Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:54:17 (5130)

2002-02-26 16:54:17# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:54]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þó að ég hafi viðurkennt að fjarvinnsluverkefni hafi ekki verið flutt út á land í nægilega miklum mæli, þá vil ég ítreka að margt hefur gerst og verið gert vel í síðustu byggðaáætlun. Ég rakti það í ræðu minni áðan varðandi jöfnun á námskostnaði, húshitun og fjarkennslu sem er í miklum mæli. Síðast en ekki síst fasteignaskatturinn sem hefur verið lækkaður á landsbyggðinni um 1,2 milljarða og er kannski ein mesta og besta byggðaframkvæmdin sem við höfum gert og ég tel það ekkert lítið. En auðvitað vil ég veita aðhald og viðurkenna það sem miður hefur farið, en ég vil líka nefna það sem vel hefur verið gert. Ég tel að landsbyggðin eigi mjög mikil og mörg sóknarfæri og ég hef sem betur fer orðið vör við það að margt ungt fólk er að flytja aftur út á land núna vegna þess að þar er ódýrara húsnæði, það getur skapað sér atvinnu og þar eru góðir skólar eins og ég nefndi áðan, góðir tónlistarskólar og afar fjölbreytt og gott menningarlíf.