Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:41:33 (3956)

2002-02-04 18:41:33# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir sitthvað sem fram kom í máli hv. þm. Katrínar Fjeldsted. Þannig tel ég það til góðs að neysluvenjur Íslendinga hafi breyst á liðnum árum. Menn beina fremur sjónum sínum að léttum drykkjum en hinum sterku og leggja margir upp úr því að hafa mikið úrval á boðstólum.

Nú langar mig til að spyrja hv. þm. hvað hv. þm. telur að vinnist með þessari breytingu. Ef niðurstaðan verður sú að dreifingarkostnaðurinn hækkar og þar af leiðandi verðið vegna þessara breytinga, og ef niðurstaðan verður sú að vöruúrval minnkar, þar með á hinum léttu drykkjum sem við erum sammála um að séu eftirsóknarverðari en hinir brenndu, og ef fólk í dreifðum byggðum býr við minna úrval í þessum efnum --- eru menn þá að fá einhvern ávinning af þessum breytingum?

Ég sakna þess að heyra ekki nánari röksemdir um þessa efnisþætti sem málið hlýtur að snúast um í huga hv. þm.