Brottvikning starfsmanns Landssímans

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:15:33 (4976)

2002-02-25 15:15:33# 127. lþ. 81.1 fundur 353#B brottvikning starfsmanns Landssímans# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég kom ekki að máli þessa starfsmanns sem þarna er nefndur frekar en samgrn. Það er forstjóri fyrirtækisins sem tekur slíka ákvörðun en mörgu villandi hefur verið haldið fram í því sambandi.

Það er alls ekki augljóst að starfsmaðurinn hafi verið að upplýsa um brot á lögum nema þá starfsmaðurinn hafi jafnframt vitað að þessi samningur hafi ekki verið kynntur í stjórn félagsins. Hvernig gat hann vitað það? Hann gat ekki vitað það. Hann hafði engar forsendur í höndum sínum um að hann væri að koma upp um brot á lögum, fjarri því. Sumt sem menn hafa haldið fram í sjónvarpi um slíka hluti er alveg fyrir neðan allar hellur.

Það skal ég fullyrða að ef starfsmaður Dagblaðsins gæfi öðrum aðilum upplýsingar úr bókhaldi fyrirtækisins yrði hann ekki starfandi þar deginum lengur. Það er náttúrlega alveg ljóst að starfsmaðurinn sem þarna um ræðir hafði fullt af öðrum úrræðum en þessu. Hann gat talað við hinn nýja forstjóra fyrirtækisins sem var settur inn í þetta starf vegna þess að hinn forstjórinn naut ekki lengur trausts. Hann gat komið fram með þessar upplýsingar til hans. Hann gat komið þessum upplýsingum til stjórnar fyrirtækisins ef hann kaus að gera það. Að gera þjóðhetju úr þessum manni er fyrir neðan allar hellur þegar menn eru að slá pólitískar keilur. Það er alveg fyrir neðan allar hellur. Auðvitað verða allir starfsmenn að njóta trausts innan fyrirtækja, hver sem það er. Mér finnst út í bláinn þegar menn eru að slá þær keilur að þarna hafi einhver maður gerst þjóðhetja í þessum efnum. Þessi sömu lögmál gilda um öll fyrirtæki landsins, og því skulu menn gera sér grein fyrir.