Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:37:57 (3902)

2002-02-04 15:37:57# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það eru vafalítið mörg rök sem mæla með því að þetta frv. verði samþykkt. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir tíndi þó til ein rök sem ég á erfitt með að fella mig við. Hv. þm. sagði að skoðanakönnun sýndi fram á að 60% af íslensku þjóðinni væru þessu sammála. Eru það rök fyrir því að taka ákvörðun af þessu tagi? Ef svo er, herra forseti, má ég þá búast við því að hv. þm., formaður þingflokks sjálfstæðismanna, muni á næstu dögum leggja til afnám kvótakerfisins vegna þess að kannanir sýna 75% þjóðarinnar eru á móti því? Má ég jafnframt gera ráð fyrir því að hv. þm. leggi fram tillögu um að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að allar skoðanakannanir síðustu ára sýna að milli 55--65% af íslensku þjóðinni eru sammála því?