Búfjárhald o.fl.

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 17:41:03 (3453)

2002-01-22 17:41:03# 127. lþ. 57.4 fundur 338. mál: #A búfjárhald o.fl.# (heildarlög) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég held að við séum að ræða hér afar þarft mál. Mig langar til að leggja hér aðeins inn í umræðuna varðandi það að skýr úrræði þurfa að vera þegar illa er farið með dýr, eins og hv. síðasti ræðumaður vék að. En mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh.: Hvernig hefur málum sem upp hafa komið um illa meðferð dýra verið lokið?

Ég minnist þess að hafa heyrt um slík mál og sérstaklega að fyrir austan fjall kom upp slíkt mál þar sem lóga þurfti þó nokkrum fjölda dýra. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt um hvernig því máli lauk og mér er spurn þegar það liggur orðið fyrir að grípa þurfi inn í, taka fram fyrir hendur á fólki sem er að sýsla með dýr vegna þess að dýrunum hefur ekki verið sinnt, að þau væru nánast komin að horfelli eða að hreinlega hafi þurft að aflífa þau eftir að loksins hefur verið tekið á slíkum málum, þó að oft hafi kannski frést af þeim um einhvern tíma: Hvernig lýkur slíkum málum? Hafa slík mál gengið til dómstóla og hafa þá sektir gengið eftir? Hvaða endaferill er í slíkum málum?

Ég minnist þess ekki að hafa heyrt um það hvernig slíkum málum ljúki og það er til lítils að hafa skýr ákvæði um að tekið skuli á slíkum málum ef --- það verður með einhverjum hætti að ljúka þeim og koma í veg fyrir að það sé beinlínis farið illa með skepnur.