Framhald umræðu um skýrslu um byggðamál

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 13:45:48 (4129)

2002-02-06 13:45:48# 127. lþ. 70.93 fundur 311#B framhald umræðu um skýrslu um byggðamál# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég sé að hv. þingmenn Vinstri grænna hafa farið í mikla söguskoðun. Miðað við það að ég hafi sagt í desember að byggðaáætlun kæmi á næstu vikum þá sýnist mér að ég geti enn staðið við það því hún kemur svo sannarlega á næstu dögum og því ekki eru liðnar margar vikur frá því í desember.

Ég ætla að gleðja hv. þm. með því, ef þeir hafa ekki orðið varir við það í fréttaflutningi í dag, að stærsta byggðamálið er að koma inn í þingið, sem er Kárahnjúkavirkjun, núna alveg á næstu dögum. Ég vænti þess að þeir taki vel undir það mál þar sem það mun verða til þess að fólki fjölgar mjög á Austurlandi. (SJS: Og Vestfjörðum?) Ég veit að það eru rök þeirra í því máli að það fjölgi ekki fólki á Vestfjörðum, en horft er fram hjá því að fólki mun fjölga um þúsundir á Austurlandi. Ég vonast til þess að ég eigi stuðning þeirra í því mikilvæga byggðamáli.