Óhefðbundnar lækningar

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:45:02 (4589)

2002-02-13 19:45:02# 127. lþ. 77.22 fundur 462. mál: #A óhefðbundnar lækningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:45]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Kannski var hv. þm., varaþingmanni sem nú situr sem þingmaður, ekki kunnugt um þáltill. þessa efnis sem liggur fyrir þinginu. Hún hefur verið til umfjöllunar í heilbrn. um nokkurt skeið og um hana var fjallað mjög ítarlega á síðasta fundi nefndarinnar. Var gerður góður rómur að henni.

Þó að Íslendingar séu móttækilegir fyrir óhefðbundnum meðferðarformum erum við samt sem áður komin býsna skammt á veg með að viðurkenna þau sem eðlilegan hluta af heilbrigðisþjónustu, heilbrigði mannsins eða vellíðan í dagsins önn. Ég tel því að yfirlýsingin sem kom fram hér hjá hæstv. ráðherra um að hann styðji þáltill. sem núna liggur fyrir sé mjög mikilvæg. Ég held að það séu ekki bara þingmenn sem kalla eftir þessu heldur einnig þjóðin, sem kallar á að einhverju lagi verði komið á þessi mál.