Náttúruminjar á hafsbotni

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:58:51 (4596)

2002-02-13 19:58:51# 127. lþ. 77.23 fundur 437. mál: #A náttúruminjar á hafsbotni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:58]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrir um tveimur árum lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra um stöðu kóralrifja og hvort rannsökuð hefðu verið sérstaklega kóralsvæði við Ísland. Í svari við henni kom fram að það hefði verið skoðað aðeins en ekki nærri nógu mikið og að rannsóknirnar væru afar bágbornar.

Ég þakka því hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Það er afar mikilvægt að fjalla um hvernig við stöndum að því að vernda svæði umhverfis landið. Í upptalningu hæstv. ráðherra vantaði hins vegar eitt verkefni sem umhvrn. hefur lagt í og skiptir miklu máli. Það eru botndýrarannsóknirnar í Sandgerði þar sem uppgötvast hafa lífverur sem ekki hafa áður fundist hér við landið áður og jafnvel ekki í heiminum. Það skiptir mjög miklu máli að styrkja slíkar rannsóknir. Ég held að samstarf sem gæti orðið milli Sandgerðis og Vestmannaeyja í þessum efnum sé mjög mikilvægt.