Brottvikning starfsmanns Landssímans

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:19:30 (4979)

2002-02-25 15:19:30# 127. lþ. 81.1 fundur 353#B brottvikning starfsmanns Landssímans# (óundirbúin fsp.), LB
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er léttvægur útúrsnúningur hjá hæstv. forsrh. að beina ummælum sínum til formanns Samfylkingarinnar. Kjarni málsins er sá, og það hefur komið fram, að hér var um að ræða aðgerðir stjórnarformannsins og hæstv. samgrh. sem fá ekki staðist hlutafélagalög. Þetta liggur fyrir og er algerlega kristaltært í þessari umræðu. Það er búið að beina þeirri fyrirspurn til forsrh. sí og æ héðan úr þessum ræðustól um það hvort hann hyggist beita sér eitthvað vegna þessa. Þetta liggur algerlega fyrir.

Hæstv. forsrh. kýs, í stað þess að svara fyrirspurninni, að gera lítið úr þeim upplýsingum sem þarna komu fram sem að mínu mati eru grundvallarupplýsingar og forsendur þess að við getum rekið öflugt samfélag og veitt stjórnmálamönnum og forustumönnum í hvívetna nægilegt aðhald. Það er alveg fráleitt, virðulegi forseti, ef hæstv. forsrh. ætlar að skjóta sér undan því að svara hvort hann hyggist beita sér vegna hins ólögmæta samkomulags sem nú liggur fyrir.