Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 14:46:46 (4031)

2002-02-05 14:46:46# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[14:46]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fá að rifja það upp að eftir mjög vandaða meðferð þessa máls í hv. allshn. á síðasta vetri var það stoppað í þinginu, á síðasta degi þess síðastliðið vor. Hverjir ætli hafi nú staðið fyrir því að það mál var stoppað? Ætli það hafi ekki verið einhverjir aðilar innan stjórnarandstöðunnar? Þetta mál dagaði því ekkert uppi á annan hátt en sem oft vill gerast svona á síðustu mínútum þingsins, því miður.

Það er rétt að ég legg til að allshn. taki fyrir ákveðnar breytingar á þessu frv. Ég tel, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að rétt sé að athuga með breytingar bæði á 13. gr. frv. og líka á 15. gr.

En til þess að undirstrika það sem ég sagði hér áðan í andsvari við hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur þá tel ég ekki að þar með sagt sé verið að auka einhverja hörku í stefnu íslenskra stjórnvalda, þó það sé verið að setja harðari skilyrði og ákveðnari.

Það sem ég sagði líka var að við getum ekki lokað augunum fyrir þeim atburðum sem orðið hafa í heiminum eftir hermdarverkin í Bandaríkjunum sl. september. Þau hafa auðvitað áhrif.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gagnrýndi það orðalag mitt að hætta væri á því að útlendingum mundi fjölga. Það eru auðvitað fyrst og fremst ólöglegir innflytjendur sem við erum hér að fjalla um, hv. þm. Það er óþarfi að snúa út úr orðum mínum á þennan hátt.