Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:56:00 (3909)

2002-02-04 15:56:00# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. dálítið stór upp á sig að finnast það bara hálfgerð móðgun við sig að vera spurð að einföldustu hlutum sem mér finnst að ætti að vera auðvelt að svara. Mönnum er legið á hálsi fyrir það og sagt að þeir haldi ekki einbeitingu sinni. Það stendur í nál. að ekki séu til neinar langtímarannsóknir. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. hafi þá ekki leitað að þeim gögnum eða að þeir hafi ekki lagt þau fram. Það sem ég var að reyna að benda á áðan er einfaldlega að íþróttagreinin sem slík er mjög gömul. Aðrar íþróttagreinar sem hafa fjöldaþátttöku, eins og boltagreinarnar, eru náttúrlega mjög gamlar líka.

Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. á því að koma hingað oftar upp (Gripið fram í.) en vil segja það, herra forseti, að miðað við þær undirtektir sem fást í andsvörum við hv. þm. og þá röksemdafærslu sem kemur frá hv. þm., þá get ég ekki sagt annað --- ég hef ekki tekið þátt í umræðum um þetta mál fram að þessu og hef reyndar ekki heldur haft tækifæri til að greiða um það atkvæði --- ég lýsi því yfir að ég mun styðja þetta mál.