu gilda ákvæði 9. gr.

13. gr.

    Nú vill eigandi friðaðs húss rífa húsið eða flytja það af stað sínum og skal hann þá sækja um leyfi til þess til húsafriðunarnefndar. Nefndin skal svo fljótt sem við verður komið, og í síðasta lagi innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst, senda menntamálaráðherra umsóknina með tillögum sínum um hvort fella skuli niður friðun og aflýsa friðunarkvöðinni eða skilgreina að nýju til hvaða þátta friðun hússins nær.

14. gr.

    Ef byggingarnefnd verður vör við að friðuð eign hefur orðið fyrir spjöllum eða að henni er ekki vel við haldið skal hún gera húsafriðunarnefnd viðvart.

15. gr.

    Húsafriðunarnefnd hefur rétt til að framkvæma eiganda að kostnaðarlausu hvers konar eftirlit með friðaðri eign og skoðanir sem gera þarf vegna ákvæða þessa kafla.

III. KAFLI

Um húsafriðunarsjóð.

16. gr.

    Starfrækja skal húsafriðunarsjóð til að stuðla að varðveislu og viðhaldi friðaðra húsa. Tekjur sjóðsins eru:
     a.      framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
     b.      framlag sveitarfélaga,
     c.      frjáls framlög.
    Framlag sveitarfélaga skal miðað við að það nemi 150 kr. á hvern íbúa hlutaðeigandi sveitarfélags.
    Framlög sveitarfélaga greiðast úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

17. gr.

    Hlutverk húsafriðunarsjóðs er að veita styrki til viðhalds og endurbóta á friðuðum húsum og mannvirkjum. Heimilt er að veita styrki til viðhalds annarra húsa en friðaðra sem að dómi húsafriðunarnefndar hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi. Sjóðnum ber að stuðla að byggingarsögulegum rannsóknum og útgáfu rita um þær.

18. gr.

    Húsafriðunarnefnd stjórnar húsafriðunarsjóði og ákveður styrki úr honum samkvæmt sérstökum úthlutunarreglum sem menntamálaráðherra staðfestir. Skal þar m.a. kveðið á um skyldur þeirra sem fjárframlög fá úr sjóðnum. Slík framlög eru undanþegin tekjuskatti.
    Húsafriðunarnefnd ber ábyrgð á fjárreiðum húsafriðunarsjóðs.

IV. KAFLI

Almenn ákvæði.

19. gr.

    Hver sá sem verður fyrir fjártjóni vegna framkvæmda húsafriðunarnefndar, sbr. II. kafla, á rétt til skaðabóta úr ríkissjóði. Ef samkomulag næst ekki um bætur skulu þær ákveðnar eftir reglum laga um eignarnám.

20. gr.

    Ekki ber að greiða stimpilgjöld eða þinglýsingargjöld af skjölum sem út eru gefin vegna framkvæmda á lögum þessum.

21. gr.

    Brot gegn ákvæðum 2. mgr. 6. gr., 9. gr., 12. gr. og 14. gr. varða sektum til ríkissjóðs nema þyngri refsing liggi við broti skv. 177. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

22. gr.

    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

23. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi ákvæði V. kafla þjóðminjalaga, nr. 88/1989, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Starfandi húsafriðunarnefnd við gildistöku laga þessara skal sitja áfram eftir gildistöku þeirra þar til ný húsafriðunarnefnd hefur verið skipuð í samræmi við ákvæði þessara laga, þó ekki lengur en til 31. desember 2000. Hlutverk hennar skal þá einvörðungu vera að hafa eftirlit með framvindu þegar styrktra verkefna, að framvinda þeirra og framkvæmd séu í samræmi við umsóknir og forsendur styrkveitinga.
    Við gildistöku laga þessara skal þegar hafinn undirbúningur að skipan húsafriðunarnefndar í samræmi við ákvæði þeirra og skipunartími nefndarinnar hefjast eigi síðar en 1. janúar 2001.
    Þeir starfsmenn sem eru fastráðnir hjá Þjóðminjasafni Íslands og starfa á vegum húsafriðunarnefndar við gildistöku laga þessara skulu halda öllum starfsréttindum sínum óbreyttum, þar með töldum réttindum sem byggjast á starfs- og þjónustualdri. Breyting á stöðu starfsmanns sem lög þessi hafa í för með sér felur því ekki í sér að staða sé lögð niður í skilningi starfsmannalaga, nr. 70/1996.