Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 19:30:47 (4106)

2002-02-05 19:30:47# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[19:30]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Rökin hafa auðvitað komið fram í ræðum mínum. Þau eru að um þetta mál eru gífurlegar deilur meðal þjóðarinnar. Hér er verið að taka óafturkræfar ákvarðanir sem varða farmtíðarheill þessarar þjóðar og komandi kynslóða ekki síður en þeirrar kynslóðar sem nú er við völd.

Allar þær umræður sem farið hafa fram í samfélaginu um þessi áform sýna að hér er verið að slíta þjóðina í sundur. Það sýndi sig við umræðuna um Fljótsdalsvirkjun sem ekkert varð síðan af. Sú virkjunarframkvæmd var eingöngu látin víkja fyrir enn stærri áformum. Ef umræðan um Fljótsdalsvirkjun gaf tilefni til að spyrja þjóðina þá gefur umræðan um Kárahnjúkavirkjun ekki síður tilefni til þess heldur miklu frekar.