Virðisaukaskattur á umferð undir Hvalfjörð

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:31:58 (4987)

2002-02-25 15:31:58# 127. lþ. 81.1 fundur 356#B virðisaukaskattur á umferð undir Hvalfjörð# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:31]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég beini máli mínum til hæstv. fjmrh. og ræði um virðisaukaskatt vegna umferðar um veggöng undir Hvalfjörð. Hreinar tekjur ríkisins, ef svo fer sem horfir miðað við núverandi verðlag, verða 2,5 milljarður á fyrirhuguðum rekstrartíma Spalar. Kostnaður ríkisins af vegtengingu vegna ganganna var talinn 430 millj., þ.e. sambærilegt við það sem áætlað var í viðhald á veginum fyrir Hvalfjörð miðað við umferðarþunga þá. Álitið er að Vestlendingar greiði allt að 60% fjármögnunar ganganna og greiði á starfstíma Spalar 1,5 milljarða í virðisaukaskatt til ríkisins. Mér virðast þetta ranglátar álögur miðað við aðra landsmenn. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Er hann reiðubúinn til að skoða það að fella þennan 14% virðisaukaskatt niður nú þegar ríkið hefur haft hreinar tekjur sem nemur vegtengingarkostnaði?

Telur hæstv. ráðherra koma til greina að aksturskostnaður um veggöngin vegna atvinnu og náms verði frádráttarbær frá skatti?

Ef ráðherrann hefur ekki leitt hugann að þessu máli, mun hann þá í framhaldi af þessari umfjöllun beita sér fyrir athugun og sanngirnisaðgerðum vegna þessa máls?