Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:10:06 (3943)

2002-02-04 18:10:06# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:10]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er takmark íþróttanna að sigra, innan þeirra reglna sem þeim eru sniðnar, að bera hærri hlut. En það á hv. þm. Karl Valgarður Matthíasson líka að kannast við að sigrar í mannlífinu með einum eða öðrum hætti hafa víðari skírskotun en einungis til þess að einn sigri annan í einhvers konar keppni eða leik, hvar sem það fer fram.

Sigurinn felst fyrst og fremst í því að hafa brotið af sér hlekkina, að hafa tekist á við takmörk mannlegrar getu eða þá að vinna fyrir almættið, vinna fyrir mannkynið, Ísrael t.d. eins og Davíð gerði í góðri bók gegn Golíat. Þar var hann ekkert að fella Golíat vegna þess að hann vildi sigra sjálfur heldur vegna þess að hann var fullur eldmóðs fyrir hönd þjóðar sinnar, fólks og síns almættis.