Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:17:23 (5092)

2002-02-26 15:17:23# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé enginn misskilningur hjá mér í sambandi við þessi byggðamál. Ég var einmitt að vekja athygli á því fjölmarga jákvæða sem menn hafa verið að gera, bæði á menntunarsviðinu, menningarsviðinu með jöfnunaraðgerðum og þess háttar, eins og hv. þm. var síðan að koma að þannig að út af fyrir sig er enginn misskilningur á því sviði. Ég held að þvert á móti sé það ekki stóra vandamálið sem við erum að glíma við. Þar kemur annað til.

Hv. þm. sagði að ég hefði ekki bent á neinar leiðir. Ég reyndi að afmarka mig í þeim efnum og sagði: Vandamálið er það sem snýr að atvinnumálunum á landsbyggðinni og þess vegna eigum við að bregðast við í þeim efnum. Ég rakti að mikill tekjusamdráttur hefði orðið í sjávarútvegi, störfum hefði fækkað á landsbyggðinni í sjávarútvegi án þess að okkur hefði tekist að byggja upp önnur störf í staðinn og það væri vandamálið sem við væri að glíma.