Uppsagnir á Múlalundi

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 11:00:44 (4622)

2002-02-14 11:00:44# 127. lþ. 78.91 fundur 338#B uppsagnir á Múlalundi# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[11:00]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er greitt með skjólstæðingum félmrn., þ.e. skjólstæðingum svæðisskrifstofanna sem þarna eru í vinnu. Mér er ekki kunnugt um að annars staðar sé greitt með öðrum en skjólstæðingum svæðisskrifstofa.

Rekstrarafkoma Múlalundar er þannig að árið 1997 var 42 þús. kr. tap, 1998 var 743 þús. kr. hagnaður, 1999 var 8,2 millj. kr. tap, 2000 var 13,2 millj. kr. tap og 2001 nærri þrefaldaðist hallinn og varð 30 millj. kr.

Mér var kunnugt um það, annað er misskilningur sem að einhverju leyti má skýra af ónákvæmu orðalagi mínu, en mér var greint frá því að það stefndi í mikinn halla, 20. ágúst minnir mig að það hafi verið. Þeim fundi lauk þannig að ákveðið var, eins og segir í bréfi Múlalundar:

,,Við munum kynna yður hugmyndir SÍBS til lausnar málsins þegar þær liggja fyrir en óskum nú, eins og fyrr sagði, eftir viðræðum við yður um málið eins fljótt og verða má.``

Þeir hafa ekki kynnt þessar hugmyndir. Hins vegar létum við gera úttekt á starfsemi Múlalundar. Þar er eitthvað að og það þarf að koma þessu fyrirtæki á eðlilegan rekstrargrunn og koma böndum á þennan hallarekstur.

Ég get ekki lofað því að allir starfsmenn Múlalundar haldi allir vinnu sinni en ég vona að þeir geri það flestir. Ég mundi harma það mjög ef þessari starfsemi yrði hætt og fyrir mín orð var þeim ekki sent uppsagnarbréf fyrir síðustu áramót. Ég tel ekki koma til greina að ríkið taki yfir rekstur Múlalundar. Ég bendi á frv. til laga um vinnumarkaðsaðgerðir sem ég lagði fram í fyrra og hyggst leggja fram aftur.