Svæðisútvarp Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:43:34 (4511)

2002-02-13 14:43:34# 127. lþ. 77.6 fundur 412. mál: #A svæðisútvarp Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:43]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er fyllsta ástæða til að fagna því frumkvæði hæstv. menntmrh. á sínum tíma sem hefur leitt til þess að teknar hafa verið ákvarðanir um að efla svæðisútvarpsstöðvarnar á landsbyggðinni eins og kunnugt er og hér hefur komið fram í dag.

Það eru allar forsendur til að efla þessa starfsemi úti á landi og þetta mun auðvitað verða til að tryggja og treysta og bæta stöðu Ríkisútvarpsins gagnstætt því sem sumir hafa látið í veðri vaka sem þó hafa þóst vera í varðstöðu fyrir Ríkisútvarpið. Auðvitað mun Ríkisútvarpið eflast og verða betri útvarpsstöð við það að njóta starfskrafta fólks utan af landsbyggðinni í auknum mæli og að auka útsendingar og efni af landsbyggðinni. Það er mikil þörf á því.

Samhliða þessu þarf jafnframt að hyggja að því að bæta aðstöðu Ríkisútvarpsins þar sem það á við, t.d. á Ísafirði þar sem skortur á aðstöðu stendur bókstaflega í vegi fyrir því að hægt sé að vinna nauðsynlegt og nægjanlegt efni. Þess vegna vil ég héðan úr þessum ræðustól hvetja forráðamenn Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóra og útvarpsráð, til að fara í að bæta aðstöðu Ríkisútvarpsins á Ísafirði þannig að það geti staðið undir því mikla verkefni sem því er ætlað.