Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:47:17 (3743)

2002-01-29 17:47:17# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., Flm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:47]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði nokkuð grannt á þann kafla ræðu hv. þm. sem fjallaði um þessi fjármál. Hins vegar talar hv. þm. núna um auglýsingamennsku. Það er ekki verið að tala um að breyta neitt auglýsingatakmörkunum varðandi þessa vöru. Hann talar um það sem gífurlegt áhyggjuefni að stórar verslunarkeðjur fari að selja áfengi í matvöruverslunum. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að sem neytandi sé ég ekki að það sé neitt annað en bara mikið hagsmunamál fyrir mig sem neytanda að geta fengið þessa vöru í matvöruverslunum. Ég get ekki séð að það sé neitt sérstakt heilbrigðismál þegar ég fer út á Seltjarnarnes og versla á Eiðistorgi, sem ég geri oft, að ég fari niður í kjallara til að kaupa áfengi og síðan á 1. hæðina til að kaupa matvöruna. Það væri miklu betra fyrir mig sem neytanda að verslunarkeðjurnar fengju að hafa þessa vöru á boðstólum svo að ég gæti keypt hana í sömu ferðinni. Eina heilbrigðismálið er kannski það að ég fæ smáæfingu í að labba upp stiga. Það er það eina.

Síðan er annað. Ég veit ekki til þess að búið sé að sýna fram á að þær þjóðir þar sem ríkið hefur einokun á áfengisviðskiptum búi við betri heilsu en aðrar. Ég hef ekki orðið var við það, hvorki neinn samanburð milli þjóða eða samanburð innan þjóða, t.d. í Bandaríkjunum þar sem mismunandi reglur gilda eftir fylkjum. Ég veit ekki til þess að það sé eitthvert betra heilbrigði í þeim fylkjum þar sem viðskipti með áfengi eru takmörkuð. Ég mundi gjarnan vilja fá einhverjar samanburðarrannsóknir á einstökum þjóðum.